Hjörleifur Guttormsson:

Brotalamir í umhverfismálum

 

Undanhald á alþjóðavettvangi

Dag hvern berast okkur váleg tíðindi utan úr heimi af ástandi umhverfismála. Einn daginn segja fréttir okkur að meira en miljarður manna í borgum búi við heilsuspillandi mengun. Varnaraðgerðir felast í að stöðva bílaumferð þegar verst gegnir og fólki er ráðlagt að hreyfa sig sem minnst utan dyra. Ósónlagið heldur áfram að þynnast næstu áratugi þrátt fyrir alþjóðasamning sem bannar ósoneyðandi efni. Veðurkerfi sveiflast meira en dæmi eru til frá því athuganir hófust og sumir vísindamenn tengja það loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þurrkar og skógareldar með reykmengun sem tekur til heilla heimshluta hafa fylgt í kjölfarið. Manngerð efnasambönd valda truflun á innkirtlastarfsemi lífvera og ógna heilsu og frjósemi manna og dýra. Í Evrópu hefur verið reynt að stinga við fæti til verndar umhverfinu á mörgum sviðum, en samt fer ástandið versnandi á heildina litið.

Umhverfisstofnun Evrópu sem Ísland er aðili að hefur nýlega gefið út yfirlitsskýsrlu um ástand umhverfismála í álfunni. Þar kemur fram að þrátt fyrir viðnám og nokkurn árangur hallar undan fæti á mörgum sviðum umhverfismála. Sívaxandi mengun vegna stóraukinna flutninga á landi er eitt dæmi af mörgum um öfugþróun. Iðnaðar- og neysluþjóðfélagið stefnir í ranga átt og afar brýnt að snúa við blaði og lyfta merki sjálfbærrar þróunar á öllum sviðum.

 

Bág staða hérlendis

Ísland er á mörgum sviðum illa á vegi statt í umhverfismálum. Gróður- ogjarðvegseyðing er stórfellt vandamál. Mikið vantar á að við því sé brugðist á viðhlítandi hátt og að beitt sé vistvænum aðferðum við endurgræðslu og til að stöðva uppblástur. Framkvæmd sáttmálans um líffræðilega fjölbreytni sem gekk í gildi hérlendis í árslok 1994 hefur hingað til verið nánast nafnið tómt og fyrst nýverið að samráðsnefnd vegna hans var skipuð. Löggjöf um gróðurvernd og landgræðslu er löngu úrelt enda verið nær óbreytt frá árinu 1965 að telja. Staðbundin mengun er veruleg og víða vaxandi vandamál. Orkufrekum stóriðjuverum er leyft að menga umhverfið langt umfram alþjóðlega staðla og opinberu heilbrigðiseftirliti er haldið í fjárhagslegu svelti.

Íslensk stjórnvöld krefjast þess að vera undanþegin takmörkunum um losun gróðurhúsalofttegunda, og er það eitt helsta baráttumál stjórnvalda um þessar mundir. Þetta gerist þótt Ísland hafi í Kyoto fengið heimild til að auka losun á sama tíma og flest önnur þróuð ríki hafa skuldbundið sig til að draga úr. En á fleiri sviðum er einkennilega á málum haldið. Nýlegt dæmi er ákvörðun umhverfisyfirvalda að heimila hér notkun eiturefnisins fenemal sem stefnir arnarstofninum í hættu. Listinn er því miður langur um rangar ákvarðanir og neikvæða stöðu umhverfismála á Íslandi. Svona má þetta ekki halda áfram til frambúðar. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og gætum orðið öðrum til fyrirmyndar sé rétt á haldið.

 

Brotalamir í stjórnsýslu

Brotalamir eru margar og afdrifaríkar í stjórnsýslu umhverfismála á Íslandi. Umhverfisráðuneytið er afar veikt og illa að því búið. Ráðuneytið er því hvorki fært um að vera lykilstofnunum sem undir það heyra sá bakhjarl sem þarf né að koma fram af styrk gagnvart öðrum ráðuneytum. Þar við bætist langvarandi fjársvelti stofnana eins og Hollustuverndar ríkisins og Náttúruverndar ríkisins. Væntanlega dettur engum í hug að öll stjórnsýsla umhverfismála eigi að falla undir umhverfisráðuneytið. Í umhverfismálum á allt stjórnkerfið að vera samvirkt og sveitarfélög og svæðisstofnanir hafa þar mikilvægu hlutverki að gegna. Stefnumótun, yfirsýn og vöktun á hins vegar heima í umhverfisráðuneyti og stofnunum þess. Þetta á meðal annars við um náttúruauðlindir lands og sjávar og framkvæmd alþjóðasáttmála á umhverfissviði.

Það var furðulegt tiltæki við myndun núverandi ríkisstjórnar að setja einn og sama ráðherra yfir landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti. Viðkomandi ráðherra var með því settur í óviðunandi stöðu og umhverfisráðuneytið setti stórlega niður. Framsóknarflokkurinn ber á þessu ábyrgð. Nýlega hefur frekari gengislækkun orðið á stöðu umhverfisráðuneytisins þegar stofnuð var sérstök auðlindadeild innan utanríkisráðuneytisins og utanríkisráðherra boðar að hlutverk hennar sé að samræma afstöðu annarra ráðuneyta, meðal annars í loftslagsmálum. Gott er að utanríkisþjónustan fylgist með og leggi lið á þessu sviði, en forysta um stefnumótun og úrskurðarvald á að vera hjá ráðuneyti umhverfismála sem á sínu sviði þarf að fá hliðstæða stöðu og fjármálaráðuneytið.

 

Afstaðan til frjálsra félagasamtaka

Afstaða ríkisstjórnarinnar til frjálsra umhverfisverndarsamtaka hefur verið afar sérkennileg svo ekki sé meira sagt. Leiðtogar stjórnarflokkanna hafa lagt lykkju á leið til að gagnrýna umhverfissamtök á alþjóðavettvangi. Einkum hefur utanríkisráðherra margítrekað veist að þeim og varað við starfsemi þeirra. Þarna eru íslensk stjórnvöld á varhugaverðri braut. Auðvitað má finna þess dæmi að erlend umhverfisverndarsamtök haldi fram stefnu sem stangast á við skoðanir stjórnvalda á hverjir séu hagsmunir Íslendinga. Slíkt er nú einu sinni eðli frjálsra samtaka að veita aðhald og ryðja nýjum sjónarmiðum braut. Á alþjóðavettvangi er sú stefna að styrkjast í sessi að stjórnvöld ástundi vinsamleg samskipti við frjáls félagasamtök og þau fái hlut í undirbúningi mála og jafnvel ákvarðanatöku. Um þetta nægir að vísa til ályktana umhverfisráðstefnu Evrópuríkja í Árósum í síðasta mánuði.

Afstaða íslenskra stjórnvalda til innlendra áhugamannasamtaka sem hafa umhverfis- og náttúruvernd á stefnu sinni hefur því miður einnig verið heldur neikvæð og fráhrindandi. Lítið hefur verið gert að því af opinberri hálfu að hlúa að starfi slíkra samtaka sem geta þó verið afar þýðingarmikill tengiliður milli stjórnvalda og almennings. Þegar lögum um náttúruvernd var breytt 1996 voru lagaákvæði veikt að þessu leyti frá því sem áður var. Á þessu þarf að verða grundvallarbreyting. Virkja þarf áhuga almennings í þágu umhverfisverndar og hlúa að frjálsum samtökum sem láta sig umhverfismál varða, meðal annars með fjárstuðningi á fjárlögum.

 

Staðardagskrá 21

Þáttur sveitarfélaga í umhverfismálum er afar mikilvægur og á hann var lögð áhersla í framkvæmdaáætlunnni frá Ríó, sem ber heitið Dagskrá 21. Það dróst hins vegar úr hömlu hérlendis að sveitarfélögum væri kynnt samþykktin frá Ríó um Staðardagskrá 21 og fengju örvun til að hefjast handa um áætlanir um sjálfbæra þróun. Undirritaður flutti tvívegis á Alþingi tillögu um slíka kynningu og stuðning. Síðastliðinn vetur var loks gerður samningur milli umhverfisráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um að hrinda af stað vinnu að umhverfisáætlunum sveitarfélaga. Fáein sveitarfélög höfðu þá þegar komist á sporið í þessu efni og væntanlega fer þeim fjölgandi. Í þessum hópi voru Egilsstaðir á Héraði og hafði Sigurborg Kr. Hannesdóttir umsjón með umhverfisverkefni sveitarfélagsins. Sigurborg ritaði ágæta grein um þessi mál í Morgunblaðið 4. júlí síðastliðinn. Vonandi hefja nú mörg sveitarfélög vinnu að því að móta sína staðardagskrá. Það mun stuðla að breyttu gildismati sem brýn þörf er á og laða íbúa byggðarlaganna til þátttöku í vinnu að betra og lífvænlegra samfélagi.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim