Hjörleifur Guttormsson:

 

Sellafield:
Stefnubreyting í vændum

Bretar og OSPAR-sáttmálinn

Sitthvað bendir til þess að bresk stjórnvöld séu að breyta um stefnu í sambandi við losun geislavirks úrgangs frá endurvinnslustöðinni í Sellafield. Innan mánaðar verður haldinn í Lisabon ráðherrafundur aðildarríkja að OSPAR-sáttmálanum og hefur undirbúningur staðið yfir frá í fyrra, m.a. um sameiginlega yfirlýsingu aðildarrríkjanna. OSPAR-sáttmálinn frá 1992 tekur til mengunar Norðaustur-Atlantshafsins frá landstöðvum, þar á meðal frá kjarnorkuendurvinnslustöðvum. Frakkland og Bretland eru einu ríkin í Vestur-Evrópu sem starfrækja slíkar endurvinnslustöðvar og þessi ríki hafa hingað til haft fyrirvara um ákvæði samningsins hvað varðar losun geislavirks úrgangs. Um langt skeið hefur verið þrýst á Breta af hálfu Norðurlandanna að hætta losun geislavirkra efna í hafið. Á síðasta starfsdegi Alþingis í vor var samþykkt sérstök ályktun þar að lútandi. Fram til þessa hafa Bretar skellt skollaeyrum við öllum aðfinnslum, en tilkynntu óvænt í byrjun júní að hætt yrði starfsrækslu Dounreay-endurvinnslustöðvarinnar í Skotlandi innan 10 ára og engir nýir samningar yrðu gerðir hennar vegna. Sitthvað er enn óljóst um þá ákvörðun, m.a. um samninga sem nýlega voru gerðir um að taka í Dounreay á móti geislavirkum úrgangi frá Austur-Evrópu.

Vaxandi mengun frá Sellafield

Mengun frá Sellafield hefur farið vaxandi eftir mikla stækkun endurvinnslustöðvarinnar 1994. Einkum eru áhyggjur hérlendis af mengun af völdum teknesíum 99, en það er manngert geislavirkt efni, sem myndast við endurvinnsluna og tekur það efnið mörg hundruð þúsund ár að brotna niður [helmingunartími 213 þúsund ár!] og eyðast.Undanfarin ár hefur mengun af völdum teknesíum í lífverum við strendur Skandinavíu margfaldast. Efnið berst með hafstraumum norður með Noregsströndum og í Íshafið þaðan sem það kemur innan fárra missera inn á íslensk hafsvæði. Norska blaðið Aftenposten skýrði í síðustu viku frá nýjum mælingu í þangi utan við Stavanger. Þar mældust mest 30 einingar [becquerel] af teknesíum í kílói í byrjun áratugarins en nú 465 einingar. Óttast er að mengunin haldi áfram að vaxa og nálgist skráð hættumörk fyrir neyslu sjávarfangs.

Meacher boðar stefnubreytingu

Á fundi evrópskra þingmanna í Globe-þingmannasamtökunum í Árósum nú í vikunni spurði undirritaður breska umhverfisráðherrann Michael Meacher, hvort þess megi vænta að Bretar falli frá fyrirvörum sínum við OSPAR-sáttmálann á ráðherrafundinum í Lisabon og hætti að losa geislavirkan úrgang í hafið. Meacher svaraði því til að bresk stjórnvöld standi nú í alvarlegum samningaviðræðum vegna Lisabon-fundarins. Vænti hann þess að geta þar tilkynnt um verulega minnkun á losun frá Sellafield-stöðinni með það að markmiði að komast eins nærri núllgildi, þ.e. að hætta losun, eins og mögulegt væri. Þannig yrði gengið langt í þá átt sem ég gerði kröfu til.

Þetta eru vissulega tíðindi. Þingmennirnir Kristján Pálsson og Árni Matthiesen sem sátu einnig fundinn í Árósum gengu enn frekar að Meacher í framhaldi af fyrirspurn minni og voru svör hans mjög í sömu átt og áherðandi ef eitthvað var. Breski umhverfisráðherrann gerði á fundinum enga tilraun til að réttlæta framferði Breta, viðurkenndi vandamálið og staðfesti að bresk stjórnvöld undirbyggju stefnubreytingu. Í samtölum utan fundar ræddi hann opinskátt um málið og í tengslum við fund 55 umhverfisráðherra Evrópulanda í Árósum sem fylgdi í kjölfarið, vék hann að orðaskiptum sínum við íslensku þingmennina. Bar þetta raunar á góma í grillveislu á miðsumarhátíð sem dönsku gestgjafarnir buðu til sl. þriðjudagskvöld, en þar skyldi norn brennd á báli. Í ávarpi sagði Meacher að ekki þyrfti hann að ganga á bálið, því að íslenskir þingmenn hefðu þegar grillað sig vegna Sellafield! Viðstaddur var einnig Guðmundur Bjarnason umhverfisráðherra sem fékk staðfestingu frá starfsbróður sínum um að stefnubreyting væri í vændum.

Ástæða er fyrir Íslendinga að fagna yfirlýsingu breska ráðherrans í trausti þess að innistæða reynist fyrir henni. Mengun norðurhafa með geislavirkum efnum er ein alvarlegast ógnunin við íslenskt umhverfi og hagsmuni. Svo er að sjá sem ítrekuð mótmæli við framferði Breta séu að hafa tilætluð áhrif og það skýrist væntanlega enn frekar fyrir júlílok þegar ráðherrar koma saman í Lissabon.

 

Hjörleifur Guttormsson

 

 

  


Til baka | | Heim