Lónsöræfi sem friðland og útivistarsvæði Erindi flutt á fundi um Stafafellsfjöll Höfn í Hornafirði 18. september 1993
Góðir fundarmenn. Í þessu erindi verður fjallað um friðlýsingu svæðisins í Stafafellsfjöllum sem tók gildi að náttúruverndarlögum í ársbyrjun1977 en það hefur verið kallað friðland á Lónsöræfum. Lítillega verður vikið að náttúrufari þess, frásögnum um það og rannsóknum síðustu 100 árin og landnýtingu. Jafnframt mun ég víkja að því hvernig æskilegt væri að vinna áfram að verndun svæðisins á þeim grunni sem lagður var fyrir 17 árum.
Sérkenni Lónsöræfa Ekki er auðvelt að draga fram sérkenni Lónsöræfa í stuttu máli í orðum, því að um þau gildir það sama og um önnur úrvalssvæði að sjón er sögu ríkari. Nefna má fjölbreytni og litríki í jarðmyndunum sem að meginstofni til eru 5-7 milljón ára gamlar en þær yngstu tengjast ísöldinni. Á svæðinu og í grennd þess eru leifar margra megineldstöðva og fer þar mest fyrir afurðum Kollumúlaeldstöðvarinnar, m.a. líparíti, innan friðlandsins. þar eru einnig mikil ummerki jarðhita sem átt hefur sinn þátt í ummyndun og litauðgi bergs á svæðinu, og síðustu leifar hans finnast enn á yfirborði í ölkeldum. Háir fjallgarðar, víðast yfir 1000 metra, mynda umgjörðina á þrjá vegu, krýndir fönnum og jöklum sem senda frá sér skriðjökultungur. Hæst ber Grendil að vestan (1570 m) og Jökulgilstinda (1313 m) að austan, en á milli rís Sauðhamarstindur upp í 1319 m hæð. Gífurlegir rofkraftar ísaldarinnar hafa sorfið landið og gefið því það stórfenglega svipmót sem nú blasir við og gagntekur hvern þann sem fer um þetta fjalllendi. þannig hafa jöklarnir heflað út Jökulsárdal og Víðidal og árnar bætt um betur í hrikalegum gljúfrum. Nokkrir fallegir fossar prýða svæðið, sá hæsti enn nafnlaus þar sem hann steypist niður af Suðurfjalli innan við Axarfell og var til skamms tíma hulinn jökli. Skógarkjarr og gróðurtorfur prýða svæðið og tvö eyðibýli, Eskifell og Grund, tengja það við byggðasögu og ævintýralegt mannlíf á 19. öld. Forðum tíð var hér fjallvegur milli landshluta eins og Norðlinga-örnefnin vitna um, en hann lagðist af um aldir. Landsvæði sem mikilvægt er að varðveita sakir sérstaks landslags, gróðurfars eða dýralífs getur Náttúruverndarráð friðað í heild og nefnast þau friðlönd. Má þar ekki raska náttúrufari né gera mannvirki, sem spilla svip landsins. þannig er upphaf 24. greinar laga um náttúruvernd. Efast nokkur um að þessi mælistika eigi við Stafafellsfjöll?
Frásagnir og rannsóknir Lengi vel var fáförult um þessar slóðir nema af dugmiklum fjárleitarmönnum. Í Sýslulýsingu Sigurðar Stefánssonar frá 1746 stendur þar sem lýst er nágrenni Stafafells: "Dalverpi eitt heitir þar Skyndidalur. Fjall er þar norðarlega, heitir Kollumúli, s+ú norðasta sauðaganga næstliggjandi byggða.- þar noðrur og norðaustur eru víðlendar heiðar og miklir fjallaklasar sem strekkja sig til Héraðsfjalla og Múlasýslu, hér ókennd." það var fyrst þorvaldur Thoroddsen sem leit þetta svæði með augum náttúrufræðings. hann kom í Víðidal með Sigfúsi Jónssyni síðar bónda þar sumarið 1882 og öðru sinni 1894, en þá reið hann frá Stafafelli um Kjarrdalsheiði norður yfir Hraun til Snæfells. þessum ferðum og því sem fyrir augu bar lýsir hann skilmerkilega í Ferðabókum sínum. Fyrsta ritgerðin sem kom fyrir almenningssjónir um þessar slóðir var hins vegar glögg lýsing Sigfúsar á Grund í kunningjabréfi sem birtist í Austra 1884 og margir heimamenn hafa síðan rómað þetta svæði í ágætum ritgerðum. Jón Jónsson prestur á Stafafelli varð fyrstur manna á öldinni sem leið til að ríða þennan "fjallabaksveg Austfirðinga" milli Fljótsdals og Lóns haustið 1886 og gerði leiðinni glögg skil í frásögn í Austra sama ár. Hér er einnig rétt að geta um gönguferð Eysteins Jónssonar alþingismanns suður yfir Hraun við þriðja mann í ágúst 1962, en frásögn um hana birti hann í Tímanum ári síðar og flutti hana einnig sem erindi í útvarpið. þessi gönguferð Eysteins vísaði á það sem koma skyldi og hann sat við borðsendann í Náttúruverndarráði þegar gengið var frá friðlýsingu Lónsöræfa. Erindi Eysteins og ekki síður kvikmynd Ásgeirs Longs, "Labbað um Lónsöræfi", sem hann tók sumarið 1965, opnuðu augu margra fyrir þeim dásemdum sem hér voru fólgnar að fjallabaki. Sá sem hér talar kom fyrst í Lón í júlí 1966 og fékk þá glóðvolgar frásagnir af svaðilförum kvikmyndatökumanna með kaffinu í Dal. Í það skipti komst ég ekki lengra en inn í Austurskóga, en úr því var bætt með ferð um Kollumúlasvæðið sumarið 1969 og oft síðan. Gerði ég m.a. athuganir á gróðri og flóru svæðisins auk almennra lýsinga á staðháttum. Helgi Torfason jarðfræðingur rannsakaði jarðfræði Stafafellsfjalla og nágrennis á árunum 1975-76 og skrifaði um hana yfirgripsmikla doktorsritgerð sem því miður er aðeins til á enskri tungu.
Aðdragandi friðlýsingar Tillaga um friðlýsingu Lónsöræfa eða Stafafellsfjalla að náttúruverndarlögum var fyrst sett á blað í náttúruminjaskrá NAUST Náttúruverndarsamtaka Austurlands - NAUST á árinu 1972. Skrá þessi hafði að geyma ábendingar um æskileg verndarsvæði á Austurlandi. þar er bent á Lónsöræfi sem æskilegan þjóðgarð með vísan til fjölbreytni og stórfenglegrar náttúru. Sá beinbugur einn var á þeirri ráðagerð að þjóðgarður þarf lögum samkvæmt að vera á landi í ríkiseign en að öðru leyti býr svæðið fyllilega yfir þeim eiginleikum sem gerðir eru til þjóðgarða. Á fundi í stjórn NAUST í mars 1974 var ákveðið að samtökin stuðli að friðlýsingu Lónsöræfa í einhverju formi sem fyrst "með tilliti til vaxandi ferðamannastraums þangað og ásóknar í lönd fyrir sumarbústaði", eins og það var orðað í greinargerð. Í júní 1974 hóf þáverandi formaður NAUST, sá er hér stendur, viðræður við landeigendur um friðlýsingu svæðisins sem friðlands, þ.e. að ekki þyrfti að verða breyting á eignarhaldi og hefðbundnum nytjum en reglur yrðu settar um mannvirkjagerð, umferð og umgengni. Jafnframt yrði komið upp lágmarksaðstöðu til móttöku ferðamanna og eftirliti með svæðinu. þann 3. ágúst 1974 sendi stjórn NAUST mótaða tillögu um friðlýsingu Lónsöræfa (Stafafellsfjalla) til Náttúruverndarráðs til umsagnar. Ráðið fjallaði um tillöguna og samþykkti hana fyrir sitt leyti með nokkrum breytingum 26. nóvember 1975. - Í framhaldi af því voru mál rædd frekar við rétthafa á Stafafelli og Brekku vorið 1976 og síðan gengið formlega frá stofnun friðlandsins með þinglýsingum og auglýsingu frá menntamálaráðuneytinu í Stjórnartíðindum 11. janúar 1977.
Um einstök ákvæði friðlýsingarinnar Í endanlegri friðlýsingu varð m.a. sú breyting frá frumtillögu NAUST að mörk friðlandsins norðan Jökulsár, sem stjórn NAUST hafði gert ráð fyrir að væru um Hvannagil (þ.e. að friðlandið tæki einnig til Austurskóga og Smiðjuness), voru færð langtum innar að Sviptungnavarpi, Hnappadalstindi og Vondasnaga við Jökulsá. Óformlegt samkomulag var hinsvegar um það við landeigendur að ekki yrði leyfð sumarhúsbyggð innan við Hvannagil. það tengdist einnig friðlýsingunni með óbeinum hætti að komið yrði upp tjaldsvæði fyrir ferðafólk við alfaraleið í Lóni. Höfðu hreppsnefndarmenn í Lóni, sumarbústaðaeigendur og landeigendur á Stafafelli og Brekku m.a. lagt áherslu á það atriði, en um þetta leyti var vegasamband opnað yfir Skeiðarársand. Féllst Náttúruverndarráð á að stuðla að því að komið yrði upp tjaldsvæði í sveitinni og tókst samkomulag við eigendur þórisdals um aðstöðu fyrir það í Dalsklifum. Hófst rekstur þess í júní 1976 og var það rekið yfir sumarmánuði, síðast að mig minnir árið 1980. Jörðin þórisdalur er á náttúruminjaskrá Náttúruverndarráðs síðan 1978. Komið var upp náðhúsi norðan undir Illakambi en ekki byggð önnur aðstaða fyrir ferðafólk í friðlandinu fyrr en þar voru reist sæluhús á árunum 1991-93.
Landnýting og ákvæði vegna beitar Í reglum um friðlandið er kveðið á um að hefðbundnar nytjar landeigenda, svo sem búfjárbeit og veiðiréttur haldist óskertar nema um annað verði samkomulag, en tekið er fram að "sérstaklega skal þess gætt að misbjóða ekki beitarþoli afrétta og hlífa kjarri og skóglendi eftir föngum". Búseta var í Innfjöllum á tveimur býlum á 19. öld (Eskifelli (27 ár 1836-1863) og Grund í Víðidal (alls um 20 ár á tímabilinu 1835-1897)) .Um og eftir aldamótin 1900 fóru Stafafellsbændur að reka fé, aðallega sauði, í Eskifell og Kollumúla og síðar höfðu Lónmenn þar hrúta (allt að 60). Fé slæddist af Upp-Héraði suður yfir Hraun, flest 50-60 kindur á árunum 1897-1917. Einnig hefur nokkuð af fé úr Álftafirði gengið í Víðidal lengst af á þessari öld. Geta má þess að nokkur naut voru rekin í Víðidal til sumargöngu rétt fyrir aldamótin 1900 frá þórisdal og eftir 1908 frá Stafafelli. Fráfærulömb voru rekin frá Stafafelli á Skyndidal um 1900, eitthvað á annað hundrað, og mörg Lambatungnanöfn á svæðinu segja sína sögu um búskaparhætti fyrri tíðar. Heimildir eru um hreindýr í Víðidal og grennd á 19. öld, t.d. var mikið af þeim veturinn 1888-1889. Á 20. öld sáust hreindýr hins vegar varla í Stafafellsfjöllum í fjárleitum.fyrr en eftir 1950 en þau námu þar land á ný eftir 1964 og hefur oft verið þar margt hreindýra síðan. Er kom fram á 20. öld var farið að reka fé af Stafafellstorfunni í Eskifell og inn undir Kollumúla fyrir sauðburð. Dreifðist það um afréttinn áður en vorhamur kom í árnar. Síðan var rúið og markað þar innfrá. Hætt var að reka fé inn yfir Skyndidalsá frá Stafafelli og Brekku um 1960 en Skafti Benadiktsson í Hraunkoti nýtti afréttinn lengur af miklu harðfylgi og vart aðrir sem eiga þar fleiri spor. Gróðri fór mikið fram er fé fækkaði milli 1960-70 og víða var kominn myndarlegur birkinýgræðingur í lok áratugarins, m.a. í Jökulsárdal allt frá Nesi og inn í Tröllakróka. Frá 1971 að telja hafa bændur úr Nesjum rekið fé í Innfjöll og margfaldaðist þá álag á afréttinn. Nýgræðingur af birki og víði var uppurinn á fáum árum og annar gróður fór mjög halloka. Minnti þetta á umskiptin sem urðu í Víðidal við búsetuna 1883-87 eftir að þar hafði verið fjárlaust í 35 ár, en um þau er greinargóð lýsing í ferðabókum þorvaldar Thoroddsens. Smölun hefur löngum verið erfið í Stafafellsfjöllum. Vafalaust réði sú staðreynd miklu um það á sínum tíma að landeigendur heimiluðu Nesjamönnum upprekstur í Innfjöll sem þeir hafa nú haft afnot af í rúma tvo áratugi. Burtséð frá því hver framvinda verður í því efni tel ég tímabært að endurskoða lög um afréttarmálefni að því er tekur til friðlýstra svæða varðandi kvaðir um fjallskil og leitir, ef svæðið er ekki nýtt til beitar af landeigendum.
Lónsöræfi sem gönguland Í reglum um friðlandið segir í 3.lið: "Umferð vélknúinna farartækja er bönnuð nema á ógrónum áreyrum, vegum og öðrum merktum akslóðum innan svæðisins." Afar mikilvægt er að við þessi ákvæði sé staðið. Svæðinu þarf að halda sem göngulandi þar sem fótgangandi fái að reyna sig ótruflaðir af skarkala vélaaldar. Með því er um leið viðhaldið æskilegum takmörkunum á umferð um svæðið og vernd fyrir átroðningi, svo ekki sé talað um akstur utan vega. Sérstaklega þarf að vera á verði gagnvart hugmyndum um akslóða yfir Hraun, en hugmyndir þar að lútandi voru á kreiki um tíma, m.a. í tengslum við vatnsaflsvirkjanir. það þarf ekki að fara mörgum orðum um afleiðingar þess ef bílum væri hleypt yfir Hraun suður á Kollumúla. þessi náttúruverndarsjónarmið hafa fengið góðan stuðning frá sveitarstjórn Bæjarhrepps. Í áliti sem þorsteinn Geirsson oddviti ritaði fyrir hönd hreppsnefndarinnar vegna umsóknar Ferðafélags Fljótsdalshéraðs um skála við Kollumúlavatn, dags. 18. mars 1992 segir m.a.: "Með því að skapa góð skilyrði fyrir gangandi fólk á nefndu svæði, þ.e. að tengja saman með þremur skálum gönguleiðina Kollumúli, Kollumúlavatn, Víðidalur þar rétt hjá og Geldingafell og að leyfi til byggingar skálans sé skilyrt á þann veg að fjórhjólatæki séu algerlega bönnuð á svæðinu er verið að útiloka sem framast má verða að svæðið verði fyrir átroðningi af óprúttnum ökuþórum, sem því miður virðist of víða vera fyrir hendi. Niðurstaða hreppsnefndar vegna umsóknarinnar um skálabygginguna hjóðar þannig: "Hreppsnefnd Bæjarhrepps mælir með því að leyft verði að byggja nefndan skála við Kollumúlavatn með því skilyrði að ökutækjum verði ekki hleypt inn á svæðið."
Skálabyggingar og gönguleiðir Ferðafélag Austur-Skaftfellinga reisti Múlaskála í Nesi 1991-92 og Ferðafélag Fljótsdalshéraðs skálann við Kollumúlavatn, sem tekinn var í notkun fyrr á þessu ári. Hvorutveggja var mikið átak fyrir fremur fámenn félög og að miklu leyti byggt á sjálfvboðaliðastarfi. Með tilkomu þessara húsa hefur orðið gagnger breyting á aðstöðu þeirra er ferðast vilja um svæðið, þótt rými séu takmörk sett. það er umhugsunarefni, hvort leyfa eigi ferðaþjónusturekstur inn á friðlandið og jafngott að á þeim málum verði tekið yfirvegað af öllum hlutaðeigandi. Hætt er við að fljótt geti orðið þröngt fyrir dyrum í Múlaskála, Egilsseli og Geldingafelli þótt slíkt komi ekki til. það getur ekki talist eðlilegt að ferðarekendur sem engu hafa til kostað fari að gera út á svæði sem þetta án heimilda og ítarlegs samráðs.við Náttúruverndarráð og landeigendur. Með uppbyggingu skála eins og nú hafa verið reistir á leiðinni frá Illakambi að Snæfelli fyrir gangandi ferðalanga er fylgt stefnu sem mörkuð var með friðlýsingunni, en við þá þurfa að vera tjaldstæði fyrir fólk með göngutjöld og viðhlítandi hreinlætisaðstaða. Mikið verk er framundan við lagfæringu og merkingu gönguleiða á svæðinu "eftir nánara skipulagi" eins og segir í reglum um friðlandið. það sama gildir varðandi göngubrýr yfir ár svo sem Skyndidalsá, Víðidalsá og e.t.v. einnig Jökulsá á fleiri stöðum en hjá Nesi. Í 4. gr. friðlýsingarreglnanna er m.a. tekið fram að heimilt sé að ganga um svæðið og fara um það með hesta, en Náttúruverndarráð setji nánari reglur viðvíkjandi þess háttar umferð í samkomulagi við landeigendur. Slíkar nánari reglur hafa enn ekki verið settar og bíður þar verkefni víðtækara skipulags.
Varsla og eftirlit með friðlandinu "Náttúruverndarráð skal í samvinnu við aðra, er í hlut eiga, sjá um að haldið sé við vegslóðum, göngubrúm, gömlum götum og vörðum eftir nánara skipulagi. Á sama hátt skal tryggð önnur lágmarksaðstaða fyrir ferðafólk, svo sem afmörkun tjaldsvæða með hreinlætisaðstöðu samkvæmt skipulagi og í samráði við landeigendur. þá skal Náttúruverndarráð tryggja vörslu og eftirlit á svæðinu að sumarlagi." Hér er enn vísað til skipulags sem er óunnið að best ég veit en sem löngu er tímabært að hugað sé að. Um það leyti sem friðlýsingin var ákveðin stóð Náttúruverndarráð fyrir rekstri á tjaldsvæði í Dalsklifum og var þá gert ráð fyrir að þaðan færi fram eftirlit með friðlandinu og umferð um það, enda engin dvalaraðstaða þá komin innan þess. Rekstur tjaldsvæðisins í þórisdal lagðist af um 1980 og hefur Náttúruverndarráð að mínu mati síðan ekki staðið við sitt að þessu leyti. Er brýnt að þar verði á breyting.hið fyrsta.
Stefnumörkun til frambúðar. Ég minnti á það áðan að í fyrstu ábendingum Náttúruverndarsamtaka Austurlands um friðlýsingu Lónsöræfa var talað um svæðið sem æskilegan þjóðgarð. Til þess hefði ríkið hins vegar þurft að eignast landið eins og lög kveða á um varðandi þjóðgarða. Hvorki Náttúruverndarráð né landeigendur knúðu á um slíkt og friðlýsingin var löguð að ríkjandi aðstæðum með óbreyttu eignarhaldi. Að mínu mati breytir þetta ekki þeirri staðreynd, að Lónsöræfi eru úrvalssvæði í fremstu röð og uppfylla að náttúrufari og víðáttu þær kröfur sem gerðar eru til þjóðgarða hérlendis sem erlendis. Mestu skiptir að verndun svæðisins taki mið af þessu, en þar reynir á skilning, framsýni og gott samstarf jafnt heimaaðila sem stjórnvalda. Til að tryggja samkomulag um náttúruvernd innan friðlands á Lónsöræfum til frambúðar er æskilegt að marka skýrar þá stefnu sem felst í friðlýsingunni með aðalskipulagi. Liður í slíkri skipulagsvinnu eru nánari rannsóknir á einstökum náttúrufarsþáttum, stöðu lífríkis á svæðinu og breytingum sem það tekur í tímans rás. Umsjónarnefnd, sem friðlýsingarreglurnar gera ráð fyrir, skipuð fulltrúum landeigenda, Náttúruverndarráðs og náttúruverndarnefndar Austur-Skaftafellssýslu, gæti verið kjörinn tengiliður við Skipulag ríkisins, ef það tæki að sér slíka vinnu.fyrir hlutaaðeigandi. Að sjálfsögðu þarf einnig að koma samvinna við fleiri aðila, sveitarstjórn svo sem lög kveða á um, svo og hlutaðeigandi ferðafélög og samtök í ferðaþjónustu. Ég fagna því að þessi fundur er hér haldinn og þakka þeim sem að því höfðu frumkvæði og þeim sem sýnt hafa málinu áhuga. það var tímabært að taka upp þennan þráð og vonandi hvetja umræður hér til aðgerða til að tryggja náttúruvernd og sjálfbæra nýtingu á friðlandinu á Lónsöræfum um ókomin ár.
Hjörleifur Guttormsson
Efni í glærur sem fylgdu erindi Hjörleifs Guttormssonar á ráðstefnu á Höfn um Friðland á Lónsöræfum 18. september 1992.
Sérkenni Lónsöræfa
* Fjölbreytni og litríki í jarðmyndunum. Megineldstöðvar: Kollumúla-, Flugustaða- Eyjabakkaeldstöð. Ummerki jarðhita. Ummyndað berg. Ölkeldur.
* Fjallgarðar og blágrýtishraun (900-1570 m) mynda umgjörð á þrjá vegu.
* Jökulhvel og skriðjöklar.
* Gífurlegt rof. Árgljúfur. Tindar.
* Fallegir fossar: Vesturdalur, Suðurfjall, Víðidalsá.
* Skógartorfur og grónir fjalldalir.: Jökulsárdalur, Víðidalur.
* Einangruð eyðibýli frá 19. öld: Eskifell, Grund í Víðidal.
-----------
Lónsöræfi: Frásagnir og rannsóknir
Svæðið rómað af heimamönnum og náttúrufræðingum.
* Ferðir þorvaldar Thoroddsens: - Í Víðidal úr Hofsdal 1882 og til Geithellnadals. - Frá Stafafelli um Kjarrdalsheiði, Víðidal og Hraun til Snæfells 1894. Ferðabók I. og III. bindi.
* Sigfús Jónsson lýsti Víðidal og nágrenni í Austra 1884.
* Jón Jónsson á Stafafelli reið "fjallabaksveg" milli Fljótsdals og Lóns 1886. Frásögn af ferðinni í Austra 1886..
* Sigurður Jónsson á Stafafelli ritaði um Lón og Norðlingaveg í Árbók FÍ 1937.
* Eysteinn Jónsson gekk frá Sturluflöt í þórisdal 1963. Grein í Tímanum. Í framhaldi af því greinar Helga Einarssonar frá Melrakkanesi í Sunnudagsblaði.
* Kvikmynd Ásgeirs Long: "Labbað um Lónsöræfi". 1965.
* Sigurður á Stafafelli notar heitið Lónsöræfi í greinum í Heima er best 1968.
* Hjörleifur Guttormsson fór um Stafafellsfjöll 1969 og oft síðar. Lýsing í Árbók FÍ 1974 og 1993.
* Helgi Torfason rannsakaði jarðfræði svæðisins 1975. Afrakstur doktorsritgerð 1976.
-------------------------------
Friðland á Lónsöræfum:
1. Tillaga um friðlýsingu Lónsöræfa eða Stafafellsfjalla að náttúruverndarlögum var fyrst sett á blað í náttúruminjaskrá NAUST (Náttúruverndarsamtaka Austurlands) á árinu 1972. þar er bent á svæðið sem æskilegan þjóðgarð með tilliti til fjölbreytni og stórfenglegrar náttúru.
2. Á fundi í stjórn NAUST í mars 1974 var ákveðið að samtökin stuðluðu að friðlýsingu svæðisins í einhverju formi sem fyrst með tilliti til vaxandi ferðamannastraums þangað og ásóknar í lönd fyrir sumarbústaði.
3. Í júní 1974 hóf þáverandi formaður NAUST, Hjörleifur Guttormsson, viðræður við landeigendur um friðlýsingu svæðisins sem friðlands, þ.e. að ekki þyrfti að verða breyting á eignarhaldi og hefðbundnum nytjum en reglur yrðu settar um mannvirkjagerð, umferð og umgengni ferðafólks.Jafnframt yrði komið upp lágmarksaðstöðu til móttöku ferðamanna og eftirliti með umferð og umgengni..
4. þann 3. ágúst 1974 sendi stjórn NAUST mótaða tillögu um friðlýsingu Lónsöræfa (Stafafellsfjalla) sem friðland til Náttúruverndarráðs til umsagnar. Náttúruverndarráð fjallaði um tillöguna og samþykkti hana fyrir sitt leyti með breytingum 26. nóvember 1975. - Í framhaldi af því voru mál rædd frekar við rétthafa á Stafafelli og Brekku vorið 1976 og síðan gengið formlega frá stofnun friðlandsins með auglýsingu frá menntamálaráðuneytinu 11. janúar 1977. Sú breyting varð m.a. frá frumtillögu NAUST að mörk norðan Jökulsár sem þar voru dregin um Grákinnartind og Gullaugarfjall í Dímu voru færð langtum innar, þ.e. að Sviptungnavarpi, Hnappadalstindi og Vondasnaga við Jökulsá.
5. Óbeinn liður í friðlýsingunni var að komið yrði upp tjaldsvæði fyrir ferðafólk við alfaraleið í Lóni. Féllst Náttúruverndarráð á að stuðla að því og tókst samkomulag við eigendur þórisdals um aðstöðu fyrir tjaldsvæði í Dalsklifum. Hófst rekstur þess í júní 1976 og var það rekið yfir sumarmánuði, síðast árið 1981 (?). Náðhús var sett upp norðan undir Illakambi en ekki önnur aðstaða fyrir ferðafólk í friðlandinu fyrr en Múlaskáli var reistur í Nesi 1991-92.
6. Í reglum um friðlandið er kveðið á um að hefðbundnar nytjar landeigenda, svo sem búfjárbeit og veiðiréttur haldast óskertar nema um annað verði samkomulag, en sérstaklega skal þess gætt að misbjóða ekki beitarþoli afrétta og hlífa kjarri og skóglendi eftir föngum. Búseta var á svæðinu (Eskifell (27 ár), Grund (um 20 ár)) á 19. öld. Um og eftir aldamótin 1900 fóru Stafafellsbændur að reka fé, aðallega sauði, í Eskifell og Kollumúla og síðar höfðu Lónmenn þar hrúta (allt að 60). Fé slæddist af Upp-Héraði suður yfir Hraun um aldamót og síðar, flest 50-60 kindur. Einnig hefur nokkuð af fé úr Álftafirði gengið í Víðidal á þessari öld. Er kom fram á 20. öld var fé rekið af Stafafellstorfunni í Eskifell og inn undir Kollumúla fyrir sauðburð. Dreifðist það um afréttinn áður en vorhamur kom í árnar. Síðan var rúið og markað þar innfrá. Hætt var að reka fé inn yfir Skyndidalsá frá Stafafelli og Brekku um 1960 en Skafti í Hraunkoti nýtti afréttinn lengur. Gróðri fór mikið fram milli 1960-70 og víða var kominn myndarlegur birkinýgræðingur, m.a. í Jökulsárdal frá Nesi og inn í Tröllakróka. Frá 1971 að telja hafa bændur úr Nesjum rekið fé í Innfjöll og margfaldaðist þá álag á afréttinn. Nýgræðingur af birki og víði var uppurinn á fáum árum og annar gróður fór halloka. Minnir það á umskiptin sem urðu í Víðidal við búsetuna 1883-87 og þorvaldur Thoroddsen lýsir eftir að þar hafði verið fjárlaust í 35 ár. Nokkur naut voru rekin í Víðidal til sumargöngu rétt fyrir aldamót (frá þórisdal) og eftir 1908 (frá Stafafelli). Fráfærulömb voru rekin frá Stafafelli á Skyndidal um aldamót, eitthvað á annað hundrað. Hreindýr sáust varla í Stafafellsfjöllum í fjárleitum.fyrr en eftir 1950 en námu þar land eftir 1964 og hefur oft verið þar margt hreindýra síðan.. Tófulaust var í Lóni að sagt er í tvo áratugi (1898-1918).
7. Í reglum um friðlandið segir í 3.lið: "Umferð vélknúinna farartækja er bönnuð nema á ógrónum áreyrum, vegum og öðrum merktum akslóðum innan svæðisins." Afar mikilvægt er að við þessi ákvæði sé staðið. Svæðinu þarf að halda sem göngulandi þar sem fótgangandi fái að reyna sig ótruflaðir af skarkala vélaaldar. Með því er um leið viðhaldið takmörkunum á umferð um svæðið en í því felst einnig vernd fyrir átroðningi, svo ekki sé talað um akstur utan vega. Sérstaklega þarf að vera á verði gagnvart hugmyndum um akslóða yfir Hraun, en hugmyndir þar að lútandi voru eitt sinn á kreiki m.a. í tengslum við vatnsaflsvirkjanir. það þarf ekki að fara mörgum orðum um afleiðingar þess ef bílum væri hleypt suður á Kollumúla og að brúnum Víðidals. þessi náttúruverndarsjónarmið eiga góða stuðningsmenn þar sem er hreppsnefnd Bæjarhrepps. Í áliti sem þorsteinn Geirsson oddviti ritaði fyrir hönd hreppsnefndarinnar vegna umsóknar Ferðafélags Fljótsdalshéraðs um skála við Kollumúlavatn, dags. 18. mars 1992 segir m.a.: "Með því að skapa góð skilyrði fyrir gangandi fólk á nefndu svæði, þ.e. að tengja saman með þremur skálum gönguleiðina Kollumúli, Kollumúlavatn, Víðidalur þar rétt hjá og Geldingafell og að leyfi til byggingar skálans sé skilyrt á þann veg að fjórhjólatæki séu algerlega bönnuð á svæðinu er verið að útiloka sem framast má verða að svæðið verði fyrir átroðningi af óprúttnum ökuþórum, sem því miður virðist of víða vera fyrir hendi. Niðurstaða hreppsnefndar við umsókninni um skálabygginguna hjóðar: "Hreppsnefnd Bæjarhrepps mælir með því að leyft verði að byggja nefndan skála við Kollumúlavatn með því skilyrði að ökutækjum verði ekki hleypt inn á svæðið." Með uppbyggingu skála eins og nú hafa verið reistir á leiðinni frá Illakambi að Snæfelli fyrir gangandi ferðalanga er fylgt stefnu sem mörkuð var með friðlýsingunni, en við þá þurfa að vera tjaldstæði fyrir fólk með göngutjöld. það helsta sem þarf að gera til viðbótar er að koma upp göngubrú yfir Skyndidalsá í mynni Skyndidals. Í 4. gr. friðlýsingarregnanna er m.a. tekið fram að heimilt sé að ganga um svæðið og fara um það með hesta, en Náttúruverndarráð setji nánari reglur viðvíkjandi umferð í samkomulagi við landeigendur. Slíkar nánari reglur hafa enn ekki verið settar og bíður þar verkefni víðtækara skipulags fyrir friðlandið.
8. Fimmta grein friðlýsingarinnar hljóðar svo: "Náttúruverndarráð skal í samvinnu við aðra, er í hlut eiga, sjá um að haldið sé við vegslóðum, göngubrúm, gömlum götum og vörðum eftir nánara skipulagi. Á sama hátt skal tryggð önnur lágmarksaðstaða fyrir ferðafólk, svo sem afmörkun tjaldsvæða með hreinlætisaðstöðu samkvæmt skipulagi og í samráði við landeigendur. þá skal Náttúruverndarráð tryggja vörslu og eftirlit á svæðinu að sumarlagi." Hér er enn vísað til skipulags sem er óunnið að best ég veit en sem löngu er tímabært að hugað sé að. Um það leyti sem friðlýsingin var ákveðin stóð Náttúruverndarráð fyrir rekstri á tjaldsvæði í Dalsklifum og var þá gert ráð fyrir að þaðan færi fram eftirlit með friðlandinu og umferð um það, enda engin dvalaraðstaða þá komin innan þess. Rekstur tjaldsvæðisins í þórisdal lagðist af eftir sumarið 1981 og hefur Náttúruverndarráð að mínu mati ekki staðið við sitt að þessu leyti síðan. Er brýnt að þar verði á breyting.
9. Frekari þróun friðlands á Lónsöræfum. Ég minnti á það áðan að í fyrstu ábendingum Náttúruverndarsamtaka Austurlands um friðlýsingu Lónsöræfa var talað um svæðið sem æskilegan þjóðgarð. Til þess hefði ríkið hins vegar þurft að eignast landið eins og lög kveða á um varðandi þjóðgarða. Hvorki Náttúruverndarráð né landeigendur knúðu á um slíkt og friðlýsingin var löguð að ríkjandi aðstæðum með óbreyttu eignarhaldi. Að mínu mati breytir þetta ekki þeirri staðreynd, að Lónsöræfi eru úrvalssvæði í fremstu röð og uppfylla að náttúrufari og víðáttu þær kröfur sem gerðar eru til þjóðgarða hérlendis sem erlendis. Mestu skiptir að verndun svæðisins taki mið af þessu, en þar reyndir á skilning, framsýni og gott samstarf jafnt heimaaðila sem stjórnvalda. Til að tryggja samkomulag um framsýna verndarstefnu er æskilegt að marka nánar þá stefnu sem felst í friðlýsingunni með aðalskipulagi af friðlandinu. Liður í slíkri skipulagsvinnu eru nánari rannsóknir á einstökum náttúrufarsþáttum, stöðu lífríkis á svæðinu og breytingum sem það tekur í tímans rás. Umsjónarnefnd, sem friðlýsingarreglur gera ráð fyrir, skipuð fulltrúum landeigenda, Náttúruverndarráðs og náttúruverndarnefndar Austur-Skaftafllssýslu, gæti verið kjörinn tengiliður við Skipulag ríkisins, ef það tæki að sér slíka vinnu.
Aðdragandi friðlýsingar
* Fyrstu hugmyndir NAUST 1972 * Viðræður við landeigendur hófust 1974 * Samþykkt í Náttúruverndarráði í nóvember 1975 * Staðfesting landeigenda á friðlýsingu 1976 * Rekstur tjaldsvæðis N-ráðs í Dalsklifum 1976-1980 * Auglýsing ráðuneytis á friðlýsingu 11. jan. 1977.
|