DV - 18.02.1999.
Hjörleifur Guttormsson:

Niðurlæging án hliðstæðu

Það blasir nú við hverjum manni að Alþýðubandalagið er úr sögunni sem stjórnmálaafl. Samfylkingin svonefnda verður ekki annað en útvíkkaður krataflokkur með flest af stefnumálum Alþýðuflokksins í fyrirrúmi. Í stefnuskránni sem kynnt var með pompi og pragt síðastliðið haust, en ekkert hefur heyrst af síðan, stóð meðal annars að öllu eigi að halda opnu fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Í flestum málaflokkum var stefnan loðin og laus í reipunum, meðal annars í umhverfismálum og atvinnu- og byggðamálum.
Þar kom líka fram að ekki standi til að hrófla við utanríkisstefnunni sem Halldór Ásgrímsson hefur verið málsvari fyrir í núverandi ríkisstjórn. Þegar litið er til úrslita í prófkjörum að undanförnu leynir sér ekki hverjir það eru sem ráða muni ferðinni í þingflokki Samfylkingarinnar að loknum kosningum.

Fimm þingmenn úr röðum AB?

Niðurstaða prófkjara á vegum Samfylkingarinnar að undanförnu hefur leitt í ljós ótrúlega bágborna stöðu Alþýðubandalagsins. Að sama skapi hrósar Alþýðuflokkurinn sigri. Röð frambjóðenda segir þó engan veginn allt um niðurstöður því að þeir fáu alþýðubandalagsmenn sem náð hafa vonarsætum á framboðslistum híma þar í skjóli girðinga. Sumir þeirra nutu þess í slagnum að hafa staðið málefnalega nálægt Alþýðuflokknum. Prófkjörsgirðingarnar eru hins vegar skammgóður vermir því að ekki er líklegt að þær verði til staðar þegar næst reynir á. Miðað við horfur um úrslit í komandi kosningum er ósennilegt að fleiri en fimm frambjóðendur frá Alþýðubandalaginu hljóti kosningu á vegum Samfylkingarinnar. Mikill meirihluti frambjóðenda hennar eru gamalgrónir og eindregnir kratar. Þetta hefði þótt saga til næsta bæjar fyrir um það bil ári, meðan enn var óráðið hvort Alþýðubandalagið legði upp í þennan sjálfseyðingarleiðangur.

Sighvatur á fjósbitanum

Nú er bjart yfir hjá forystumönnum Alþýðuflokksins. Þótt fyrirfram væri sýnt hverjir hafa myndu undirtökin í Samfylkingunni, gat fáum dottið í hug að kratar fengju slíka uppskeru á silfurfati. Steininn tók úr með úrslitum í prófkjörum á Norðurlandi eystra og vestra. Þau fela í sér skilaboð sem vart þarf að tvítaka fyrir þá sem staðið hafa nærri Alþýðubandalaginu.

Formaður Alþýðubandalagsins hefur reynt að bera sig vel fram að þessu og látið svo sem efasemdir við stefnu hennar væru fyrst og fremst bundnar við fyrrum þingmenn Alþýðubandalagsins og óháðra. Til að lappa upp á orðstír flokksforystunnar var þeirri frétt komið á kreik síðastliðið haust að aðeins örfáir alþýðubandalagsmenn hefðu sagt skilið við flokkinn. Aðrir væru harla ánægðir. Síðan hefur smám saman runnið upp fyrir flokksmönnum að Alþýðubandalagið skiptir engu máli lengur til eða frá. Síðustu verk unnin í þess nafni eru formsatriði vegna prófkjaranna sem nú eru flest að baki.

Niðurlægingin sem forysta Alþýðubandalagsins hefur kallað yfir sig og áður öflugan stjórnmálaflokk á sér enga hliðstæðu í íslenskum stjórnmálum. Engan þarf að undra þótt Sighvatur Björgvinsson sé brosmildur og bústinn þar sem hann horfir yfir vígvöllinn af fjósbitanum. Hann á aðeins eftir að kóróna sköpunarverk sitt með því að gera Margréti Frímannsdóttur að talsmanni þess liðsafnaðar sem nú stendur yfir rústum Alþýðubandalagsins.