Stjórnmálin höfðu meira vægi áður fyrr Fáein atriði frá tíð Bjarna Þórðarsonar sem ritstjóra
Blaðið Austurland hefur nú haldið velli í 45 ár og markað djúp spor í blaðaútgáfu í fjórðungnum. Allt umhverfi blaðaútgáfu hefur gerbreyst á þessum tíma, jafnt tæknilega og fjárhagslega. Þetta á einnig við um héraðablöð, sem haldið hafa velli þrátt fyrir harðnandi samkeppni. Hér verður ekki gerð nein söguleg úttekt á blaðinu Austurlandi, en aðeins settar á blað hugleiðingar og persónulegar minningar frá þeim tíma sem Bjarni Þórðarson var ritstjóri blaðsins.
Störfin ólaunuð framan af Fyrri hlutann af æviskeiði Austurlands voru öll störf við blaðið ólaunuð og kostnaðurinn nær eingöngu bundinn við prentun og dreifingu. Til að hefja útgáfu blaðsins 1951 þurfti að byrja á að koma upp prentsmiðju. Bjarni Þórðarson hafði forgöngu um félagsskap í því skyni og þannig var lagður grunnurinn að Nesprenti. Samstarf Bjarna Þórðarsonar sem ritstjóra og Haraldar Guðmundssonar prentara var náið og reyndi áreiðanlega oft á þolinmæði beggja. Allt var blýsett og tækjabúnaðurinn ekki nýr af nálinni. Myndir þurfti að senda til klisjugerðar syðra og voru myndir ekki algengar á síðum blaðsins framan af. Ritstjórinn átti mörg spor í prentsmiðjuna þá daga sem unnið var að blaðinu og kom sér vel að skammt var á milli heimilis Bjarna að Þórhólsgötu 1 og Nesprents sem lengst af var á sama stað og nú. Bjarni ók ekki bíl og fór sinna ferða fótgangandi innanbæjar. Hann skilaði inn efni í blaðið áður farið var í vinnu á bæjarskrifstofunni að morgni og kom þar oft við um hádegisbil, um kaffileytið og í dagslok til að lesa prófarkir.
Alþýðubandalagið tók við útgáfu 1967 Sjálfur skrifaði Bjarni meirihlutann af efni blaðsins framan af, enda var hann einn ábyrgur fyrir útgáfu þess fyrstu 16 árin, og undirtitill blaðsins þann tíma "málgagn sósíalista á Austurlandi". Á árinu 1967 (frá og með 33. tbl.) varð hins vegar Austurland "málgagn Alþýðubandalagsins á Austurlandi" samkvæmt ósk kjördæmisráðs þess og með samkomulagi við ritstjórann. Kjördæmisráðið fól Alþýðubandalaginu í Neskaupstað að annast útgáfu blaðsins; kaus það menn í ritnefnd og fjárhagsnefnd og hefur sú skipan haldist síðan.. Þeim fjölgaði smám saman sem lögðu blaðinu til efni og lið að öðru leyti, m.a. við pökkun og útsendingu. Sá sem þetta skrifar varð eins konar óopinber ljósmyndari blaðsins um skeið og annaðist klisjuöflun með samvinnu við Þjóðviljann. Sem ritnefndarmaður kom ég oft við í prentsmiðju og varð þá ósjaldan að una því að ljósmyndum væri skipt út fyrir texta. Oft var glatt á hjalla í prentsmiðjunni í kaffitímum, ritstjórinn hávær og glettinn og prentarinn með góða kímnigáfu og gat verið ögn ertinn. Ritnefndin hittist vikulega, ræddi um efnisöflun og fleira sem tengdist blaðinu. Það kom fyrir öðru hvoru að Bjarni kynnti ritnefndinni greinar sem hann hafði skrifað eða hafði í smíðum og leitaði eftir gagnrýni. Hann var óvenjuvel ritfær, skýr í hugsun og handskrifaði greinar sínar, oft án þess að breyta þar stafkrók.
Landsmál ofarlega á baugi Þegar borið er saman efni Austurlands í ritstjórnartíð Bjarna og síðar sést m.a. að skrif um stjórnmálatengt efni hafa minnkað en dægurfréttir skipa nú meira rúm. Þó var á sjöunda áratugnum tekið upp fréttaritarakerfi sem breikkaði svip blaðsins sem og teknir upp fastir þættir eins og Stiklur, þar sem nokkrir greinahöfundar skiptust á um að skrifa. Segja má að þessar áherslubreytingar séu tímanna tákn, og blaðið varð smám saman líflegra og fjölbreyttara að efni. Austurland Bjarna var öðru fremur pólitískt málgagn og þótt blaðið væri vikublað hafði það um margt aðra stöðu en "héraðsfréttablöð" nú á dögum. Nú gætir um of þeirra viðhorfa að vikublöðin á landsbyggðinni eigi helst að leiða hjá sér það sem varðar landsvettvang og stjórnmál á víðari velli. Afmarkaðar ritstjórnargreinar voru ekki í blaðinu lengi vel en stjórnmálagreinar skipuðu oft aðalsess á forsíðu. Ég tel mig vita að um efni þeirra hafi ritstjórinn oft haft náið samráð við Lúðvík Jósepsson. Fyrir kom líka að í blaðinu væri fjallað um alþjóðaviðburði, eins og hér verða nefnd dæmi um.
SÍA-uppljóstranir og Sovét Þegar við Kristín fluttum hingað til Neskaupstaðar haustið 1963 þekkti ég lítið til í Neskaupstað og hafði aðeins komið hingað stöku sinnum. Ég hafði dvalið í Austur-Þýskalandi við nám frá 1956, var flokksbundinn sósíalisti og hafði starfað í SÍA, félagsskap námsmanna austantjalds um árabil. Vorið 1962 komst Morgunblaðið í bréfasafn og skjöl okkar námsmannanna og reyndi að gera sér mat úr þeim í aðdraganda sveitarstjórnarkosninga 1962 og alþingiskosninga 1963, ekki síst vegna gagnrýni okkar á þjóðfélagskerfið austantjalds. Þetta var á mektardögum kalda stríðsins og moldviðrinu í kringum þessar "uppljóstranir" var beint að forystu sósíalista og Alþýðubandalaginu sem þá starfaði sem kosningabandalag. Við námsmennirnir vorum litnir misjöfnum augum eftir að heim kom, einnig í röðum sósíalista, og fór afstaða manna að einhverju leyti eftir því hvaða augum þeir litu sovétkerfið. Ekki fannst mér þó að ég væri í neinu látinn gjalda þessa í samskiptum mínum við félaga hér í Neskaupstað og þegar alþýðubandalagsfélag var stofnað í bænum 1965 varð ég formaður þess. Mér var ljóst að margir sósíalistar hér sem annars staðar báru hlýjan hug til rússnesku byltingarinnar og tóku oft tilfinningalega afstöðu í hinni daglegu umræðu, þar sem reynt var að skipta mönnum upp í afstöðu til risaveldanna. Ég var sjálfur leitandi og virti þessar aðstæður framan af, þrátt fyrir reynsluna frá dvölinni austantjalds.
"Nú verður þú að skrifa" Við Bjarni ræddum stöku sinnum þróunina í Sovét á fyrstu árum mínum í Neskaupstað og vorum ekki alltaf sammála. Krjústsjoff var vikið frá 1964 og við tók harðari stefna Brésneffs-tímabilsins, einnig gagnvart fylgiríkjum í Austur-Evrópu. Vorið í Prag 1968 að frumkvæði þarlendra kommúnista vakti vonir um betri tíð. Milli vonar og ótta fylgdust menn fram eftir sumri með vaxandi spennu milli forystumanna Tékkóslóvakíu og Sovétforystunnar. Eftir svikalogn framan af ágústmánuði réðust vopnaðar sveitir Varsjárbandalagsríkja inn í Tékkóslóvakíu aðfaranótt 21. ágúst. Ég var nýkominn heim úr rannsóknaleiðangri. Bjarni hringdi í mig strax eftir morgunfréttir og var mikið niðri fyrir. "Heyrðirðu fréttirnar. Rússar eru komir inn í Tékkóslóvakíu. Nú verður þú að skrifa." Ég þurfti ekki brýningar við og afraksturinn voru þrjár greinar í Austurland þar sem gert var upp við Sovétstefnuna, sú síðasta undir fyrirsögninni Sovétríkin í pólitískri blindgötu. - Bjarni hélt þó lengur í vonina um að Eyjólfur hresstist, og spratt af því nokkur eldur á síðum Austurlands löngu seinna eða 1981. En það er önnur saga.
Fjöldi góðra krafta lagt hönd á plóg Þótt hér hafi aðallega verið staldrað við atriði er snerta blaðið í tíð Bjarna Þórðarsonar má ekki gleymast að vel hefur verið staðið að útgáfu blaðsins lengst af síðan. Margir ritstjórar hafa þar komið að verki og allir lagt sig fram um að gera blaðið sem best úr garði. Undirritaður hefur átt gott samstarf við þá alla og skrifað nokkuð reglulega í blaðið, einkum leiðara en einnig greinar um ýmis hugðarefni og störf Alþingis. Fyrir þingmenn Alþýðubandalagsins á Austurlandi hefur blaðið ætíð haft haft mikla þýðingu sem tengiliður við heimavettvang og í raun verið ómissandi. Ég óska blaðinu heilla á þessum hálfa fimmta tug og vona að Austfirðingar megi sem lengst eiga það að.
Hjörleifur Guttormsson
|