Hjörleifur Guttormsson:

DV - 03.02.1999

Stjórnarskráin og löggjafinn.

Nýlega gengnir hæstaréttardómar, sem ómerkt hafa stjórnvaldsaðgerðir ráðherra og lög sett af Alþingi, vekja upp grundvallarspurningar um stöðu þingsins og möguleika til að rækja hlutverk sitt sómasamlega. Sérstaklega á þetta við þegar um afar mikilsverð mál og almannahagsmuni er að ræða sem kveðið er á um í stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
Nægir þar að vísa til hæstaréttardómsins þar sem ómerkt voru ákvæði í lögum um stjórn fiskveiða.
Viðbrögð Alþingis við þeim dómi með breytingu á lögunum nú nýverið eru umdeild og áfram teflt í mikla tvísýnu meðtilliti til stjórnarskrárvarinna réttinda. Alþingismenn og ráðherrar rýndu í dóminn og sýndist sitt hverjum.

Skilaboð

Hæstaréttar þóttu nokkuð óskýr og engin viðhlítandi fræðileg úttekt var lögð fyrir þingið. Við svo búið má ekki standa. Vilji löggjafarsamkoman halda sínu verður hún að bregðast við skjótt og af myndugleik. Á sama hátt er þörf á að styrkja óháð dómsvald í landinu en byggja jafnframt brýr á milli þannig að hvor viti af öðrum.

Dreift eða miðstýrt eftirlit

Miklar breytingar hafa orðið á réttarfari ríkja á seinnihluta aldarinnar. Á þetta ekki síst við um aukið vægi stjórnarskrárákvæða og alþjóðlegra skuldbindinga þjóðríkja á fjölmörgum sviðum. Stjórnarskrá er æðsta réttarheimild í hverju landi og löggjafanum ber að hlíta ákvæðum hennar. Á sama hátt ber dómstólum að vaka yfir að ekki sé gengið gegn þeim og lýsa ómerk lagaákvæði sem fara á svig við stjórnarskrá. Vegna réttarþróunar sem hefur verið hraðfara í tíð núlifandi kynslóða er rík þörf á því fyrir alla valdhafa, hvort sem er á sviði löggjafar-, dóms- eða framkvæmdavalds, að leggja sig fram um að meta stöðu sína og fyrirmæli. Nægir í þessu sambandi að benda á ákvæði um mannréttindi og jafnræði þegnanna.

Tvenns konar form hefur verið á eftirliti með að stjórnarskrárbundin réttindi séu haldin, annars vegar að fela það almennum dómsstólum eins og hér tíðkast eða sérstökum stjórnlagadómstólum. Leið hinna almennu dómstóla á rætur í bandarískum hefðum og felur í sér dreift eftirlit, þar sem höfða verður mál út af tilteknum ágreiningi. Sérstakir stjórnlagadómstólar eiga upptök sín í Mið-Evrópu, og óx fiskur um hrygg eftir seinni heimsstyrkjöld. Þar er um að ræða miðstýrt eftirlit, þar sem almennt mat er lagt á löggjöf og þangað sem stjórnvöld og einstaklingar geta skotið málum og úrlausnir hafa víðtækt gildi.

Stjórnlagaráð hugsanleg réttarbót

Fjölmörg álitaefni koma upp þegar styrkja á eftirlit með að stjórnarskrárvarin réttindi séu í heiðri höfð. Skynsamlegt sýnist að afla strax yfirlits um þær leiðir sem önnur þjóðríki og þjóðþing hafa valið í þessu efni og sníða okkur síðan stakk að vexti. Skoða ber síðan hvort rétt sé að koma upp sérstökum stjórnlagadómstóli eða hvort viðaminni leiðir séu við hæfi fyrst um sinn. Þar gæti komið til skipuleg lögfræðiráðgjöf fyrir þing og framkvæmdavald með brú yfir í helstu fræðabrunna á því sviði.
Ég hef nefnt í því sambandi stjórnlagaráð sem yrði til með tilnefningu frá Hæstarétti, lagadeild Háskóla Íslands og umboðsmanni Alþingis. Slíkt ráð veitti Alþingi og ef til vill einnig ráðuneytum óskuldbindandi ráðgjöf með tilliti til stjórnarskrárinnar. Fordæmi eru fyrir því meðal annars annars staðar á Norðurlöndum að stjórnvöld geti leitað ráða hjá æðsta dómstóli en æskilegt væri vegna óhæðis dómsvalds að koma því fyrir með öðrum hætti. Þetta mál þolir ekki langa bið. Því þarf Alþingi að ríða á vaðið og hrista af sér slenið - helst fyrir kosningar.