Hjörleifur Guttormsson skrifar
frá Buenos Aires (12.grein)

14. nóvember 1998

 

Loftslagsferlinu bjargað fyrir horn

Föstudagurinn 13. nóvember átti að verða síðasti dagur ráðstefnunnar en hann nægði ekki frekar en lokadagur á ársþinginu í Kyótó í fyrra. Fundur sem byrja átti samkvæmt auglýstri dagskrá um nónbil var ekki settur fyrr en 12 tímum síðar, það er um óttu aðfaranótt laugardags. Forseti ráðstefnunnar, María Julia Alsogaray, hefur verið gagnrýnd nokkuð fyrir vettlingatök við stjórn þingsins. Í gærdag voru kallaðir til svonefndir "vinir forsetans", trúnaðarsveit frá helstu ríkjahópum henni til halds og trausts, en kom fyrir ekki. Á fundum ríkjahópanna voru síðan tilnefndir nokkrir fulltrúar sem tóku til við það undir kvöld að reyna að ná samkomulagi þannig að takast mætti að bjarga ráðstefnunni fyrir horn. Á meðan á þessum þreifingum stóð biðu embættismenn og þeir ráðherrar sem enn voru á staðnum eftir hvað gerðist, og það var hálfgerður útfararsvipur yfir fundarstaðnum.

Samstaða náðist loks um vinnuáætlun

Lokafundurinn stóð fram undir klukkan sjö á laugardagsmorgni og það var orðið heldur þunnskipað á fundarstað í Centro de Esposisiones. Forsetinn lagði loks fram tillögu samningahópsins um vinnuáætlun og skrá yfir verkefni, þar sem meðal annars er kveðið á um vinnufundi embættismanna fram að næsta ársþingi. Jafnframt eru settar fram áherslur um viðfangsefni, sem varða framhaldsvinnu að ýmsu því sem ekki tókst að útkljá hér í Buenos Aires. Það er langur listi og varðar ekki síst viðskipti með gróðurhúsaloft (mengunarkvóta) og fjárhags- og tækniaðstoð við þróunarlönd (Clean Development Mechanism). Um tíma leit út fyrir að einnig þetta takmarkaða samkomulag springi, þegar fulltrúar þróunarríkja gengu af fundi vegna þess sem þeir töldu vera ónóg framlög til stuðnings vegna vinnu að loftslagsmálunum gegnum farvegi Sameinuðu þjóðanna (Global Environment Facility). En á því fannst málamiðlun og vinnuáætlunin fékkst að lokum samþykkt um rismál. Ekki er frágengið hvar næsta ársþing verður haldið, en Jórdanía hefur boðist til að verða gestgjafi þess.

Hin hefðbundna skipting í ríkjahópi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna fellur að mörgu leyti illa að vinnu við úrlausnir í loftslagsmálum og kom það skýrt fram á þessu þingi. Þróunarríkjahópurinn býr við afar mismunandi aðstæður og þarf ekki annað en benda á meinta hagsmuni olíuframleiðsluríkja annars vegar og stöðu smárra eyjaríkja hins vegar. Þá er svonefndur JUSSCANNZ-hópur sem Ísland situr í einnig skrýtin naglasúpa en í honum eru OECD-ríki að frátöldum þeim sem mynda Evrópusambandið.

Ávinningar og hagsmunaárekstrar

Margir munu halda því fram að þetta ársþing aðildarríkja loftslagssamningsins hafi skilað litlu og geta fært ýmislegt fram því til stuðnings. Á hitt er að líta að samþykkt Kyótó-bókunarinnar í fyrra var stórt skref í þá átt að styrkja loftslagssamninginn frá Ríó og mörg ríki hafa átt fullt í fangi með að melta þá niðurstöðu. Því var ekki við öðru að búast en að útfærsla ákvarðana á grundvelli bókunarinnar yrði umdeild og erfið. Þó tókst að þoka hér mörgu áleiðis. Aðferðafræði við rannsóknir á mörgum þáttum loftslagsbreytinga var skýrð og fram kom sameiginlegt ákall um að efla loftslagsathuganir og rannsóknir. Þáttur bindingar í jarðvegi og gróðri var mikið ræddur og frekara vinnuferli ákveðið. Í umræðum kom fram mun almennari viðurkenning en áður á því að loftslagsbreytingar af mannavöldum séu brýnt vandamál sem þjóðir heims verði að beita sér gegn. Engan þarf að undra að átök verði um hvernig skipta eigi niður byrðunum vegna aðgerða og eiga deilur um það vafalítið eftir að harðna.

Afstaða Íslands til Kyótó-bókunarinnar eins og hún birtist á þessu þingi er mál sem rætt verður betur fljótlega. Þar er sannarlega margt öðru vísi en skyldi.

Hjörleifur Guttormsson.

 

 

 


Til baka | | Heim