Hjörleifur Guttormsson:

 

"Sameiginlegt framboð"
með ESB-aðild á dagskrá

 

Margt sem ótrúlegt hefði þótt fyrir fáum vikum er að koma í ljós eftir landsfund Alþýðubandalagsins um síðustu helgi og fleira á eftir að fylgja. Fyrir fundinum lá niðurstaða málefnahóps um utanríkismál frá fulltrúum flokkanna öðrum en Steingrími J. Sigfússyni sem skilaði sérstakri greinargerð. Auk Steingríms störfuðu í hópnum af hálfu Alþýðubandalagsins þau Magnús Jón Árnason sem var formaður hópsins og Bryndís Hlöðversdóttir.

 

Akurinn plægður fyrir inngöngu

Um Evrópusambandið er fjallað í kafla um alþjóðasamstarf með svofelldum orðum:

"Ljóst er að meðal þjóðarinnar og innan flestra stjórnmálasamtaka eru skiptar skoðanir um afstöðuna til Evrópusambandsins. Nauðsynlegt [er] að stöðugt fari fram opin og lýðræðisleg umræða um stöðu Íslands í Evrópu. Íslensk stjórnvöld eiga að virkja alla tiltæka sérfræðiaðstoð innan stjórnkerfisins, menntakerfisins og hagsmunasamtaka til að ræða kosti þess og galla að taka þátt í samstarfi Evrópuríkja með tilliti til framtíðarstefnu og heildarhagsmuna þjóðarinnar. Slík umræða meðal þjóðarinnar er nauðsynlegur undanfari ákvarðanatöku. Við núverandi aðstæður er þó ekki áformað að Ísland sæki um aðild að ESB á kjörtímabilinu."

Þetta er texti sem oft mun verða vitnað til. Alþýðubandalagið ætlar samkvæmt landsfundarsamþykkt að verða þátttakandi í sameiginlegu framboði þar sem þetta er vegarnestið í stærsta átakamáli sem framundan er hérlendis. Alþýðuflokkurinn nær hér öllu sínu fram sem hann telur skipta máli. Akurinn fyrir inngöngu í Evrópusambandið á að plægja rækilega í samræmi við þá stefnu sem kratar hafa barist fyrir. Til þess á að virkja embættismannakerfið og hagsmunasamtök og verja til ómældum upphæðum sem "undanfara ákvarðanatöku".

 

Við núverandi aðstæður...

Alþýðubandalagið sem hefur verið andvígt inngöngu í ESB og ítrekað þá stefnu landsfund eftir landsfund undanfarin 10 ár fær nú það eitt í sinn hlut að "Við núverandi aðstæður er þó ekki áformað að Ísland sæki um aðild að ESB á kjörtímabilinu." Ef núverandi aðstæður breytast, sem trúlega má vænta hvenær sem er frá því þessi samþykkt var gerð (!), má búast við að "sameiginlegt framboð" telji tímabært að sækja um aðild á kjörtímabilinu. Fáir stuðningsmenn Alþýðubandalagsins munu hafa búist við slíkum ósköpum á blaði, heldur gert ráð fyrir að hvor flokkurinn héldi nokkurn veginn sínu, svo ekki sé talað um leifarnar af Kvennalistanum. Það er von að Sighvatur negli þessa niðurstöðu sigri hrósandi með svofelldum orðum í DV síðastliðinn mánudag [6. júlí]: "Utanríkismálakaflanum er lokið og ég tel að fullt samkomulag hafi náðst um hann, nema hvað sérálit Steingríms snertir." Sama dag lýsti Ágúst Einarsson þeirri von sinni að Ísland verði orðið aðili að ESB innan 10 ára.

 

Ber allt að sama brunni

Það er von að hlakki í forystu Alþýðuflokksins eftir að hafa flækt Alþýðubandalagið í net slíkra samþykkta. Er þetta þó aðeins eitt dæmi af mörgum úr áliti um utanríkismál sem hljóta að standa sem bein í hálsi þeirra sem hingað til hafa kosið Alþýðubandalagið. Hvernig í ósköpunum geta menn ætlast til þess að andstæðingar aðildar Íslands að Evrópusambandinu styðji framboð sem mótað hefur sér þá stefnu að plægja beri akurinn fyrir aðildarumsókn og til inngöngu í ESB geti komið þegar henta þykir? Hér ber allt að sama brunni. Í uppsiglingu er "sameiginlegt framboð" þar sem sjónarmið krata hafa yfirhöndina í anda þess lakasta sem við þekkjum úr þeirra herbúðum í grannlöndunum.

HjörleifurGuttormsson

 

 


Til baka | | Heim