Hjörleifur Guttormsson:

 

Aftur á bak frá Ríó

 

Aukaþing á vegum Sameinuðu þjóðanna er ekki árlegur viðburður. Í rúmlega 50 ára sögu þeirra hefur nítján sinnum verið boðað til slíkra þinga, síðast 1990 um efnahagssamvinnu og svo nú til að meta stöðuna í umhverfis- og þróunarmálum fimm árum eftir Ríó-ráðstefnuna.

 

Vaxandi mengun og misskipting

Þær vonir sem bundnar voru við niðurstöðurnar frá Ríó 1992 hafa ekki ræst nema að litlu leyti. Á allsherjarþinginu í New York var það flestra mat að neikvæðu hliðarnar yfirgnæfðu þær jákvæðu. Í stað Ríó + 5, sem var yfirskrift þessa aukaþings væri réttara að tala um Ríó -5. Aðeins fá iðnríki hafa staðið við ákvæði samningsins um að stöðva frekari losun gróðurhúsalofttegunda. Mest munar þar um Bandaríkin, þar sem losun koltvíoxíðs hefur aukist um rúm 13% frá 1990. Þrátt fyrir samninginn um að varðveita fjölbreytt lífríki er fullyrt að ekki minna en 100 þúsund tegundum hafi verið útrýmt síðustu fimm árin.

Þegar litið er til fyrirheitanna um þróunaraðstoð blasir ekki betra við. Í Ríó var sett á blað viljayfirlýsing iðnríkja um að verja 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu hvers lands í opinbera þróunaraðstoð árið 2000. Slík aðstoð var 0,34% að meðaltali árið 1992 en hefur síðan lækkað í 0,27% á fimm árum og ekki verið minni síðan 1983. Þetta er hrikaleg niðurstaða og engan þarf að undra þótt fulltrúar þróunarríkja séu bitrir og fullir tortryggni. Einstaka ríki eins og Danmörk, Holland og Svíþjóð hafa skilað sínu. Hlutur Íslands er hins vegar bágur með aðeins um 0,1% til slíkrar aðstoðar.

 

Sjálfbær þróun fjarlægt markmið

Það er ekki að undra að svartsýni gætti hjá meirihluta ræðumanna á aukaþinginu í New York. Skilningur hefur vaxið á þeim mikla vanda sem við mannkyni blasir en því fer víðs fjarri að athafnir fylgi orðum og þeim alþjóðasamningum sem rekja má til Ríó. Geta Sameinuðu þjóðanna til að leysa verkefnin hefur hins vegar minnkað í öfugu hlutfalli við þörfina fyrir samstillt viðbrögð. Vald ríkisstjórna aðildarríkjanna hefur í ríkum mæli færst í hendur fjölþjóðafyrirtækja og annarra fjársterkra aðila. Hjá þeim ræður stundarhagnaður ferðinni en ekki sjálfbær þróun. Fjárfestingin leitar þangað sem minnstu þarf til að kosta í mengunarvarnir. Nýlegt dæmi sem nefnt var í New York er sú ákvörðun INTEL samsteypunnar að leggja 700 milljónir í verksmiðju í Costa Rica í stað Mexíkó og spara með því útgjöld til mengunarmála. Við Íslendingar þurfum ekki langt að leita undirboða þegar umhverfisvernd er annars vegar.

Önnur afdrifarík hindrun á vegi sjálfbærrar þróunar eru reglur viðskiptalífsins eins og þær birtast í samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina WTO. Þar er óhindrað vöruflæði og viðskiptafrelsi æðsta boðorð án tillits til áhrifa á umhverfið. Meira að segja stofnanir Sameinuðu þjóðanna eins og Matvæla- og landbúnaðarstofnunin FAO hafa fram undir þetta tekið lítið tillit til vistfræðilegra sjónarmiða.

Endurmat á öllum sviðum

Reynsla undanfarinna ára að því er varðar umhverfi jarðar kallar á endurmat á öllum sviðum í samskiptum manns og náttúru. Þar þurfa allir að vera þátttakendur, einstaklingar, sveitarfélög og ríki, frjáls samtök og atvinnulíf. Sameinuðu þjóðirnar gegna stóru hlutverki í því sambandi, en augljóslega er þörf róttækra skipulagsbreytinga á starfsemi þeirra og fjármögnun Dagskrár 21. Að því er umhverfismál varðar komu á aukaþinginu fram ýmsar hugmyndir um endurbætur. Ein þeirra var frá Kohl kanslara Þýskalands saman með fulltrúum frá Brasilíu, Suður-Afríku og Singapúr um að sett yrði á fót sérstök umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna. Um miðjan júlí er svo að vænta víðtækra tillagna um skipulagsbreytingar frá Kofi Annan nýjum aðalritara SÞ. Litlu verður hins vegar áorkað nema pólitískur vilji sé til staðar hjá voldugustu aðildarríkjunum eins og Bandaríkjunum. Þau hafa haldið Sameinuðu þjóðunum í fjárhagskreppu um árabil og verið dragbítur á nauðsynlegar ákvarðanir í umhverfismálum.

Hjörleifur Guttormsson.

 


Til baka | | Heim