Greinar um atvinnuleysi Birtust í Vikublaðinu Austurlandi síðari hluta árs 1994 Efni: I. Um þróunina síðasta áratug. * Inngangur. Vinna undirritaðs á vettvangi Nl-ráðs og víðar. * Hvað er að gerast á Vesturlöndum? * Evrópa - Bandaríkin - Japan * Eðlisbreyting? * Sérstaða Íslands í hættu.
II. Hugmyndafræðileg átök. Hrun Sovétveldisins. Frjálshyggjan í sókn. Uppgjöf sósíaldemókrata. Verkalýðshreyfing í kreppu. Vinstri viðhorf.
III. Markaðshyggjan og vaxandi mismunun. Gjá skiptir upp samfélaginu.Fátækir : ríkir. Staða kvenna. Unga fólkið. Landsbyggðin.
IV. Ísland og umheimurinn. Smáþjóð við einstakar aðstæður. Sérstöðu fórnað - alröng viðbrögð. EES þýðir aukið atvinnuleysi. EB-aðild og afsal sjálfstæðis. Atvinna fyrir alla - mannréttindi.
V. Ný samfélagssýn. Hagfræði í blindgötu. Umhverfinu fórnað fyrir skammtímaávinninga. Jafnrétti brýnni krafa en nokkru sinni. Stjórn á markaðsöflin forsenda. Atvinnuleysi er ekki lögmál.
---------------- Hjörleifur Guttormsson:
Atvinnuleysið á Vesturlöndum og staða Íslands. Inngangur Vaxandi atvinnuleysi er að vonum eitt helsta umræðuefni meðal almennings og stjórnmálamanna hér á landi og erlendis. Sá sem þetta ritar hefur fylgst með umræðunni á Norðurlöndum með þátttöku í Norðurlandaráði um fimm ára skeið. Þar hef ég átt sæti í efnahagsnefnd ráðsins, sem fjallað hefur um þróunina í Evrópu og fengið til umfjöllunar margar tillögur á sviði efnahags- og atvinnumála. Dagana 11.- 12. apríl 1994 gekkst efnahagsnefndin fyrir ráðstefnu í Lyngby við Kaupmannahöfn um baráttuna við atvinnuleysi og kvaddi til fjölmarga fyrirlesara. Í samráði við ritstjóra Austurlands hef ég tekið að mér að skrifa nokkrar greinar í blaðið, þar sem fjallað verður um ýmsar hliðar þeirrar atvinnuleysiskreppu sem ríður húsum á Vesturlöndum og teygir hramma sína til okkar. Atvinnuleysið er samfélagsvandi sem lætur engann ósnortinn. Því tengjast hugmyndafræðileg átök og sívaxandi misskipting. Þær leiðir sem Ísland velur í samskiptum við umheiminn varða atvinnustig og atvinnuþróun í síauknum mæli. Þörf er á nýrri samfélagssýn og breyttum leikreglum til að atvinnuleysi verði ekki hlutskipti fjölda ungra Íslendinga í náinni framtíð. Þetta er ekki framhaldssaga, þótt einhver þráður finnist væntanlega í þessum stuttu pistlum. Í byrjun verður varpað fram spurningum um eðli kreppunnar og brugðið upp mynd af atvinnuleysi á stærstu efnahagssvæðum heimsins og á Norðurlöndum. Atvinnuleysið á Vesturlöndum Hin svonefndu vestrænu iðnríki hafa hafa um langt skeið haft með sér samstarf innan svonefndrar Efnahags- og framfarastofnunar OECD sem Ísland og önnur Norðurlönd eiga aðild að. Þar er að finna stóru efnahagsblokkirnar Evrópusambandið, Bandaríkin sem nú eru hluti af stærra fríverslunarsvæði (NAFTA) og Japan. Innan OECD-svæðisins eru skráðir atvinnuleysingjar nú um 35 milljónir og að auki eru taldar 15 milljónir manna í hlutastörfum eða með skerta vinnu. Stærsti hlutinn af vöruviðskiptum heimsins fer fram innan þessa svæðis, en með nýjum GATT-samningum og óheftum fjármagnsflutningum er búist við að viðskipti við nýiðnvædd ríki utan OECD vaxi til muna.og þar með samkeppni við vinnuafl í þróunarríkjum. Atvinnuleysi í iðnríkjunum er mjög mismunandi eins og sést vel þegar litið er á tölur fyrir helstu efnahagssvæðin. Evrópusambandið á metið með 10-11% skráð atvinnuleysi, sem farið hefur vaxandi ár frá ári. Bandaríkin koma næst með 6-7% atvinnuleysi en skást er ástandið í Japan sem hefur atvinnuleysi á bilinu 2-3%. Að baki þessum tölum liggja mjög ólíkar samfélagsgerðir. Í Vestur-Evrópu einkum norðantil er opinber þjónusta og velferðarkerfi allþróuð. Í Bandaríkjunum er launamunur meiri og tryggingar bágbornar. Þar er ekkert gólf í launum og fólk keppir um láglaunastörf sem liggja undir fátæktarmörkum. Í Japan hafa fyrirtæki tryggt fólki störf til lífstíðar og þau taka á sig margt af því sem hið opinbera sinnir í Evrópu.
Hver er staðan á Norðurlöndum? Norðurlönd utan Danmerkur stóðu mun betur að vígi um atvinnustig fram eftir síðasta áratug en flest löndin í Evrópubandalaginu. Á þessu hefur orðið breyting frá því um 1990 með ört vaxandi atvinnuleysi, m.a. hér á landi. Nú á fyrrihluta árs 1994 var skráð atvinnuleysi á Norðurlöndum eftirfarandi: Danmörk 11.4% Finnland 19.0% Ísland 6.0% Noregur 6.0% Svíþjóð 8.0% Í Finnlandi hefur aukningin verið gífurleg og er það m.a. rakið til samdráttar í austurviðskiptum eftir hrun Sovétríkjanna. Í Danmörku fer atvinnuleysi enn vaxandi þrátt fyrir ýmsar gagnaðgerðir stjórnvalda. Hér á landi er hlutfallsleg aukning atvinnuleysis þó líklega orðið mest, þar eð skráð atvinnuleysi hefur um það bil fimmfaldast á tæpum þremur árum
Heyrir sérstaða Íslands sögunni til? Menn hljóta að velta því fyrir sér hvort hin hagstæða sérstaða Íslands þar sem við bjuggum lengi vel við lítið sem ekkert atvinnuleysi heyri nú sögunni til. Það er ekki aðeins almenn aukning atvinnuleysis sem er stórfellt áhyggjuefni, heldur líka ört vaxandi atvinnuleysi meðal ungs fólks og fleiri hópa í samfélaginu. Þar er einkar áberandi hátt atvinnuleysishlutfall meðal kvenna, einkum á landsbyggðinni. Að þessum þáttum verður vikið nánar síðar, en í næstu grein verður fjallað frekar um breytingar í alþjóðlegu umhverfi og ólík viðhorf til lausna.
Hjörleifur Guttormsson
Hjörleifur Guttormsson: Frelsi fjármagnsins og atvinnuleysið Fríverslun og óheftir fjármagnsflutningar Stærstu breytingarnar í alþjóðlegu umhverfi síðustu tíu ár eða svo varða aukna fríverslun í heimsviðskiptum og óhefta fjármagnsflutninga. Fyrir utan stóru efnahagsblokkirnar: Evrópusambandið, Norður-Ameríkusvæðið (NAFTA) og Japan, sem búast til harðnandi samkeppni innbyrðis, koma GATT-samningar sem setja leikreglurnar um viðskipti með vörur og þjónustu heimshorna á milli. Af hagfræðingum er opið viðskiptakerfi stutt þeim rökum að þannig náist hámarkshagkvæmni í verkaskiptingu. Framleiðsla flytjist þangað sem tilkostnaður er minnstur og óheftir fjármagnsflutningar stuðli að hinu saman, fjármagnið leiti þangað sem mests hagnaðar er að vænta.
Umhverfi, tækniþróun og fjölþjóðafyrirtæki Þetta er einföld kenning og hljómar vel í eyrum margra. Veruleikinn er hins vegar flóknari, m.a. er hætt við að umhverfið minni óþægilega á sig vegna vaxandi mengunar. Í samningum sem ryðja eiga þessari stefnu braut hefur lítið verið fjallað um áhrif fríverslunar á umhverfi og það er fyrst nú eftir á sem farið er að tala um að einnig þurfi að hyggja að áhrifum á móður náttúru. Við þessar breyttu leikreglur bætist bylting í fjarskiptum og flutningum sem ýtir hvoru tveggja undir sviptingarnar í heimsviðskiptum. Margháttuð önnur tækniþróun beinist í sömu átt og getur átt eftir að ýta stórlega undir atvinnuleysi. Þar má nefna sjálfvirkni í iðnaði með tölvustýrðum vélmennum (róbótar), en sú þróun er lengst á veg komin í Japan. Það eru fjölþjóðafyrirtækin sem mest hafa þrýst á um breytingar í alþjóðaviðskiptum og þau munu nýta sér út í æsar þann víða leikvöll sem verið er að hasla þeim. Um þriðjungur heimsverslunar eru nú innri viðskipti milli einstakra greina fjölþjóðafyrirtækja, sem færa til hagnað og framleiðslu heimshorna á milli óháð vilja þjóðríkja.
Lækkun lífskjara og atvinnuleysi Þessar breytingar koma til með að hafa afar víðtæk áhrif, m.a. í okkar heimshluta. Mikill þrýstingur verður á að lækka framleiðslukostnað einkum laun með vísan til afar lágra launa í þróunarlöndum. Vaxandi atvinnuleysi verður eins og nú sjást þegar merki notað til að brjóta niður samstöðu launafólks og skylduaðild að verkalýðsfélögum. Afleiðingar slíkrar þróunar blasa þegar við í Bandaríkjum Norður-Ameríku þar sem fjölgar í láglaunastörfum, fólk skiptir oft um vinnu og flytur búferlum í atvinnuleit í meiri mæli en tíðkast hefur í Vestur-Evrópu. Þótt almennur samdráttur í efnahagslífi Vesturlanda ýti undir atvinnuleysið eru flestir hættir að spá því að úr því dragi til muna þótt hagvöxtur aukist á ný. Oft heyrast þær röksemdir að fríverslun og frelsi til fjármagnsflutninga óháð landamærum muni draga úr misskiptingu milli fátækra ríkja og þeirra betur megandi. Þar er þó ekki á vísan að róa. Vissulega á sér stað mikil tilfærsla á framleiðslustarfsemi til svonefndra nýiðnvæddra ríkja vegna lægri tilkostnaðar, m.a. til Suðaustur-Asíu og Kína. Óumdeilt er þó að fjöldi fátækra ríkja og þjóðfélagshópa munu verða verr sett í kjölfar nýgerðra GATT-samninga. Um 700 milljónir manna eru atvinnulausar eða hafa takmarkaða atvinnu í þróunarlöndum samkvæmt alþjóðlegum hagsskýrslum og hefur sú tala hækkað um 200 milljónir frá því fyrir 10 árum. Með núverandi fólksfjölgun um nær 100 milljónir manna árlega koma hátt í 40 milljónir nýjar inn á vinnumarkað á ári hverju. Við þetta bætist óþolandi skuldabyrði margra fátækra ríkja sem þurfa að greiða mun hærri upphæðir til baka til Vesturlanda en þaðan berst m.a. í formi "þróunaraðstoðar". Það er því ekki bjart yfir á heildina litið og vaxandi misskipting innan samfélaganna skerpir andstæðurnar. Það eru gömul sannindi að fjármagn hefur tilhneigingu til að safnast á æ færri hendur ef ekki er gripið þeim mun ákveðnar inn í markaðslögmálin. Þær breytingar sem stjórnmálamenn hafa verið að innsigla með undirskrift sinni undir samninga á borð við Evrópskt efnahagssvæði og GATT gefa markaðslögmálunum lausan tauminn svo um munar. Uppskeran verður harðandi samkeppni, aukin misskipting og ört vaxandi atvinnuleysi. Hjörleifur Guttormsson
|