Hjörleifur Guttormsson:

 

Evrópsk umhverfismál
í brennidepli

  Nú um Jónsmessuleytið voru haldin mikil málþing um umhverfismál í Árósum í Danmörku. Hæst bar þar fjórðu Evrópsku umhverfisráðstefnuna, raunar einnig með þátttöku Bandaríkja Norður-Ameríku og Kanada. Áður en hún hófst héldu Globe þingmannasamtökin tveggja daga fjölsóttan fund á sama stað og einnig komu græn áhugasamtök um umhverfismál saman og settu talsverðan svip á umræðuna þessa daga. Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra sat ráðherrafundinn ásamt Magnúsi Jóhannessyni ráðuneytisstjóra, en jafnframt vorum við þrír alþingismenn í íslensku sendinefndinni, auk mín þeir Árni Matthiesen og Kristján Pálsson. Hér verður drepið á nokkur þeirra mála sem rædd voru á þessum fundum.

 

Krafa um sjálfbæra þróun

Þingmannasamtök undir nafninu Evrópunet Globe eru opin öllum fulltrúum á þjóðþingum álfunnar sem vilja láta sig umhverfismál sérstaklega varða Þessi samtök eru jafnt og þétt að eflast,. en í þeim taka þingmenn þátt sem einstaklingar óháð flokkum. Fulltrúar úr umhverfisnefnd Alþingis hafa verið með í Globe samtökunum um árabil og tekið þar virkan þátt í starfi. Þess utan starfa Globe-þingmenn í sérstakri deild innan Evrópusambandsins og í Globe International á víðari vettvengi. Samtökin eru enn í mótun skipulagslega

Eitt af umræðuefnunum á fjölsóttum Globe-fundi í Árósum var staða umhverfismála og Dagskrár 21 sex árum eftir Ríó-ráðstefnuna. Enginn annar en Maurice Strong, nú framkvæmdastjóri samtakanna Earth Counsil með aðsetur í Costa Rica, sá sami og leiddi undirbúning Stokkhólmsráðstefnunnar 1972 og Ríóráðstefnunnar 1992 fyrir hönd Sameinuðu þjóðanna, var framsögumaður hjá Globe í Árósum. Ég þori að fullyrða að enginn núlifandi hefur viðlíka yfirsýn og þekkingu á umhverfismálum í veröldinni og Strong. Hann dró fram bæði dökkar og bjartar hliðar á þróun mála eftir Ríó. Af því jákvæða bæri hátt aukna umhverfisvitund almennings víða um lönd, staðbundna og svæðisbundna virkni og starf frjálsra umhverfissamtaka. Af neikvæðum þáttum væri af nógu að taka, skortur á pólitískum vilja, umhverfismálin séu í varnarstöðu gagnvart ríkjandi efnahagsstefnu, fjáraustur er í ósjálfbærar fjárfestingar, m.a. á sviði orkumála, flutninga og landbúnaðar, röng skilaboð ganga til almennings og mikil nauðsyn sé að hefja til vegs siðræn gildi. Baráttuna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum sagði Strong vera einskonar samnefnara fyrir umhverfisbaráttu samtímans.

Derek Osborne sem var í forsæti af hálfu Breta í aðdraganda aukaþings Sameinuðu þjóðanna í fyrra (UNGASS) lagði áherslu á að alþjóðasamfélagið yrði að halda betur en hingað til á kröfunni um sjálfbæra þróun. Nú þegar ætti að hefja undirbúning á vegum Sameinuðu þjóðanna að alþjóðaráðstefnu árið 2002, tíu árum eftir Ríó, og ganga frá dagskrá hennar á allsherjarþingi SÞ aldamótaárið.

 

Ástand umhverfismála í Evrópu

Á fundi ráðherranna í Árósum var lögð fram ný skýrsla Umhverfisstofnunar Evrópu (EEA) um ástand umhverfismála í álfunni. Umhverfisstofnunin er staðsett í Kaupmannahöfn og standa að henni 18 ríki Vestur-Evrópu að Íslandi meðtöldu og samvinna er við 13 ríki Mið- og Austur-Evrópu. Í skýrslunni er metin staða stefnumótunar í einstökum þáttum umhverfismála og raunverulegt ástand umhverfisins samkvæmt bestu fáanlegum upplýsingum. Forstjóri stofunarinnar Jimenez Beltran, benti á að árangur hefði náðst á ýmsum sviðum, einkum í minni mengun lofts og ferskvatns að magni til af efnum eins og brennisteinsdíoxíði, blýi og fosfór. Augljóslega væri árangur bestur á sviðum þar sem bindandi alþjóðasáttmálar væru til staðar. Þrátt fyrir þetta væri ástand umhverfis og náttúru enn ekki í skárra horfi en áður, meðal annars vegna þess að langur tími líði oft uns jafnvægi næst og tók hann ósonlagið sem dæmi. Af sviðum þar sem hallaði undan fæti nefndi Beltran m.a. eyðingu jarðvegs, mengun ferskvatns og útbreiðslu skaðlegra efna.

Samkvæmt skýrslunni eru fimm svið talin þarfnast sérstakrar athygli stjórnvalda vegna víðtækra áhrifa og þýðingar þeirra fyrir sjálfbæra þróun. Um er að ræða: 1) loftslagsbreytingar og minni losun gróðurhúsalofttegunda, 2) minnkun sorps og samspil úrgangs og efnahagsþróunar, 3) efnasambönd vegna mikillar útbreiðslu og óvissu um áhrif og þolmörk, 4) verndun náttúru, náttúrulegrar fjölbreytni og jarðvegs, þar eð erfitt og stundum ógerlegt væri að bæta fyrir spjöll, 5) loftgæði, því að lágmarkskrafa sé að loft sem menn anda að sér sé hreint.

Ísland er m.a. nefnt í skýrslunni vegna viðvarandi mikillar jarðvegseyðingar, þar sé gnótt af góðu vatni og ástand fiskistofna fari batnandi, sumpart vegna veiðitakmarkana sem séu að skila árangri. Starf á vegum Umhverfisstofnunarinnar sýnist mér jákvætt og geta orðið stjórnvöldum til leiðbeiningar á mörgum sviðum umhverfismála.

 

Upplýsingaskylda og frjáls félagasamtök

Fremst í röð atburða á umhverfisráðstefnunni í Árósum er undirritun nýs Evrópusáttmála um upplýsingaskyldu stjórnvalda og aðild almennings og frjálsra félagasamtaka að stefnumörkun í umhverfismálum. Unnið hefur verið að sáttmálanum í nokkur ár og tekist á um marga þætti. Samtök áhugafólks gagnrýndu á ráðstefnunni mörg ófullnægjandi ákvæði og undanþágur frá upplýsingaskyldu í sáttmálanum. Nokkrir ráðherrar tóku undir þá gagnrýni sem og þingmenn í Globe. Sáttmálinn setur hins vegar lágmarksreglur og einstök ríki geta því gengið lengra.

Þýskaland sem tók þátt í gerð sáttmálans neitaði í lokin að undirrita hann og er undir mikilli gagnrýni fyrir vikið. Bandaríkin stóðu utan við gerð sáttmálans af ástæðum sem ekki eru mér ljósar. Ísland sem undirritaði sáttmálann á ráðstefnunni hefur eins og fleiri ríki mikið verk að vinna fyrir staðfestingu hans.

Táknrænt fyrir þá áherslu sem sáttmálinn leggur á þátttöku frjálsra félagasamtaka og aðild almennings að mótun og framkvæmd umhverfisstefnu var þátttaka margra grænna umhverfissamtaka í hálfsdagsfundi á ráðstefnunni, þar sem Árósasáttmálinn var til umræðu. Fyrir íslenska ráðherra sem að undanförnu hafa ítrekað rekið hornin í umhverfisverndarsamtök á alþjóðavettvangi ætti þessi sáttmáli og andi Árósaráðstefnunnar að vera sérstakt umhugsunarefni.

 

Efnasambönd ógna lífi og heilsu

Í Árósum lágu fyrir til undirritunar tvær merkar bókanir við Genfarsáttmálann um loftmengun sem berst um langan veg milli landa. Þarna er um að ræða bókun um þrávirk lífræn efni (POPs) og um þungmálma. Þess utan voru kynnt drög að samningi um blýlaust bensín, en víða er blýbensín fremur regla en undantekning, svo sem í austanverðri álfunni.

Bókunin um þrávirk lífræn efni tekur aðeins til svæðis aðildarríkja sáttmálans, en nú er að hefjast samningaferli með fundum í Montreal í Kanada um heimssáttmála á þessu sviði. Hefur Ísland meðal annars verið í fararbroddi ríkja sem gert hafa kröfu um slíkan sáttmála, sem skýrist m.a. af skaðsemi þrávirkra efna fyrir lífríki norðurslóða.

Bókunin um þungmálma varðar einkum kadmíum, blý og kvikasilfur sem öll skapa viðvarandi hættu fyrir lífríki og heilsu manna. Guðmundur Bjarnason undirritaði báðar þessar bókanir fyrir Íslands hönd á fundinum, en Ísland stendur enn utan við framkvæmd ýmissa bóka samningsins, m.a. um brennisteinssambönd.

Stöðugt bætist í safn hættulegra efna fyrir heilsu manna og annarra lífvera. Á Globe-fundi þingmanna voru nú til umræðu efni sem skaða innkirtla (Endocrine Disruptive Chemicals), og beinist vaxandi athygli að þeirri hættu sem af þeim getur stafað, meðal annars vegna áhrifa á eistu og framleiðslu kynfruma hjá körlum sem og á ónæmiskerfið. Knýjandi er talið að auka óháðar rannsóknir á áhrifum þessara efna.

 

Kyoto og orkusparnaður

Loftslagsbreytingar og framkvæmd Kyotobókunarinnar voru að sjálfsögðu ofarlega á baugi í Árósum. Þingmannafundur Globe setti fram þá kröfu til þjóðríkja og Evrópusambandsins að leggja í Buenos Aires í nóvember 1998 fram skýra stefnu og áætlanir fyrir næsta fund aðildarríkja Loftslagssáttmálans frá 1992. Tryggja beri skýrar samræmdar reglur um sameiginlega framkvæmd í niðurskurði gróðurhúsalofttegunda, um viðskipti með losunarkvóta og þak á slík viðskipti sem hlutfall af skuldbindingum þjóðríkja.

Sérstakur þáttur á ráðstefnum þingmanna og ráðherra í Árósum var skilagrein fjölþjóðlegs starfshóps um hagkvæma orkunýtingu og orkusparnað. Átak á þessu sviði er talið geta skilað margháttuðum hagsbótum fyrir efnahag og umhverfi, þar á meðal í glímunni við gróðurhúsalofttegundir. Gagnrýndur var hægagangur á þessu sviði og allssendis ófullnægjandi áhersla og fyrirgreiðsla fjármálastofnana til að örva breytingar á orkubúskap í Evrópu, ekki síst í austanverðri álfunni. Sérstakar áhyggjur komu fram vegna samgangna og flutninga á landi sem aukast stöðugt og með þeim álag á umhverfið.

 

Lokaorð

Evrópska umhverfisráðstefnan í Árósum var viðburður sem verðskuldar athygli alls almennings. Næsta hliðstæð ráðstefna á undan var haldin í Sófíu í Búlgaríu 1995 og framvegis er gert ráð fyrir slíkum ráðsherrafundum allra Evrópulanda á fjögurra ára fresti. Þungi umhverfismála í stjórnmálaumræðu fer vaxandi, en er þó langt frá því aða vera í réttu hlutfalli við þörfina fyrir róttæka stefnubreytingu. Enn ráða blind markaðslögmál lögum og lofum í alþjóðaviðskiptum og síaukinn hraði efnahagslegrar og fjármálalegrar hnattvæðingar eykur hættuna á að þróun heimsmála fari út af sporinu með skelfilegum afleiðingum. Flestir skynja þessa yfirvofandi hættu, en stjórnmál og dægurumræða snúast um flest annað en hvernig koma megi í veg fyrir hana og hvernig gefa megi hugtakinu sjálfbær þróun raunverulegt innihald. Orð og athafnir á fundunum í Árósum voru þó lóð á rétta vogarskál.

Árósum 25. júní 1998

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

 


Til baka | | Heim