NAUST bíða óþrjótandi verkefni Brot úr 25 ára sögu Náttúruverndarsamtaka Austurlands.
Við sem unnum að stofnun náttúruverndarsamtaka hér eystra fyrir 25 árum vorum sannfærð um að verk væri að vinna fyrir áhugamenn um náttúruvernd. Saga Náttúruverndarsamtaka Austurlands - NAUST - í aldarfjórðung sýnir að þetta var rétt metið. Enginn félagsskapur áhugafólks sem eingöngu byggir á grasrótarstarfi heldur velli um áratugi nema hugsjónir séu til staðar. Okkar hugsjón hefur verið að vernda náttúru fjórðungsins, fræða um hana og skila henni óspilltri til niðja okkar.
Starfsramminn hefur reynst vel Félagar í NAUST hafa verið á bilinu 150-250 á þessu tímabili og allmörg fyrirtæki, sveitarfélög og stofnanir verið styrktaraðilar samtakanna. Mest hefur að sjálfsögðu mætt á stjórn NAUST hverju sinni og við höfum verið svo lánsöm að þeir sem til forystu hafa valist hafa aldrei látið deigan síga. Fyrstu ellefu árin, 1970-1981, var stjórnin valin úr hópi félaga af öllu Austurlandi og formaður kosinn sérstaklega. Á aðalfundi 1981 var gerð lagabreyting í þá veru að skipta félagssvæðinu í þrjú umdæmi, norðursvæði, miðsvæði og suðursvæði og kjósa stjórn til skiptis af þessum svæðum til þriggja ára í senn. Hefur þessi skipan gefist vel. Að öðru leyti hefur ytri rammi að starfsemi NAUST haldist að mestu í föstum skorðum allt frá upphafi samtakanna. Aðalfundir hafa verið ár hvert eins og lög mæla fyrir, oftast haldnir í ágúst eða fyrrihluta september. þeir hafa verið aðalviðburður í félagsstarfinu og nær alltaf tengdir skoðunarferðum. Búið er að halda slíka fundi í flestum byggðarlögum kjördæmisins og að auki til fjalla, tvívegis við Snæfell og Kverkfjöll og einu sinni í Arnardal. Frá árinu 1976 hafa verið gefin út fréttabréf oftast í A5-broti, stundum fleiri en eitt á ári, með ályktunum og upplýsingum frá stjórn um félagsstarfið. Er þetta fréttabréf hið 20. í röðinni. þegar útgáfa fréttabréfs hófst hjá NAUST var það nýlunda en nú þykja slík bréf ómissandi tengiliðir.
Helstu viðfangsefni NAUST Á hverjum aðalfundi hafa auk fastra liða verið valin tiltekin efni til kynningar og umræðu. Á fyrstu sex aðalfundum NAUST voru svo dæmi séu tekin umræðuefnin þessi: Ofveiði og mengun (1971), landnýting svo og vegagerð og náttúruvernd (1972), orkumál og virkjanir á Austurlandi (1973), landgræðsluáætlunin 1975-79 (1974), ferðamál og umhverfisvernd (1975), votlendi og verndun vatnsfalla (1976). Af þessu má sjá nokkrar áherslur í umræðunni á þessum árum. Skráning náttúruminja og vinna að friðlýsingu valinna svæða hefur frá upphafi verið framarlega á dagskrá samtakanna. Fyrsta náttúruminjaskrá NAUST var gefin út árið 1973 og var hún leiðbeinandi fyrir Náttúruverndarráð við útgáfu opinberrar náttúruminjaskrár og val viðfangsefna til friðlýsingar. Af stærri svæðum sem NAUST hafði frumkvæði um að fá friðlýst er Friðland á Lónsöræfum (1977). Síðan hefur verið aukið við náttúruminjaskrá samtakanna, m.a. með því að styrkja einstaklinga til vinnu að slíkri skráningu á tilteknum svæðum. Drýgsta framlagið í þeim efnum eftir 1973 er skrá Helga Hallgrímssonar yfir náttúruminjar á Fljótsdalshéraði (1991). Frá því um 1980 hefur hins vegar verið lítið um formlegar friðlýsingar á vegum Náttúruverndarráðs og því bíða mörg svæði þess að verða vernduð að náttúruverndarlögum.
Átök um virkjanir og raflínur Allt frá því samtökin voru stofnuð hafa vatnsaflsvirkjanir og áhrif þeirra á umhverfið verið mikið til umræðu. Við hönnun Lagarfossvirkjunar á sínum tíma hafði lítið verið fjallað um umhverfisáhrif. Stjórn NAUST beitti sér fyrir því árið 1974-75 að sett var á fót svokölluð Lagarfljótsnefnd með fulltrúum hagsmunaaðila og stuðlaði hún að samkomulagi um miðlun í Lagarfljóti og að fram fóru umfangsmiklar rannsóknir á láglendissvæðum við fljótið. NAUST gagnrýndi frá upphafi áformin um stórvirkjanir og vatnaflutninga í jökulsánum norðan Vatnajökuls og hefur sennilega ekkert mál jafn oft verið á dagskrá samtakanna, síðast á aðalfundi NAUST í Freysnesi 1994. Lagning háspennulína hefur einnig oft verið til umfjöllunar á vettvangi NAUST. Má í því sambandi sérstaklega geta ráðgerðrar háspennulínu frá Fljótsdal til Akureyrar, en lega hennar hefur ítrekað verið til endurskoðunar. Fyrir frumkvæði NAUST árið 1990 var horfið frá að leggja þessa línu yfir Brúaröræfi og Ódáðahraun milli Herðubreiðar og Dyngjufjalla og fyrir áframhaldandi baráttu NAUST fékkst síðari tillaga um legu línunnar sunnan þríhyrnings og Möðrudals tekin upp til endurmats.
Gott samstarf við fjölmarga Á árinu 1972 beitti stjórn NAUST sér fyrir því að tekið yrði upp samráð Vegagerðar ríkisins og Náttúruverndarráðs um vegagerð með tilliti til umhverfis. Hófst upp úr því formlegt samráð um þessi efni með tilnefningu eftirlitsmanna af hálfu ráðsins í hverjum landshluta og hefur það samstarf að mörgu leyti verið til fyrirmyndar. Náttúruverndarsamtökin hafa frá upphafi átt margháttuð samskipti við sveitarstjórnir í fjórðungnum og beint til þeirra hvatningu og áskorunum. Varðar það ekki síst úrbætur í sorphirðu og frárennslismálum. Á sama hátt hefur NAUST hvatt fyrirtæki til bættrar umgengni og til að draga úr mengun. þannig hefur ófáum ályktunum verið beint til aðstandenda fiskimjölsverksmiðja að binda endi á loft- og sjávarmengun frá fyrirtækjunum. Á árinu 1992 fengu samtökin styrk úr Plastpokaskjóði til að skipuleggja fjöruhreinsun og var að því unnið í samvinnu við sveitarfélög. Einnig hefur verið unnið að stígagerð með stuðningi Ferðamálaráðs.
Endurreisa þarf SÍN Á árunum 1970-1974 voru stofnuð hliðstæð samtök NAUST í öðrum landshlutum og urðu náttúruverndarsamtökin þannig sex talsins. Á árinu 1975 mynduðu þau með sér Samband íslenskra náttúruverndarfélaga (SÍN). Höfðu félögin með sér margháttað samráð og samstarf, stóðu m.a. sameiginlega að sýningu og kynningardagskrá í Norræna húsinu í apríl 1977. Forseti SÍN var um nokkurra ára skeið Helgi Hallgrímsson og miðstöð sambandsins þá á Akureyri. Síðasta áratug hefur dofnað yfir starfi margra aðildarfélaga SÍN og sambandið ekki verið virkt. Er það mjög miður og brýn þörf á að breyting verði á. NAUST hefur átt mikil og oft náin samskipti við Náttúruverndarráð og félagar úr samtökunum átt setu í ráðinu sem aðal- eða varamenn. Einnig er NAUST sem samtök aðili að Landvernd og hefur það samstarf verið gagnlegt.
Staðbundin og alþjóðleg viðfangsefni Viðfangsefni í náttúruvernd eru óþrjótandi þótt sýn manna til þeirra breytist með hverju ári. þekkingu á umhverfismálum hefur fleytt mikið fram síðasta aldarfjórðung. Vandinn sem við er að fást er hins vegar síst minni nú en áður og er hann bæði staðbundinn og alþjóðlegur. Um heim allan eru starfandi frjáls samtök áhugamanna um náttúruvernd sem víða láta mikið að sér kveða. NAUST er þannig angi af stórri fjölskyldu sem stefnir að sama þarki, þ.e. að því að tryggja til frambúðar lífvænleg samskipti mannkyns við móður náttúru. Ástæða er til að fagna þeim árangri sem NAUST hefur náð á 25 ára ferli. Við skulum á þessu afmælisári leggjast saman á árar og efla starf samtaka okkar og hrífa aðra með okkur í baráttunni fyrir fjölbreyttu, ómenguðu og lífvænlegu umhverfi.
Neskaupstað 14. júlí 1995
Hjörleifur Guttormsson
Neskaupstað 14. júlí 1995
Kæra Agnes Ingvarsdóttir.
Á fundi með stjórn NAUST á Höfn sl. haust (að mig minnir) var rætt um aðalfund samtakanna 1995 og 25 ára afmæli. þá lofaði ég að vera ykkur innan handar eftir því sem ástæða þætti til. Heimir hefur síðan verið í sambandi við mig símleiðis, beðið um grein í fréttabréf vegna afmælisársins og ábendingar varðandi tilhögun aðalfundar í septemberbyrjun.
Ég sendi þér hérmeð sem ábyrgðarmanni fréttabréfsins grein, sem nota má í bréfið. Kannski er hún of löng og þá er bara að stytta hana. Ég mun reyna að leita uppi einhverja mynd (eða myndir) tengda sögu NAUST sem birta mætti með greininni eða sér á parti í fréttabréfinu og sendi þér hana innan tíðar.
þá læt ég fylgja með hugmynd að dagskrá og tilhögun aðalfundar og afmælisdagskrá. Heimi leist vel á að hafa aðalefnið landslagsvernd en undir það hugtak má flokka margt. Ég hef talað við nefnda fyrirlesara með fyrirvara (aðra en Einar þórarinsson sem er erlendis) og eru þeir reiðubúnir í hlutverkið.
Æskilegt væri að geta sagt frá aðalfundinum í fréttatilkynningu til fjórðungsblaða og RÚV Egilsstöðum í ágústbyrjun og birta síðan dagskrána í fréttabréfi til félagsmanna og fleiri um miðjan ágúst. Rútuferðirnar eru aðeins hugmynd sem þið þurfið að meta, en ég hugsa að þær myndu auka sókn á fundinn.
Ég verð í Noregi 21. júlí - 2. ágúst. Sendu mér orðsendingu í Alþingi, eftir þörfum eða hringdu í heimasíma í Reykjavík 19.-20. júlí (5539100).
Með bestu kveðju
Hjörleifur Guttormsson
|