Risakjördæmi afleitur kostur
Fram eru komnar hugmyndir um miklar breytingar á núverandi kjördæmaskipan. Undirrótin nú að umræðu um breytingar á kosningalögum er hin sama og oft áður, það er að jafna þurfi vægi atkvæða milli kjördæma í kjölfar búferlaflutninga. Slíkt umræða er ekki óeðlileg, þótt mjög sé orðum aukið það „misrétti" sem felst í núverandi skipan.
Þrjú risakjördæmi utan Reykjavíkur Kvisast hefur út um nokkrar hugmyndir kjördæma- og kosningalaganefndar sem starfar á vegum forsætisráðuneytis og skipuð er fulltrúum þingflokka á Alþingi. Eru þær flestar í þá átt að breyta þurfi núverandi kjördæmamörkum og fækka kjördæmum þannig að þau verði fimm eða sex talsins, tvö eða þrjú á höfuðborgarsvæði og þrjú á landsbyggð. Rökin sem fyrir þessu eru færð eru einkum þau að svo stórar einingar séu nauðsynlegar til að ná markmiðinu um jöfnun í vægi atkvæða og tryggja að stjórnmálaflokkar með umtalsvert fylgi eigi kost á að fá kjörna þingmenn í hverju kjördæmi. Þetta hljómar út af fyrir sig ekki illa, en hér liggur fiskur undir steini. Í hugmyndinni um aðeins þrjú kjördæmi utan höfðuborgarsvæðis felst að kjördæmin verða ógnarstór landfræðilega. Síðasta dæmið úr hugmyndasafni nefndarinnar var að Norðurland og Múlasýslur mynduðu til samans eitt kjördæmi, Skaftafellssýslur, Suðurland og Suðurnes annað og hið þriðja yrði til við sameiningu núverandi Vesturlands- og Vestfjarðakjördæmis. Með þessu er verið að kollavarpa grunni félagskerfis í landinu og búa til óskapnað sem ástæða er til að vara við.
Frá Hrútafirði til Lónsheiðar! Grunnur var lagður að núverandi kjördæmaskipan fyrir fjórum áratugum með kosningalagabreytingunni 1959. Það var vissulega róttæk breyting og hún hefur dugað allvel. Á grundvelli hennar hefur þróast margháttað samstarf, meðal annars milli sveitarfélaga í formi svonefndra landshlutasamtaka, en einnig hafa kjördæmin orðið grunnur fyrir nokkra útfærslu á þjónustu ríkisins, sumpart í samvinnu við sveitarfélögin. Þingmenn þessara kjördæma hafa undantekningalítið leitast við að halda sambandi við fólk innan marka þeirra, með fundahöldum sameiginlega og hver í sínu lagi eftir atvikum. Öll hafa þessi tengsl verulega gagnkvæma þýðingu og hafa verið fólki á landsbyggðinni styrkur í oft erfiðum róðri að halda sínum hlut. Risakjördæmin sem nú er rætt um myndu riðla öllu félagskerfi landsins og skilja þingmenn eftir á berangri. Ég er ekki viss um að hugmyndasmiðirnir átti sig á fjarlægðinn milli Hrútafjarðar og Lónsheiðar. Útilokað er fyrir þingmann að halda tengslum við byggðarlög sem dreifast á þriðjung landsins eða meira. Um leið riðlast sá rammi sem verið hefur um samstarf sveitarfélaga nema annað komi í staðinn.
Fylkjaskipan og landið eitt kjördæmi Undirritaður hefur lengi talið þörf á millistigi í stjórnsýslu hér á landi svipað og gerist í Skandinavíu. Skiptir ekki máli hvort talað væri um fylki, héruð eða fjórðunga og mörk og stærð slíkra eininga eru vissulega álitaefni sem vel þarf að skoða. Markmiðið er hins vegar að skapa millistig í stjórnsýslu sem gerði kleift að færa margháttaða opinbera þjónustu frá ríkinu yfir á lýðræðislegan vettvang nær fólkinu. Handahóf eins og þekkt er af tilraunum til að flytja einstakar ríkisstofnanir „út á land" heyrðu þá sögunni til. Í stað þess yrði umsýslu í stórum málaflokkum komið á í hverju fylki og dregið úr umsvifum í höfuðborginni að sama skapi. Ef samstaða tækist um að koma á slíkri fylkjaskipan teldi ég ásættanlegt að gera landið allt að einu kjördæmi til Alþingis. Með því fengist heildstætt félagskerfi í landinu, sveitarfélög verða grunneiningar næst fólkinu, hæfilega stór fylki taka við mörgum þjónustuþáttum ríkisins og Alþingi fjallar um mál lands og þjóðar í heild. Alþingismenn væru þannig ótvírætt fulltrúar allra landsmanna og á fylkisþingum væri fjallað um svæðisbundin verkefni. Óráð er að ætla að stækka sveitarfélög mikið umfram það sem nú er að skapast samsstaða um og því er þörf á fylkjum hér svipað og í grannlöndum.
Hjörleifur Guttormsson
|