Stjórn Hollustuverndar ríkisins

tekur undir mörg atriði í gagnrýni á starfsleyfi ÍSAL.

 

Þann 18. desember 1995 kvað sérstök Úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt 26. gr. laga nr. 81/1988 um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit upp úrskurð í kærumáli Hjörleifs Guttormssonar gegn stjórn Hollustuverndar ríkisins (HVR). Úrskurðarnefndin ógilti fyrri úrskurð meirihluta stjórnar Hollustuverndar frá 2. nóvember 1995 og lagði fyrir stjórnina að taka kærumálið, þ.e. tilögur að starfsleyfi fyrir Íslenska álfélagið h/f, fyrir að nýju og fjalla efnislega um athugasemdir kæranda.

Stjórn Hollustuverndar úrskurðaði í málinu þann 6. maí 1996, þar sem hún tók afstöðu til einstakra efnisþátta í athugasemdum undirritaðs og fylgir sá úrskurður í heild með þessari fréttatilkynningu.

Með úrskurði sínum fellst stjórn Hollustuverndar á ýmis atriði í athugasemdunum og telur þær réttmætar, en segir svo í lokin: "Eins og staða málsins er nú hefur umhverfisráðherra þegar gefið út starfsleyfið og ber ábyrgð á því." Ráðuneytið gaf út starfsleyfi til ÍSAL 7. nóvember 1995 að fengnum tillögum Hollustuverndar.

 

Rétt er að benda á eftirfarandi niðurstöður í úrskurði stjórnarinnar:

1. Stjórn HVR telur að það hefði getað komið til greina að gefa út starfsleyfi fyrir hvorn kerskála verksmiðjunnar fyrir sig eins og bent er á í athugasemdunum þótt önnur leið hafi verið valin í þessu tilviki.

2. Æskilegt hefði verið að geta byggt á bestu fáanlegri tækni, en við undirbúning málsins kom fram að ÍSAL taldi sig þá ekki geta staðið að stækkun verksmiðjunnar. Þetta gerir það að verkum að mengun verður meiri en ella.

3. Æskilegt hefði verið að miða við að fara ekki fram úr mörkunum 0,6 kg flúoríð/tAl við losun frá nýjum hluta verksmiðjunnar.

4. Stjórnin fellst á að óheppilegt sé að þurfa að leyfa tilslakanir vegna hreinálframleiðslu.

5. Það þarf að skoða brennisteinsdíoxíðmengun í heild hér á landi og gera áætlun um það hvernig best verður að málum staðið vegna takmörkunar á losun.

6. Frá álverinu í Straumsvík koma u.þ.b. 6% af því koldíoxíði sem losað er frá landinu en verður um 12% við fulla stækkun. Þetta er vissulega áhyggjuefni.

7. Stjórn Hollustuverndar ríkisins telur að starfsleyfið fyrir álverksmiðju ÍSAL í Straumsvík sé á engan hátt fordæmisskapandi hvorki fyrir frekari stækkun verksmiðjunnar umfram 200 þúsund tonn sem starfsleyfið miðast við, né fyrir önnur iðnfyrirtæki.

 

Undirritaður vekur athygli á að umhverfisráðherra gefur út starfsleyfi til álvera að fengnum tillögum Hollustuverndar. Ólíklegt er annað en ráðherra hefði orðið að taka tilliti til ofangreindra sjónarmiða, hefðu þau legið fyrir sem álit stjórnar Hollustuverndar áður en starfsleyfið var gefið út.

Mikilsvert er að hafa fengið ofangreindan úrskurð stjórnarinnar nú eftir dúk og disk með tilliti til meðferðar hliðstæðra mála í framtíðinni.

 

Hjörleifur Guttormsson

Til fjölmiðla 21. maí 1996

 

 


Til baka | | Heim