Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (9.grein)
11. nóvember 1998
GLOBE-þingmenn styðja jafnræði
Það eru ekki aðeins ráðherrar sem bæst hafa í hóp þeirra sem sækja loftslagsþingið í Buenos Aires. Þingmenn úr GLOBE-samtökunum halda hér fundi þessa daga og leitast við að hafa áhrif á gang mála. GLOBE er skammstöfun á ensku heiti samtakanna: Global Legislators Organisation for a Balanced Environment, sem á íslensku gæti heitið Alþjóðleg þingmannasamtök um umhverfi í jafnvægi. Þau voru upphaflega stofnuð árið 1994 af þingmönnum innan Evrópusambandsins og með þátttöku frá öðrum Evrópuríkjum, þar á meðal frá Íslandi. Síðan hefur GLOBE stöðugt verið að færa út kvíarnar og spannar nú alla heimshluta. Þingmenn eru í GLOBE sem einstaklingar en ekki sem formlegir fulltrúar þjóðþinga. Yfir 50 GLOBE-þingmenn hittust hér í Buenos Aires á fyrsta fundi 10. nóvember og koma saman öðru hvoru til loka loftslagsráðstefnunnar. Meðal þeirra eru 5 þingmenn frá hverju Norðurlandanna nema undirritaður er einn frá Íslandi.
Afskipti GLOBE af loftslagsmálunum
GLOBE-samtökin hafa ítrekað fjallað um loftslagsmál á undanförnum árum, síðast á fundi í Cape Cod í Bandaríkjunum síðla í ágúst 1998. Þar var samþykkt ítarleg ályktun um viðbrögð við loftslagsbreytingum og minnt á lokamarkmið loftslagssamningsins frá 1992 "að halda styrk gróðurhúsalofttegunda í andrúmsloftinu innan þeirra marka að komið verði í veg fyrir hættulega röskun á loftslagskerfinu af manna völdum." Lýst er stuðningi við Kyótó-bókunina sem grunni að frekari viðbrögðum við loftslagsbreytingum og lögð áhersla á að iðnríkin standi við yfirlýst markmið um samdrátt í losun. Þess verði sérstaklega gætt að sveigjanleikaákvæði bókunarinnar komi sem viðbót við niðurskurð gróðurhúsalofttegunda í hverju landi. Þess verði einnig gætt að þáttur skóga í bindingu stuðli að varðveislu og vexti skóga með fjölbreyttu lífríki.
Samdráttur með jöfnuði á heimsvísu
Sérstaka athygli hlýtur að vekja að GLOBE-samtökin taka nú ákveðið undir hugmyndina um samdrátt gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu á þann hátt að stefnt sé að jafnri losun á íbúa hvar sem er í heiminum. Þetta hefur á ensku verið kallað Contraction and Convergence og hefur Global Commons Institute í London átt mestan þátt í að plægja akurinn fyrir slíka nálgun. Með þessu yrði lagður alveg nýr grunnur að samkomulagi allra ríkja heims um framtíðarmarkmið, sem tryggja myndi hagsmuni þróunarríkja ekki síður en iðnríkja. Krafa þróunarríkjanna er einmitt um slíka nálgun með jöfnuð (equity) miðað við íbúatölu að leiðarljósi. "Ekki er hægt að leysa loftslagsvandamálin án einhvers réttlætis á veraldarvísu. Það er iðnaður okkar sem hefur skapað vandamálið. Almennar siðaprédikanir nægja ekki. Við verðum að sýna vilja til jafnræðis, ekki yfirgang (partnership, not domination)", sagði íhaldsþingmaðurinn John Gummer á fundi Globe-þingmanna síðastliðinn þriðjudag.
Skrifa Bandaríkin undir á næstu dögum
Nú er hver síðastur að brjóta ísinn þannig að Buenos Aires þingið skili árangri. Þar reynir á forsvarsmenn iðnríkjanna öðrum fremur ekki síst á Bandaríkjastjórn. Nokkrar líkur eru taldar á því að Al Gore varaforseti leggi leið sína hingað í dag eða á morgun með penna í hendi. Undirskrift Bandaríkjanna undir Kyótó-bókunina væru tíðindi sem tekið væri eftir.
Hjörleifur Guttormsson.
|