Ný glíma í vændum?
Splunkuný túlkun Margrétar Formaður Alþýðubandalagsins hefur látið að því liggja eftir landsfund flokksins að málefnavinnu vegna sameiginlegs framboðs með Alþýðuflokki og leifum af Kvennalista sé langt frá því að vera lokið. Þeir sem yfirgefi flokkinn séu að afsala sér möguleikum á að hafa áhrif á niðurstöðuna. Í viðtali á Stöð 2 þann 8. júlí sagði formaðurinn, að henni fyndist "ekki stórmannlegt að fara í burtu áður en að málefnin liggja fyrir...". Þetta er alveg plunkuný túlkun hjá formanninum, tilkomin eftir að úrsagnir tóku að streyma frá flokksmönnum.
Yfirlýsingar Sighvats Sighvatur Björgvinnsson hefur lýst allt öðrum skilningi á stöðu málefnavinnu flokkanna. Í DV 6. júlí segir hann: "Utanríkiskaflanum er lokið og ég tel að fullt samkomulag hafi náðst um hann, nema hvað sérálit Steingríms snertir." Í Degi 7. júlí segir Sighvatur enn fremur: "Stefnan er að mestu leyti tilbúin og frágengin eftir málefnavinnuna síðustu mánuðina. Það þarf hins vegar að ganga frá sameiginlegu plaggi sem verður unnið upp úr þeim grunni sem fyrir er. Það er því talsverð vinna framundan." [Leturbr. HG]
Samþykkt landsfundarins Lítum fyrst á meginsamþykkt landsfundarins frá 4. júlí síðastliðnum um þetta efni þar sem stendur: "Landsfundurinn fellst á að þau drög að málefnaniðurstöðu sem nú liggja fyrir séu grunnur að málefnasamningi/verkefnaskrá til fjögurra ára fyrir væntanlegt framboð. Landsfundurinn leggur jafnframt áherslu á að samstarfsaðilar þurfi sem fyrst að ljúka þeirri vinnu og ná samkomulagi um framkvæmd framboða og aðra þætti málsins. Niðurstöður verði kynntar á aðalfundi miðstjórnar." [Leturbr. HG]
Var "málefnavinnan" bara plat? Undirritaður tók þátt í starfshópi flokkanna um umhverfis-, efnahags- og atvinnumál o.fl.. Í þeirri vinnu kom skýrt fram um hvað unnt væri að ná samkomulagi og hvað bæri helst á milli flokkanna. Þau efni rakti ég í séráliti og hliðstæð vinna fór fram í starfshópnum sem fjallaði um utanríkismál. Öll þessi plögg lágu fyrir landsfundi Alþýðubandalagsins, þar sem meirihluti samþykkti þau sem grunn að málefnasamningi flokkanna, jafnhliða því að stefnt skuli að sameiginlegu framboði þeirra. Það ber því nýrra við að formaður Alþýðubandalagsins telur sig nú geta byrjað upp á nýtt. Ég óska henni velgengni í glímunni við Sighvat.
Hjörleifur Guttormsson |
Til baka | | Heim |