(drög)
Spillt ríkisstjórn eykur stöðugt á ójöfnuð
það staðfestist æ betur eftir því sem líður á kjörtímabilið, að stefna ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er hættuleg fyrir sjálfstæði þjóðarinnar auk þess að vera fjandsamleg launafólki og landsbyggðinni.sérstaklega.
Mikill samdráttur hefur orðið í fjárfestingum og atvinnuleysi haldið innreið sína í áður óþekktum mæli. Rauntekjur þorra fólks hafa minnkað til muna, m.a. vegna þess að yfirvinna hefur dregist saman og dagvinnutekjur ekki haldið í við hækkaðan framfærslukostnað.
Stórfelld eignatilfærsla hefur átt sér stað í þjóðfélaginu og hrikaleg misskipting í launum og lífsaðstöðu fólk er staðreynd. Sókn til aukins jafnréttis hefur stöðvast og bitnar vaxandi óréttlæti ekki síst á konum, láglaunafólki og elli- og örorkuþegum. Með aðgerðum á sviði menntamála og heilbrigðis- og tryggingamála er áfram vegið skipulega að velferðarkerfinu.
Skattar hafa verið hækkaðir stórlega á launafólki en lækkaðir að sama skapi á fyrirtækjum. Skattleysismörk hafa verið lækkuð þvert ofan í gefin loforð stjórnarflokkanna. Skattaeftirlit er allsendis ónóg og vægilega er tekið á skattsvikum og bókhaldsbrotum fyrirtækja.
Út yfir tekur svo spilling í opinberu lífi þar sem stjórnarherrarnir fara fyrir með Alþýðuflokkinn í fararbroddi. Í stað þess að brotlegir ráðherrar segi af sér eða forsætisráðherrann biðjist lausnar fyrir þá bindur ríkisstjórnin sig saman og er samábyrg í heild og þorir ekki að láta reyna á vantraust á Alþingi.
Óheillavænlegar afleiðingar EES-samnings
Með samningnum um Evrópskt efnahagssvæði hafa Íslendingar verið hengdir aftan í Evrópusambandið á fjölmörgum sviðum og sjálfræði þjóðarinnar verið skert verulega. Frelsi fjármagns og fyrirtækja er orðið æðsta boðorð samfélagsins í krafti reglugerða ES og er sett ofar öðrum samfélagslegum gildum. Ein afdrifaríkasta breytingin getur reynst sú að opnað hefur verið upp á gátt fyrir fjárstreymi inn og út úr landinu jafnt fyrir spekúlanta sem aðra og er fjármagnsflótti þegar farinn að valda stjórnvöldum áhyggjum.
Ekki er síður alvarlegt að samkvæmt EES-samningnum geta útlendingar keppt um kaup á jörðum til jafns við Íslendinga og eignarhaldi á landi fylgir að óbreyttum lögum virkjanaréttur í fallvötnum og eign á jarðhita undir yfirborði. Í meira en áratug hefur Alþýðubandalagið flutt frumvörp um að lýsa þessi réttindi þjóðareign, en bæði Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa staðið gegn því á Alþingi.
EES-samningurinn er fjötur, sem þjóðin þarf að losna úr og tryggja á þess í stað hagsmuni þjóðarinnar með tvíhliða samningi við Evrópusambandið.
Útiloka á aðild að Evrópusambandinu
Alþýðuflokkurinn boðar nú að hið snarasta skuli sótt um aðild að Evrópusambandinu, þótt því fylgi m.a. afsal forræðis yfir fiskimiðunum. Sjálfstæðisflokkurinn er skiptur í afstöðu til aðildar og hefur því frestað uppgjöri um málið fram yfir kosningar. Framsókn sem skiptist til helminga á þingi í afstöðu til EES-samningsins boðar nú einskonar aukaaðild að Evrópusambandinu og formaður Framsóknar útilokar ekki beina ES-aðild í náinni framtíð. Alþýðubandalagið telur hins vegar nú sem fyrr að aðild að Evrópusambandinu eigi ekki að koma til greina. þessi afstaða Alþýðubandalagsins getur ráðið úrslitum um framvindu þessa stórmáls í fyrirsjáanlegri framtíð. það er líka mikil blekking að unnt sé að sækja um aðild til prufu. Á slíka umsókn yrði að sjálfsögðu ekki litið alvarlega í Brussel.
Tryggja þarf atvinnu og ný tök í atvinnulífi
Alþýðubandalagið á Austurlandi telur uppbyggingu atvinnulífs í sátt við umhverfið, atvinnu fyrir allar vinnufúsar hendur og jöfnuð óháð kynferði og búsetu vera mál mála. Slík þróun næst ekki á forsendum óhefts markaðsbúskapar eða með hefðbundnum hagvexti sem aðalmælikvarða, síst af öllu ef ekki má leggja hömlur á fjárstreymi milli landa.
Hefðbundnir atvinnuvegir standa frammi fyrir miklum vanda. Í landbúnaði hefur með EES-samningi verið opnað fyrir nokkurn innflutning á landbúnaðarafurðum en það er með væntanlegu GATT-samkomulagi sem steininn tekur úr. Illa var haldið á GATT-viðræðum af utanríkisráðherra og núverandi ríkisstjórn og enn á eftir að reyna á um útfærslu samningsins hérlendis.
Alþýðubandalagið telur að sporna eigi eftir fremsta megni við innflutningi hefðbundinna búvara og vernda þannig störf og heilbrigði bústofns og framleiðslu. Leita þarf jafnframt nýrra leiða í búrekstri m.a. með lífrænni og vistvænni framleiðslu og veita slíkum vaxtarbroddum stuðning.
Í sjávarútvegi er stefnt í öfuga átt með því að fjölga stórlega frystitogurum og flytja með því vinnsluna á haf út. Núverandi stjórnkerfi fiskveiða er einnig meingallað, einkum varanlegt framsal aflaheimilda sem leiðir til þess að réttur til veiða færist á æ færri hendur. Með því er einnig leynt og ljóst verið að brjóta niður hlutaskiptakerfið og rýra kjör sjómanna.
Varað við risavirkjunum
Mun ríkari áherslu þarf að leggja á umhverfisvernd en nú er á öllum sviðum og tengja hana skipulagsákvörðunum. Náttúruauðlindum lands og sjávar eru takmörk sett og rányrkja er enn stunduð á fiskimiðum og gróðurlendi.
Vernda þarf hálendi landsins og óbyggðir sem hafa sívaxandi þýðingu til útivistar og ferðamennsku. Alþýðubandalagið á Austurlandi varar við fyrirliggjandi hugmyndum um samveitu jökulvatna norðan Vatnajökuls. Stefna ber að minni virkjunum sem ekki valda stórfelldri röskun á náttúru landsins og að nýta orkuna sem mest til uppbyggingar innan fjórðungsins.
Krafa um jöfnuð óháð búsetu
Halda þarf kröfunni um jöfnuð óháð búsetu hátt á lofti, ekki síst nú þegar ákvarðanir stjórnvalda ganga um flest gegn slíkum markmiðum. Mismunun hefur farið vaxandi í vöruverði og ekkert er gert til að hamla gegn henni. Óþolandi munur er enn á verði orku til húshitunar og veldur það eitt út af fyrir sig búseturöskun. Ekki hefur orðið framhald á jöfnun símgjalda sem fyrrverandi samgönguráðherra beitti sér fyrir og áform ríkisstjórnar og innan Evrópusambandsins um einkavæðingu Pósts og síma myndu gera að engu það markmið að landið allt verði eitt gjaldsvæði.
Kosningaskipan og stjórnkerfisbreytingar
Umræðan um jöfnun á vægi atkvæða milli kjördæma er á röngu spori á meðan ekkert er tekið á stjórnkerfisbreytingum sem varða jöfnuð og mannréttindi þeirra sem búa utan aðalþéttbýlissvæða. Alþýðubandalagið á Austurlandi telur að skilyrða beri hugsanlegar breytingar á kosningalögum nú við það að áður verði tekið á því mikla misvægi sem ríkir í stjórnkerfinu á mörgum sviðum. Núverandi kosningaskipan tryggir nokkurnveginn jöfnuð milli stjórnmálaflokka og engin ástæða er til þess að óbreyttu að flytja meira vald til Reykjavíkur. þvert á móti ætti að dreifa valdi frá stjórnarráðinu og stofnunum þess í ríkum mæli til héraða. Besta leiðin til þess er að stofna sjálfstætt stjórnsýslustig milli ríkis og sveitarfélaga.
Málefni Austurlands
Fólksfjöldi á Austurlandi hefur á heildina litið að mestu verið óbreyttur síðustu 15 ár en tilfærsla verið úr sveitum til þéttbýlisstaða. þetta þýðir í raun mikinn brottflutning eða sem nemur viðkomu og síðustu árin hefur verið um beina fækkun íbúa að ræða. Til að snúa þessari þróun við þarf margt að koma til, ekki síst fjölbreytni í atvinnulífi, örugg atvinna og aukin þjónusta.
Auk hefðbundinna greina sem áfram verða undirstaða atvinnulífsins þarf að efla og styðja við nýsköpun á sem flestum sviðum. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein og ríkisvaldinu ber að tryggja henni þróunarforsendur á landsbyggðinni. Í því sambandi má benda á ítarlega ferðamálastefnu sem Alþýðubandalagið hafði fyrir fáum árum frumkvæði að, en núverandi samgönguráðherra hefur látið rykfalla.
Skógrækt og skógvernd er að verða gildur liður í búskap bænda á Austurlandi og getur fallið vel að útivist og ferðamannaþjónustu. Tryggja verður slíkri atvinnustarfsemi jafnræði á við aðrar greinar m.a. í skattalegu tilliti.
Bættar samgöngur milli byggða innan fjórðungsins eru lykill að samstarfi og eðlilegri verkaskiptingu í atvinnulífi og þjónustu. þar þarf að líta til allra þátta samgangna, á sjó, landi og í lofti. Áframhaldandi uppbygging vegakerfisins er brýn og ekki má hverfa frá mótaðri stefnu um jarðgangagerð. Mikilvægt er að tengja Vopnafjarðarsvæðið samgöngulega sem best Mið-Austurlandi og líta ber á það sem lið í uppbyggingu vegar um byggðir Norðausturlands. Í Austur-Skaftafellssýslu þarf að bregðast við breytingum við Jökulsárlón og tryggja sem best innsiglinguna til Hafnar um Hornafjarðarós.
Mennta- og heilbrigðismál
Á sviði menntamála á Austurlandi þarf að bæta grunnnám og aðstæður framhaldsnáms þannig að sem fæstir þurfi að leita annað vegna ónógs námsframboðs. Flutningur málefna grunnskóla til sveitarfélaga má ekki bitna á minnstu skólunum eða kröfunni um jafnrétti til náms. þá þarf að sjá til þess að áfram starfi fræðsluskrifstofa í fjórðungnum. Er eðlilegt að ríkið standi undir kostnaði við hana sem þjónustu- og eftirlitsstofnun. Tryggja þarf stöðu og þróun framhaldsskólanna sem fyrir eru, koma upp viðunandi aðstöðu til verkkennslu, fjarnáms og fullorðinnafræðslu.
Í heilbrigðismálum þarf að auka samstarf innan svæðisins undir forystu héraðlæknis í fullu starfi, koma upp skrifstofu heilbrigðismála í kjördæminu og tryggja að áfram starfi vel búið sérgreint fjórðungssjúkrahús sem sinnt geti bráðaþjónustu.
Kosningarnar framundan
Í alþingiskosningunum í apríl næstkomandi verður tekist á um ýmis grundvallaratriði í þjóðmálum. Stærsta einstaka málið verður afstaðan til Evrópusambandsins og varðveisla efnahagslegs og pólitísks sjálfstæðis Íslendinga. Rétturinn til atvinnu, jöfnuður óháð búsetu og kynferði og siðbót í opinberu lífi og almennt í þjóðfélaginu mun einnig verða ofarlega á baugi. Í aðdraganda þessara kosninga er mikilvægt að vinstra fólk og jafnréttissinnar þjappi sér saman um meginatriði og gæti þess að sundra ekki kröftunum. Brýnt er að setja á ný á dagskrá félagsleg gildi í stjórn landsins og koma í veg fyrir að ómenguð hægristjórn setjist að völdum annað kjörtímabilið í röð.
Alþýðubandalagið á Austurlandi væntir stuðnings sem flestra Austfirðinga við þau baráttumál sem hér hafa verið reifuð og lýsir sig reiðubúið til samvinnu við alla þá sem stuðla vilja að framgangi þeirra.
----------
Drög 26.okt. 1994/HG