DV - Þriðjudagur 4. maí,1999

Grænt afl til vinstri

Þau tíðindi gætu verið í vændum í kjölfar kosninganna 8. maí að hér verði til grænt afl með félagslegum áherslum sem um muni hérlendis. Stóraukinn skilningur almennings á þýðingu umhverfisverndar og nauðsyn þess að hamla gegn misrétti í samfélagi okkar er jarðvegurinn sem Vinstrihreyfingin - grænt framboð sprettur upp úr. Það hefur verið einkar ánægjulegt að fylgjast með því hvernig þetta nýja afl hefur skotið rótum hægt og örugglega á aðeins hálfu ári. Stöðugt fleiri eru að bætast í hópinn og koma úr öllum áttum í samfélaginu.

Samhljómur með Ríó-ferlinu

Fátt hefur vakið meiri vonir hugsandi manna á þessum áratug en það ferli sem mótað var í aðdraganda Ríó-ráðstefnunnar um umhverfi og þróun. Með samþykktum ráðstefnunnar 1992 var lagður grunnur að hugmyndunum um sjálfbæra þróun, það er samfélag sem skili umhverfi og lífsskilyrðum helst í betra ástandi til afkomendanna. Skýr samhljómur er með Ríó-ferlinu og hugsjónunum um félagslegt réttlæti og útrýmingu fátæktar.

Stuðningur við þau gildi hefur gengið eins og rauður þráður gegnum þær stóru alþjóðaráðstefnur sem Sameinuðu þjóðirnar hafa efnt til um umhverfismál og þróun á þessum áratug. Nægir þar að minna á fólksfjöldaráðstefnuna í Kairó árið 1994, félagsmálafundinn í Kaupmannahöfn 1995 og kvennaráðstefnuna í Peking sama ár. Útrýming sárrar fátæktar og ólæsis er meðal forsendna þess að ná megi tökum á brennandi vandamálum mannkyns, þar á meðal fólksfjölgun í þriðja heiminum. Dagskrá 21 - framkvæmdaáætlunin frá Ríó - vísar til aðgerða á umhverfissviði á komandi öld. Þar eiga Íslendingar að leggjast fast á sveif.

Vistvæn atvinnuþróun

Á undanförnum mánuðum hefur verið í gangi merkileg fræðslustarfsemi á vegum Grænu smiðjunnar. Þar hafa verið til umræðu bæði innlend og alþjóðleg umhverfismál og tengsl þeirra við efnahags- og atvinnuþróun. Það er einmitt slík samþætting sem er lífnauðsyn eigi okkur sem þjóð og mannkyninu öllu að farnast vel á þeirri öld sem í hönd fer. Íslendingar hafa ágætar forsendur til að stilla saman gott mannlíf og jákvæða umhverfisstefnu. Þar skipta endurnýjanlegar náttúruauðlindir og landkostir miklu máli en ekki síður mannauðurinn. Þýðingarmikið er að bæta uppeldisaðstæður og menntakerfi og tryggja öflugt rannsókna- og þróunarstarf á sem flestum sviðum.

Á málþingi Grænu smiðjunnar í Norræna húsinu 13. apríl síðastliðinn var varpað ljósi á fjölmarga möguleika í vistvænni atvinnuþróun hérlendis. Margt jákvætt er að gerast innan fyrirtækja í ýmsum atvinnugreinum. Stjórnvöld þurfa að styðja af alefli við bakið á slíkri viðleitni, hvort sem um er að ræða matvælaiðnað, ferðaþjónustu eða tölvur og hugbúnað.

Verndun hálendisins - sjálfbær orkustefna

Vinstrihreyfingin - grænt framboð hefur þegar sett fram leiðarvísi um sjálfbæra orkustefnu sem geri okkur kleift að vernda gersemar hálendisins en opna jafnframt fyrir möguleika á að framleiða hér vistvæna orku til eigin þarfa. Til þess að ná þessu fram verður að stöðva þá skammsýnu stóriðjustefnu sem fylgt hefur verið af stjórnvöldum. Við eigum að nýta orkulindirnar til að bæta umhverfi okkar og mannlíf um allt land. Vistvæn samgöngustefna sem byggi á mengunarlausri orku og bættum aðstæðum fyrir almenningsfarartæki þarf að verða hluti af þessari þróun. Styrkur U-listans í kosningunum getur skipt sköpum um þau þáttaskil sem hér þurfa að verða.

Hjörleifur Guttormsson
alþm.