Hjörleifur Guttormsson:

Atvinnuleysið hérlendis og afleiðingar þess.

 

Fjórföldun á þremur árum

Atvinnuleysi var óverulegt hér á landi lengst af í tvo áratugi, þ.e. á tímabilinu frá 1970-1989 og mældist oftast innan við 1% að meðaltali á ári. Á árunum 1989-1991 fór atvinnuleysi vaxandi en mældist þó vel innan við 2%. Þannig mældist atvinnuleysi að meðaltali aðeins 1,5% árið 1991 og voru þá að jafnaði um 1900 manns atvinnulausir. Síðan hefur hallað jafnt og þétt á ógæfuhlið. Árið 1992 var atvinnuleysi 3% að meðaltali, árið 1993 4,2% en var komið í um og yfir 6% á fyrsta ársfjórðungi 1994. Nú eru nær 8000 manns skráð atvinnulaus og er það hærri tala en áður hefur sést hérlendis. Innan ára hafa verið sveiflur sem felast í því að dregið hefur úr atvinnuleysi yfir sumarið en mest hefur það verið í desember og janúar.

Á árinu 1992 skiptist atvinnuleysi jafnt milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar, en 1993 óx það hlutfallslega meira á höfuðborgarsvæðinu. Þá jókst atvinnuleysi einnig meira meðal kvenna en karla og í febrúar 1994 var svo komið að atvinnuleysi meðal kvenna nam 7% yfir landið í heild en var þá um 5% hjá körlum. Áberandi er að atvinnuleysi var þá mun meira meðal kvenna á landsbyggðinni í öllum kjördæmum en á höfuðborgarsvæði og gætti þar enn að einhverju leyti áhrifa sjómannaverkfalls.

 

Gífurlegur þjóðhagslegur kostnaður

Vorið 1993 samþykkti Alþingi tillögu frá þingmönnum Alþýðubandalagsins um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis. Ályktunin gerir ráð fyrir að kannaðar verði takmarkanir bótakerfis fyrir atvinnulausa og hvernig breyta þurfi stuðningi við þá, hvernig unnt sé að bæta aðgengi atvinnulausra að menntakerfinu, ekki síst að starfsmenntun og starfsþjálfun, og hver sé þjóðfélagslegur kostnaður vegna atvinnuleysis.

Samkvæmt ákvæðum þessarar samþykktar Alþingis lagði félagsmálaráðherra sl. vetur fram skýrslu um rannsókn á afleiðingum atvinnuleysis og var hún rædd á þinginu þann 11. maí sl. Þar koma m.a. fram útreikningar frá Þjóðhagsstofnun um kostnað vegna atvinnuleysis byggðar á talnaefni frá árinu 1992. Áætlað er að hver atvinnulaus einstaklingur kosti samfélagið 1,5 milljónir króna sem miðað við 5% atvinnuleysi að meðaltali á yfirstandandi ári svarar til 8 miljarða. Er þá dregið frá það sem talið er "náttúrulegt atvinnuleysi" sem svarar til 1150 manns og er þá miðað við meðaltal áranna 1980-1991.

 

Stjórnarstefnan og atvinnuleysið

Ekki er dregið í efa að ýmsar ytri aðstæður hafa átt þátt í að magna upp atvinnuleysið hér á landi, bæði minnkandi þorskafli og efnahagssamdráttur í viðskiptalöndum. Hitt blasir jafnframt við að stefna núverandi ríkisstjórnar hefur síst verið til þess fallin að draga úr atvinnuleysi og skeytingaleysi gagnvart atvinnuþróun og hefur magnað upp vandann. Sú hávaxtastefna sem ríkisstjórnin fylgdi þar til á síðasta hausti virkaði lamandi á atvinnulífið og dró úr viðleitni til nýsköpunar. Einblínt var á erlenda álbræðslu sem allsherjarlausn í atvinnuuppbyggingu og efnt til sérstakrar samkeppni milli landshluta um hnossið. Þá átti samningurinn um Evrópskt efnahagssvæði þegar að færa mikla björg í bú, en áróðurinn um skjótan ávinning af honum hefur hljóðnað eftir að samningurinn var knúinn fram á Alþingi.

Áhrifin af EES og GATT-samningnum verða m.a. þau að íslenskt atvinnulíf og þjónustustarfsemi lendir í harðari samkeppni en áður hefur þekkst á flestum sviðum. Fjöldi starfa mun óhjákvæmilega tapast, ekki aðeins í landbúnaði heldur einnig í samkeppnisiðnaði og á fleiri sviðum. Jafnframt skapast hætta á fjárflótta til útlanda eftir að fjármagnsflutningar verða óheftir. Mikil óvissa er um að ný störf verði sköpuð til mótvægis þannig að horfur að óbreyttri stefnu eru vægast sagt dökkar.

 

Ófullnægjandi aðgerðir

Í tengslum við kjarasamninga hafa stjórnvöld verið knúin til að leggja fram fé til atvinnuskapandi verkefna umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir á fjárlögum. Á síðasta ári var einkum um að ræða viðbótarfé til að flýta ráðgerðum vegaframkvæmdum. Í ár er Atvinnuleysistryggingasjóði ætlað að leggja fé í átaksverkefni til atvinnusköpunar á vegum ríkis og sveitarfélaga og þannig vonast til að skapa megi um 1400 ný störf. Á vegum margra sveitarfélaga,verkalýðsfélaga, atvinnumálanefnda og atvinnuþróunarfélaga í kjördæmunum hefur verið unnið ágætt starf til að hamla gegn atvinnuleysinu, sem ella hefði orðið mun nærgöngulla. Sama máli gegnir um námskeið til starfsþjálfunar og endurmenntunar launafólks. Slíka starfsemi þarf að efla, en hún nægir ekki ein og sér til að sigrast á atvinnuleysinu.

Í skýrslu félagsmálaráðherra til Alþingis er í fylgiskjali að finna yfirlit um fjölþættar vinnumarkaðsaðgerðir sem ráðist hefur verið í á öðrum Norðurlöndum. Það vekur athygli að í greinargerð félagsmálaráðherra er sértaklega tekið fram, að "ríkisstjórnin telur vegna stöðu ríkissjóðs ekki tímabært að ráðast í umfangsmiklar aðgerðir eins og þær sem fjallað er um í fylgiskjali 3". Takmarkaður áhugi ríkisstjórnarinnar á að ráðast gegn atvinnuleysinu birtist einnig í því að frumvarp sem lá fyrir Alþingi um ný lög um vinnumiðlun var látið óafgreitt og ekki sett á neinn forgangslista.

 

Bættar tryggingar og krafa um jöfnuð

Þótt lögum um atvinnuleysistryggingar hafi verið breytt til bóta á síðasta ári, m.a. að kröfu Alþýðubandalagsins og verkalýðshreyfingarinnar, skortir enn mikið á að staða atvinnulausra sé viðunandi. Dregist hefur úr hömlu að framfylgja lögunum, m.a. að því er varðar sjálfstætt starfandi sem missa vinnu sína. Á það m.a. við um trillusjómenn og vörubílstjóra. Þá er staða fólks sem verið hefur utan vinnumarkaðarins en leitar eftir vinnu allsendis óviðunandi. Í þeim hópi er fólk sem er að koma úr námi, fæðingarorlofi eða veikindum eða þá ólaunuðum störfum svo sem heimavinnandi og hvorki á möguleika á vinnu eða atvinnuleysisbótum.

Við stöndum frammi fyrir því að misskipting í landinu fer ört vaxandi. Annars vegar eru þeir mörgu sem fylla láglaunahópana eða draga fram lífið á atvinnuleysisbótum eða enn óvissari framlögum. Hins vegar þeir sem aukið hafa tekjur sínar mitt í kreppunni og lifa í vellystingum, og greiða sumir hverjir ekki einu sinni tilskilin gjöld í sameiginlega sjóði. Það er þessi misskipting sem er svartasti bletturinn á samfélagi samtímans. Snúast verður af einbeitni gegn misskiptingunni og smán atvinnuleysis og fátæktar og reisa á ný kröfuna um jöfnuð og þjóðlegt sjálfstæði.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 

 


Til baka | | Heim