Vistkreppa eða náttúruvernd Útdráttur úr erindi hjá Stefnu - félagi vinstri manna, 10. september 1998 Fyrirsögn erindisins er sótt í heiti bókar sem út kom árið 1974. Í henni er meðal annars fjallað um Stokkhólmsráðstefnuna um umhverfis mannsins, fyrstu ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um þetta efni 1992. Raktir eru stærstu viðburðir undir merkjum SÞ síðan, stefnumótunin um sjálfbæra þróun, Ríó-ráðstefnan og það ferli sem þar var mótað. Minnt er á kjarna umhverfisvandans, fólksfjölgun, mengun, ósjálfbær efnahagskerfi, félagslega upplausn, misskiptingu og fátækt og hrörnun náttúrulegs umhverfis. Varpað er fram spurningunni, hvort erfðabreytingar fyrir tilstilli mannsins bætist í þetta safn. Efnahagsþróun heimsins er á röngu spori. Ósjálfbær efnahagsvöxtur leiðir af sér mengun og rányrkju. Síaukin efnisleg framleiðsla kallar á meiri orkunotkun. Í markaðskerfinu eru skammtímasjónarmið ráðandi. Óheft vöru- og fjármagnsflæði er æðsta boðorð án tillits til áhrifa á umhverfið. Fjölþjóðafyrirtæki eru ráðandi á markaði og segja ríkisstjórnum fyrir verkum. Misskipting fer hvarvetna vaxandi. Stofnanir eins og Alþjóðabankinn, Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðaviðskiptastofnunin taka í litlum mæli tillit til umhverfismála. Margir fjölmiðlar sinna lítið umhverfismálum og elta gullkálfinn. Tekið er dæmi af alþjóðasamningum um umhverfisvernd, eins og loftslagssamningnum og samningnum um verndun líffræðilegrar fjölbreytni. Við framkvæmd þessara samninga er hlutur Íslands bágborinn. Í síðari hluta erindisins er fjallað um íslenskt umhverfi og bent á margar brotalamir í umhverfismálum hérlendis. Stjórnkerfi umhverfismála er afar veikt, rannsóknir allssendis ónógar, skipulagsmál vanþróuð og löggjöf er úrlent á mikilsverðum sviðum eins og gróður- og náttúruvernd. Í atvinnustarfsemi er teflt á umhverfið, til dæmis við orkuöflun í þágu mengandi stóriðju, með sívaxandi umferð bíla og þungaflutningum, brottkasti fiskafla, ofbeit og með áníðslu á ferðamannastöðum. Þá eru brotalamir ekki síður á stjórnmálasviðinu, stjórnmálaflokkar hlýða ekki kalli tímans, „umhverfissinnar" eru gerðir að blórabögglum í opinberri umræðu og aðstoð við þróunarríki er haldið í lágmarki. Ísland gæti verið til fyrirmyndar í umhverfismálum, en til að svo verði þurfa að koma til róttækar breytingar. Hér þarf vökult og upplýst almenningsálit. Siðræn viðhorf þurfa að styrkjast til muna og fræðslukerfið að sinna kalli. Pólitískan stuðning þarf við skýra vistvæna stefnu. Við þurfum öflugt umhverfisráðuneyti og samstillingu stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga. Starf áhugamanna um umhverfisvernd þarf að efla til muna og styrkja það af opinberu fé sem og önnur almannasamtök sem sinna vilja umhverfisvernd. Virkur stuðningur og gott fordæmi hvers og eins skiptir máli. Franski sjávarlíffræðingurinn Jacque-Yves Cousteau, sem lést fyrr á þessu ári, beindi orðum sínum til ráðamanna í Ríó 1992: „Þið hafið sérstakt tækifæri tækifæri til að breyta gangi heimsins, en aðeins EF þið ákveðið að taka á risavöxnum vandamálum með róttækum lausnum." Það hefur því miður ekki gerst. Ráðamenn hafa brugðist. Því verður almenningur að taka til sinna ráða til að afstýra vistkreppunni.
Umhverfismál og Sameinuðu þjóðirnar * Stokkhólmsráðstefnan um umhverfi mannsins 1972. - Frumkvæði Svía. Sendinefndir frá 114 ríkjum (Ekki Austur-Evrópa). - Yfirlýsing. Áætlun um aðgerðir. Umhverfisskrifstofan (UNEP) í Nairobi. * Brundtland-skýrslan 1987 . - Sameiginleg framtíð okkar.- Sjálfbær þróun - Leiðsögn til lausnar. - Umfjöllun Allsherjarþings leiddi til Ríó-ráðstefnunnar.
* Ríó-ráðstefnan um umhverfi og þróun 1992. - Sendinefndir frá 178 ríkjum. 118 þjóðarleiðtogar. Fundur áhugasamtaka. - Yfirlýsing. Framkvæmdaáætlun (Dagskrá 21). Tveir alþjóðasáttmálar. Fyrirheit um aukin fjárframlög til þróunarmála úr 0.34% í 0.7% af VÞF.
* Aðrar SÞ-ráðstefnur m.a.: - Fólksfjöldi og þróun (Kairó 1994). - Félagsmál og þróun (Kaupmannahöfn 1995) - Fjórða kvennaráðstefnan (Peking 1995) - Árlegar loftslagsráðstefnur (Kyoto 1997). Buenos Aires nóv. 1998.
* Ríó + 5. Aukaþing SÞ í New York 1997. - Stöðumat eftir Ríó. Aukning CO2 13% (frá 1990). Þróunaraðstoð 0.27% !
Sjálfbær þróun hugtak sett fram af nefnd SÞ um umhverfi og þróun 1987 Skilgreining nefndarinnar var m.a. eftirfarandi.:
„Mannkynið getur komið á sjálfbærri þróun - til að tryggja að unnt sé að uppfylla þarfir nútíðar án þess að ganga á möguleika komandi kynslóða til að uppfylla sínar þarfir. Hugtakið sjálfbær þróun felur í sér takmarkanir - ekki algjör takmörk heldur takmarkanir sem lagðar eru á umhverfið og ráðast af núverandi tækni og félagsskipan og hæfni lífhvolfsins til að taka við áhrifum mannlegra athafna. En tækni og félagsskipan er bæði hægt að stjórna og bæta til að ryðja braut fyrir nýju skeiði efnahagsvaxtar."
Alþjóðasamningar á umhverfissviði
Nokkur dæmi: Rammasamningur SÞ um loftslagsbreytingar Undirritaður í Ríó í júní 1992, staðfestur af Íslandi 21.mars 1994 Staða Íslands, sjá svar umhverfisráðherra við fsp. HG um losun gróðurhúsalofttegunda, þingskjal 513/121.löggjafarþing. (janúar 1997) Samningurinn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni Undirritaður í Ríó í júní 1992, staðfestur af Íslandi 10. des. 1994 Staða Íslands , sjá svar umhverfisráðherra við fsp. HG þskj. 1169/122.löggjafarþing (mars 1998). Samningur um bann við losun þrávirkra efna (POPs). Á undirbúningsstigi. Samningaviðræður hófust í júlí 1998.
Samningurinn um verndun líffræðilegrar fjölbreytni (í gildi hérlendis frá 10.des.1994)Markmið: * að tryggja líffræðilega fjölbreytni, * að tryggja sjálfbæra nýtingu líffræðilegra auðlinda * að stuðla að sanngjarnri skiptingu hagnaðar af nýtingu erfðaauðlinda. Framkvæmd: Fyrst á fyrrihluta árs 1998 skipaði umhverfisráðuneytið samráðsnefnd um samninginn. Hlutverk nefndarinnar er að „fylgjast með þróun samningsins og gera tillögur um framfygd hans hér á landi." Í nefndinni eiga sæti fulltrúar fjögurra ráðuneyta (umhverfis-, sjávarútvegs-, landbúnaðar- og utanríkisráðuneytis). Náttúrufræðistofnun Íslands , sem falin var umsjón með samningnum, hefur unnið ýmsa undirbúningsvinnu með tilliti til ákvæða hans og sinnt aðilarríkjafundum og tekið virkan þátt í starfi vísindanefndar samningsins.
Kjarni umhverfisvandans
* Fólksfjölgun
* Mengun
* Ósjálfbær efnahagskerfi
* Félagsleg upplausn
* Misskipting og fátækt
* Hrörnun náttúrulegs umhverfis
Í uppsiglingu til viðbótar: * Erfðabreytingar
Efnahagsþróun á röngu spori * Ósjálfbær efnahagsvöxtur - mengun og rányrkja
* Aukin efnisleg framleiðsla = vaxandi orkunotkun
* Markaðskerfi - skammtímasjónarmið ráðandi
* Óheft vöru- og fjármagnsflæði - skítt með umhverfið
* Vaxandi misskipting hvarvetna
* Fjölþjóðafyrirtæki ráðandi, segja ríkisstjórnum fyrir.
* Alþjóðastofnanir með umhverfismál víkjandi Alþjóðabankinn (World Bank) Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn (IMF) Alþjóða viðskiptstofnunin (WTO) Fjárfestingasamningur OECD (MAI)
* Fjölmiðlar - elta margir gullkálfinn
Íslenskt umhverfi
Jákvæðir þættir:
* Fámenni - Óbyggð víðerni
* Eyland í reginhafi
* Endurnýjanlegar náttúruauðlindir - sjávarlíf og orka -
* Gnægð grunnvatns
Viðkvæmir þættir m.a.:
* Fábrotin vistkerfi
* Öskuborinn jarðvegur
* Loftslagssveiflur
Brotalamir í umhverfismálum hérlendis - Nokkur dæmi * Afar veikt stjórnkerfi umhverfismála Umhverfisráðuneyti á pólitískum berangri Stofnanir umhv.mála í fjársvelti (NVR, HVR ofl.) Náttúruverndar- og gróðurverndarnefndir óvirkar Fræðsla situr á hakanum Vöktun og eftirlit í molum * Alþjóðasamningar sniðgengnir Loftslagsbreytingar Mengandi stóriðja (rúm starfsleyfi) * Rannsóknir á íslenskri náttúru og umhverfi alls ónógar Kortagrunnur í brotum Lífríkis- og jarðfræðirannsóknir Hafrannsóknir * Skipulagsmál vanþróuð Höfuðborgarsvæðið Dreifbýli Óbyggðir/miðhálendið * Sveitarfélög að rumska Staðardagskrá 21 að byrja Skipulag og náttúruhamfarir Verndun menningarminja * Löggjöf úrelt eða vantar: Dæmi: Gróðurvernd. Náttúruvernd. Mat á umhverfisáhrifum. * Atvinnustarfsemi andstæð umhverfinu. Dæmi:Orkuöflun (virkjanir) til mengandi stóriðju Mengun frá iðnaði Umferð, þungaflutningar Brottkast fiskafla Ofbeit/sauðfé/hross Áníðsla á ferðamannastöðum * Félagslegar brotalamir: - Stjórnmálaflokkar hlýða fæstir kalli - „Umhverfissinnar" gerðir að blóraböggli
Ísland til fyrirmyndar - hvað þarf til?
* Vökult og upplýst almenningsálit
* Siðræn viðhorf og uppeldi
* Gott fræðslukerfi
* Pólitískan stuðning og skýra stefnu
* Vistvæna mælikvarða á öllum sviðum Með náttúrunni - ekki á móti
* Öflugt umhverfisráðuneyti
* Samstillingu stjórnkerfis ríkis og sveitarfélaga
* Stuðning við starf áhugafélaga og almannasamtaka
Vistkreppan - tilvitnun í Erazim Kohák, prófessor í heimspeki við Karlsháskólann í Prag og Boston-háskólann.
Of lengi höfum við látið skeika að sköpuðu um gerðir okkar. Sem Evrópubúar og einstaklingar höfum við einbeitt okkur að því að ná markmiðum okkar, án þess að hugsa mikið um hver markmiðin séu eða eigi að vera, - hvað sé okkur mikilvægt. Að mestu höfum við látið hefðir árþúsunda ráða vali okkar. Þessar hefðir endurspegla hins vegar aðstæður ólíkar þeim sem við búum nú við. Lengst af því skeiði sem maðurinn hefur byggt jörðina hefur náttúran verið gjöful, víðfeðm og endurnýjað sig. Menn rétt lifðu af í rjóðrum í víðáttunni. Verkefnin voru að safna viðurværi úr umhverfinu, vitandi að geta sjaldan fengið nóg og aldrei og mikið. Þessar venjur blunda enn í okkur, móta forgangsröð okkar, jafnvel þótt aðstæðurnar hafi breyst gífurlega. Nú á tímum eru það mennirnir sem eru margir og búa við gnægðir, en náttúran er orðin fátæk og í hættu. Við þessar mjög svo ólíku aðstæður eru ekki lengur við hæfi venjuhelguð markmið okkar að komast yfir meira, einfaldlega meira.Sú hugmynd okkar, studd venju um aldir, að meira sé alltaf betra, er undirrót vistkreppunnar. Við þurfum nauðsynlega að endurmeta forgangsröðina. Það er ekki lengur nóg að ætla aðeins að laga það sem úrskeiðis hefur farið. Við efumst þó ekki augnablik um gildi úrbóta. Við þurfum vissulega að þróa nýja orkugjafa og læra að nota þá af forsjálni, við þurfum nýja skaðlausa tækni og nýjar aðferðir við að meðhöndla úrgang. En slík viðleitni mun reynast gagnslaus ef ráðandi markmið siðmenningar okkar verður áfram venjubundin, hugsunarlaus sókn eftir meira. (Úr inngangsávarpi á fundi Dobris-ráðstefnu 22. júní 1991)
Maurice Strong við setningu Ríó-ráðstefnunnar 1992: „Kjarni þeirra mála sem við munum fjalla um hér er eftirfarandi: * Framleiðsluferli og neysla í iðnvæddum hluta heimsins, sem er að grafa undan burðarásum lífs á jörðinni. * Sprenging í fólksfjölgun sem bætir við fjórðungi úr milljón daglega. * Dýpkandi gjá mismununar milli ríkra og fátækra sem skilur 75% mannkyns eftir við kröpp kjör.
Fidel Castro á Ríó-ráðstefnunni 1992 „Þegar horfin er ógnin sem sagt var að stafaði af heimskommúnismanum og ekki er lengur hægt að bera fyrir sig kalt stríð, hernaðarkapphlaup og útgjöld til hermála, hvað er það sem kemur í veg fyrir að þegar í stað sé notað það sama fjármagn til að stuðla að þróun í þriðja heiminum og til að bægja frá ógninni af eyðingu vistkerfa jarðarinnar?" Eiður Guðnason umhverfisráðherra í ræðu á Ríó-ráðstefnunni 6. júní 1992: „ Í gær undirritaði ég fyrir Íslands hönd Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Í næstu viku geri ég ráð fyrir að undirrita Sáttmálann um líffræðilega fjölbreytni. Þótt ljóst sé að miklu meira verður að gerast til að samkomulag takist um beinar skuldbindingar til að ná markmiðum þessara sáttmála lítum við á þá sem áþreifanlega viðurkenningu á þeim áhyggjum sem við deilum með öðrum á þessari ráðstefnu." Jacque-Yves Cousteau á fundi í tengslum við Ríó-ráðstefnuna 4. júní 1992: „ Hjá þjóðum í suðri hefur 20. öldin leitt af sér fátækt og hungur, en í norðri og vestri hefur hún skapað glundroða og ringulreið. Ringulreið milli upplýsingar og menntunar, ánægju og gleði, peninga og siðgæðis, hefðar og nýunga, áhættu einstaklinga og áhættu fyrir aðra, jafnvel hina óbornu. Háskólar eru orðnir vinnumiðlanir, frjálst framtak er að leiða til hróplegs misréttis. Yfirdrottnun gullkálfsins, hvers lögum við lútum, er að setja lokamark sitt á aflífun alls siðgæðis, sem ekkert samfélag hefur þó hingað til komist af án... Ósk mín er að þessi Ríó-ráðstefna, þjóðarleiðtogar og fulltrúar þeirra, átti sig á knýjandi nauðsyn, róttækra, óhefðbundinna ákvarðana. Þið hafið sérstakt tækifæri til að breyta gangi heimsins...en aðeins EF þið ákveðið að taka á risavöxnum vandamálum með róttækum lausnum. Heimsbyggðin bíður milli vonar og ótta eftir nýju ljósi. Slík er ábyrgð okkar, því að það erum við sem höfum í hendi okkar framtíð kröfuharðra kynslóða morgundagsins."
|