Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (8.grein)
10. nóvember 1998
Íslenska stóriðjuákvæðið
strandaði í Buenos Aires
Tillaga Íslands um undanþágu fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjufyrirtækjum "í litlum hagkerfum" strandaði á fundi vísinda- og tækninefndar loftslagsþingsins fyrir hádegi í dag. Nefndin samþykkti að tillögu formanns að fresta ákvörðun í málinu til næsta ársþings aðila að loftslagssamningnum án frekari skuldbindinga. Nefndinni (SBSTA) er ætlað að fjalla frekar um málið í millitíðinni og koma nýjum upplýsingum sem kynnu að berast henni á framfæri við næsta ársþing. Frestur til að skila til skrifstofu nefndarinnar viðbrögðum við framlögðum skýringum og svörum Íslands var veittur til 1. mars 1999.
Viðræður bak við tjöldin
Á nefndarfundinum í morgun gaf Daninn Ole Ploughmann munnlega skýrslu, en hann var tilnefndur af formanni nefndarinnar til að eiga óformlegar viðræður um málið við fulltrúa einstakra ríkja. Hann greindi meðal annars frá spurningum sem borist hefðu frá Evrópusambandinu, Kanada og AOSIS-smáeyjahópnum. Íslenska sendinefndin hafi svarað þeim á skýran hátt og lágu svörin fyrir á sérstöku þingskjali. Sumir hefðu lýst stuðningi við tillögu Íslands en aðrir andstöðu og talið sig þurfa meiri tíma til að skoða tillöguna og geti því ekki fallist á afgreiðslu hennar á þessu þingi. Allir hafi hins vegar lýst sig fúsa til að skoða mál þetta frekar og ræða það á 10. fundi nefndarinnar, sem skili áliti til næsta ársfundar (COP-5).
Talsmaður smáeyjahópsins (AOSIS) hvatti Íslendinga til að líta á aðra kosti sem stæðu þeim opnir innan samningsins. Taldi hann of mikla óvissu þegar tengjast sveigjanleikaákvæðum Kyótó-bókunarinnar.
Ísland lýsti vonbrigðum sínum
Halldór Þorgeirsson lýsti yfir vonbrigðum íslensku sendinefndarinnar með að málið skyldi ekki ná fram að ganga á þessum fundi. Tillaga Íslands feli í sér ávinning á heildina litið í loftslagsmálum og gæfi ekki tilefni til fordæma. Kæmu upp tillögur sem vísuðu í annað ætti að hafna þeim. Lagði hann áherslu á mikilvægi þess að næsta ársþing (COP-5) ljúki afgreiðslu málsins og bæri að skoða það í víðu samhengi en ekki aðeins tæknilega.
Tillagan um að leggja til að fresta afgreiðslu málsins til næsta þings að ári var síðan samþykkt.
Staðan er nú þannig að íslensk stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til þess, hvort þau undirrita Kyótó-bókunina fyrir lokafrestinn, sem er 15. mars 1999, án þess að hafa fengið samþykki fyrir því að undanskilja megi losun gróðurhúsalofttegunda frá stóriðjufyrirtækjum. Það munu margir heima og erlendis fylgjast með því hver niðurstaða íslensku ríkisstjórnarinnar verður í þessu efni.
Hjörleifur Guttormsson.
|