Hjörleifur Guttormsson
Alþingi

14. september 1995

 

Hollustuvernd ríkisins
Ármúla 1 a
108 Reykjavík

 

Athugasemdir við starfsleyfistillögur fyrir Íslenska álfélagið hf, Straumsvík

Undirritaður gerir eftirfarandi athugasemdir við starfsleyfistillögur fyrir Íslenska álfélagið h/f, sbr. auglýsingu í Lögbirtingarblaði dags. 24. júlí 1995.

 

1. Starfsleyfið á samkvæmt auglýsingu að gilda "fyrir framleiðslu á allt að 200.000 tonnum af fljótandi áli á ári" (1.1).

Ekki er í tillögunum gert ráð fyrir að greint sé á milli núverandi bræðslu og nýrra áfanga sem þó væri eðlilegt og auðvelt þar sem stækkun í 170 þúsund tonna ársframleiðslu yrði í nýjum kerskála með sérstöku hreinsivirki. Verði það ekki gert yrðu viðmiðanir og kröfur um útblástursmörk óljósar. þess utan eru heildarmörkin um magn mengunarefna í útblásturslofti skv. 2.1.7. alltof há, sbr. síðar. Eftirlit með rekstri og settum skilmálum verður jafnframt ómarkvisst sé ekki greint á milli gamla og nýja hlutans í starfsleyfi. því er hér gerð krafa um að í starfsleyfinu verði greint skýrt á milli leyfilegs hámarksútblásturs mengandi efna frá núverandi rekstri og nýs áfanga.

þá er óeðlilegt að ætla nú að gefa út starfsleyfi fyrir annarri viðbót en ráðgert er að semja um á næstunni, þ.e. framleiðslugetu úr 105.000 tonnum í 170.000 tonn á ári. Rétt er að ætla fyrirtækinu að sækja um starfsleyfi þegar og ef til frekari stækkunar kemur.

Ákvæði í 1.4 eru bæði veik og óljós með tilliti til stöðu Hollustuverndar gagnvart ÍSAL, ef til umræddrar viðbótar kemur. þetta er enn augljósara ef litið er á athugasemd við greinina þar sem segir: "Við seinni áfanga stækkunarinnar endurskoða mörkin ef ætla má að hægt sé að færa þau til betri vegar." (undirstrikun H.G.)

 

2. Í 1.2. er sagt að stækkun ÍSAL sé "hönnuð í samræmi við ISAL tækni í kerskála, og bestu fáanlega tækni sem völ er á í nýju þurrhreinsivirki...."

Hér kemur fram að ekki er gerð krafa um vothreinsun, sem þó er skilyrði fyrir því að ná niður brennisteinstvíoxíði í útblæstri og lækkar um leið útblástursmagn flúoríðs og fleiri mengandi lofttegunda. Eðlilegt er því að gera kröfu um vothreinsibúnað auk þurrhreinsunar í verksmiðjunni.

Undirritaður bendir á að Evrópusambandið gaf í framhaldi af ákvörðun ráðherraráðs ESB þann 22. júní 1995 út tilskipun (direktiv) um samræmdar mengunarvarnir og eftirlit sem tekur m.a. til "installations for the production, melting, recovery og processing og non-ferous metals..." (Annex I, 2.5.). þessi tilskipun á einnig að gilda á EES-svæðinu, þar á meðal hérlendis. Eðlilegt er að taka tillit til hennar við undirbúning og setningu starfsleyfis eins og þess sem hér um ræðir. þar eru m.a. ítarleg ákvæði um að beita beri bestu tækni til að draga úr mengun, um undirbúning og útgáfu starfsleyfa svo og um endurskoðun starfsleyfa eigi sjaldnar en á 10 ára fresti. Í ýmsum atriðum virðist ekki hafa verið tekið tillit til ákvæða þessarar tilskipunar og hlýtur að þurfa að ráða bót á því áður en til útgáfu starfsleyfis kemur. því er nauðsynlegt að yfir starfsleyfisdrögin verði farið lið fyrir lið með tilliti til þessarar tilskipunar.

 

3. Í 1.3. eru ófullnægjandi ákvæði um endurskoðun starfsleyfis, sbr. það sem áður segir, sem og ef fram koma "skaðleg áhrif á umhverfi verksmiðjunnar eða hætta sem ekki var áður ljós". Í stað þess að starfsleyfi skuli endurskoðað við slíkar aðstæður segir : "Starfsleyfi þetta endurskoða í framhaldi af slíkum viðræðum".

 

4. Í 1.7. segir að ISAL skuli "tilnefna fulltrúa sem ber ábyrgð á mengunarvörnum fyrirtækisins.". Óljóst er um hvers konar "ábyrgð" er hér verið að ræða.

 

5. Í grein 2.1.7 eru sett fram viðmiðunarmörk fyrir mengunarefni í útblásturslofti frá kerskálum, þ.e. heildarflúoríð, ryk og brennisteinstvíoxíð.

þessi mörk eru langt yfir því sem eðlilegt getur talist auk þess sem ekki er hér greint á milli útblásturs frá núverandi rekstri og fyrirhugaðri viðbót. Gerð er hér krafa um að í starfsleyfi verði greint á milli núverandi rekstrar og viðbótar með skýrum hætti að því er varðar magn mengunarefna sem um er að ræða.

Við ákvörðun um mengunarvarnabúnað og magn mengunarefna frá nýjum kerskála þarf að gera kröfu um bestu fáanlega tækni (BAT) að vothreinsibúnaði meðtöldum og taka mið af því sem best gerist og talið er kleift, m.a. í Noregi. þar er miðað við mörk fyrir heildarflúoríð ekki hærri en 0.4 kg per tonn af áli með vothreinsibúnaði, en 0.5 kg per tonn án vothreinsibúnaðar (ársmeðaltöl). Fyrir ryk eru samsvarandi gildi 0.6 kg og 0.8 (án vothreinsibúnaðar). Fyrir brennisteinstvíoxíð miða Norðmenn við 2-4 kg per tonn af áli (vothreinsun).

Athygli vekur að í athugasemdum við grein 2.1.7 segir um mörk fyrir losun flúoríðs: "Ársmeðaltal án hreinálvinnslu er 1,0 kg/tonn af áli. þetta er í samræmi við tillögur sem lagðar hafa verið fram á alþjóðavettvangi um mengun frá álframleiðslu sem notar eldri tækni." (undirstrikun H.G.) Hér er því reglan um bestu fáanlega tækni augljóslega ekki lögð til grundvallar.

Óeðlilegt verður að teljast að taka í senn tillit til óska fyrirtækisins um tilslökun frá umræddum gildum vegna framleiðslu hreináls og ætla um leið að sleppa því við að setja upp vothreinsibúnað.

Athygli er vakin á að í reynd er í starfsleyfisdrögunum ekki að finna neina tryggingu fyrir því að losun brennisteinstvíoxíðs verði haldið innan umræddra marka (21.0 kg per tonn af áli). þessi mörk "eru byggð á því að árlegt meðaltal brennisteinsinnihalds í rafskautum sé 2% og fela þau í sér innihald brennisteins í öðrum hráefnum", segir í tillögunum. Telji fyrirtækið sig ekki geta aflað rafskauta sem uppfylli þessi skilyrði "á samkeppnishæfu verði á heimsmarkaðinum skulu þessi skilmálar endurskoðaðir."(grein 2.1.11.). Líkur eru á að brennisteinsinnihald í rafskautum fari hækkandi í framtíðinni, og því verði þau mörk sem gert er hér ráð fyrir markleysa nema kveðið verði á um vothreinsun.

 

6. Í grein 7.1. um gildistöku segir m.a. að starfsleyfið "öðlast gildi þegar framleiðsla hefst í fyrsta áfanga stækkunar álverksmiðjunnar í Straumsvík og gildir í fjögur ár frá gildistöku." Ekkert kemur fram um það í tillögunum eða athugasemdum með þeim hvað í þessum takmarkaða gildistíma felst og ekki er kveðið á um endurskoðun starfsleyfis að honum loknum.

 

7. Með tvöföldun álframsleiðslu á vegum ISAL mun losun mengandi efna í umhverfið skv. fyrirliggjandi tillögum að starfsleyfi aukast stórlega. Samkvæmt áætlun um losun mengunarefna frá álbræðslunni miðað við 200 þúsund tonna ársframleiðslu getur árleg heildarlosun flúoríðs aukist úr 139 tonnum 1994 í allt að 240 tonn. Losun brennisteinstvíoxíðs getur aukist úr 1680 tonnum árið 1994 í 4200 tonn (og í raun mun meira ef brennisteinsinnihald í rafskautum hækkar umfram viðmiðunarmörk). þá mun losun koltvíoxíðs frá verksmiðjunni tvöfaldast, þar eð ekki er gert ráð fyrir neinum vörnum gegn losun þess.

 

Ofangreindum athugasemdum er hér með komið á framfæri með ósk um að tekið verði tillit til þeirra við útgáfu endanlegs starfsleyfis..

 

Virðingarfyllst

 

 

Hjörleifur Guttormsson

 

Meðfylgjandi:

1. Aluminium electrolysis. A description of best available techniques for environmental protection. Presented by Norway to the Paris Convention 17-21 january 1994. [Sent undirrituðum frá Statens forurensningstilsyn í Ósló í byrjun september 1995].

 

2. Integrated pollution prevention and control. Tilskipun Evrópusambandsins um samræmdar mengunarvarnir og eftirlit, staðfest í ráðherraráði þess 22. júní 1995. [Meðfylgjandi eru drög að tilskipuninni].

 

 

 

 


Til baka | | Heim