Verndun hálendisins - leiðir að marki Svar við opnu bréfi Guðmundar Sigvaldasonar
Kæri Guðmundur. Mér þótti vænt um að fá bréf þitt og lesa þær hugleiðingar sem þú festir á blað. Sjónarmið af þessum toga er afar gagnlegt, ekki síst inn í þá pólitísku umræðu sem nú fer fram og vonandi reynist ekki dægurfluga. Það er ekki einfalt fyrir þá, sem standa utan við hinn harða pólitíska vettvang Alþingis og jafnvel mætti nefna sveitarstjórnir í sömu andrá, að beita sér í almennri umræðu um þingmál og hitta í lið. Það vill oft á tíðum vefjast fyrir okkur þessum sextíuogþremur sem verma þingbekki að setja sig inn í fyrirliggjandi mál og halda þræði. Það er því sannarlega ekki að undra þótt oft gæti misskilnings hjá fólki utan þings og þess hefur vissulega orðið vart í "hálendisumræðunni" að undanförnu. Ég vil ekki fullyrða að þú sér í þeim hópi. Mér virðist þú fyrst og fremst tala út frá tilfinningu og grundvallarafstöðu um verndun hálendisins og það sé kannski meira tilviljun að þú hendir fremur á lofti frumvarp til sveitarstjórnarlaga en eitthvert annað þeirra mörgu fyrirliggjandi þingmála sem snerta hálendisumræðuna. Vísa ég þá einnig til ræðu sem þú hélst á Hótel Borg fyrir stuttu (Dagur 9. maí 1998).
Skipulag og verndarlöggjöf Það gæti auðveldað gagnkvæman skilning að ég segi þér fyrst frá meginsjónarmiðum mínum um meðferð landsins og þá sérstaklega óbyggða og komi síðar að þeirri stöðu sem nú er uppi til að þoka þeim viðhorfum áleiðis. Svipað og þú tel ég að nálgast eigi málið með verndun landsins að meginmarkmiði og að leyfa eigi almenningi frjálsa för um landið svo lengi sem tryggt sé að umferð valdi ekki náttúruspjöllum eða ófriði. Til að ná þessu fram höfum við nútímamenn vart önnur tæki skárri en skipulag og lög um náttúruvernd og skyld svið. Varla kjósum við að mannvirkjagerð og umgengni fari stjórnlaust vaxandi og menn taki sér rétt samkvæmt lögmálum frumskógarins, eða eigum við kannski að segja að hætti eyðimerkurfara. Skipulag getur falið í sér verndun, að minnsta kosti brugðist við ófarnaði. Útivistarnotin verður að samræma svo vel fari, beitarnot verða að vera hófleg og á stórum svæðum er þörf friðunar fyrir beit. Það sem mest og varanlegust áhrif hefur og sköpum skiptir er hins vegar hvort leyfð verður meiriháttar mannvirkjagerð, lagning hlemmivega, bygging virkjana og raflína. Þú víkur réttilega að þessum þáttum í bréfi þínu. Þú bendir á að nú treysti ráðamenn á að auka megi frumframleiðslu orku og spyrð hvort nokkur þörf sé fyrir fleiri stóriðjuver.
Sjálfbær orkustefna - ekki fleiri málmbræðslur Ég hef á Alþingi reynt að svara þessum spurningum með málflutningi og tillögugerð. Síðla vetrar lagði ég fram tillögu undir heitinu sjálfbær orkustefna. Þar er sett fram sú krafa að við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma verði ríkulegt tillit tekið til náttúruverndar og umhverfis. "Af umhverfisástæðum er óhjákvæmilegt út frá varúðarsjónarmiði að draga frá umtalsverðan hluta þessara auðlinda þegar áætlað er það heildarmagn endurnýjanlegrar orku sem til ráðstöfunar getur orðið í framtíðinni", segir í greinargerð. Sett er fram það sjónamið að í stað þess að telja hagnýtanlega orku vera 50 teravattstundir beri að gera ráð fyrir að ekki meira en helmingur þess magns verði til ráðstöfunar í framtíðinni. Svigrúmið til aukinnar framleiðslu raforku eigi að nota til að vistvæn innlend orka leysi innflutt jarðefnaeldsneyti af hólmi smám saman á komandi öld. Hefðbundin stóriðja og sjálfbær orkustefna eigi hér ekki samleið og því beri að stöðva öll frekari áform um málmbræðslur. Tillöguna færðu í pósti auk þess sem hún er aðgengileg á netinu sem 701. mál yfirstandandi þings.
Fjölþættar leiðir til verndunar Til að stuðla að náttúruvernd og bættri umgengni við landið þarf að beita mörgum samþættum ráðum. Þig dreymir um að hálendið allt verði einn þjóðgarður og hefur áhyggjur af ofbeit og óvarlegri umferð. Mig langar til að benda þér á nokkur mál sem falla í þennan farveg. Um beitina vísa ég meðal annars á þingsályktunartillögu mína um að takmarka fjölda hrossa og draga úr hrossabeit (51. mál). Hún hefur þegar verið afgreidd frá landbúnaðarnefnd þingsins með jákvæðum hætti og verður senn að ályktun Alþingis. Í tillögu að breyttum lögum um landgræðslu (83. mál) er frekari rökstuðning að finna fyrir nýjum áherslum í gróðurvernd og við hvað eigi að miða í nýrri löggjöf um þau efni. Þá hefur legið fyrir þremur síðustu þingum tillaga mín og fleiri að breytingu á lögum um náttúruvernd (73. mál), þar sem lagt er til að nýjum kafla um landslagsvernd verði aukið við lögin, með víðtækum verndunarákvæðum og ströngu aðhaldi að efnistöku. Síðast en ekki síst vísa ég til tillögu minnar um þjóðgarða á miðhálendinu (406. mál), sem felur í sér að undirbúin verði stofnun fjögurra stórra þjóðgarða með jöklana sem kjarna og spanni þeir 22 þúsund ferkílómetra, sem væri rösklega fimmtungur af flatarmáli alls landsins. Þess utan njóta stór svæði á miðhálendinu eins og Ódáðahraun verndar af sérlögum eða eru á náttúruminjaskrá og þarf að festa slík ákvæði enn frekar í sessi. Á þetta er ekki bent til að hælast um eða friðþægja, heldur til að undirstrika að beita má fjölþættum aðferðum til að ná því marki sem við virðumst sammála um að stefna beri að. Ég er vissulega ekki sáttur við ófullnægjandi undirtektir þingsins og meirihluta umhverfisnefndar við flestar ofangreindar tillögur, en vonandi ber háhendisumræðan vott um vaxandi stuðning við verndunarsjónarmið.
Skipulag og hlutur sveitarfélaga Þá er komið að því máli sem snertir skipulag miðhálendisins og "fornfálegt" frumvarp til sveitarstjórnarlaga, sem mest hefur verið í umræðu síðustu vikur. Til að taka af tvímæli er rétt að minna á að vesalingur minn hefur ásamt öðrum í stjórnarandstöðu greitt atkvæði gegn afgreiðslu þess máls. Áður en til þess kom reyndi ég ásamt fleirum að stuðla að breytingu á skipulagsslögum til að tryggja sem heildstæðasta meðferð skipulagsmála á miðhálendi Íslands. Tillaga frá ríkisstjórninni sem gengur í áttina liggur fyrir en fæst ekki einu sinni rædd á þessu þingi. Það er því rangt ef einhver heldur að ásættanleg málamiðlun sé í höfn. Ég hef í umræðunni rifjað upp forsögu þessa máls (Dagur 8. maí 1998), hvernig þingið að meirihluta og nær samhljóða hefur sett skipulag miðhálendis í þann farveg sem raun ber vitni og birtist í fyrirliggandi tillögu að svæðisskipulagi til ársins 2015. Sú málsmeðferð var síðast innsigluð með afgreiðslu heildarlöggjafar um skipulags- og byggingarmál fyrir réttu ári. Ég var einn um það á Alþingi að lýsa fyrirvara og áhyggjum vegna þess hvernig kveðið væri á um skipulag miðhálendisins í þessari löggjöf. Allt frá 1993 hefur framkvæmdavaldið stefnt að því að skipta landinu öllu upp í sveitarfélög og því átti frumvarp félagsmálaráðherra að þessu leyti ekki að koma neinum á óvart, allra síst alþingismönnum. Ég hefði kosið aðra stefnu og barðist fyrir henni ásamt fleirum en átti síðan hlut að málamiðlun sem fáir eru nú menn til að kannast við. Það breytir ekki því að allir hafa rétt til andófs og að vinna skoðunum sínum fylgi, og þar met ég tilfinningaleg rök síst minna en önnur sjónarmið. Aðstæður breytast líka ört og einnig það gefur tilefni til umræðu og endurmats.
Ósamhljóma kór Umræðan sem nú fer fram um málefni óbyggðanna er þörf og sannarlega betri en engin. Framhjá því verður hins vegar ekki horft að þeir sem taka undir kröfuna um frestun á ákvörðunum af hálfu Alþingis gera það á afar ólíkum forsendum. Í hópnum eru náttúruunnendur og útivistarfólk sem vill sem minnsta röskun á náttúru hálendisins. En þar eru einnig sterkar og háværar raddir þeirra sem vilja mikil umsvif og mannvirkjagerð á hálendinu og hafa skrifað um það lærðar ritgerðir. Einnig hafa slegist í hópinn áköfustu virkjunarsinnar og stóriðjumenn landsins sem telja meðal annars fyrirliggjandi skipulagstillögu um miðhálendið afleita þar eð hún bregði fæti fyrir margar virkjunarhugmyndir. Af svipuðum ástæðum vilja þeir hinir sömu ekki sjá hreppamörkin dregin inn til landsins, þar eð slíkt torveldi ákvarðanir um virkjanir og legu raflína. Auðvitað fá menn því ekki ráðið hverjir slást í för þá mótmæli eru höfð uppi, en betra er að hafa varann á þegar leitað er bandamanna. Ég tel síst minni stuðnings að vænta hjá fólki í dreifbýli en þéttbýli þá náttúruvernd er annars vegar, og sá hópur sem rær fyrir allt aðra hagsmuni á örugglega meiri ítök annars staðar. Ég vil að endingu þakka þér gott innlegg og einarða framgöngu fyrir náttúruvernd fyrr og síðar. Má vera mig skorti bæði skarpa sjón og hugdirfsku en hvatning þín og annarra sem tala fyrir verndun óbyggðanna er mér að skapi.
Þinn einlægur
Hjörleifur Guttormsson
|