Hjörleifur Guttormsson segir frá síðasta
degi sínum í Alþýðubandalaginu:

 

Munu ósánir akrar vaxa....

 

Þennan laugadagsmorgun 4. júlí vaknaði ég um sjöleytið, óvenju seint með 5 tíma væran svefn að baki. Úti var hægviðri og súld, eitt indælasta veður á Íslandi, og það var hressandi að skokka í Laugardal innan um gróðurinn sem kemur vel undan sólríku vori. Um hugann fór umræða gærkvöldsins á landsfundi Alþýðubandalagsins, þar sem rætt var um framtíð flokksins. Fyrrum ritstjóri Vikublaðsins, Páll Vilhjálmsson, hafði þá varpað fram spurningunni: "Getur halt Alþýðubandalag leitt blindan Alþýðuflokk?" Hann sagði að í uppsiglingu gæti verið risavaxið þingmannabandalag en ekki stjórnmálafl. Erfitt reyndist mér að skilja að hann teldi þó áhættunnar virði að leggja upp í þessa för. Ég hafði notað minn ræðutíma til að vara enn og aftur við afleiðingum þess að fara í sameiginlegt framboð með Alþýðuflokknum. Af kraftmiklu lófataki mátti ætla að margir hugsuðu líkt, en á þessum morgni gerði ég mér þó engar væntingar um að meirihluti risi gegn flokksforystunni.

Yfir morgunkaffinu hugleiddi ég þá kveðjustund sem að öllum líkindum væri í vændum og leit yfir þau 33 ár, sem ég hefði átt samleið með Alþýðubandalaginu. Dagblöðin minntu hins vegar á framhald landsfundarins. Ég vissi að fyrstur á mælendaskrá þessa morguns yrði Hörður Bergmann og ég vildi sýna honum og vettvanginum þann sóma að vera kominn í fundarbyrjun að hlýða á mál manna. Hörður flytur oft góðar hugleiðingar og er flestum "grænni" í hugsun. Samt höfum við sjaldan dregið sömu ályktanir í flokkspólitísku samhengi. Á eftir fylgdu margar gagnmerkar ræður, sumir gerðu sér von um málamiðlun milli stríðandi fylkinga, aðrir töldu mál til komið að fá skýrar línur og ganga til atkvæða um fyrirliggjandi tillögur.

Nokkur uggur var greinilega í liði formannsins eftir öflugan málflutning andstæðinga sameiginlegs framboðs kvöldið áður, undirtektir langt umfram það sem áköfustu sameiningarsinnar höfðu búist við. Þeir sem vildu reyna að miðla málum voru hins vegar kveðnir niður. Þó var búin til smávegis leikflétta í samráði við formann flokksins þess efnis að nokkur atriði úr setningaræðu hennar voru gerð að eins konar viðhengi við framkomna tillögu og nokkrir fulltrúar fluttu það sem sína tillögu. Efnislega skipti þetta engu máli en gat þó haft áhrif á einhverja efasemdarmenn í atkvæðagreiðslu.

Eins og oft á fundum sem þessum skráði ég hjá mér helstu atriði úr máli manna. Þetta er gamall vani, til þess fallinn meðal annars að halda athyglinni vakandi, en kemur líka að notum við úrvinnslu og þátttöku í umræðum. Slíkar óformlegar "fundargerðir" gætu verið fróðlegar fyrir sagnfræðinga sem legðu það á sig síðar meir að fara í gegnum sögu flokksins sem hér var að efna í útför sína. Túlkun á liðinni tíð reynist þó ekki alltaf mikils virði sem leiðsögn. Skoplegasti þáttur fundarins á Sögu var fleiri blaðsíðna tilvitnun Margrétar formanns í Brynjólf Bjarnason til stuðnings sameiginlegu framboði með krötum! Einn andmælenda hennar á fundinum hafði fyrir því að fletta upp í Brynjólfi og auka við tilvitnunina. Stóð þá lítið eftir af sögutúlkun formannsins. Fortíðardýrkun kom reyndar víðar við sögu á þessum fundi, þar sem afi Einar Olgeirsson var orðinn leiðarstjarna fyrir bæði Verðandi og Grósku!

Það var gaman að spjalla við fólk milli þátta, bæði unga og aldna. Í hádegishléi og yfir kaffi "á barnum" opnuðust rifur í girðingar sem lengi hafa stíað mönnum sundur, ekki síst í henni Reykjavík. Það snjallræði að búa til mörg félög á sama stað var uppfinning Ólafs Grímssonar og töskubera hans upp úr 1980, kjörin aðferð til að ala á sundrungu og deila og drottna. Einn ræðumanna á fundinum lýsti þeirri skoðun að best væri að byrja "sameiningarferlið" með því að ná saman félagseiningum flokksins í höfuðstaðnum.

Það rann ótt úr stundaglasinu. Klukkan tvö var eindagi fyrir tillöguflutning og ljóst að forystan hygðist neyta aflsmunar. Helgi Hjörvar, Flosi og Gísli Gunn ráku þá sem hugsanlega hefðu lent í slæmum félagsskap í hádegishléi til baka inn fyrir girðinguna. Nú mætti ekki drepa máli á dreif, hér væri aðeins á ferðinni "tæknilegt úrlausnarefni" og helst þyrfti samþykkt fundarins.að vera afdráttarlausari. Sighvatur yrði að fá skýr svör, og Mörður var kominn á vettvang til að flytja boðin á milli. Aðvaranir Guðrúnar Helgadóttur, Guðmundar Lárussonar og margra fleiri voru léttvægar fundnar.

Það fór svo að mælendaskráin tæmdist þremur stundarfjórðungum áður en greidd skyldu atkvæði samkvæmt auglýstri dagskrá. Eftir því sem leið á daginn fjölgaði statistum, sem lítt höfðu látið sig varða umræðuna en komu til að krossa við. Úrslitin voru nálægt því sem margir í liði Steingríms höfðu búist við, hátt í 70 manns sem greiddu tillögu hans atkvæði.

Ég hafði óskað eftir því við fundarstjóra að fá að segja nokkur orð að atkvæðagreiðslu lokinni. Það var ljúflega heimilað. Ég flutti ávarp í kveðjuskyni, síðustu ræðu á vettvangi flokksins sem sem ég hafði helgað drjúgan hluta af kröftum mínum í aldarþriðjung. Þegar ég gekk úr Súlnasal undir lófataki fylgdu mér nokkrir til dyra. Geðshræringar og hughrif fylgja slíkum stundum. Þetta voru allerfið spor en þeim fylgdi léttir eins og alltaf þegar samviska fær að ráða för. Á leið austur í bæ heyrði ég Ríkisútvarpið endurflytja kveðjuorð mín. Ung var ég gefin Njáli.

Kvöldið og öll helgin leið við símtöl og kveðjur úr mörgum áttum. Allar lutu þær að hinu saman. Eftirminnilegast verður mér samtal við konu um nírætt sem ég hafði ekki heyrt frá í 43 ár. Hún lýsti samstöðu og sagðist ætla að halda sömu leið og ég, út úr flokki sem hún hefði treyst til þessa.

Það hafði glaðnað til er leið á kvöldið og sól kvaddi roðagyllt úr norðri. Að morgni verður hún komin hátt á austurhimin.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim