Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (10.grein)

12. nóvember 1998

 

 

Þrátefli og fáar opnanir sýnilegar

Nú eru aðeins tveir dagar eftir af fjórða loftslagsþinginu og mikil alvara að færast yfir ráðstefnusali hér við móðuna miklu La Plata. Í gærmorgun ávarpaði forseti Brasilíu, Carlos Menem, ráðstefnuna. Á eftir fylgdu ræður forsvarsmanna stofnana Sameinuðu þjóðanna, sem röktu hver sinn hlut að aðgerðum tengdum loftslagsbreytingum. Í þessum ræðum kom fram mikill fróðleikur og líka pólitísk skilaboð. Mesta athygli vakti yfirlýsing Argentínuforseta þess efnis að ríkisstjórn hans muni taka á sig skuldbindingar um losun gróðurhúsalofttegunda og tilkynna um þær á næsta ársþingi. Með þessu er gestgjafi ráðstefnunnar, sem um leið er talinn tryggasti bandamaður Bandaríkjastjórnar í Rómönsku Ameríku, að reyna að fá hjólin til að snúast í von um að þessi fundur fái ekki slæm eftirmæli. Það stóð heldur ekki á því að aðalsamningamaður Bandaríkjanna, Stuart Eizenstat, þakkaði stuðninginn í formlegri fréttatilkynningu. Argentína hafi sýnt hugrekki og veitt forystu sem fleiri þyrftu að fylgja.

Andstaða þróunarríkja við skuldbindingar

Þessar merkjasendingar eru hluti af einu helsta ásteytingsefni fundarins. Bandaríkin gera kröfu til þróunarríkja um að þau taki á sig skuldbindingar, en forystulönd G-77 ríkjahópsins og Kína vilja ekki heyra á minnst. Þótt nokkur þróunarríki séu á mildari nótum og telji rétt að opna á umræðu um málið, er tvísýnt fyrir þau að rjúfa samstöðuna. Það er mjög erfitt að sjá hvaða raunverulega þýðingu hafi skuldbindingar að eigin vali (voluntary contributions). Athyglisvert er að umhverfismálaráðherra Kanada, Christine Stewart, segist í viðtali í gær efast um að nú sé rétti tíminn fyrir þróunarríkin að skuldbinda sig, meðal annars á meðan ekki sé búið að ganga frá leikreglum um nýja tækniþróunarkerfið (CDM), sem koma eigi þeim til góðs. Opinber afstaða þróunarríkjahópsins er skiljanleg, bæði í ljósi ákvæða loftslagssamningsins og þess að iðnríkin losa enn sem komið er mun meira af gróðurhúsalofttegundum en þau samanlagt. Sagt er að Texas losi meira af koldíoxíði í andrúmsloftið en 93 þróunarríki samanlagt! Krafan um jafnt aðgengi að lofthjúpnum miðað við íbúafjölda hefur líka vaxandi hljómgrunn, einnig innan iðnríkjanna, sbr. afstöðu GLOBE.

Rætt um loftslagsbreytingar sem staðreynd

Það kemur á óvart hversu fyrirvaralaust er hér rætt um loftslagsbreytingar af mannavöldum. Á þessu hefur orðið mikil breyting frá því önnur skýrsla Alþjóða vísindanefndarinnar (IPCC) kom út 1995. Það er nánast sama hvar gripið er niður í ræður á þinginu, yfirgnæfandi meirihluti talar um loftslagsbreytingarnar af mannavöldum sem staðreynd. Meira að segja Stuart Eizenstat ræddi um þetta af sannfæringu á blaðamannafundi í fyrradag. Obasi, framkvæmdastjóri Alþjóða veðurathuganastofnunarinnar (WMO), dró stöðuna mjög skýrt fram í ávarpi sínu til þingsins í gær: 30% aukning koldíoxíðs í andrúmsloftinu frá því fyrir iðnbyltingu, þar af helmingur tilkominn eftir 1950, hvert hitametið slegið milli ára að undanförnu, styrkleiki El Nino fyrirbærisins 1997-98 líklega sá mesti á sögulegum tíma og "öfgar" í veðurfari meiri en sögur fara af, - þurrkar, flóð og stormar.

Umræðan um undirskrift USA

Áfram er hér mikið spurt, hvenær Bandaríkin skrifi upp á Kyótó-bókunina. Á blaðamannafundi í fyrradag sagði Eizenstat, að Bandaríkin hygðust gera það áður en frestur rennur út um miðjan mars 1999. Rökin fyrir undirskrift taldi hann einkum þau að með því gætu Bandaríkin áfram haft áhrif á gang mála og fest í sessi þá ávinninga sem þau hefðu náð fram í Kyótó.

 

Hjörleifur Guttormsson.

 

 

 


Til baka | | Heim