10. júní 1998

Álit og greinargerð

Hjörleifs Guttormssonar í "málefnahópi"
Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista
vegna umhverfis- atvinnu- og efnahagsmála.

 

Ólíkar forsendur viðræðna

Í mars 1998 féllst ég á að taka þátt í viðræðum fulltrúa Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Kvennalista til að kanna möguleika á auknu samstarfi þessara flokka í landsmálum. Kom "málefnahópur" um umhverfis-, atvinnu- og efnahagsmál, sem ég átti sæti í fyrst saman 26. mars 1998 og lauk störfum 10. júní 1998. Sat ég flesta fundi hópsins og tveggja undirhópa og lagði þar fram talsvert efni. Engin skrifleg leiðsögn eða erindisbréf frá formönnum eða talsmönnum þessara flokka var lögð fram í upphafi. Starfstími hópsins var meira en hálfnaður þegar undirrituðum varð ljóst, að fulltrúar flokkanna gengju á afar ólíkum forsendum til þessara viðræðna. Þannig væri umboð Alþýðuflokksins einskorðað við að um yrði að ræða sameiginlegt framboð flokkanna í næstu alþingiskosninum en af hálfu Alþýðubandalagsins væri litið á þetta sem könnunarviðræður án skuldbindinga um sérstakt form samstarfs flokkanna þriggja í næstu kosningum, að því tilskyldu að sátt næðist um málefnagrunninn, sbr. landsfundarsamþykkt frá 9. nóvember 1997. Einnig Kvennalistinn hafði að baki sér landsfundarsamþykkt sem vísar til næsta landsfundar samtakanna, en talsmaður Kvennalistans, Guðný Guðbjörnsdóttir tók að öðru leyti undir með Alþýðuflokknum um skilning sinn á eðli viðræðnanna.

Af þessu tilefni ritaði ég Svavari Gestssyni formanni þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra bréf 20. maí 1998 og var efni þess rætt í þingflokknum. Svavar sendi mér minnisblað um málið 8. júní 1998 þar sem dregnar eru fram ólíkar forsendur flokkanna. Fylgja bréfaskipti þessi hjálagt (fylgiskjal 1).

Ég tel að forysta flokkanna hafi vanrækt að leggja skýran grunn að þessari málefnavinnu í upphafi. Miðað við að skiptar skoðanir hafa verið innan Alþýðubandalagsins á samstarfi við hina flokkana bar nauðsyn til að leggja forsendur skýrt fyrir. Forysta Alþýðubandalagsins setur sig í mikinn vanda að fara út í könnunarviðræður sem þessar fyrst Alþýðuflokkurinn gerði fyrir sitt leyti sameiginlegt framboð í komandi alþingiskosningum fyrirfram að skilyrði.

 

Tillögugerð í símskeytaformi

Margt í kringum vinnu þessara málefnahópa ber vott um að af hálfu forystumanna flokkanna sé ekki mikið lagt upp úr starfi þeirra. Óskiljanlegt er hvers vegna dregið var fram undir lok marsmánaðar að koma starfinu af stað miðað við að því ætti að ljúka fyrir lok apríl eins og upphaflega var boðað í okkar hópi. Í málefnahópunum voru meðal annars alþingismenn og fólk í framboði til sveitarstjórna og fyrirsjáanlegt að mikið mæddi á slíkum fulltrúum á þessum tíma með kosningar til sveitarstjórna og þinglok framundan. Kom það líka á daginn og ófáir voru þeir fundir sem afboða þurfti og mæting þess utan oft í lágmarki.

Þá fylgdi sú leiðsögn til hópsins sem ég starfaði í að álit hans skyldi ekki fara fram úr 2-3 blaðsíðum. Þegar um er að ræða stóra málaflokka eins og hér um ræðir leiðir slíkt óhjákvæmilega til þess að afurðin verður í símskeytastíl og ekki er kostur á að greina mál og skýra eins og þörf hefði verið á í mörgum tilvikum. Ekki lögðu fulltrúar í hópnum fram ítarefni nema undirritaður sem lagði fram stutta greinargerð um tengsl umhverfis- og efnahagsmála. Ramminn sem málefnahópunum var búinn bauð þannig aðeins upp á yfirborðslega vinnu í engu samræmi við alvöru málsins.

 

Ágreiningur um ýmis grundvallarmál

Í störfum málefnahópsins lagði undirritaður snemma fram allítarlegar hugmyndir og tillögur um umhverfis- og efnahagsmál og um atvinnumál og atvinnuþróun. Var um þær tillögur fjallað í undirhópum. Um mörg atriði var skýr ágreiningur, þar á meðal um nokkra grundvallarþætti efnahagsmála, sem jafnframt hafa áhrif á umhverfismál og atvinnuþróun. Um aðra þætti tókst allgóð samstaða með viðkomandi fulltrúum flokkanna. Um enn annað í tillögum mínum höfðu menn fyrirvara eða töldu þær ekki eiga heima í áliti hópsins. Af ágreiningsefnum má nefna afstöðuna til Evrópusambandsins og EES, einkavæðingu, auðlindagjald, fjárfestingar í sjávarútvegi, orkumál og landbúnaðar- og byggðamál. Þetta þarf ekki að koma á óvart miðað við stefnu og afstöðu flokkanna, samstöðu um ýmis efni en ólíka afstöðu og sumpart harðan ágreining í mikilsverðum málum. Auk hugmynda undirritaðs komu fram tillögur og hugmyndir frá öðrum nefndarmönnum, m.a. í kjara- og skattamálum (Ari og Hervar), menntamálum (Guðný og Gerður), atvinnumálum (Sigrún og Guðrún) og umhverfismálum (Össur) og var allgott samkomulag um margar þeirra.

 

Afstaðan til Evrópusambandsins og EES vegur þyngst

Það atriði á verkefnaskrá málefnahópsins sem vegur þyngst í ágreiningi Alþýðubandalags og Alþýðuflokks er afstaðan til Evrópusambandsins og samningsins um Evrópska efnahagssvæðið. Alþýðuflokkurinn hefur fylgt þeirri stefnu að Ísland ætti að stefna að aðild að ESB, en Alþýðubandalagið er því andvígt. Talsmaður Kvennalistans í hópnum segir skiptar skoðanir hafa verið um þessi málinnan Kvennalistans, en meirihluti þar muni nú geta tekið undir stefnumið Alþýðuflokksins, einnig að því er varðar EES-aðild.

 

Að því er varðar þessi mál og skyld efni gerði ég í hópnum tillögu um eftirfarandi:

"* Að á meðan Ísland er nátengt réttarkerfi Evrópusambandsins með EES-aðild verði þess framvegis gætt að lögleiða ekki tilskipanir sem ganga gegn mikilsverðum þjóðarhagsmunum eða skerða frekar en orðið er fullveldi okkar.

* Að sé slík afstaða af Íslands hálfu ekki virt af öðrum EES-ríkjum komi aðild okkar að Evrópsku efnahagssvæði til endurskoðunar og leitað verði í staðinn eftir tvíhliða samningi við Evrópusambandið.

* Að frestað verði um óákeðinn tíma aðild Íslands að tilskipum ESB (96/92 C) um innri markað í raforkumálum.

* Að því verði lýst yfir að ekki komi til greina að óska eftir samningum um aðild Íslands að Evrópusambandinu.

* Að Íslendingar afsali sér ekki frekar en orðið er þeim stjórntækum sem þjóðin hefur í efnahagsmálum, þar á meðal eigin mynt með sjálfstæðri gengisskráningu og ákvörðun vaxta.

* Að Ísland hafni algjörlega aðild að MAI (Multilateral investment agreement) og beiti sér fyrir því á vettvangi OECD að vinnu að gerð samningsins verði hætt."

 

Þessum atriðum öllum var hafnað af talsmönnum hinna flokkanna, Össuri og Guðnýju.

 

Áhrifa EES-bindingar gætir víða

Alþýðuflokkurinn ruddi EES-samningnum brautina hérlendis en Alþýðubandalagið var eitt flokka óskipt á móti samningnum á Alþingi og taldi margvíslegar hættur honum samfara auk þess sem samningurinn bryti gegn ákvæðum stjórnarskrárinnar. Ekki hefur verið sýnt fram á sérstakan hag Íslands af samningnum og í krafti hans eru sett hér á færiband lög og reglur um óskyldusu atriði. Samningurinn hefur þegar dregið úr sjálfstæði og frumkvæði löggjafarvaldsins, þótt sitthvað af því sem lögleitt hefur verið, m.a. á sviði vinnumarkaðar og umhverfismála, geti talist jákvætt. Allt fer það eftir stöðu einstakra mála hérlendis, en á hinum Norðurlöndunum eru reglugerðir ESB farnar að draga niður umhverfisstaðla og reglur um hollustumál, m.a. í kröfum til matvæla

. Ekki fékkst stuðningur í hópnum við tillögu mína um: "* Að móta og tryggja framgang manneldisstefnu þar sem hollusta og hreinleiki sé í fyrirrúmi, og bann sé sett við markaðssetningu afurða sem framleiddar eru með hormónagjöf og aukefnum."

Þótt útlendingar af EES-svæðinu hafi enn sem komið er ekki sóst mikið eftir að kaupa hér land og aðrar fasteignir, getur fyrr en varir á það reynt. Samningsbundinn réttur þeirra til þess er ekki síst afdrifaríkur eftir að búið er að lögfesta að auðlindir í jörðu fylgi einkaeignarrétti og ríkisstjórnin boðar hliðstæða löggjöf um orku fallvatna á næsta þingi.

Dæmi um ESB-tilskipun sem nú er á leiðinni inn í íslenska löggjöf er um innri markað í raforkumálum. Sést af henni hversu langsótt og varhugavert það er að innleiða á Íslandi reglur sem sniðnar eru fyrir aðstæður á meginlandi Evrópu. Eins og að ofan greinir var hafnað tillögu minni um fresta því, á meðan í mótun er sjálfbær íslensk orkustefna að lögfesta hér þessa tilskipun.

Enn má nefna Schengen-samninginn, en viðkomandi gerðir hafa nú verið felldar undir Evrópusambandið. Allt kapp er lagt á það af ríkisstjórninni að koma Íslandi undir Schengen, þrátt fyrir mikinn fórnarkostnað og hverfandi ávinning. Nýtur stjórnin í því máli óskoraðs stuðnings Alþýðuflokksins að best er vitað. Það mál er væntanlega á dagskrá í utanríkishópi.

Um afstöðu til undanþáguákvæðis EES-samningsins að því er varðar fjárfestingar í sjávarútvegi er fjallað hér á eftir.

 

Sjávarútvegur

Ákvæði EES-samningsins um fjórfrelsi, óskoraðan rétt til fjárfestinga og kaupa á fasteignum og landareignum með þeim réttindum sem fylgja, geta fyrr en varir orðið afdrifarík. Við gerð EES-samningsins fékk Ísland undanþágu að því er varðaði rétt annarra EES-borgara og lögaðila til fjárfestinga í fiskveiðum og frumvinnslu sjávarafurða. Sett voru lög hérlendis í krafti þessara undanþáguákvæða, en Alþýðuflokkurinn og Þjóðvaki vilja fella þau niður og að ekki eigi að hafa sérstakar reglur fyrir sjávarútveginn. Hafa þingmenn jafnaðarmanna flutt beinar tillögur um að afnema með öllu takmarkanir á fjárfestingu útlendinga í fiskvinnslu. Í málefnahópnum fékkst ekki stuðningur við tillögu mína um "* Að lagaákvæði um fjárfestingu útlendinga í veiðum og frumvinnslu sjávarafurða verði á engan hátt rýmkuð."

Af formanni nefndarinnar var gerð tillaga um "* Að efla fiskmarkaði og stuðla að því að verðmyndun á afla miðist í auknum mæli við markaðsverð." Ég benti á að Alþýðubandalagið hafi ekki talið rétt að taka undir kröfuna um aðskilnað veiða og vinnslu og lítið vit sé í því og vart réttarstaða til þess að rjúfa samhengi hráefnisöflunar og úrvinnslu innan sama fyrirtækis. Hins vegar sé ekki óeðlilegt að fiskafli sem ekki nýtist þannig fari á fiskmarkað eftir því sem aðstæður leyfa.

Þótt talsmenn Alþýðuflokksins hafi ekki sett fram stefnu sína um veiðileyfagjald í málefnahópnum var ekki tekið undir tillögu mína um "*Að ... skýr takmörk séu sett við framsali aflaheimilda". Þá benti ég ítrekað á að tillaga Alþýðubandalagsins um að aftengja fiskveiðistjórnunarkerfið með lögum nú þegar, miðað við árið 2002, byggi á þeirri hugsun að skera á öll eignarréttartengsl úthlutaðs eða áunnins kvóta.

Þá er mér eftirsjá í hugmyndinni"* Að stórbætt menntun starfsmanna í sjávarútvegi verði forgangsatriði og haldist í hendur við tæknivæðingu og þróun fullvinnslu neytendavænna afurða."

 

Landbúnaður og byggðamál

Ýmis ágreiningur kom upp í tengslum við landbúnaðar- og byggðamál. Fulltrúar Alþýðuflokks og Kvennalista voru ósammála mér um "* Að halda til haga ítrustu kröfum gegn frekari opnun á innflutningi fyrir hefðbundnar landbúnaðarafurðir" og hef ég þar í huga að ekki sé gengið lengra en samningsskuldbindingar mæla fyrir samkvæmt GATT-samningum.

Ekki var heldur fallist á tillögu mína um "* Að tryggja sem best félagsleg réttindi fólks í dreifbýli, þar á meðal sveitakvenna" né heldur veitt rúm fyrir "* Að auðvelda samskipti þéttbýlis og dreifbýlis á sem flestum sviðum og nýta menningu og aðstæður sveitanna til uppeldi og lífsfyllingar". Það á einnig við um tillöguna "Að heilbrigði íslenskra húsdýra sé sem best tryggt og varið gegn aðfluttum sjúkdómum og varúðar gætt við íblöndun með aðfluttu erfðaefni og/eða stofnum", þótt ekki væri ljóst að um efnislegan ágreining væri að ræða.

Við tillögu um að taka upp hugmynd þess efnis "* Að kanna hvort ekki sé tímabært að hverfa frá kvótakerfi í framleiðslu og leyfa bændum að bera ábyrgð á markaðssetningu afurðanna" benti ég á, að í sauðfjárrækt sé framleiðsla nú í reynd óháð framleiðslustjórnun og í mjólkurframleiðslu sé ekki eftirsóknarvert að hverfa frá kvóta þar eð ekki sé um útflutning að ræða og hætta á offramleiðslu ef stjórnun verði aflögð. Frá Kvennalistanum kom sú hugmynd að "* Landbúnaður verði rekinn eins og hver önnur atvinnugrein sem taki mið af þörfum markaðarins og óskum neytenda", en hún fór ekki lengra!

Í atvinnumálum byggðanna var tekið undir margar af þeim tillögum sem ég lagði fram. Þó mættu nokkur mikilsverð atriði andstöðu, m.a. frá talsmanni Kvennalista (Guðnýju): "Að við allar efnahagsaðgerðir og samningslegar skuldbindingar séu höfð í huga áhrif þeirra á dreifbýlið og þess gætt að Ísland afsali sér í engu rétti til jöfnunaraðgerða í þágu byggðar."

Þá var ekki fallist á að það væri hlutverk hins opinbera "* Að reka fjarskipti og póstþjónustu og tryggja jöfnuð í grunnþjónustu um allt land" né heldur "* Að tryggja fjölþætta heilsugæslu og bráðaþjónustu sjúkrahúsa í öllum landshlutum án aðkomugjalda og sjúklingaskatta." Ekki var heldur fallist á tillögu mína "* Að tryggður sé jöfnuður í flutningskostnaði á olívörum þannig að bensín og hráolía sé í boði á sama verði um allt land."

Ferðaþjónusta

Í ferðaþjónustu lagði undirritaður til í samræmi við ferðamálastefnu sem mótuð var 1990 "* Að ríkið veiti þróunarmiðstöðvum ferðaþjónustu á landsbyggðinni stuðning og tryggt verði með samvinnu hins opinbera (ríkis og sveitarfélaga) og samtaka ferðaþjónustuaðila að ferðamálafulltrúar starfi í öllum landshlutum." Á þetta var ekki fallist né heldur "* Að móta langtímastefnu um markaðsstörf og kynningu á Íslandi sem ferðamannalandi og um val á markaðssvæðum." Einnig féll fyrir borð sú hugmynd "* Að stórefla rannsóknir í þágu ferðaþjónustu með stuðningi sérstakrar rannsóknastofnunar og bæta upplýsingagrundvöll til að auðvelda stefnumörkun." Sömu örlög hlaut gamalt baráttumál sem hlaut vandaðan undirbúning 1989-91 en brugðið var fæti fyrir af krötum 1992: "* Að koma upp nútímalegu náttúruhúsi á höfuðborgarsvæðinu til stuðnings við fræðslu og ferðaþjónustu."

 

Iðnaður og orkumál

Nokkur atriði sem undirritaður lagði til urðu útundan, þar á meðal:

"* Að kortleggja líkleg sóknarfæri í íslenskum iðnaði og samhæfa aðgerðir, svo sem rannsóknastarfsemi, menntun og fjölþættar þróunaraðgerðir til að ná árangri."

"* Að beita líftækni með ábyrgum, sjálfbærum hætti í þróun matvælaiðnaðar og öðrum greinum".

"* Að stuðla að þróunarátaki í málmiðnaði og rafiðnaði sem undirstöðugreinum og nýta í því sambandi stóran heimamarkað í skipaiðnaði og orkuiðnaði sem lyftistöng."

"* Að hefja nýja sókn í textíliðnaði, ekki síst úrvinnslu og þróun ullarvara til útflutnings."

"* Að sérstakur gaumur verði gefinn að nýtingu orkulinda til stuðnings ylrækt og fiskeldi. vistvænnar matvælaframleiðslu, í tómstundalífi og íþróttum og við þróun ferðaþjónustu."

"* Að við hagnýtingu orku og beislun orkulinda verði allur kostnaður meðtalinn og aðferðir þróaðar til að meta tölulega fórnarkostnað vegna umhverfisbreytinga við mannvirkjagerð."

Þá er rétt að vekja athygli á mun sem er á tillögu minni um að hverfa frá hefðbundinni stóriðju og umskrift þeirrar tillögu í útgáfu meirihlutans:

Tillaga HG:

"* Að leggja til hliðar allar ráðagerðir um hefðbundinn orkufrekan iðnað og endurmeta stöðu orkuiðnaðar eftir að sjálfbær orkustefna hefur verið mótuð, að teknu tilliti til alþjóðlegra skuldbindinga eins og loftslagssamninga."

Tillaga Össurar:

"Að öll áform um hefðbundna orkufreka stóriðju taki mið af sjálfbærri orkustefnu fyrir Ísland og alþjóðlegum skuldbindingum s. s. loftslagssamningum."

Engu að síður er rétt að undirstrika að Alþýðuflokkurinn sýnir nú viðleitni til að endurmeta afstöðu sína til "hefðbundinnar stóriðju". Verður fróðlegt að fylgjast með þeirri stefnumörkun til enda og undirtektum m.a. frá forystu ASÍ.

 

Opinber þjónusta

Ekki var fallist á tillögu undirritaðs um "* Að hætta einkavæðingu opinberra þjónustufyrirtækja." né heldur "* Að tryggja fjölþætta heilsugæslu og bráðaþjónustu sjúkrahúsa í öllum landshlutum án aðkomugjalda og sjúklingaskatta." Þá var talið of sterkt að orði kveðið með tillögunni: "* Að undirstöðu þjónustufyrirtæki sem búa við fákeppnisaðstæður eins og fjarskipti (landsími sem eigandi grunnnets), póstþjónusta, orkuframleiðsla og orkudreifing séu í eigu og undir forræði hins opinbera og tryggður sé jöfnuður í verðlagningu hvar sem er á landinu." Þá lagði ég til að því yrði slegið föstu

"* Að grunnþættir samfélagsþjónustunnar, heilbrigðis- og menntamál, verði á opinberri hendi og njóti forgangs um leið og tryggt sé jafnrétti óháð búsetu og kynferði."

Einnig lagði ég til "* Að taka til athugunar að skipta landinu í fylki (nýtt stjórnsýslustig) til að treysta byggð, samvinnu stórra svæða og æskilega stjórnsýslu ríkisins" Þessi hugmynd hlaut ekki undirtektir. Ég bendi á að ef farið verður út í róttækar breytingar á kjördæmaskipan eru enn ljósari rök en áður fyrir því að taka upp nýtt stjórnsýslustig til að skapa kjölfestu fyrir samstarf stórra svæða (víðast hvar mætti miða við núverandi kjördæmi) og til að færa út stjórnsýslu og þjónustu ríkisins með skipulegum hætti nær fólkinu í landinu.

 

Umhverfisvernd

Þótt ekki reyndist bera mikið á milli um einstök stefnumið í umhverfismálum, kom fram ágreiningur um vægi umhverfismála í samhengi við efnahagsstefnu. Ég lagði fram sérstaka greinargerð um það efni á einni síðu, þar sem sett eru fram ákveðin "græn" sjónarmið, þar sem m.a. er staðhæft að "efnahagskerfi sem ekki lagar sig að strangri umhverfisvernd er ekki sjálfbært og endar með ósköpum. Á hlutlægan mælikvarða, þar sem varðveisla lífs og um leið tilvist mannkynsins á jörðinni er markmiðið, ætti umhverfið að teljast "prímert" [ráðandi], efnahagskerfið "sekúndert" [víkjandi]. Í reynd er þessu þveröfugt farið með æ alvarlegri afleiðingum vegna bindandi alþjóðlegra efnahagssamninga [GATT og síðan WTO og nú síðast MAI, og svæðisbundinna efnahagsblokka af gerð ESB/EES] og hnattvæðingar alþjóðlegs fjármagns."

Umrætt minnisblað um "Tengsl umhverfis- og efnahagsmála" fylgir hjálagt með áliti mínu (fylgiskjal 2). Niðurlagsorð þess eru svohljóðandi: "Jafnframt því sem stutt skal við alla viðleitni til að styrkja stöðu umhverfismála, staðbundið og hnattrænt, þarf að þrengja svigrúm alþjóðlegs fjármagns og leitast við að endurheimta eitthvað af þeim lýðræðislegu stjórntækjum þjóðríkja [Íslands] sem kastað hefur verið fyrir róða síðasta áratuginn."

Það er í samræmi við skiptar skoðanir um grundvallarviðhorf til umhverfismála að Össur og Guðný höfnuðu tillögu minni um "* Að lög og reglugerðir [ákvarðanir] um umhverfismál gangi framar reglum á viðskiptasviði, m.a. um frjálst vöruflæði, fjármagnsflutninga og fjárfestingar."

Sömu aðilar gerðu fyrirvara við tillögu mína um "* Að tekið verði HÓFLEGT gjald

fyrir afnot af náttúruauðlindum í þjóðareign." Þess í stað stóð í tillögum meirihlutans síðast er ég vissi: "* Að tekið verði SANNGJARNT gjald af auðlindum í þjóðareign." Fyrra orðalagið er úr tillögu þingflokks Alþýðubandalagsins, sem samþykkt var á Alþingi nú í vor, en hún byggði á tillögu formanns flokksins og er með því orðalagi sem miðstjórn AB lagði blessun yfir, m.a. eftir átök um ofangreint orðalag. Segir þetta sína sögu um í hvaða spotta er hér verið að kippa!

Í hugmyndum sem ég lagði fram í málefnahópnum var að finna orðalagið: "* Að við skipulag hálendissvæða og óbyggða, ekki síst miðhálendisins, verði gætt heildstæðra viðhorfa og náttúruverndar og almenningur hvar sem er á landinu hafi aðgang að skipulagstillögum og fullan rétt til athugasemda."

Í tillögum meirihlutans mátti hins vegar lesa orðalagið: "* Að stjórnsýsla hálendisins verði undir einni stjórn." Athyglisvert er að þar er enga áherslu að finna á náttúruvernd, en samkvæmt breytingartillögu þingflokks jafnaðarmanna á Alþingi við sveitarstjórnalög var gert ráð fyrir að sex ráðuneyti tilnefndu hvert sinn fulltrúa í tíu manna miðhálendisstjórn en Samband íslenskra sveitarfélaga fjóra.

Þá sakna ég úr tillögum meirihlutans m.a. eftirfarandi ákvæða, sem ég gerði tillögu um í umhverfismálakafla og ekki voru gerðar athugasemdir við í undirhópi:

* Að til þjóðarsameignar teljist, óháð eignarréttartilkalli til yfirborðs lands, meðal annars allar auðlindir í jörðu, orka í rennandi vatni og jarðvarmi neðan 100 m dýpis.

* Að sett verði ný löggjöf um gróður- og jarðvegsvernd og sérstakri stofnun, Gróðurvernd ríkisins undir umhverfisráðuneyti, verði falin umsjá þeirra mála.

* Að öllum skipulagsáætlunum og tillögum um breytingar á skipulagi fylgi mat á umhverfisáhrifum lögum samkvæmt [ný löggjöf].

* Að sveitarfélögum verði leiðbeint og auðveldað að móta sér áætlanir um staðbundna sjálfbæra þróun og sérstök ráðgjöf verði tryggð í því sambandi, m.a.frá náttúrustofum kjördæmanna.

* Að stjórnarfrumvörpum, þar með talið fjárlagafrumvarpi, og framkvæmdaáætlunum stjórnvalda fylgi ætíð sérstakt yfirlit um líkleg umhverfisáhrif af framkvæmd viðkomandi tillagna.

*Aðstoð við þróunarríki á sviði umhverfismála verði efld, m.a. með það markmið í huga að nýta íslenskt hugvit og sérþekkingu.

Þá vakti ég athygli á því í hópnum að óvarlegt væri að kveða ekki á um varfærni í þróun og hagnýtingu erfðavísinda, m.a. með vísan til yfirstandandi deilna um einkaleyfi til Íslenskrar erfðagreiningar ehf. Minni ég og á tillögu mína um "* Að leggja siðrænt mat á nýtingu nýrrar tækni, ekki síst á sviði líftækni, og móta almennar reglur með hliðsjón af alþjóðasamþykktum og íslenskum séraðstæðum", en lýst var stuðningi við hana í hópnum.

 

Kjara- og skattamál

Allgóð samstaða var um framlagðar hugmyndir undirhóps í kjara- og skattamálum. Þó er þar víða óljóst að orði kveðið og vísað á framtíðina eins og fram kemur í orðalaginu: "* Nýtt stjórnmálafl jafnaðarmanna og kvenfrelsis (!) telur nauðsynlegt að endurskoða allt skattkerfið frá grunni og mun koma með tillögur að slíkri endurskoðun."

Undirritaður lagði m.a. fram eftirfarandi hugmyndir til viðbótar skatta- og kjaramálakafla, en ekki hafði verið tekin afstaða til þeirra þá málefnahópurinn klofnaði í afstöðu sinni:

* Að umhverfis- og mengunargjöld verði samræmd og þróuð sem stjórntæki í efnahagsmálum

* Að ekki verði lögð á þjónustugjöld vegna heilsugæslu, svo sem komugjöld á heilsugæslustöðvar eða vegna innlagningar á sjúkrastofnanir.

* Að ekki séu lögð skólagjöld á nemendur í almennum skólum frá grunnskóla til háskóla.

* Að samtímis því að afkoma láglaunafjölskyldna sé tryggð með barnabótum og öðrum félagslegum greiðslum þarf að tryggja meðalfjölskyldum og launafólki með miðlungstekjur afkomuöryggi og setja tekjutengingu og jaðaráhrifum skýr og skynsamleg mörk.

* Að við ákvörðun um óbeina skatta séu fjölskylduvæn sjónarmið lögð til grundvallar.

* Að fyrirtæki leggi meira til samneyslu en nú er með skattgreiðslum.

* Að kjaramál séu skilgreind í víðu samhengi, meðal annars sé litið á gott vinnuumhverfi og heilnæmt ytra umhverfi sem og aðstöðu til útivistar sem lið í almennum kjörum fólks.

Ágreiningsefni og sammæli

Eins og sjá má af framansögðu eru þau mál mörg sem ágreiningur var um í málefnahópnum. Er það ástæðan fyrir því að undirritaður getur ekki fylgt meirihluta hópsins í afstöðu hans. Mörg þessara ágreiningsefna varða stórmál á vettvangi þjóðmála, sem skipta þjóðinni í fylkingar og stjórnmálaflokkar hljóta að þurfa að taka afstöðu til. Þarna er meðal annars um að ræða ágreining um grundvallarviðhorf eins og til umhverfismála og hlutverks hins opinbera í þjónustu við þegnana. Önnur mikilsverð atriði sem ágreiningur er um snerta undirstöðuþætti efnahagsmála og helstu atvinnuvegi landsmanna. - Ýmis atriði eru afar óljós eftir vinnu málefnahópsins, meðal annars vegna afar naums tíma sem hópnum var ætlaður og kröfunnar um símskeytastíl í framsetningu tillagna, en hún mun ættuð frá formönnum viðkomandi flokka. - Sammæli var í hópnum um ýmsa þætti, sem engum kemur á óvart, og endurspeglast það með líkum hætti og í störfum fulltrúa flokkanna á Alþingi, þar sem einnig ágreiningefni eru augljós og sýnileg. Raunar er ýmislegt af því sem meirihluti hópsins setur fram í sínum tillögum sótt í hugmyndir sem undirritaður lagði fram í málefnahópnum.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

Fylgiskjöl:

  1. Bréfaskipti HG og formanns þingflokks AB og óháðra

 

Hjörleifur Guttormsson
Alþingi

20. maí 1998

 

 

Til Svavars Gestssonar
formanns þingflokks Alþýðubandalagsins og óháðra
Alþingi

 

Efni. Umboð í yfirstandandi viðræðum Alþýðubandalagsins við aðra flokka.

Í síðustu viku óskaði ég eftir því við þig sem þingflokksformann að fá rædd í þingflokknum viss atriði er snerta yfirstandandi viðræður milli Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Samtaka um kvennalista. Þar eð mál þetta komst ekki á dagskrá þingflokksins í fyrradag og ekki varð úr ráðgerðum þingflokksfundi í gær sé ég þann kost vænstan að skrifa þér bréf um málið. Ég verð erlendis sem fulltrúi í EFTA-nefnd þingsins fyrrihluta næstu viku (mánudag til miðvikudags) og legg í þínar hendur frekari málsmeðferð.

Í mars síðastliðnum varð ég við beiðni um að taka sæti í einum af „málefnahópum" flokkanna, þeim er fjallar um umhverfis-, atvinnu- og efnahagsmál og er þar einn af þremur fulltrúum Alþýðubandalagsins. Fundað hefur verið í hópi þessum og undirnefnd frá því snemma í apríl og hef ég lagt þar allnokkuð af mörkum. Sem vegarnesti fékk ég ekki annað en yfirlit um fjölda og verkaskiptingu hópanna. Sjálfur hafði ég undir höndum samþykkt síðasta landsfundar Alþýðubandalagsins þetta varðandi og var hún raunar lögð fram í málefnahópnum.

Þar er gert ráð fyrir að niðurstöður úr þessum viðræðum flokkanna verði lagðar fyrir aukalandsfund sem nú hefur verið boðað til í júlíbyrjun. „Þar tekur Alþýðubandalagið afstöðu til málsins og hvort þær niðurstöður gefi tilefni til aukins samstarfs og/eða sameiginlegs framboðs félagshyggjufólks fyrir alþingiskosningarnar 1999", eins og segir í samþykktinni.

Taldi ég víst að vinna málefnahópanna miðaðist við samþykktir flokkanna og hafði ekki af því sérstakar áhyggjur. Það var fyrst á fundi í undirnefnd 8. maí sl. að ég heyrði þá túlkun frá einum af fulltrúum Alþýðuflokksins að umboð þeirra tæki einvörðungu mið af því að um yrði að ræða sameiginlegt framboð flokkanna í næstu alþingiskosningum. Annað væri ekki til umræðu og næði málið ekki lengra yrði sú ekki niðurstaðan. Ég ræddi þetta á næsta fundi málefnahópsins og staðfesti Össur Skarphéðinsson sem leiðir hópinn svo og Guðný Guðbjörnsdóttir þennan skilning. Aðeins sameiginlegt framboð flokkanna væri markmið og grundvöllur þessara viðræðna. Á fundi málefnahópsins í dag, 20. maí, ítrekaði Össur þetta og vísaði til samtals við Sighvat Björgvinsson formann Alþýðuflokksins um málið.

Ég lít á það sem alvarlegt mál að þessi staða skuli nú koma upp eftir að viðræður hafa átt sér stað í brátt tvo mánuði. Ég leit svo á og hafði raunar ítrekað nefnt það í hópnum að ég gengi að þessu verki með það í huga að það gæti gagnast í samstarfi flokkanna á breiðum grundvelli, m.a. vegna sameiginlegrar afstöðu til ríkisstjórnarmyndunar eftir næstu þingkosningar. Með tilliti til þessa hef ég í góðri trú lagt mitt af mörkum í málefnavinnu. Sem kunnugt er hef ég á vettvangi Alþýðubandalagsins lýst andstöðu við það sjónarmið að flokkarnir eigi að bjóða fram sameiginlega í næstu alþingiskosningum og hefði ekki tekið sæti í málefnahópi, ef mér hefði verið kunnugt um að það væri hið eina yfirlýsta markmið þessarar vinnu. Ég get ekki neitað því að mér finnast þetta afleit og ógæfuleg vinnubrögð miðað við að þessi afstaða Alþýðuflokks og Kvennalista hafi legið fyrir við upphaf þessa viðræðuferils.

Ég tel óhjákvæmilegt að fá þessa stöðu rædda í þingflokknum. Ráðgerðir eru fundir í næstu viku í málefnahópnum sem ég á aðild að og látið að því liggja að flýta þurfi verklokum. Um aðra þætti þessa starfs ræði ég ekki að sinni.

 

Með vinsemd

Hjörleifur Guttormsson

 

Sameiginlegt framboð = endalok Alþýðubandalagsins

Undirritaður hefur oftsinnis á vettvangi Alþýðubandalagsins og í þingflokki AB og óháðra varað við hugmyndum um að leggja saman spilin á vettvangi landsmála með stjórnmálaflokkum sem standa fyrir allt aðra stefnu en Alþýðubandalagið í mikilsverðustu þjóðmálum og á heildina litið. Slíkt jafngildir því að hverfa frá stefnumiðum flokksins og fella merki hans. Í starfi málefnahópsins komu afleiðingar af "aðferðafræði hins minnsta samnefnara" berlega í ljós. Sérmál flokkanna, ekki síst Alþýðubandalagsins sem hefur til þessa haft skýra sérstöðu, verða gerð ósýnileg og er sópað undir teppið.

Verði fallist á kröfu Alþýðuflokksins um sameiginlegt framboð í næstu alþingiskosningum jafngildir það því að flokkarnir sem að slíku framboði standa séu lagðir niður. Það verður þá aðeins formsatriði að ganga frá útförinni. Undirritaður er því algjörlega andvígur að fella merki og málstað Alþýðubandalagsins og telur að störf í málefnahópnum hafði berlega leitt í ljós hvað sameiginlegt framboð hefði í för með sér. Ég fæ ekki séð að milli Alþýðflokks og Alþýðubandalags sé að finna þá snertifleti í þjóðmálum sem gerðu slíkt samlag trúverðugt, hvað þá endingargott.

Eins og gerist með stjórnmálaflokka eru ekki skörp skil í afstöðu þeirra á öllum sviðum. Það á ekki aðeins við um Alþýðubandalag, Alþýðuflokk og Kvennalista, heldur einnig um núverandi stjórnarflokka, ekki síst að því er varðar Framsóknarflokkinn og bakland hans.

Stjórnmálaflokkarnir eru ásamt fjöldasamtökum almennings kjölfesta lýðræðis í landinu. Til að lýðræðið fái notið sín þurfa stjórnmálin að endurspregla þá meginstrauma sem til staðar eru á hverjum tíma. Ef Alþýðubandalagið hyrfi af vettvangi væri komin eyða í litróf stjórmálanna og horfinn málsvari sjónarmiða sem safnað hefur kjörfylgi sem oft hefur legið á bilinu 15-20 % síðustu ár og áratugi. Menn geta lagt niður flokka að formi til en málstaður hverfur ekki svo lengi sem hann hefur hljómgrunn meðal almennings.

Minnisblað

 

til Hjörleifs Guttormssonar frá Svavari Gestssyni 8.6.1998.

 

 

Tilefni: Bréf Hjörleifs Guttormssonar vegna málefnaviðræðna.

 

Þegar málefnaviðræður hófust milli þriggja flokka Alþýðubandalags, Alþýðuflokks og Samtaka um kvennalista byggðust þær viðræður af hálfu Alþýðubandalagsins og Kvennalistans á landsfundarsamþykktum. Þessar samþykktir áttu það sameiginlegt að gert var ráð fyrir sérstökum landsfundum til þess að fjalla um niðurstöður viðræðnanna. Alþýðubandalagið byggir á þeirri forsendu að hér sé um að ræða könnunarviðræður til að kanna hvort málefnasamstaða næst milli flokkanna sem gæti orðið grunnur að stjórnarsamstarfi á næsta kjörtímabili. Af hálfu Alþýðubandalagsins er með öðrum orðum ekki gengið út frá neinu sérstöku formi samstarfs flokkanna þriggja í næstu kosningum ef sátt næst um málefnagrunninn. Samtök um kvennalista hafa samkvæmt landsfundarsamþykkt gengið til þessara viðræðna á líkum forsendum; að niðurstöður þeirra myndu skipta sköpum um framhaldið. Alþýðuflokkurinn hefur aftur á móti tekið þátt í þessum viðræðum á þeim forsendum að hann stefni á sameiginlegt framboð; sú afstaða Alþýðuflokksins hefur legið fyrir frá upphafi.

Af þessu er ljóst að ekkert hefur breyst um afstöðu flokkanna frá því sem gert var ráð fyrir þegar þessar viðræður hófust.

Í samþykkt landsfundar Kvennalistans 14.-16.11. 1998 segir:

„Kvennalistinn taki þátt í viðræðum um sameiginlegan málefnagrundvöll Kvennalista, Jafnaðarmanna, Alþýðubandalags og annarra hópa, vegna alþingiskosninga árið 1999.

Markmið þeirra viðræðna verði, af hálfu Kvennalistans, að kvenfrelsissjónarmið verði í fyrirrúmi í allri málefnavinnu og samþættingaraðferðin verði notuð í því skyni...

Niðurstöður viðræðna verði lagðar fyrir landsfund Kvennalistans til ákvörðunar."

Nokkur skoðanaskipti urðu um þessi mál á Alþingi 19.2.1998. Þá sagði Ágúst Einarsson m.a.:

„Alþýðuflokkur og Kvennalistinn hafa þegar tekið ákvörðun um að vinna að sameiginlegu framboði í næstu alþingiskosningum en Alþýðubandalag tekur ákvörðun um útfærslu samstarfsins í sumar."

Þessu svaraði Guðný Guðbjörnsdóttir:

„Ég vil taka undir margt í orðum hæstvirts þingmanns sem hér hefur nýlokið máli sínu. Þó geri ég fyrirvara við það þegar hann segir að ákveðið sé að jafnaðarmenn og Kvennalistinn fari í samstarf fyrir næstu kosningar. Það er ekki ákveðið. Við vinnum að sameiginlegri málefnaskrá, þessir þrír flokkar en ekkert hefur verið ákveðið í því sambandi."

Ágúst svaraði:

„Ég vona að orðalag mitt hafi ekki verið misvísandi. Ég talaði um að þessir tveir stjórnmálaflokkar hefðu þegar tekið ákvörðun um að vinna að sameiginlegu framboði í næstu alþingiskosningum. Alþýðubandalagið tekur slíka ákvörðun síðar."

Guðný Guðbjörnsdóttir svaraði:

„Virðulegi forseti. Ég lít svo á að allir þessir flokkar hafi samþykkt að fara í umræður um sameiginlega málefnaskrá. Í þeim efnum er það hið eina sem samþykkt hefur verið og ég stend við það. Ég vil ekki sitja undir orðrómi um að búið sé að ákveða meira en reyndin er."

 

 

2. Tengsl umhverfis- og efnahagsmála (formáli að tillögum).

Apríl 1998

Tengsl umhverfis- og efnahagsmála

Formáli Hjörleifs Guttormssonar að tillögum um umhverfis- og efnahagsmál, sem Össur Skarphéðinsson og Guðný Guðbjörnsdóttir lýstu sig ósammála.

 

Umhverfis- og efnahagsmál eru sín hvor hlið á sama teningi. Efnahagskerfi sem ekki lagar sig að strangri umhverfisvernd er ekki sjálfbært og endar með ósköpum. Á hlutlægan mælikvarða, þar sem varðveisla lífs og um leið tilvist mannkynsins á jörðinni er markmiðið, ætti umhverfið að teljast "prímert"[ráðandi], efnahagsskerfið ""sekúndert" [víkjandi]. Í reynd er þessu þveröfugt farið með æ alvarlegri afleiðingum vegna bindandi alþjóðlegra efnahagssamninga [GATT og síðan WTO og nú síðast MAI, og svæðisbundinna efnahagsblokka af gerð ESB/EES] og hnattvæðingar alþjóðlegs fjármagns. Það síðasttalda, frjálsir fjármagnsflutningar, hefur gjörbreytt stöðunni á skákborði stjórnmála og efnahagsmála. Fjölþjóðafyrirtæki hafa nú undirtök í efnahagsmálum heimsins sem aldrei fyrr. Í ofangreindum frímúrarareglum efnahagslífsins, hnattrænum eða svæðisbundnum, er tillit til umhverfis og náttúru alls staðar víkjandi.

Viðleitni til að snúa þessu gildismati við hefur komið fram á vegum Sameinuðu þjóðanna, nú síðast í Ríó-ferlinu [undirbúningi Ríó-ráðstefnunnar, samþykktum hennar og úrvinnslu]. Milliuppgjör á aukaþingi Sameinuðu þjóðanna sumarið 1997 [UNGASS eða Rio+5] sýndi afar dapurlega útkomu. Tilkoma WTO [1994] og undirbúningur MAI á tímabilinu sýna ljóslega hverjir telja sig eiga að hafa undirtökin. GEF [Global environmental facility] fékk til umráða um 2 miljarða USD á tímabilinu og nú 2,7 miljarða loforð fyrir næstu 5 ár. Til samanburðar má nefna að bjargræðis-framlög IMF vegna SA-Asíu námu 117 miljörðum, þótt ekki sé þar um beint sambærleg mál að ræða!

Kyoto-bókunin við loftslagssamninginn er fyrsta alþjóðlega aðgerðin þar sem eitthvað reynir á forgangsröðunina efnahagur-umhverfi. Ekki er útséð um afdrif þess gjörnings, en ekki stendur á viðleitninni, beint og óbeint, til að sniðganga efni Kyoto-samkomulagsins og er Ísland þar framarlega, ef ekki fremst í flokki.

Hinn Ríó-samningurinn, um verndun líffræðilegrar fjölbreytni, hefur ekki skilað miklum sýnilegum árangri, en þó safnast saman mikið af upplýsingum sem sýna hrikalegar tölur um útrýmingu tegunda og eyðingu búsvæða. Hér á landi er vinna að samningsskuldbindingum á frumstigi [sjá nýlegt svar umhverfisráðherra til HG].

Svæðisbundnir alþjóðasamningar um varnir gegn mengun o.fl., eins og PARCOM og væntanleg atrenna að samningi um POP´s, eru allir góðra gjalda verðir, en breyta ekki stöðunni í meginefnum.

 

Ályktunarorð (resumé)

Jafnhliða því sem stutt skal við alla viðleitni til að styrkja stöðu umhverfismála, staðbundið og hnattrænt, þarf að þrengja svigrúm alþjóðlegs fjármagns og leitast við að endurheimta eitthvað af þeim lýðræðislegu stjórntækjum þjóðríkja [Íslands] sem kastað hefur verið fyrir róða síðasta áratuginn.

 

 


Til baka | | Heim