Hjörleifur Guttormsson:

 

Frá Ríó til Fljótsdalshéraðs

[Erindi á fundi um Lífræna ræktun á Egilsstöðum 12. apríl 1996]

 

Góðir ráðstefnugestir.

Túnrækt og garðrækt fyrri tíðar hér á landi eins og víðast hvar annars staðar byggði á lífrænum ræktunaraðferðum. Mikill hluti heyskapar fór þó fram á útengi, votlendi og flæðiengjum sem gátu jafnast á við bestu tún. Kvikfjárræktin, einkum sauðfjárbúskapur, hvíldi hins vegar að miklu leyti á eins konar hjarðmennsku þar sem fé var haldið til beitar mikinn hluta ársins og beitt var á guð og gaddinn á meðan einhver snöp var að hafa.

Fram um miðja öldina var húsdýraáburður hérlendis gjörnýttur á tún, í garða og sem eldsneyti og tilbúinn áburður sjaldséður. Sá sem hér talar ólst upp hér inni í dalnum fyrir miðja þessa öld við landbúnað og garðyrkju, þar á meðal trjáplöntuuppeldi og allt hvíldi það á lífrænum grunni, eins og nú er farið að skilgreina það hugtak. Aðeins hestafl og hestaverkfæri komu þar við sögu auk mannshandarinnar.

Síðan kom stökkið mikla inn í vélvæddan landbúnað og tilbúinn áburð og þar voru Héraðsbúar seinni til en bændur t.d. á Suðurlandi. Eins og verða vill um þá sem seint taka nýjungum sneru hér sumir dæminu rækilega við og þess finnast dæmi að tað- og mykjuhaugar stóðu óhreyfðir árum saman eða þangað til jarðýtu bar að til að hægt væri að fjarlægja þá frá húsum með jarðýtu til fyllingar í nærliggjandi lægð.

Nú erum við hér saman komin kynslóð seinna til að ræða um hvort ekki sé rétt að taka að nokkru upp búskaparhætti fyrri tíðar, gjörnýta húsdýraáburð og annan lífrænan úrgang til viðhalds jarðvegi og gróðri og bjóða afurðirnar sem hollustuvöru á markaði.

Sumpart kemur þetta ekki til af góðu. Reynslan af óhóflegri og langvarandi notkun tilbúins áburðar, að ekki sé talað um skordýraeitur, hefur kennt mönnum víða um lönd dýrkeypta lexíu sem ekki sér fyrir endann á. Drjúgum hluta af fæðubúskap mannkyns er nú haldið uppi með ræktunaraðferðum sem ekki geta talist sjálfbærar. Afleiðingunum var einna fyrst lýst í bók Racel Carson Raddir vorsins þagna sem út kom 1968.

Ræktunararaðferðir fyrri tíðar héldu þó sumsstaðar velli, jafnvel í iðnvæddum hluta heimsins, bornar uppi af sérvitringum sem svo eru kallaðir bæði meðal bænda og neytenda. Fyrsti vísir þeirra alþjóðasamtaka lífrænna landbúnaðarhreyfinga (IFOAM) sem Bernward Geier er hér fulltrúi fyrir mun hafa orðið til upp úr 1970 um það leyti sem Sameinuðu þjóðirnar fyrst tóku umhverfismál á dagskrá og haldin var Stokkhólmsráðstefnan um umhverfi mannsins 1972. Sá markverði fundur nægði hins vegar engan veginn til að fá samfélag þjóðanna til að rumska fyrir alvöru. Þegar Sameinuðu þjóðirnar næst boðuðu til heimsráðstefnu um umhverfismál tveimur áratugum síðar í Ríó de Janeiro var talað um 20 töpuð ár frá ráðstefnunni í Stokkhólmi og að slíkt mætti ekki endurtaka sig.

Í vor verða fjögur ár liðin frá ráðstefnunni í Ríó. Aldrei fyrr hafa ríkisstjórnir skrifað undir jafn skorinorðan texta um nauðsyn víðtækrar stefnubreytingar til að vernda umhverfi jarðar og bjarga þannig mannkyni frá fyrirsjáanlegum hörmungum. Í Ríó-yfirlýsingunni er að finna sameiginlegar heitstrengingar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna um bætta umgengni við móður jörð og auðlindir hennar. Í framkvæmdaáætlun í 40 köflum, sem ber heitið Dagskrá 21 og á að vísa til næstu aldar er í einstökum atriðum fjallað um markmið og leiðir til að ná árangri.

Í lokaorðum sínum á Ríó-ráðstefnunni minnti framkvæmdastjóri hennar, Kanadamaðurinn óþreytandi Maurice Strong, á óvissa framtíð mannkyns með þessum orðum: "Það er eftir að sjá hvort pláneta okkar er á nýrri braut. Margt hefur verið samþykkt og við höfum nú grunn að langtum gæfulegri framtíð en var til staðar við upphaf ráðstefnunnar. En við verðum að hafa pólitískan vilja til að gera hana að veruleika."

Enn er of snemmt að kveða upp allsherjardóma um áhrif Ríó-samþykktanna. Fullyrða má að samþykktir ráðstefnunnar og viðvera 115 þjóðarleiðtoga við afgreiðslu þeirra hafi haft umtalsverð áhrif á stjórnarathafnir víða um heim á þeim árum sem liðin eru frá ráðstefnunni. Um róttæka stefnubreytingu í heimsviðskiptum og öðrum þáttum sem mestu ráða um samskipti manna við móður náttúru er hins vegar ekki að ræða. Svo mikið er víst að GATT-samkomulagið frá 1994 og starfsreglur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar WTO eru ekki líkleg forskrift til að skila þeim árangri sem lýst var eftir í Ríó. Hugmyndirnar um sérstaka græna GATT-lotu hafa heldur ekki fengið miklar undirtektir og kannski bjó aldrei alvara að baki þeim fyrirheitum. Óheft samkeppni er helsta leiðarstjarna heimsviðskipta, og lítið er rætt um afleiðingarnar fyrir umhverfið eða skiptingu afrakstursins milli þjóða og þjóðfélagshópa.

Hvernig rímar svo stefnan um lífræna ræktun saman við forskriftina frá Ríó? Í Dagskrá 21 er sérstakur kafli (nr. 14) um sjálfbæran landbúnað og þróun til sveita. Meginmarkmiðið er þar talið vera að auka sjálfbæra fæðuframleiðslu og að bæta gæði og öryggi fæðunnar. Ríkisstjórnir eru m.a. hvattar til að setja lög og reglur sem ýti undir frumkvæði og þróun í þessa átt, þar á meðal sjálfbæran landbúnað sem ekki kallar á mikla orkunotkun og byggir á gömlum hefðum og lífrænum og vistvænum framleiðsluferlum á mörgum sviðum.

Meðal aðgerða er hvatt til að þróa og miðla til bænda upplýsingum um ræktunaraðferðir svo sem sáðskipti, lífrænan áburð og tækni sem felur í sér minni notkun tilbúins áburðar og bætta nýtingu úrgangs og uppskeru. Þá er hvatt til samþættingar akuryrkju og skógræktar og bent á trjárækt á vegum bænda sem æskilega stuðningsgrein. Í framkvæmdaáætluninni er einnig lögð áhersla á að samþætta kerfisbundið lífræna og ólífræna áburðargjöf til að viðhalda frjósemi jarðvegs og ýta undir nýtingu lífræns og ólífræns úrgangs í sama skyni.

Af þessu má vera ljóst að stefnan um lífræna ræktun og endurnýtingu sækir stuðning í samþykktir Ríó-ráðstefnunnar þótt ekki hafi þar verið fjallað um nánari útfærslu eða aðlögun að aðstæðum eftir löndum og heimshlutum.

Eitt af kjörorðunum sem spruttu upp úr jarðvegi Ríó-ráðstefnunnar er "Þú skalt hugsa á heimsvísu en hrinda í framkvæmd heima fyrir". Og þar með erum við aftur komin til Íslands og hingað austur á Hérað. Á síðustu árum hefur vaknað hér á ný áhugi á lífrænni ræktun meðal bænda og neytenda. Þessi vakning hófst á Suðurlandi í Mýrdal þar sem efnt var til þróunarverkefnisins Lífrænt samfélag og í uppsveitum Suðurlands þar sem nokkrir bændur stofnuðu samtökin Verndun og ræktun, skammstafað VOR, sem nú hafa þróast í landssamtök. Haustið 1994 heimsótti umhverfisnefnd Alþingis Mýrdælinga og kynntu nefndarmenn sér starfsemi bænda og sveitarfélagsins. Alþingi hefur síðan sett lög um lífræna ræktun og gefin hefur verið út reglugerð á grundvelli þeirra laga og önnur um vistvænan búskap með vísan í búvörusamning. Staðlar hafa verið settir og innlend vottunarþjónusta fyrir lífræna ræktun er að hefja starfsemi. Nokkrir tugir bænda hugsa nú þegar af alvöru um að hefja framleiðslu og markaður fer vaxandi þótt í smáu sé. Miklu skiptir að þróun framleiðslu og eftirspurnar á þessu sviði haldist hönd í hönd og þróun markaðarins fyrir lífrænar afurðir ræður úrslitum.

Á Fljótsdalshéraði ættu að vera góðir möguleikar á lífrænni ræktun sem tengjast þyrfti grænni ímynd svæðisins. Í Vallanesi hefur þegar verið unnið brautryðjendastarf sem vakið hefur athygli margra og sýnir hvað unnt er að gera, m.a. með tilkomu skjólbelta. Mikilvægt er að sveitarstjórnir hlúi að þessum málum og stilli saman kraftana og búi í haginn fyrir græna vistvæna þróun. Sú staðreynd að allir oddvitar sveitarstjórna á svæðinu standa að þessari ráðstefnu lofar vissulega góðu.

Ætli menn sér af alvöru að taka á því verkefni að gera atvinnulíf á Héraði sjálfbært á sem flestum sviðum þarf afar margt að koma til. Hugsun og orð eru til alls fyrst, að átta sig á forsendunum, hverju þarf að breyta og hvað ber að varast. Stefnuna þarf síðan að festa í skipulag sem taki til allrar landnotkunar og sé í senn sveigjanlegt og vísi veginn.

Skógrækt og skógvernd sem gildur þáttur í landnotkun á svæðinu þarf að vera hér virkur þáttakandi og þeir sem að henni standa þurfa að spyrja sig spurninga um markmið og leiðir og vera opnir fyrir gagnrýni. Þetta á einnig við um uppbyggingu ferðaþjónustu á svæðinu, sem gæti sótt verulegan stuðning í græna ímynd sem risi undir nafni. Víðtæk náttúruvernd er undirstöðuatriði til að ímyndin verði trúverðug svo og umhverfisvæn stefna á öllum sviðum, m.a. í orkuöflun og orkunýtingu. Lífræn ræktun er miklivægur hlekkur í þessari keðju. Menn standa hér með vissum hætti á krossgötum. Valið ætti að vera auðvelt því að aðeins græna slóðin er fær þótt ekki sé hún fyrirhafnarlaus, - hinar allar enda fyrr eða síðar í blindgötu.

Hjörleifur Guttormsson

----------------

 

 

 


Til baka | | Heim