Hjörleifur Guttormsson
Alþingi

23. ágúst 1997

 

Til sérstakrar úrskurðarnefndar
skv. 26. gr. laga nr. 81/1988
um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit
c/o Sigurmar Albertsson hrl.
Lagastoð
Lágmúla 7,
108 Reykjavík

 

Efni: Nokkrar athugasemdir vegna bréfs stjórnar Hollustuverndar ríkisins dags. 31.07. 1997.

Þakka bréf yðar dags. 11. ágúst 1997 með meðfylgjandi viðbrögðum stjórnar Hollustuverndar ríkisins við kæru minni frá 6. júní 1997.

 

Nefnt bréf stjórnar Hollustuverndar ríkisins er ekki þess efnis að það kalli á mikil viðbrögð af minni hálfu og ítreka ég af þessu tilefni þau sjónarmið sem fram komu í kæru minni til yðar 6. júní 1997.

Þó vil ég víkja hér að örfáum atriðum í þessu bréfi stjórnar Hollustuverndar ríkisins.

 

1) Stjórn HVR telur það ekki á sínu valdi að úrskurða hvort ákvæði í reglugerð brjóti í bága við lögin. Sem stjórnvaldi ber stjórn HVR að halda sig innan marka settra laga og má ekki fremja stjórnsýslulegt brot í skjóli ólögmætrar reglugerðar.

 

2) Óskiljanlegt er að stjórn HVR skuli réttlæta gjörðir sínar með því sem fram kemur í tölulið 2 í bréfi hennar, þar sem segir "að ákvæði 1. mgr. 26. gr. laganna taka ekki mið af þeirri tilhögun, sem tíðkast hefur um langt árabil...". Halda mætti af þessu að stjórn HVR telji reglugerð æðri ákvæðum þeirra laga sem reglugerðin á að hafa stoð í!

Þá er stjórnin tvísaga er kemur að afgreiðslu hennar á athugasemdum við starfsleyfi í bréfi 7. mars 1997, sem ekki hafi verið formlegur úrskurður en "sem jafnað verði til úrskurðar skv. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 81/1988". Hér er um augljósa hártogun að ræða, sem í þessu tilviki er notuð til að koma í veg fyrir að þeir sem athugsemdir gera geti nýtt sér lögboðin úrræði.

 

3) Með öllu er óréttmæt sú staðhæfing sem fram kemur í tölulið 3 í bréfi stjórnar HVR að erindi mitt til stjórnar HVR dags. 13. mars 1997 varði ekki framkvæmd laga nr. 81/1988 eða reglugerða settra á grundvelli þeirra laga "heldur lýtur það að skýringu á lögunum og reglugerðinni." Af þeim sökum verði svari stjórnar HVR 12. maí 1997 "með engu móti jafnað til úrskurðar..." og ennfremur að "Samkvæmt því brestur heimild til að kæra afgreiðslu stjórnarinnar..." til úrskurðarnefndar. - Erindi mitt fjallaði með beinum hætti um meðferð stjórnar HVR á starfsleyfistillögum vegna álbræðslu Norðuráls á grundvelli skýrra lagaákvæða og því augljóst að réttmætt er að skjóta því til úrskurðarnefndar. - Undirritaður hefur í þessu efni fylgt skýrum ákvæðum nefndra laga um málsmeðferð en ekki leiðsögn ólögmætra reglugerða umhverfisráðherra.

 

Virðingarfyllst

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 


Til baka | | Heim