Ferðafélag Íslands 70 ára

Ávarp á afmælishátíð 29. nóvember 1997

 

* Ég þakka þann óvænta heiður sem stjórn Ferðafélags Íslands sýnir mér á þessum tímamótum í sögu félagsins.

 

* Með sjálfum mér hef ég að raunar oft tekið undir með Steingrími Thorsteinssyni sem segir í alþekktri vísu:

Orður og tiltlar úrelt þing
eins og dæmin sanna.
Notast oft sem uppfylling
í eyður verðleikanna.

 

Ætli það geti ekki einnig átt við viðtakandann sem hér stendur?

 

* Samt verð ég að játa að viðurkenning frá Ferðafélagi Íslands er mér kær vegna félagsskaparins og þeirra ágætu kynna og samstarfs sem ég hef átt við forystu hans og starfsmenn um áratugi.

 * Þessi samskipti hafa verið nánust við þrjá ritstjóra Árbókar vegna efnis frá minni hendi í nokkrar Árbækur. Þar er um að ræða ritstjórana Pál Jónsson, Þorleif Jónsson og síðast Hjalta Kristgeirsson. Samstarfið við þá hvern um sig hefur verið einkar lærdómsríkt og þolinmæði þeirra mikil í minn garð þegar efni hefur verið síðbúið.

 * Ferðafélag Íslands hefur gegnt afar miklu hlutverki allt frá stofnun þess. Án félagsins hefði fjöldi Íslendinga misst af hollri samvist við landið í ferðum og fræðslu í rituðu máli. Félagið hefur verið uppalandi nokkurra kynslóða og gildi þess starfs sem það vinnur fer vaxandi. Kynni sem flestra af landinu eru besta tryggingin fyrir verndun þess, ef rétt er að málum staðið.

 * Ferðafélagið hefur notið þess að hafa inna sinna raða afar hæfileikaríka og dugmikla einstaklinga til að veita forystu hverju sinni. Þeir hefðu hins vegar ekki megnað mikils án þess skara félagsmanna, fótgönguliða, fararstjóra og hagleiksmanna sem borið hafa uppi hversdaginn.

 * Hlutur félagsdeilda víða um land hefur stækkað ört hin síðustu ár. Sem Austfirðingur hef ég fylgst með öflugu starfi þeirra og hið sama mun eiga við í öðrum fjórðungum. Aldrei hefur verið þýðingarmeira en nú að gæta landsins alls, að óbyggðunum meðtöldum.

 

Ég óska félagi okkar, Ferðafélagi Íslands, til hamingju með afmælið og vænti þess að geta lagt því eitthvert lið framvegis, þótt ævitíminn eyðist.

 

Til hamingju.

 

 


Til baka | | Heim