Hjörleifur Guttormsson:

Framsóknarflokkurinn og stóriðjuæðið

 

Það er nú orðið deginum ljósara, að ríkisstjórnin með ráðherra Framsóknarflokksins í fararbroddi keppir að því að margfalda á næstu árum umfang orkufrekrar stóriðju í landinu. Þegar gengið hafði verið frá samningum um stækkun álbræðslu ÍSAL í Straumsvík sl. vetur töldu ýmsir að íslenskir ráðamenn myndu staldra við og reyna að marka einhverja vitræna stefnu um framhaldið með tilliti til heildarhagsmuna. Það hefur ekki orðið, heldur er anað áfram fyrirvaralaust.

Óskadæmi iðnaðarráðherrans

Ef marka má iðnaðarráðherrann og trúnaðarmenn hans hjá MIL lítur óskadæmið þannig út frá þeirra bæjardyrum í framhaldi af stækkun ÍSAL:

1. Columbia Aluminium reisi 60 þúsund tonna álbræðslu keypta frá Þýskalandi á Grundartanga 1997-98 með stækkun í 180 þúsund tonn síðar. Aukin raforka kæmi frá Kvíslasveitu, stækkun Blöndulóns, stækkun Búrfellsvirkjunar og jarðgufuvirkjunum á Nesjavöllum og við Kröflu.

2. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga verði stækkuð um ca. þriðjung 1998-99 með raforku frá jarðgufuvirkjunum, Hágöngulóni og Sultartangavirkjun.

3. Álbræðsla ATLANTAL-hópsins á Keilisnesi, 330 þúsund tonn í tveimur jafnstórum áföngum. Við endurmat á hagkvæmni sem á að liggja fyrir um næstu áramót er gert ráð fyrir að framkvæmdir geti hafist árið 2000 og fyrri áfanginn tæki til starfa árið 2002. Raforkuþörf slíkrar risabræðslu næmi 4700 gígavattstundum á ári sem er svipað magn og Landvirkjun framleiddi í heild á árinu 1995.

Öll eru þessi fyrirtæki í nágrenni Reykjavíkur og við þetta bætast fjölmargar aðrar hugmyndir sem eru á döfinni um aðra stóriðju við Faxaflóa. Unnið er t.d. að því að koma þar á fót magnesíumverksmiðju og iðnaðarráðuneytið ætlar í árslok að stofna hlutafélag með Reykjavík og Hafnarfirði um jarðgufuveitu til stóriðju með afhendingu í Straumsvík að markmiði. Rafmagnsveitum ríkisins er í ár ætlað að greiða 18 millj.kr. í undirbúningskostnað vegna hins síðarnefnda.

 

Orka áfram á útsölu

Þegar samið var um stækkun ÍSAL beitti iðnaðarráðherra og Landsvirkjun sér fyrir þeirri nýbreytni að lýsa orkuverð frá fyrirtækinu viðskiptaleyndarmál. Rökin voru þau að ekki mætti upplýsa samkeppnisaðila um verð á orkunni, en í leiðinni losuðu stjórnvöld sig við þau óþægindi að láta Alþingi fjalla um og meta áhættuna af raforkusamningum til stóriðju. Ekki fór þó milli mála að raforkan til stækkunar ÍSAL væri á útsöluverði eða um 10 mills (66 aurar) fyrstu sjö árin og um 16 mills á samningstímanum. Er það réttlætt með lágum flýtingarkostnaði af viðbótum við raforkuver þar sem meginstofnkostnaður er þegar til staðar. Á sama tíma er sagt upp sérsamningum við innlend iðnfyrirtæki sem keypt hafa svonefnda afgangsorku af Landsvirkjun. Iðnaðarráðherrann fullyrti að vísu á þinginu að slíkir samningar yrðu ekki endurteknir, hér væri um tannfé að ræða "til að brjóta ísinn."

Aðspurður um orkuverðið til Columbia-bræðslunnar svaraði ráðherrann í DV 19. ágúst sl.: "Ætli við segjum ekki 15-20 mills en það fer eftir mörgu. Það er það verð sem talað er um að Landsvirkjun þurfi að fá fyrir orkuna á næstu árum." - Þess utan sé orkuverðið viðskiptaleyndarmál! Ástæða er til að vekja athygli á að talað er um verð sem LV þurfi að fá "á næstu árum", ekki langtímakostnað af nýjum virkjunum í landinu.

 

 

Umhverfismál í uppnámi

Þáttur umhverfisráðherra, sem er hinn Framsóknarráðherrann sem að þessum málum kemur með beinum hætti, er sannarlega dapurlegur. Að ósk Landsvirkjunar og MIL ógilti hann í júní sl. úrskurð eigin stofnunar, þ.e. Skipulags ríkisins, um kröfur til umhverfismála Columbia-verksmiðjunnar og raforkuvirkja er henni tengjast. Um leið hafnaði hann athugasemdum íbúa á svæðinu á þeirri forsendu að búið hafi verið að samþykkja svæðisskipulag sem geri ráð fyrir iðnaðaruppbyggngu við Grundartanga.

Spurningum um hvernig stóriðjuframkvæmdirnar komi heim og saman við skuldbindingar Íslands um að auka ekki losun koltvísýrings í andrúmsloftið vísar umhverfisráðherrann frá án frekari rökstuðnings, - þær eigi einfaldlega ekki við þegar orkufrekur iðnaður á í hlut.

Hollustuvernd ríkisins, sem er sú stofnun umhverfisráðuneytisins sem fylgjast á með mengun frá iðnaðarstarfsemi, er markvisst haldið í fjársvelti, þannig að hún hefur litla burði til að rækja hlutverk sitt.

Og hvað varðar ráðherrana um ímynd Íslands sem ferðamannalands þegar stóriðja og háspennuvirki eru það helsta sem við augum blasir við komuna til landsins?

 

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim