við drög Náttúruverndarráðs að stefnu í náttúruvernd frá Hjörleifi Guttormssyni 22. október 1993
Inngangsorð Undirituðum hafa nýlega borist drög Náttúruverndarráðs að stefnu í náttúruvernd sem á að ræða á Náttúruverndarþingi. Ég tel jákvætt að ráðið skuli með þessum hætti leitast við að skýra stefnu sína og leggja hana fram til umræðu. Margt gott að finna í þessum drögum sem gagnast getur við frekari vinnu að stefnumótun. Mér hefur ekki gefist tími til skoðunar á drögunum svo sem vert væri, en þar sem óskað er athugasemda tel ég rétt að koma nokkrum slíkum á framfæri skriflega til athugunar í starfshópum á þinginu. Telja verður að sá hálfi mánuður sem ráðið ætlar til athugunar þessa mikilsverða máls fyrir þingið sé allt og naumur tími. Með einhverjum hætti þarf að tryggja að almenningur og almannasamtök geti komið athugasemdum á framfæri við það Náttúruverndarráð sem ætlað er að ljúka stefnumörkuninni.
Markmið og leiðir Álitamál er hversu víðtæk stefnumótun sem þessi eigi að vera. Eðlilegt er þó að Náttúruverndarráð setji fram almenn markmið um umhverfisvernd til að skýra þann ramma sem ráðið vill marka náttúruverndarstarfi. Í þessu sambandi má benda á 1. grein gildandi náttúruverndarlaga þar sem horft er víðar en til hefðbundinnar náttúruverndar. Hugsanleg dæmi um markmið: * að tryggja sjálfbæra þróun náttúru og samfélags; * að viðhalda fjölbreytilegu lífríki; * að vernda lifandi náttúru, landslag og menningarsögulegar minjar; * að varðveita ósnortin svæði til vísindarannsókna og fræðslu; * að tryggja víðtækan almannarétt er taki mið af náttúruvernd.
Dæmi um leiðir til að ná settum markmiðum: * að beita varúðarreglu þar sem umhverfisvernd hafi forgang; * að stefna að jafnvægi í samskiptum manns og náttúru, * að vinna gegn fátækt og mismunun, * að fræða almenning um undirstöður og gildi nátturuverndar, * að efla rannsóknir á náttúru og sjálfbærri hagþróun, * að á öllum stigum skipulags sé tekið ríkulegt tillit til náttúruverndar, * að gerð sé krafa um skaðlausa tækni (clean technology) í framleiðsluferlum, * að eyðing og endurvinnsla úrgangs sé lögboðin krafa til söluaðila, þar með taldar umbúðir, * að hömlur séu lagðar á auglýsingar sem ganga gegn umhverfisvernd, * að skrá náttúruminjar skipulega sem fyrst á öllu landinu, * að friðlýsa stór og smá verndarsvæði og tegundir, * að beita umhverfismati við undirbúning framkvæmda, * að efnahagsstjórn lúti markmiðum um sjálfbæra þróun, * að stjórnsýslan lagi sig að stefnu í umhverfisvernd, * að Íslendingar taki virkan þátt í alþjóðasamstarfi um umhverfisvernd, þar á meðal með öflugri þróunaraðstoð.
Skilgreining á náttúruvernd Skilgreina þarf náttúruvernd sem hluta af umhverfisvernd með skýrari hætti en er að finna í drögunum. það má m.a. gera með því að vísa til þeirra sviða sem liggja utan hefðbundinnar náttúruverndar en eru mikilvægir þættir í umhverfisvernd. þetta eru t.d. mengunarvarnir og skipulagsmál í víðu samhengi.
Ábendingar og athugasemdir við einstakar tillögur ráðsins: [Fylgt er tölusetningu á einstökum þáttum í stefnutillögum ráðsins]
1. Endurskoðun laga. Ónákvæmt orðalag. Dæmi: "Í þeim ber að kveða á um almenn markmið..."; - "leiðbeiningar og eftirlit til að nálgast sjálfbæra þróun í náttúruvernd"
2. Náttúruminjaskrá. Æskilegt er að setja fram leiðbeiningar um hvernig standa eigi að skráningu náttúruminja, t.d. að undangenginni könnun og rannsóknum. Einnig að náttúruminjaskráning sé frumþáttur við gerð svæðisskipulags og aðalskipulags.
3. Friðlýsingar 3. 1 Landslagsvernd með "einfaldri upptalingu í lögum eða auglýsingu". - Athuga ber hvort ekki er þörf á samkomulagi við umráðaaðila lands, ef slíkri vernd eiga að fylgja skuldbindandi kvaðir.
3. 2 Stofnun friðlanda. "Í því skyni mætti (að) kanna breyttar kvaðir sem felast í skráningu." - það er afar óljóst hvað verið er að fara með þessu orðalagi.
3. 3 Lífsvæði friðlýstrar tegundar sé einnig friðlýst. - Hvernig á að tryggja verndun slíks svæðis nema til komi ákveðin þinglýst afmörkun viðkomandi svæðis?
3. 4 þjóðgarðar á biðlista. - Er hér um eitthvað annað að ræða en setja viðkomandi svæði á náttúruminjaskrá og láta reyna á forkaupsrétt eða þá taka viðkomandi land eignarnámi?
3. 5 Sérstök lög til verndar stórum svæðum. - Hér ætti þingvallasvæðið að standa í fremstu röð. Einnig ætti að taka upp "ósnortin víðerni" sem nýjan friðlýsingarþátt, þar sem engin mannvirkjagerð er heimiluð, sbr. "Wilderness Act" í USA.
3. 6 Hvað á að felast í "verndun" hefðbundinna leiða? Hvers konar "för manna" er höfð í huga? Umferð gangandi fólks?
3. 7 Skoðun landsvæða til verndar. - Á það sem hér um ræðir ekki almennt við um svæði á náttúruminjaskrá? Sbr. einnig lið 3. 4 .
3. 8 "Vörsluáætlun" Markmið um verndun svæðis og almannanot.- Kemur slíkt ekki yfirleitt fram í auglýstum reglum um friðlýsingu? Vísar heitið "vörsluáætlun" til eftirlits? Er ekki réttara að tala um aðalskipulag eða verndarskipulag af viðkomandi svæði?
4. Alþjóðlegar skyldur Íslands
4. 3 "Upprunaleg gróðurlendi". - Hvað felst í hugtakinu? "vernda sérstaklega örverur í hverum" -Er ekki um að ræða að vernda þurfi hveri og þá um leið örverur í þeim?
4. 7 [nýr liður?] þarf Náttúruverndarráð ekki að hafa skoðun á mengun í alþjóðlegu samhengi?
4. 8 [nýr liður?] Hver á að sjá um alþjóðleg samskipti í umhverfisvernd?: Náttúruverndarráð? Umhverfisráðuneyti? Utanríkisráðuneyti? Eða allir þessir aðilar og hvernig á þá að haga samskiptum þeirra?
5. Almenn náttúruvernd
5. 1 Verndun landslagsgerða. - Duga almenn ákvæði eins og hér er lagt til? Er ekki um að ræða kvaðir á umráðaaðila lands sem þá þarf að þinglýsa á viðkomandi landareignir?
5. 2 Bæta aðferðir til að byggja upp jarðveg og gróður. - Hér vantar áherslu á friðun fyrir beit sem árangursríkustu verndaraðgerðina og víða forsendu þess "að byggja upp jarðveg og gróður á illa förnum landsvæðum".
5. 3 Viðkvæm svæði, verðmæt vistkerfi. - Hvaða "sérstakar ráðstafanir" hafa menn í huga? Duga "skýrar almennar reglur"? þarf ekki svæðisvernd sem ákvörðuð verði með skipulagi.
5. 4 Yfirlitskönnun á íslenskum stöðuvötnum og straumvötnum. - Alþingi ályktaði fyrir nær fjórum árum um verndun vatnsfalla og jarðhitasvæða og óskaði eftir tillögum þar að lútandi m.a. frá Náttúruverndarráði. Engar tillögur hafa enn borist Alþingi í kjölfar þessarar samþykktar.
5. 5 "Svæðisbundnar reglur um vernd landslags, m.a. byggðalandslags" í stöku tilvikum. - Vantar lagaheimild? Hver á að hafa frumkvæði? Náttúruverndarráð? Sveitarstjórnir?
6. Almannaréttur
6. 1 "njóta útiveru sem hverjum hentar". - þarf ekki að skilyrða þetta við að ekki hljótist tjón af, þ.e. röskun eða mengun, m.a. með hávaða frá vélknúðum tækjum?
6. 3 Akstur utan vega. - Mjög veiklulega er hér tekið á því máli. þar er þó á ferðinni ein stærsta ógnunin við íslenska náttúru og heilbrigða útivist.
7. Fræðsla
7. 1 Hver á að hafa forgöngu um fræðslu og gerð fræðsluefnis um náttúruvernd, m.a. til "að efla umhverfisvitund fólks"?
7. 2 "Kynna þarf þekkingu á áhrifum breytinga...." - þetta er skrítið orðalag. Er átt við mannleg áhrif? Hver á að kynna?
7. 3 Alþjóðlegar skyldur. - Hver á að hafa forgöngu um að auka skilning á þeim?
7. 4 Réttindi og skyldur almennings í umgengni við landið. - Hver á að upplýsa um þá þætti?
8. Skipan náttúruverndarmála
8. 1 Verksvið Náttúruverndarráðs. - Í hverju felst þrenging á verksvið ráðsins samkvæmt tillögunum, sbr. orðalagið "einungis um náttúruverndarmál"?
8. 2 Náttúruverndarþing. - Er ekki ofílagt að halda slíkt þing árlega. Skynsamlegra gæti verið að stefna að árlegum samkomum í umdæmum náttúruverndarnefnda (kjördæmum) en láta 2-3 ár líða milli Náttúruverndarþinga.
8. 3 Fastanefndir Náttúruverndarráðs. - Óráðlegt sýnist að lögfesta þá skipan mála, sbr. einnig athugasemd við greinargerð.
8. 4 Náttúruverndarnefndir. - Auknum verkefnum þeirra yrðu að fylgja aukin fjárráð. †mislegt af því sem talið er upp í greinargerð (9. 8) er ómarkvisst. Er ekki rétt að miða umdæmi náttúruverndarnefnda við kjördæmi og tryggja þeim stuðning í starfi , m.a frá náttúrustofum kjördæmanna. Slíkt kemur engan veginn í veg fyrir að sveitarfélög setji á fót nefndir til að sinna umhverfismálum.
8. 5 "Landvarsla" - Óljóst orðalag, en líklega er átt við að "landvarsla" eigi að verða deild innan skrifstofu Náttúruverndarráðs.
Önnur atriði * Hvergi er notað hugtakið auðlind eða auðlindavernd í texta ráðsins að ég tæki eftir. Er það að yfirlögðu ráði? * Ekki er vikið að samstarfi Náttúruverndarráðs við samtök áhugamanna um náttúruvernd eða að öðrum almannatengslum. Telur ráðið ekki þörf á að örva slík samskipti? * Ekkert er vikið að alþjóðasamningum eins og um EES og GATT sem þrengja þó mjög að umhverfisvernd, m.a. með því að frjálst vöruflæði hefur samkvæmt þeim forgang fram yfir varúð gagnvart umhverfinu og þrengt er að svigrúmi ríkja til sjálfstæðrar umhverfisverndarstefnu. * Ekkert er minnst á beitingu líftækni, þar sem fjölmörg álitamál eru uppi, siðræn og efnisleg, að því er varðar umhverfið.
Um greinargerðina með stefnutillögum Náttúruverndarráðs.
það er galli á greinargerðinni að tengsl hennar við einstakar stefnutillögur ráðsins eru næsta óljós. Í stað þess að skýra tillögutextann lið fyrir lið í greinargerð er vikið þar að ýmsum nýjum atriðum, sem sum hver gætu átt heima í stefnumörkunarhlutanum. þá er og óljóst hver á að verða staða þessarar greinargerðar í lokaplaggi, m.a. hvort efni hennar er hluti af stefnumörkuninni.
Hér fylgja á eftir nokkrar ábendingar, flestar lauslegar, og er vísað til viðkomandi blaðsíðutals í útsendu handriti Náttúruverndarráðs.
1) Bls. 10. Skilgreining á náttúruvernd í kaflanum "Markmið og leiðir" er lítið í samræmi við það sem á undan er komið.í sjálfri stefnumörkuninni. Talað er um "land til framleiðslu", gagnkvæman skilning "eigenda og notenda" og virðingu beggja fyrir náttúru Íslands. Hér er á ferðinni fremur óvenjuleg orðnotkun.
2) Bls. 11. "Reglubundið fræðslustarf........er undirstaða náttúruverndar." Má til sanns vegar færa en störf ráðsins hingað til endurspegla það ekki.
3) Bls. 12. "Umönnunaráætlun fyrir hvert friðlýst svæði." Orðaval. "...einfalda stofnun náttúruvætta. T.d. mætti friðlýsa helstu landslagsfyrirbæri landsins með einfaldri upptalningu í lögun eða auglýsingu." Athuga þarf réttarstöðu slíkra friðlýsinga.
4) Bls. 13. Reglur um friðlönd. það sem sagt er um gróðurvernd er næsta torskilið, m.a. á Lónsöræfum "er aðeins um að ræða mjög takmarkaða friðun sem tekur einungis til landslags eða gróðurs." - "Markmið friðlanda er oftast verndun lífríkis, en mörg þessara markmiða gætu einnig náðst með almennum reglum um vernd búsvæða". - þetta er næsta torskilinn texti.
5) Bls. 14. "Á Íslandi eru tveir þjóðgarðar." - Væri ekki rétt að bæta við: "að náttúruverndarlögum" og lofa lögfriðaða svæðinu á þingvöllum að fljóta með sem þjóðgarði.
6) Bls. 15. Um 27. gr. er varðar göngustíga, strandsvæði o.fl.. "þetta ákvæði hefur aldrei komið til framkvæmda". Ástæða væri að skýra í nokkrum orðum hversvegna sú hefur orðið raunin á.
7) Bls. 16. Upptalning á landsvæðum sem gera ætti að þjóðgörðum eða annars konar verndarsvæðum. - Hér virðist horft fram hjá fjölda svæða sem eru þess virði að vera "skoðuð sérstaklega" með tilliti til verndunar.
8). Bls. 17. "Stök landslagseinkenni.........ætti hiklaust að friðlýsa sem náttúruvætti.......Flest eru þessi fyrirbæri ekki í yfirvofandi hættu, þótt virkjanir og laxastigar ógni fossum og hellum stafi hætta af almennri umgengni." þessi efnisgrein er ómarkviss og mótsagnakennd. - "Árekstrar geta orðið milli ólíkra sjónarmiða í notkun takmarkaðra landslagsgerða." - Hver skilur þetta?!
9) Bls. 18. Gerð aðal- og svæðisskipulags "þar sem tekið er á flestum þeim þáttum er varða mannvirki og náttúruvernd. Grundvöllur slíkrar skipulagningar yrði umhverfismat...." Hér gætir nokkurs misskilnings á eðli aðal- og svæðisskipulags og lögbundnu umhverfismati í því samhengi. - "Eftirlit þarf að færast meira inn á skipulagsstig í stað þess að hafa eftirlit með einstökum framkvæmdum. Eftirlit með einstökum framkvæmdum ætti að mestu að vera bundið við kjördæmi." - þetta er torræður texti.
10) Bls. 19. Málfar á þessari síðu er víða hraklegt og efni sums staðar óljóst af þeim sökum. Dæmi: "Vernd lífríkis byggist á bestu fáanlegri þekkingu hverju sinni, en þekking á flóknum og langvarandi fyrirbærum eins og vistkerfum er sjaldan nægileg til þess að ráðlegt sé að bylta þeim eða einstökum þáttum þeirra. "
11) Bls. 20. "alhliða lífríkisstefna", hvað er nú það? - "hófsemi í dreifingu innfluttra plöntutegunda"; hér er ekki fram á mikið farið! - Hér og víða í greinargerð er talað um "verndun upprunalegra gróðurlenda" og "upprunaleg skóglendi" (bls. 19). Erfitt er að skilja við hvað er átt, þar eð gróðurfar á Íslandi er víðast hvar markað af beit og ofnýtingu um aldir.
12) Bls. 21. "Langmerkilegasta lindasvæðið er Mývatn..." Má rétt vera, en þó hefði að ósekju mátt geta um þingvallavatn í sömu andrá, ekki síst vegna þess að einnig þar er þörf á verndun með sérstökum lögum.
12) Bls. 22-23. "Náttúruverndarráði ber að veita almenningi betri aðgang að landinu, tryggja almennan umferðarrétt,....." Hér og víðar vantar skilgreiningu á, hverskonar umferðarrétt eigi að tryggja. - "Landnotkun til ýmissa íþrótta og svokölluð vélvædd útivist er þess eðlis að hún fer tæplega saman við hefðbundna útiveru í óspilltu umhverfi." Hér er veikt og óljóst að orði kveðið, eins og víðar þar sem vikið er að akstri utan vega. - "þarflegt væri að greina nánar þarfir manna..........allir geti átt þess kost með góðu móti að njóta útiveru á þann hátt sem hverjum hentar, án þess að skerða tækifæri annarra til sama réttar." Hér er sannarlega reynt að gera öllum til hæfis, nema náttúrunni sem þó er þolandinn!
13) Bls. 24. "Móta þarf stefnu um vegakerfi og umferð í óbyggðum taki mið af náttúruvernd." Hér hefur líklega fallið niður tilvísunarfornafn.
14) Bls. 25. "Endurskoðun og nýjar útgáfur bæklinga fyrir friðlýst svæði er nauðsynleg..." Óbrúklegt orðfæri.
15) Bls. 26. "Almenn skipulagsmál í dreifbýli og óbyggðum verði skilin frá náttúruvernd." - Óljóst við hvað er átt.
16) Bls. 27. "Heppilegt er að hafa sjálfstæða náttúruverndarstefnu, vegna þess að náttúruvernd gengur oft þvert á hagsmuni sem stjórnmálamenn eru hlynntir." - Hér fer eitthvað milli mála um orsök og afleiðingu!
17) Bls. 27-28. Fastanefndir og sérfræðingar. "Lagt er til að komið verði á fót fjórum fastanefndum Náttúruverndarráðs og hver þeirra verði skipuð 5 mönnum og jafnmörgum til vara. A.m.k. 3 af 5 nefndarmönnum verði sérfræðingar á viðkomandi sviðum og verði hæfi þeirra tryggt með tilnefningum félaga og stofnana á þessum sviðum. ...Hver nefnd þarf 1-3 starfsmenn...Með slíkri nefndaskipan ætti að vera hægt að fá hæfustu sérfræðinga landsins á sviðum er varða náttúruvernd (...) til þess að taka þátt í starfi að náttúruvernd. Aukið starfslið fastráðinna sérfræðinga gæti létt starf nefndanna en getur ekki komið í staðinn fyrir slíkar nefndir, vegna þess að náttúruverndarmál eru oft mjög flókin og mikil þörf er fyrir trausta fræðilega ráðgjöf." - Gætir hér ekki ofmats á sérfræði til að ná landi í náttúruverndarstarfi en jafnframt vanmats á félagslegri reynslu og gildi almennra viðhorfa?
Í upptalningu á verkefnum nefnda innan Náttúruverndarráðs eru "tengsl við náttúruverndarnefndir" aðeins tíunduð í sambandi við útilífs- og fræðslunefnd.
Samstarf um fræðslu. Ekki er getið náttúrustofa.
18) Bls. 29-30. Um náttúruverndarnefndir. Tillögurnar um þær eru harla óljósar. Talað er almennum orðum um að efla þurfi starf þeirra og gæta þess að þær hafi "eitthvað fjármagn". Fráleitt er að ætla nefndunum stóraukin verkefni nema þeim sé tryggt starfslið. þar gætu náttúrustofur kjördæmanna orðið að liði sem framkvæmda- og eftirlitsaðili í samvinnu við starfsmenn Náttúruverndarráðs í umdæmunum. Gæta þarf einnig að samræmi í málsmeðferð yfir landið sem heild.
------------
|