Lúðvík Jósepsson

16.júní 1914 - 18. nóvember 1994.

 

Með Lúðvík Jósepssyni er horfinn af sjónarsviðinu einn þekktasti sttórnmálamaður Íslendinga á þessari öld. Nafn hans var á hvers manns vörum hérlendis um áratuga skeið og á sjöunda og áttunda áratug aldarinnar brá því oftar fyrir í erlendum fréttaskeytum en flestra annarra Íslendinga.

það sem lengi mun halda nafni Lúðvíks á lofti í Íslandssögunni er hlutur hans í útfærslu íslenskrar landhelgi og fiskveiðilögsögu, fyrst í 12 mílur 1958 og síðan í 50 mílur 1972. Aldrei verður úr því skorið hver framvinda þessa máls hefði orðið án atfylgis Lúðvíks sem sjávarútvegsráðherra. Svo mikið er víst að með honum var ráðherrasætið skipað réttum manni til að halda á íslenskum málstað. Hlutur flokks hans, Alþýðubandalagsins, var líka stór þótt fleiri kæmu að málinu. Aðrir stjórnmálaflokkar áttu hins vegar erfiðara með að beita sér af sömu hörku vegna pólitískra tengsla við andstæðinga útfærslunnar, m.a. innan NATÓ.

Lúðvík lifði það að Hafréttarsamningur Sameinuðu þjóðanna tók formlega gildi. þeim viðburði var fagnað á hátíðarfundi á Jamaíka aðeins tveimur dögum fyrir andlát hans. Fáir Íslendingar lögðu í reynd meira til aðdraganda samningsins en Lúðvík, sem var fulltrúi á Genfar-ráðstefnunni um réttarreglur á hafinu 1958 og 1960 og síðan samfleytt árin 1975-1982.

Í nær hálfa öld var Lúðvík í forystusveit sósíalista og sat á Alþingi samfellt í 37 ár. Hann sótti stöðugt á og bætti við sig reynslu og þekkingu. Áður en hann lauk þingferli sínum naut hann almennrar viðurkenningar og virðingar samherja jafnt sem andstæðinga. Síðustu árin á Alþingi urðu eftirminnileg. Hann fékk í ágúst 1978 umboð forseta Íslands til að reyna myndun ríkisstjórnar og varð fyrstur sósíalista á lýðveldistímanum til að öðlast þann trúnað. Í raun lagði hann sem formaður Alþýðubandalagsins grunninn að ráðuneyti Ólafs Jóhannessonar sem tók við 1. september 1978. Hann hafði þá náð því að verða fyrsti þingmaður Austurlands eftir mikinn sigur Alþýðubandalagsins í kjördæminu og á landinu öllu í alþingiskosningum það vor.

Ýmsum þótti einkennilegt að Lúðvík skyldi hætta þingmennsku haustið 1979. Svo mikið er víst að þar átti hann sjálfdæmi. Fyrir utan pólitískt mat held ég mestu hafi ráðið það álag sem því fylgir að sinna svo víðfeðmu kjördæmi, ekki síst vaxandi kvöð á þingmenn um ferðalög á þingtíma.

Lúðvík var 65 ára er hann hætti þingmennsku og hélt lengst af góðri heilsu sem og fullri reisn til æviloka. Eftir að hann afsalaði sér formennsku í Alþýðubandalaginu á landsfundi 1980 hafði hann ekki mikil bein afskipti af málefnum flokksins en rækti af samviskusemi og áhuga þau trúnaðarstörf sem honum voru falin. Hann átti eftir þetta lengi sæti í miðstjórn og var fulltrúi Alþýðubandalagsins í bankaráði Landsbankans til dauðadags. Ætíð var Lúðvík til viðtals ef eftir var leitað, áhugasamur og með á nótunum í hvívetna.

Sá sem þetta ritar hefur margs að minnast úr samstarfi og samfylgd með Lúðvík Jósepssyni. Sumt af því hefur verið fest á blað í afmælisgreinum en annað bíður betri tíma. Meginviðhorf okkar fóru um margt saman en sjónarhorn voru um sumt harla ólík. það kom hins vegar ekki í veg fyrir ágætt samstarf sem ég man ekki eftir að skugga bæri á.

Heimbyggð Lúðvíks Jósepssonar, Neskaupstaður, á honum margt að þakka og Norðfirðingar drógu ekki af sér stuðning við hann á löngum ferli. Sósíalistar og annað vinstra fólk á Austurlandi átti í honum haldreipi sem dugði vel. Fyrir það hljótum við að þakka að leiðarlokum um leið og við sendum Fjólu, Steinari og öðrum nákomnum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 

 


Til baka | | Heim