Guðmundur Sigurjónsson sjötugur

15.september 1994

 

Margir þeir sem eiga leið um Neskaupstað að loknum vinnudegi eða um helgar hafa tekið eftir lágvöxnum manni dökkhærðum, síðustu árin með gráma í vöngum, fótgangandi á miklu skriði eftir Strandgötu eða Hafnargötu á innleið eða útleið eftir atvikum. Hreyfingarnar eru snöggar og göngulagið áreynslulaust. Nú aka flestir hjá í bíl og göngumaður horfir til Þeirra með vott af vorkunnsemi og veifar kunnugum án þess Þó að hægja á sér. Þetta er hann Guðmundur Sigurjónsson, Gummi okkar Stalín eins og við köllum hann óhikað hálfum mannsaldri eftir að Kremlbóndinn frá Georgíu féll af stalli ásamt fleiri virðingarmönnum aldarinnar

Ég býst við að mörgum fari sem undirrituðum að eiga erfitt með að fallast á að þessi göngugarpur verði sjötugur á morgun, 15. september. Hann gæti sem best verið tíu árum yngri eftir útliti og hreyfingum að dæma að ekki sé talað um fas hans, glaðværð og skjót tilsvör sem oft fylgir snöggur hlátur.

Guðmundur hefur verið einn af burðarásunum Neskaupstaðar Þau rösklega þrjátíu ár sem ég hef verið þar búsettur, kominn úr hópi þeirra mörgu sem standa þar undir útflutningsframleiðslu og gjaldeyrisöflun og hafa fiskinn að viðfangsefni hvern virkan dag inni í SÚN. Hann hefur um langt skeið verið fulltrúi starfsfélaga sinna í stjórn Verkalýðsfélags Norðfirðinga, formaður í fáein ár og varaformaður í nær þrjá áratugi við hlið Sigfinns Karlssonar en þeir hættu samtímis í stjórn á síðasta ári. Verkalýðsbarátta og það sem henni tengist hefur átt hug Guðmundar og hann hefur reynst afar traustur í störfum fyrir félagið. Hann hefur oft verið fulltrúi verkalýðsfélagsins á ASÍ-þingum átt sæti í samninganefndum og lagt lið Alþýðusambandi Austurlands þar sem hann var gjaldkeri í sex ár.

En Guðmundur hefur líka verið ötull Þátttakandi í stjórnmálastarfi, fyrst í Sósíalistafélagi Neskaupstaðar og síðar Alþýðubandalaginu í Neskaupstað. Á þeim vettvangi kynntist ég honum fyrst og þau eru orðin mörg árin sem Guðmundur hefur komið þar við sögu í stjórn og öðrum trúnaðarstörfum. Áhugi Guðmundar á pólitík hefur verið ódrepandi og ekki dofnað þótt fallið hafi á æskudraumana varðandi fjarlæg lönd og álfur. Ýmis önnur félög hafa líka notið góðs af liðsinni hans og félagsmálaáhuga, t.d. Náttúruverndarsamtök Austurlands og einnig hefur hann lagt bindindismálum gott lið og sjálfur ætíð verið reglumaður.

Þótt Guðmundur hafi lengst af starfað í fiski hefur hann einnig sinnt öðrum störfum. þannig var hann á sjöunda áratugnum í nokkur ár framkvæmdastjóri félagsheimilisins Egilsbúðar og um tíma átti hann og rak bókabúðina Vík. Sjálfur á hann allvænt safn bóka og er margfróður af bóklestri um menn og málefni.

Sem einlægur og áhugasamur sósíalisti hefur Guðmundur verið framarlega í hópi þeirra mörgu sem tryggt hafa Neskaupstað róttæka forustu í nærfellt hálfa öld. Ég vil á þessum tímamótum þakka honum stuðninginn við góðan málstað og ánægjulegar stundir í blíðu og stríðu um þriggja áratuga skeið. Gangan heldur áfram og á meðan fólk af gerð Guðmundar er meðal þátttakenda þarf engu að kvíða.

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim