Hjörleifur Guttormsson:

Raddir frá RÍÓ

 

Umhverfisráðstefnan í Rio de Janeiro er aðeins hálfnuð þegar þetta er ritað og of snemmt að kveða upp endanlega dóma um gildi hennar. Sennilega verður það ekki ljóst fyrr en að nokkrum tíma liðnum. Sýnilegasti árangurinn af ráðstefnuferlinu til þessa er umræðan um þá feigðarför sem mannkynið allt er nú þátttakandi í.

Með ráðstefnunni hafa stjórnmálamenn og þjóðarleiðtogar verið knúðir sagna um afstöðu sína til brennandi spurninga. Svörin eru misjöfn og ágreiningur er um það hversu róttæk þau þurfi að vera og aðgerðir í framhaldi af þeim. Hér verður getið um nokkrar raddir sem heyra mátti á fyrstu dögum ráðstefnunnar.

 

Mannkyn í stofufangelsi

Nýr framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, Boutros-Ghali, setti ráðstefnuna með ræðu að morgni 3. júní. Hann sagði m.a. að mannkynið væri nú að reka sig á þau takmörk sem jörðin skapar okkur og væri statt í eins konar stofufangelsi. Við gætum ekki vænst þess að finna lengur neinar nýjar vinjar eða töfralausnir. „Framfarir" séu ekki endilega vilhallar lífi á jörðinni. Afleiðingar þess að ganga á auðlindir og spilla umhverfinu muni óhjákvæmilega bitna á komandi kynslóðum þótt við sem nú lifum getum enn um sinn haldið áfram að sólunda þessum gæðum. Málefni ráðstefnunnar varði því næstu áratugi og aldir og framtíð barnabarna okkar.

Boutros-Ghali benti á að lífsstíll ríkra þjóða sé vistfræðilega óheilbrigður og standist ekki til lengdar. Vistfræði og hagfræði séu samslungnar greinar. Færa verði eyðingu auðlinda og umhverfis til kostnaðar við framleiðslustarfsemi engu síður en við afskrifum fjárfestingu og önnur útgjöld í fyrirtækjum. Öryggi jarðarbúa snýst nú frekar um efnahagsstefnu með tilliti til umhverfisáhrifa en um hernaðarmálefni. Útgjöldum verður að beina frá fjárfestingu í vopnum yfir í þróunarverkefni sem varða heiminn allan og beinast að því að bjarga umhverfi okkar. Við verðum að ná árangri í þessari glímu þótt það stangist á við volduga og rótgróna hagsmuni. Einnig þeir hagsmunir verða eins og aðrir að víkja fyrir umhyggju fyrir framtíðinni og kröfu þjóða heimsins um jafnræði.

Menn verða að hafa vaðið fyrir neðan sig þegar metin eru líkleg áhrif af framkvæmdum og öðrum aðgerðum. Við vitum ekki með vissu hvernig vistkerfi starfa og orsök og afleiðing eru oft aðgreind í tíma. Taka þarf framvegis fullt tillit til nýrra viðhorfa vísindamanna og sérfróðra aðila þegar mótaðar eru ákvarðanir og koma verður á samvinnu milli vísinda- og stjórnmálamanna í framhaldi af ráðstefnunni.

 

Tegund sem ekki lætur að stjórn

Framkvæmdastjóri Ríó-ráðstefnunnar er Kanadamaðurinn Maurice Strong, sá sami og hélt um taumana á ráðstefnu SÞ í Stokkhólmi fyrir 20 árum. Hann dró enga dul á það í ræðu sinni nú að þrátt fyrir að miðað hafi í rétta átt á einstökum sviðum hafi vonirnar, sem tendraðar voru fyrir 20 árum, að mestu brugðist. Framleiðslu- og neysluhættir í iðnríkjum grafa áfram undan lífsskilyrðum á jörðinni; fólksfjölgunin með sprengimagni sínu bætir við íbúatölu jarðar sem svarar til fjórðungi úr milljón á degi hverjum; bilið milli ríkra og fátækra breikkar stöðugt og 75% jarðarbúa þurfa dag hvern að berjast fyrir nauðþurftum; efnahagskerfi þar sem hömlulaus vöxtur er talinn til framfara og ekkert tillit er tekið til umhverfiskostnaðar og tjóna sem af því hlýst.

„Við höfum verið tegundin sem náð hefur mestum árangri; við erum nú tegund sem ekki lætur lengur að stjórn," sagði Maurice Strong. Mannkyninu hefur fjölgað um 1,7 milljarða síðustu 20 ár og heimsframleiðsla hefur aukist um 20 trilljónir dollara á sama tíma. Þar af hafa aðeins 15% fallið í hlut þróunarríkja sem eiga langmestan hlut í fólksfjölguninni. Hann taldi útrýmingu fátæktar eiga að vera forgangsverkefni hjá samfélagi þjóðanna við upphaf nýrrar aldar.

Enginn staður á jörðinni gæti verið eyland í hafsjó eymdar. Annaðhvort takist að bjarga heimsbyggðinni sem heild eða allir týni lífi. Ráðstefnan í Ríó rísi því aðeins undir merki að ákvarðanir hennar leiði til grundvallarbreytinga á þeim aðstæðum sem leitt hafi til þeirrar kreppu sem við stöndum frammi fyrir.

 

Sjórinn ekki ótæmandi nægtabúr

Meðal þeirra tugþúsunda, sem sitja ráðstefnuna í Ríó, er franski haffræðingurinn og Nóbelsverðlaunahafinn Jacques Cousteau. Það var áhrifamikið að hlýða á fyrirlestur sem þessi áttræði öldungur hélt á dögunum til hliðar við aðalfundi ráðstefnunnar. Upphaf ræðu hans snerist um fólksfjölgunina og það álag sem henni fylgir á auðlindir jarðar. Á mánuði hverjum bætast við 50 milljónir manna sem svarar til íbúafjölda Frakklands. Það er útilokað að sjá sívaxandi fjölda jarðarbúa fyrir sæmilegum lífskjörum. Ólæsi og fáfræði eru ein aðalhindrunin gegn því að draga úr fjölguninni. Um 40% jarðarbúa eru ólæs. Hafið er engin gullkista lengur. Sjávarafli hefur aukist úr 20 milljónum tonna árið 1950 í nær 100 milljónir á ári. Þetta hefur gerst í krafti gífurlegra fjárfestinga og tækni sem hefur viðhaldið tálsýninni um sjóinn sem ótæmandi nægtabúr.

Óheftur markaðsbúskapur leiðir til hrikalegs misréttis. Lögmál gullkálfsins, sem við beygjum okkur fyrir, er að gera út af við síðustu leifar siðrænna gilda sem ekkert þjóðfélag hefur hingað til getað verið án. Í lok magnþrunginnar ræðu sinnar ákallaði Cousteau þjóðarleiðtoga og aðra fulltrúa á ráðstefnunni að gera sér grein fyrir að grípa verði strax til róttækra og óhefðbundinna ráða. Hugsjónir þarf til að komast yfir og ryðja burt hindrunum ríkjandi skipulags.

Því miður er enn fátt sem bendir til að Ríó-ráðstefnan marki þau þáttaskil sem lýst var eftir í þeim hátíðarræðum sem hér hefur verið getið um. Andstaða öflugasta iðnaðarveldis heims, Bandaríkjanna, við bindandi ákvarðanir á mörgum sviðum liggur eins og skuggi yfir þessum fjölsótta fundi. Vistkreppan verður ekki leyst hér í Ríó en þó skulum við ekki útiloka að ráðstefnan marki upphaf að alþjóðaátaki til bjargar mannkyninu á elleftu stundu.

 


Til baka | | Heim