Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (6.grein)

9. nóvember 1998

 

Hálfleikur í Buenos Aires

Flest svífur í lausu lofti

Um helgina var hálfleikur á loftslagsþinginu í Buenos Aires. Fundað var í bakherbergjum á laugardag en á sunnudag leyfðist einhverjum að sofa út og skoða borgina og umhverfið. Sendinefndir um 180 ríkja hafa reynt að taka sólarhæð eftir fyrri viku ráðstefnunnar til að geta gefið ráðherrum sínum skýrslu, en margir þeirra eru væntanlegir hingað í dag, þeirra á meðal Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra. Flest af því sem ráðstefnunni er ætlað að þoka áfram er enn í óvissu, þar á meðal að fylla upp í margar eyður Kyótó-bókunarinnar. Forysta ráðstefnunnar er farin að ókyrrast og óttast um að nafn Buenos Aires verði ekki skráð stóru letri í sögu loftslagssamningsins. Tæknileg vinna, meðal annars um bindingu kolefnis í gróðri og um viðskipti með losunarkvóta, svífur í lausu lofti á meðan ekki er neitt pólitískt samkomulag til að byggja á. Þessi staða er út af fyrir sig ekki óvanaleg á alþjóðlegum ráðstefnum og er hluti af flóknu tafli öflugra ríkja og ríkjahópa. Nú er eftir að sjá hvort ráðherrar geta gert út um ágreining í seinni hálfleik.

 

Ráðstefna IUCN um fjölbreytt lífríki og loftslagsbreytingar

Alþjóðanáttúruverndarsamtökin IUCN (International Union for Concervation of Nature), sem í ár halda upp á 50 ára afmæli sitt, stóðu um helgina í samvinnu við ýmsa aðila fyrir ráðstefnu hér í Buenos Aires um samninginn um verndun fjölbreytts lífríkis og tengsl hans við samninginn um loftslagsbreytingar. Auk framsöguerinda störfuðu á ráðstefnunni fjórir vinnuhópar um eftirtalin efni: 1) Skóga og loftslagsbreytingar, 2) Samræmingu stefnu þjóðríkja á málasviðum alþjóðasamninganna þriggja um verndun fjölbreytts lífríkis, loftslagsbreytingar og eyðimerkurmyndun, 3) Fjölbreytt lífríki, loftslagsbreytingar og fjármál og 4) Sjálfbæra nýtingu og loftslagsbreytingar. Niðurstöður vinnuhópanna voru síðan ræddar sameiginlega og verða afurðir þessa fundar kynntar loftslagsþinginu á næstu dögum. Meðal þess sem þar kemur fram er að hvatt er til varúðar í sambandi við landnotkun og skógrækt til að binda kolefni þannig að aðgerðir komi ekki niður á fjölbreytni lífríkis. Lögð er áhersla á samstillingu í framkvæmd alþjóðasamninga á umhverfissviði í hverju landi og á alþjóðavettvangi.

 

Buenos Aires er litrík stórborg

Buenos Aires kemur um margt á óvart. Skipulag borgarinnar minnir um sumt á París, enda sótti fyrsti borgarstjórinn, Torcuato de Alvear (skipaður 1882) fyrirmynd sína þangað en upphaflegi grunnurinn er spænskur. Borgin er reist á flatneskju á suðurbakka La Plata fljótsins og rís hæsti staður innan hennar aðeins 25 metra yfir sjávarmáli. Hús eru víða 10 hæðir eða meira og sum þeirra vegleg hið ytra. Nokkrir skýjakljúfar eru hins vegar til verulegra lýta og viðhaldi húsa er ábótavant. Meðfram eldri hluta hafnarinnar er röð húsa með ótal veitingastöðum og á hafnargötunni spókar sig fjöldi fólks. Yfirbragð þess er blandað, þó er mun minna af þeldökku fólki hér en bar fyrir augu í RÍÓ 1992. Hluti verslana er opinn um helgar og margt um manninn á snyrtilegum göngugötum. Hins vegar eru opin svæði víða illa hirt og fátækrahverfi áberandi er fjær dregur miðborginni. Eftir rigningu síðustu daga var skýjað um helgina og nokkur vindur í um 20 stiga hita. Nú er hér vor hliðstætt miðjum maí á norðurhveli. Þegar nær dregur jólum er sagt að verði óþægilega heitt og rakt.

 

Hjörleifur Guttormsson.

 

 

 


Til baka | | Heim