Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (7.grein)
10. nóvember 1998
Samspil vísinda og stefnumótunar
Það er margháttaðan fróðleik að sækja á loftslagsþingið í Buenos Aires. Fyrir utan samningaviðræður á vegum ríkisstjórna má líta á þingið og atburði sem því tengjast sem geysistórt námskeið. Hér þyrftu ekki síst að vera efasemdamenn um loftslagsbreytingar, vísindamenn og stjórnmálamenn sem vilja trúa því að allt þetta sé eitt heljarmikið blöff. Væri það rétt hefði ekki öðru eins verið tjaldað til að afvegaleiða mannkyn. Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson hefðu til dæmis báðir gert rétt í því að koma á þennan vettvang til að fræðast, spyrja spurninga og skynja andrúmsloftið. Það eru þeir sem munu ákveða hvort eða hvenær Ísland skrifar undir Kyótó-bókunina, ekki Guðmundur Bjarnason, því miður. Hvað gera þeir í framhaldi af þessari ráðstefnu ef losun frá stóriðjufyrirtækjum á Íslandi fæst ekki tekin út úr bókhaldinu hér og nú?
Kaliforníuháskóli með vandaða kynningu
Ég hef áður vikið að Alþjóða vísindanefndinni um loftslagsbreytingar (IPCC). Það eru niðurstöður hennar sem aðilar að loftslagssamningnum, þ.e. flest aðildarríki Sameinuðu þjóðanna, setja traust sitt á. Það er nefndin sem í áliti sínu 1995 segir að vegnar niðurstöður bendi til merkjanlegra loftslagsbreytinga af mannavöldum. Næstu skýrslu frá nefndinni um sama efni er að vænta 2001 og flest teiknar til að þá verði kveðið fastar að orði.
En þeir vísindamenn eru fjölmargir utan IPCC sem láta sig þetta mál varða. Einn slíkur hópur starfar við Kaliforníuháskóla í stofnun sem kennir sig við heimsátök og samvinnu (Institute on Global Conflict and Cooperation = IGCC). Þeir ásamt Scripps hafrannsóknastofnuninni við sama skóla eru með kynningarbás hér á ráðstefnunni og hafa efnt til nokkurra fræðslufunda. Markmiðið er að samræma rannsóknir og koma upplýsingum á framfæri við þá sem móta stefnu í loftslagsmálum. Fundur sem ég sótti á þeirra vegum 6. nóvember fjallaði um samspil vísindastefnu og ákvarðana. Hér verða nefnd örfá atriði sem þar komu fram.
Stiklað á umræðuefnum
Lísa Schaffer sjávarlíffræðingur við Kaliforníuháskóla lagði áherslu á að góð vísindi þurfi að byggjast á traustum gögnum. Þótt mikið hafi áunnist vantaði samræmingu í mælitækni og niðurstöðum til að full samstaða náist. Sem dæmi um niðurstöðu sem enginn ágreiningur er um nefndi hún Keeling-grafið sem sýnir stöðuga aukningu CO2 í andrúmslofti frá 1958. Athuganakerfin þurfi að bæta og samræma á heimsvísu.
Stephan Schneider rakti dæmi úr "gróðurhúsastríðinu", hvernig óprúttnir aðilar byggju til gögn sem hefðu á sér vísindalegt yfirbragð en væru í raun lítið annað en pantaðar auglýsingar hagsmunaaðila. Sýndi hann nokkur dæmi slíkra gagna sem dreift væri í pósthólf manna á ráðstefnunni. Eitt þeirra bar yfirskriftina "Vísindin hafa talað: Hlýnun andrúmsloftsins er hugarburður." Hann sagði marga tala um veður í stað andrúmslofts. Þetta rugli bæði ríkisstjórnir og almenning í ríminu.
Mark Thicmans benti á að jafnvel þótt koldíoxíð hyrfi að mestu úr andrúmslofti væri samt við vandamál að fást vegna annarra gróðurhúsalofttegunda sem væru lengi að eyðast. Þær legðu hátt í það jafn mikið af mörkum til loftslagsbreytinga og CO2 og hlutur þeirra fari vaxandi.
Richard Sommerville undirstrikaði að breytingar á rakastigi og skýjamyndun geti haft áhrif á loftslag en mikið vanti á þekkingu um þau efni. Hann benti á að séu sumir vísindamenn ekki á þessari stundu vissir um að hægt sé óyggjandi að sýna fram á loftslagsbreytingar af mannavöldum með mælingum þá dragi það ekki úr sannfæringu flestra fyrir því að slíkar breytingar séu yfirvofandi.
Bættar mælingar á lofthjúpnum
Undirnefndin um vísinda- og tækniráðgjöf (SBSTA) samþykkti á fundi sínum í gær tillögur um rannsóknir og kerfisbundnar athuganir í loftslagsmálum. Er ályktunin meðal annars byggð á skýrslu um stöðu loftslagsathugunarkerfa í heiminum (GCOS-48) frá október 1998 og áður hefur verið minnst á. Í ályktun nefndarinnar er hvatt til samræmingar á áætlunum þjóðríkja og að gert verði alþjóðlegt átak til að bæta mælikerfi og raða aðgerðum í forgangsröð. Sérstaklega er hvatt til aukinna athugana á og yfir hafsvæðum, að fjölga þar stöðvum og fylla í eyður.
Breytt landnotkun og skógrækt
Þá var á fundi vísinda- og tækninefndarinnar í gær afgreidd tillaga til þingsins um breytingar í landnotkun og skógrækt. Hún gerir ráð fyrir frekari vinnu við að meta aðferðir, óvissuþætti og rannsóknaþörf vegna landnotkunar og skógræktar. Aðildarríki eru beðin um að setja fram sjónarmið sín fyrir 1. febrúar 1999 til skoðunar í vinnuhópi. Skýrslu frá Alþjóða vísindanefndinni (IPCC) um þessi mál er að vænta vorið 2000 og það er ekki fyrr en á fyrsta fundi aðila eftir að Kyótó-bókunin hefur tekið gildi að formleg afstaða getur legið fyrir til skógræktar og annarrar landnotkunar (m.a. landgræðslu) í tengslum við bindingu og losun gróðurhúsalofttegunda. Slíkur fundur verður í fyrsta lagi haldinn árið 2001.
Hjörleifur Guttormsson.
|