Skoplegar kjördæmatillögur
Fráleit nálgun Frumvarp forsætisráðherra um stjórnarskrárbreytingu vegna kjördæmaskipunar og meðfylgjandi tillaga stjórnskipaðrar nefndar eru afar mislukkuð smíð. Með samþykkt þeirra væri stigið óheillaspor í stjórnskipan Íslands. Er það illt því að Íslendingar hefðu þörf fyrir annað, bæði landsbyggð og höfuðborgarsvæði. Undirritaður er ekki andsnúinn því að færð séu til þingsæti vegna búferlaflutninga eins og oft hefur verið gert áður á þessari öld. Með því er verið að koma til móts við gagnrýni, sem þó er sumpart lítt grunduð eða byggð á misskilningi. Núverandi kerfi tryggir góðan jöfnuð milli stjórnmálaflokka við úthlutun þingsæta og þannig fá flokkar þingsæti nokkurn veginn í samræmi við fylgi þeirra meðal þjóðarinnar. Tillögur kjördæmanefndarinnar frá 6. október 1998, undirritaðar af fulltrúum þingflokka á Alþingi annarra en Þingflokks óháðra, byggja að mínu mati á rangri grunnhugmynd. Með þeim er stefnt að 6 kjördæmum með 10 - 11 þingmönnum í hverju. Búin eru til þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi og þrjú kjördæmi á höfðuborgarsvæðinu. Þau fyrrnefndu spanna mestan hluta landsins, þau síðarnefndu yfir skikann frá Hafnarfirði norður í Hvalfjörð. Þetta er fráleit nálgun og hlaut að leiða til fáránlegrar niðurstöðu.
Norðausturkjördæmi helmingur Íslands! Það þarf ekki annað en líta til svonefnds Norðausturkjördæmis til að átta sig á í hvers konar ógöngur hér er stefnt. Það kjördæmi spannar yfir hátt í helming af flatarmáli Íslands og næði frá Tröllaskaga suður á Skeiðarársand. Þingmenn sem ætlað er að sinna þessu kjördæmi þurfa að vera í frískara lagi, ætli þeir sér að öðlast þekkingu á hag byggðarlaga á þessum eystri helmingi Íslands og halda þar uppi sambandi við kjósendur! Kannski er ekki að slíku stefnt af tillögumönnum, en hvers vegna er þá ekki brugðið á það ráð að gera landið að einu kjördæmi? Ég hef ekki verið slíkri tilhögun meðmæltur, en slíkt væri þó mun vitrænni niðurstaða en það sem hér er lagt til.
Íslensk fyndni endurútgefin Friðrik Sófusson leiddi kjördæmanefndina, sem í áttu sæti 5 af höfðuðborgarsvæði auk Valgerðar Sverrisdóttur. Það er eitthvað meira en lítið ábótavant í landafræðikunnáttu þessa fólks. Ég fullyrði að ef notið hefði sjónarmiða víðar að af landinu í slíkri nefnd hefðu þessar tillögur aldrei verið festar á blað. Hugmyndin um álíka fjölmenna þingmannahópa í hverju kjördæmi hefur leitt þetta grandvara fólk á slíka refilstigu að það skeyttir engu um staðhætti. Nefndarmenn hefðu verið ögn betur staddir ef forn skipting landsins í fjórðunga hefði hvarflað að þeim. Kannski er ekki um seinan að rifja hana upp. Hvernig væri að halda Norðurlandi óskiptu sem kjördæmi og Austurlandi sér, ef til vill með því að bæta við það Vestur-Skaftafellssýslu? Væri nokkuð að því að þingmenn Norðurlands væru nær þrefalt stærri hópur en þingmenn Austurlands? Úrslit mála ráðast hvort eð er ekki í slíkum dilkum. Skoplegust er sú hugmynd nefndarinnar að skipta höfuðborginni í tvö kjördæmi. Sumir nefndarmenn hafa rökstutt það með því að þá geti þingmenn farið að reka erindi fyrir Vesturbæinga svipað og þingmenn landsbyggðarinnar fyrir sína umbjóðendur! Íslensk fyndni var góð bók en mættum við biðjast undan þessari útgáfu?
Hjörleifur Guttormsson
|