DV - 06.01.1999
Hjörleifur Guttormsson:
Fíkniefnavandinn vex með Schengen
Í desembermánuði síðastliðnum tókst löggæslu og tollvörðum hér heima og erlendis að hafa upp á óvenju miklu magni fíkniefna sem smygla átti til landsins. Í DV birtist 28. desember ágætur leiðari þar sem hvatt var til árvekni og að beitt verði öllum tiltækum ráðum til að hafa hendur í hári fíkniefnasmyglara og burðardýra þeirra. Þetta þjóðfélagsböl kostar okkur mikla fjármuni en fyrst og fremst færir það okkur óhamingju, heilsubrest og dauða," segir fréttastjóri blaðsins.
Ekkert er ofmælt í þessari ritstjórnargrein. Hitt er dapurlegra að íslensk stjórnvöld eru nú á fullri ferð með að innleiða hér kerfi, sem margt bendir til að gera muni það erfiðara en nú er að hafa hendur í hári þeirra sem reyna að smygla fíkniefnum til landsins. Ég á hér við afnám vegabréfaeftirlits til meginlands Vestur-Evrópu samkvæmt svonefndu Schengen-fyrirkomulagi, sem samið hefur verið um að Ísland gerist aðili að. Eftir er að leggja viðkomandi samning fyrir Alþingi og án samþykkis þingsins verður hann ekki staðfestur.
Ótrúlegt andvaraleysi
Á síðasta þingi flutti ég tillögu um að gerð verði sérstök úttekt á líklegum áhrifum Schengen-aðildar á ólöglegan innflutning fíkniefna til landsins. Þessa tillögu endurfluttum við Kristín Ástgeirsdóttir í byrjun þings í haust og er hún nú í höndum allsherjarnefndar. Afar brýnt er að slík úttekt liggi fyrir áður en stjórnvöld leita staðfestingar þingsins á aðild Íslands að Schengen-kerfinu og til þess er enn ráðrúm. Reynsla frá öðrum Norðurlöndum hvetur til slíkrar úttektar, en aðstæður Íslendinga til að fylgjast með ferðum manna til og frá landinu eru líka um margt einstakar að óbreyttum reglum.
Sú sérstaða glatast verði Íslendingar hluti af Schengen-svæðinu. Þá verður ekki lengur heimilt að hafa neitt vegabréfaeftirlit með fólki sem ferðast til og frá landinu frá allri Vestur-Evrópu utan Bretlandseyja, Írlands og Sviss. Samkvæmt Schengen-reglum er ekki einu sinni heimilt að taka stikkprufur í vegabréfaeftirliti. Stór hluti af gagnaöflun tollvarða á Keflavíkurflugvelli er nú í gegnum vegabréfaeftirlit sem þar fer fram. Sú skipan sem hér á að innleiða er altækari og víðfeðmari en tíðkast hefur um afnám vegabréfaeftirlits milli Norðurlandanna og því ekki sambærileg. Það væri ótrúlegt andvaraleysi af Alþingi að fjalla um aðild Íslands að Schengen án þess að gerð hafi verið rækileg og hlutlaus úttekt á áhrifum hennar á eftirlit með ólöglegum innflutningi, sérstaklega að því er fíkniefni varðar.
Löggæsluyfirvöld hafa áhyggjur
Mér er kunnugt um að löggæsluyfirvöld og tolleftirlit hafa áhyggjur af þeirri stöðu sem upp kann að koma við Schengen-aðild. Þessum aðilum er hins vegar ekki ætlað neitt frumkvæði í umfjöllun um málið. Þeim mun brýnna er að allir hlutaðeigandi, ráðuneyti, löggæsla, tolleftirlit og samtök sem berjast gegn fíkniefnum, fari sameiginlega yfir stöðuna og skili Alþingi áliti hið fyrsta, áður en Schengen-aðild kemur þar formlega á dagskrá. Stór hluti fíkniefna sem flutt eru til landsins kemur frá Evrópu, fyrst og fremst með farþegum sem fara um Keflavíkurflugvöll. Tollyfirvöldum verður með Schengen-aðild gert langtum erfiðara en áður að fylgjast með ferðum manna til og frá meginlandinu. Hert eftirlit á ytri landamærum svæðisins vegur þar engan veginn upp á móti. Því verður ekki trúað að Íslendingar vilji að þarflausu innleiða sér skipan sem torveldað geti baráttuna gegn innflutningi fíkniefna. Árvekni þeirra sem berjast gegn þessum vágesti hefur sannað gildi sitt. Það þarf að auðvelda þeim sem glíma við sölumenn dauðans störfin. Afnám vegabréfaeftirlits gagnvart hluta umheimsins er hégóminn einber í samanburði við þann vágest sem hér um ræðir.