Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (11.grein)
13. nóvember 1998
Bandaríkin skrifuðu undir - Hvað gerir Ísland?
Gærdagurinn var bjartur með um 25 stiga hita og hægt að hugsa sér ýmislegt áhugavert annað en að sitja linnulaust innan dyra á fundum. Jacaranda-trén með fjólubláu blómskrúði sínu setja óvanalegan svip á trjágróður borgarinnar og gangstéttir eru víða litaðar af fallandi krónublöðum þeirra. GLOBE-þingmenn hittust í býtið yfir morgunverði á Bauen-hótelinu og gengu frá ávarpi, sem kynnt var á blaðamannafundi í hádeginu. Það mun birtast hér á síðunni bráðlega í dálkinum umhverfismál - loftslagsbreytingar. Dagskrá þingsins var helguð í ræðum fjölmargra ráðherra frá morgni og fram á nótt, en frétt dagsins var um undirskrift Bandaríkjanna undir Kyótó-bókunina.
Ákvörðun Bandaríkjanna
Orðrómur var í gangi frá byrjun vikunnar um að Bandaríkin hygðust undirrita Kyótó-bókunina áður en þinginu lyki í Buenos Aires. Fréttin um að þetta yrði gert síðdegis í gær kom því ekki mjög á óvart. Samt fór hún sem eldur í sinu um ráðstefnusali og ganga og var aðal umræðuefnið á meðan helstu mál fundarins voru enn í hnút. Það er ljóst að með þessu vill Bandaríkjastjórn styrkja stöðu sína í áframhaldandi samningaferli og tímasetningin er engin tilviljun. Hafa ber í huga að Bandaríkin áttu stóran hlut að niðurstöðunni í Kyótó, ekki síst því sem snýr að viðskiptum með gróðurhúsaloft. Þau hefðu ekki getað fylgt þeim málum eftir án þess að gefa áframhaldandi þátttöku til kynna með undirskrift sinni undir bókunina frá Kyótó. Annað aðal samningsmarkmið þeirra nú er að fá einstök þróunarríki til að taka á sig skuldbindingar um takmarkanir á losun og um það stendur ekki síst styrr nú undir lok ráðstefnunnar.
Hvað gerir Ísland nú?
Sú sérkennilega staða er nú komin upp að Ísland er að verða eina landið með losunarskuldbindingar, sem ekki hefur undirritað Kyótó-bókunina. Frestur til undirritunar rennur út 15. mars 1999. Að heiman berast fréttir af yfirlýsingum forsætis- og iðnaðarráðherra þess efnis að bókunin verði ekki undirrituð á meðan ekki fæst undanþága fyrir mengun frá stóriðju á Íslandi. Á það mál mun ekki reyna á ný fyrr en að ári liðnu. Afstaða ríkisstjórnarinnar er bæði óskynsamleg og órökræn. Ríki sem ekki sýnir einu sinni lit á áframhaldandi þátttöku í samningsferlinu getur ekki vænst þess að mikið sé á það hlustað. Með stefnu sinni er íslenska ríkisstjórnin að einangra sig, ekki aðeins að því er varðar þróun loftslagssamningsins, heldur einnig á öðrum sviðum umhverfismála. Fljótræðislegar yfirlýsingar ráðherranna bera vott um að mikið skorti á vitræna stefnumörkun af Íslands hálfu.
Nokkrar athyglisverðar ræður
Ræðuhöld gærdagsins þar sem ráðherrar fluttu heimastíla sína á færibandi sættu ekki miklum tíðindum. Ríkjahópar og einstök lönd drógu upp sína stöðu og viðhorf. Áberandi voru sterk orð um þá ógn sem við blasti vegna loftslagsbreytinga og nefndu margir fellibylinn Mitch í því sambandi. Hamfarirnar sem honum fylgdu virðast tákn sem stjórnmálamenn og fjölmiðlar henda á lofti og skilja, betur en flókin vísindi. Ræður talsmanna 35 smárra eyríkja sem mynda AOSIS-hópinn minntu á að gangi spár eftir munu tugir sjálfstæðra ríkja verða óbyggileg og jafnvel sökkva í sæ á komandi öld.
Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra fjallaði í ræðu sinni aðallega um sérmál Íslands og tillögu ríkisstjórnarinnar um undanþágu fyrir stóriðju. Um leið og hann lýsti vonbrigðum með að tillagan náði ekki fram að ganga lýsti hann þeirri von að svo yrði á 5. þinginu eftir ár. Ekki orð um undirritun af Íslands hálfu, enda aðrir en umhverfisráðherra sem virðast ráða ferðinni.
John Prescott umhverfisráðherra Bretlands flutti áheyrilega ræðu og hvatti til staðfestingar Kyótó-bókunarinnar sem fyrst. Ráðstefnan yrði að ná saman um framhald á grundvelli hennar. "Áherslan á ekki að vera á erfiðleikana sem fylgja bókuninni heldur á ávinninginn á grundvelli hennar." Ferskur blær var yfir ræðu Jurgen Trittins nýs umhverfisráðherra Þýskalands úr flokki Græningja. Hann sagði megináherslu eiga vera á að draga úr mengun frá gróðurhúsalofti í hverju landi, nýta orku sparlega og á hagkvæman hátt, auka notkun endurnýjanlegrar orku og draga úr og hætta notkun kjarnorku sem orkugjafa.
Lýkur ráðstefnan ætlunarverki sínu?
Meginverkefnið sem legið hefur fyrir þinginu hér í Buenos Aires er að byggja frekar undir Kyótó-bókunina og tryggja framhaldsvinnu á grundvelli hennar og loftslagssamningsins. Þessu ætlunarverki hefur miðað hægt á 11 dögum og nú er runninn upp lokadagur þingsins. Eftir er að sjá hvort vinna í bakherbergjum síðastliðna nótt skilar árangri. Þar reynir ekki síst á þróunarríkin og Bandaríkin, en Evrópusambandið virðist reiðubúið að leggjast á sveif með þeim fyrrnefndu komi þau sér saman um áherslur. GLOBE-þingmenn lögðu í ávarpi sínu í gær fram tillögu um að í yfirlýsingu ráðstefnunnar kæmi fram stuðningur við það markmið, að til lengri tíma litið sé miðað við að hvert mannsbarn hafi jafnan aðgang að andrúmsloftinu, einnig að því er varðar losun gróðurhúsalofts. Viðurkenning á þessu myndi sæta tíðindum og koma málum á hreyfingu svo um munaði.
Óvíst er að dagurinn nægi til að ganga frá niðurstöðu og þá verður klukkan stöðvuð á miðnætti, eins og sagt er á ráðstefnumáli og látið reyna á þolrif manna. Íslendingar eiga sólarhringsferð fyrir höndum til að ná heim. Nú hefði verið gaman að stíga á skipsfjöl líkt og Halldór Laxness forðum, þegar hann sótti PEN-þingið í Buenos Aires 1936. Siglingin hingað tók aðeins þrjár vikur að mig minnir!
Hjörleifur Guttormsson.
|