Hjörleifur Guttormsson:

 

Er hætta á að
Alþýðubandalagið klofni?

 

Afdrifaríkur landsfundur

Landsfundurinn eftir fáeina daga getur orðið afar afdrifaríkur fyrir framtíð Alþýðubandalagsins og um leið fyrir stöðu vinstrihreyfingar hérlendis. Tilefni fundarins er að fjalla um samstarf við Alþýðuflokkinn og það sem enn lifir af Kvennalistanum. Alþýðuflokkurinn gerir kröfu til þess að Alþýðubandalagið svari því á þessum fundi, hvort það sé reiðubúið til að ganga til sameiginlegs framboðs í alþingiskosingum sem haldnar verða ekki síðar en 8. maí 1999. Á síðasta reglulegum landsfundi AB í nóvember 1997 komu fram tillögur um að fara í slíkt framboð en eftir átök á fundinum var samþykkt að fara í málefnaviðræður við Alþýðuflokkinn og Kvennalistann og boða síðan til aukalandsfundar ef tilefni þætti til. Framkvæmdastjórn flokksins hefur boðað til slíks fundar 3.-4. júlí næstkomandi, en engin tillaga hefur komið fram af hálfu formanns flokksins. Margrét Frímannsdóttir hefur hefur þó ítrekað látið á sér skilja að hún sé hlynnt framboði með Alþýðuflokknum og þeir sem næst henni standa tala enn skýrar í þá átt. Á fundi miðstjórnar AB 13. júní síðastliðinn komu fram afar skiptar skoðanir um málið.

 

Kastað höndum til undirbúnings

Illa hefur verið staðið að viðræðum af hálfu forystu flokkanna þriggja. Það var ekki fyrr en undir lok marsmánaðar að settir voru á fót svonefndir "málefnahópar" fulltrúa flokkanna til að fara yfir hið pólitíska svið, og eru þó liðnir ár og dagar síðan umræða um hugsanlega aukið samstarf hófst. Ekkert erindisbréf lá fyrir þessum hópum, en gert ráð fyrir að þeir skiluðu af sér fyrir apríllok og þá tillögum sem samtals færu ekki yfir 2-3 blaðsíður! Ekki var hægt að velja óheppilegri tíma með tilliti til anna þeirra sem til voru kvaddir, þ.e. í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga og með mikið annríki undir lok Alþingis. Óskiljanlegt er af hverju svo lengi var beðið með þessi samtöl milli flokkanna, og auðvitað kom það niður á starfi málaefnahópanna. Þátttaka í fundum þeirra var oft afar slök og skil drógust sem vonlegt var. Enn hefur hópurinn sem fjallar um utanríkismál ekki lokið störfum, þótt aðeins rúm vika sé til landsfundar, en fyrir forystuna virðist það engu breyta. Flest bendir til að lítið eigi að leggja upp úr þessari vinnu af hálfu þeirra sem hafa trú á að sameiginlegt framboð flokkanna til Alþingis sé flestra meina bót.

 

Viðfangsefni sveitarstjórna ólík landsmálum

Þótt flestir viðurkenni að allt öðru vísi hátti til um sveitarstjórnarmálefni en landsmál duldist engum, að þeir sem mestan áróður hafa rekið fyrir sameiningu Alþýðuflokks og Alþýðubandalags litu á sveitarstjórnarkosningarnar sem eins konar prufukeyrslu. Þótt niðurstaða úr sameiginlegum framboðum yrði víða langt undir væntingum þeirra sem að þeim stóðu reyndu formenn og framkvæmdastjórar flokkanna að draga upp allt aðra mynd. Reykjavíkurlistinn hefur líka ranglega verið notaður sem fyrirmynd, því að þar hefur þátttaka Framsóknarflokksins tvívegis ráðið úrslitum um meirihluta. Vissulega skiluðu sameiginleg eða blönduð framboð góðum árangri á nokkrum stöðum, til dæmis í nýju sveitarfélagi í Fjörðum eystra og á Húsavík, en það er aðeins lítill hluti af heildarmyndinni.

Sveitarstjórnarkosningar snúast eðlilega um staðbundin málefni, þótt þær endurspegli jafnframt ólíkar áherslur flokka. Það er óskynsamlegt að reyna að hagnýta sér vilja manna til samstarfs á sveitarstjórnarstigi til að knýja fram sameiginlegt framboð flokka á landsvettvangi, nema það byggi á sameiginlegri sýn og stefnu til meginmála. Slíkar forsendur liggja ekki fyrir að því er varðar Alþýðuflokk og Alþýðubandalag og því eru hugmyndir um sameiginlegt framboð þessara flokka hættuspil og síst til þess fallnar að treysta málefnalega umræðu eða efla lýðræðislega skoðanamyndun og möguleika kjósenda til að velja um ólíkar stefnur.

 

Ágreiningur um grundvallarmál

Þeir sem fylgst hafa með stefnu og störfum Alþýðubandalags og Alþýðuflokks í landsmálum, m.a. eins og hún birtist í afstöðu til mála á Alþingi, vita að bilið á milli sjónarmiða þessara flokka í mörgum stórmálum er lítið sem ekkert minna en milli annarra sem þar eiga fulltrúa. Að sumra mati stóð Alþýðuflokkurinn til hægri við Sjálfstæðisflokkinn í málafylgju í ríkisstjórnarsamstarfi þessara flokka á árunum 1991-95. Nú er Alþýðuflokkurinn í stjórnarandstöðu eins og Alþýðubandalagið og við þær aðstæður reyna flokkarnir eðlilega að stilla saman strengi á Alþingi. Samt hefur það ekki nægt til að brúa bilið milli flokkanna á neinum þeim stóru málefnasviðum, þar sem ágreiningur hefur áður verið til staðar. Þetta á við um afstöðuna til Evrópusambandsins, þar sem núverandi formaður Alþýðuflokksins leggur síst minni áherslu á þá stefnu flokksins en forveri hans að sækja beri um aðild að Evrópusambandinu. Þar er á ferðinni stærsta ágreiningsefni í íslenskum stjórnmálum, sem fyrr en varir kann að verða tekist á um. Hið sama á við um marga þætti utanríkismála, m.a. veru Íslands í hernaðarbandalagi og erlendar herstöðvar hérlendis.

En listi ágreiningsefna er langt frá því að einskorðast við Evrópumál og utanríkismál. Flokkana greinir á í afstöðu til efnahags- og umhverfismála, til einkavæðingar, auðlindagjalds, fjárfestinga útlendinga í sjávarútvegi, til innflutnings landbúnaðarafurða og um orkumál og byggðamál. Þetta var rækilega rifjað upp í málefnahópi sem undirritaður tók þátt í og skilaði af sér 10. júní sl. Samt eru þeir ófáir innan Alþýðubandalagsins sem þrýsta á um sameiginlegt framboð flokkanna til Alþingis næsta vetur. Aðrir eru því algjörlega andvígir eða telja slíkt framboð óráðlegt og ótímabært og benda á þá yfirvofandi hættu að Alþýðubandalagið klofni. Inn í þetta landslag teflir forysta Alþýðuflokksins og heimtar svaraf Alþýðubandalaginu, af eða á, um sameiginlegt framboð.

 

Vilja menn endalok Alþýðubandalagsins?

Fjölmargar ástæður valda því að Alþýðubandalagsfólk gerir réttast í að hafna bónorði kratanna. Sameiginlegt framboð með þeim til Alþingis hefur í för með sér að þeim málefnum sem Alþýðubandalagið hefur staðið fyrir og greint hefur það frá öðrum flokkum verður sópað undir teppið í aðdraganda kosninga. Þótt svipað verði gert með sum sérmál Alþýðuflokksins bætir það ekki úr skák. Kjósendur vita ekki fyrir hvað sameiginlegt framboð þessara flokka stendur í mikilsverðum þjóðmálum og uppaskeran gæti orðið allt önnur í alþingiskosningum en talsmenn slíks framboðs vænta. Er þá ekki tekinn með í reikninginn sá möguleiki að nýtt stjórnmálaafl komi fram og keppi um fylgi í næstu kosningum.

Ef þannig tækist til andstætt vonum að meirihluti á aukalandsfundi Alþýðubandalagsins samþykkti að ganga til sameiginlegs framboðs með krötum jafngildir það endalokum Alþýðubandalagsins. Stjórnmálaflokkur sem efnt hefði til slíks samlags er búinn að segja þjóðinni að hann ætli sér ekki frekari hlut í stjórnmálum. Er það slík niðurstaða sem félagar í Alþýðubandalaginu kjósa að verði niðurstaðan? Ég er sannfærður um að þeir eru fjölmargir og þar á meðal ýmsir traustustu og dugmestu liðsmenn Alþýðubandalagsins sem ekki geta hugsað sér slíka niðurstöðu. Við verðum að vænta þess að forysta Alþýðubandalagsins telji það meira virði að hlúa að sameiginlegum málstað en kasta sér í fang þeirra sem stefna í allt aðra átt í mikilsverðum þjóðmálum.

 

Á sumarsólstöðum

 

 

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim