Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (5.grein)

6. nóvember 1998

 

Loftslagsbreytingar - hvað er í húfi?

 

Umræðan um loftslagsbreytingar sækir stöðugt í sig veðrið. Aðeins tíu ár eru liðin frá því Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNEP) og Alþjóða veðurfræðistofnunin (WMO) settu á fót Alþjóða vísindanefndina um loftslagsbreytingar (IPCC). Þúsundir sérfræðinga hafa síðan átt hlut að starfi nefndarinnar og sameiginleg niðurstaða hennar hefur stutt þá tilgátu að loftslag fari hlýnandi af mannavöldum vegna losunar gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftið. Andmæli gegn þessu hafa ekki verið sannfærandi og á bak við þau hafa oft reynst vera hagsmunir olíuframleiðenda. Álit vísindanefndarinnar leiddi til samnings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar 1992 sem styrktur var verulega með Kyótó-bókuninni í fyrra.

 

Stöðugt bætast við nýjar vísbendingar

Alþjóða vísindanefndin er stöðugt að störfum og að því kemur að hún sendi opinberlega frá sér endurskoðað álit um loftslagsbreytingar. Þess utan veitir nefndin aðilum loftslagssamningsins ráðgjöf ef óskað er. Þannig mun hún vorið 2000 skila áliti er varðar bindingu kolefnis í gróðri. Talið er að magn koldíoxíðs (CO2) í andrúmslofti hafi vaxið um þriðjung frá upphafi iðnbyltingar og þegar leitt til hlýnunar og nokkurrar hækkunar sjávarborðs. Með aukinni losun hefur hraði þessara breytinga vaxið og nú spáir IPCC-nefndin hækkun hitastigs á næstu öld á bilinu 1-3,5 gráður að meðaltali og að sjávarborð rísi á sama tíma um 15-95 sentimetra vegna bráðnunar jökla og aukins rúmmáls heimshafanna. Þá sýna niðurstöður athugana (NOAA) að frá 1987 hafa flest ár eða níu talsins verið þau heitustu á jörðinni að meðaltali frá upphafi mælinga. Árið 1997 var slegið met í þessum efnum og horfur á að meðalhiti árið 1998 verði ennþá hærri. Rýrnun jökla á þessari öld ber órækt vitni þessum breytingum. Þá benda mælingar á sjávarhita einnig til að hitastig á djúpsævi á tempruðum hafsvæðum fari hækkandi. Sumir telja einnig að tíðni storma með miklu úrfelli megi rekja til hlýnunar í lægri loftlögum.

 

Áhrif á hafstrauma, lífríki og heilsufar

Leitt er getum að því að gróðurhúsaáhrifin hafi þegar haft merkjanleg áhrif á straumakerfi úthafanna, ekki síst á Kyrrahafi, og hugsanlegt er talið að loftslagsbreytingar geti haft róttækar breytingar á straumakerfi Norður-Atlantshafsins í för með sér. Þær áhyggjur endurómuðu meðal annars í umræðum á þinginu í Buenos Aires frá talsmanni Alþjóðlega loftslagsathugakerfisins (GCOS). Hann minnti á að ef Golfstraumurinn ekki skilaði sér að ströndum Evrópu yrði loftslag þar svipað og nú er á Labrador.

Áhrif loftslagsbreytinga á lífríkið valda einnig áhyggjum, bæði að því er varðar nytjajurtir og þar með landbúnað og fæðuöflun sem og á búsvæði lífvera í náttúrunni. Augljós tengsl eru því milli samningsins um líffræðilega fjölbreytni og loftslagssamningsins og eru þau til umræðu á sérstökum fundi í Buenos Aires.

Einnig hefur verið vakin athygli á samhengi loftslagsbreytinga og sjúkdóma. Alþjóða náttúruverndarsjóðurinn (WWW) hélt í Buenos Aires blaðamannafund um þetta efni þar sem raktar voru niðurstöður rannsókna, meðal annars á sjúkdómum sem moskítóflugur bera með sér, en útbreiðsla þeirra hefur vaxið hröðum skrefum, meðal annars í Argentínu.

Þannig er umræðan á alþjóðavettvangi, en heima á Íslandi eru menn í áhrifastöðum sem telja loftslagsbreytingar af mannavöldum bábilju og kjósa að stinga höfðinu í sandinn.

 

Hjörleifur Guttormsson.

 


Til baka | | Heim