DV - 02.03.1999

Hjörleifur Guttormsson:

Að verða læs á náttúruöflin - högg sem gleymdist

Aldarfjórðungur er liðinn frá því að snjóflóðin mannskæðu féllu í Neskaupstað rétt fyrir jól 1974. Það var skelfilegur atburður í litlum kaupstað sem sá á bak 12 íbúum í hamförunum. Það féll í minn hlut að kortleggja þau mörgu snjóflóð sem þá féllu innan og utan byggðar og grafast fyrir um snjóflóðasögu byggðarlagsins eftir munnlegum og skriflegum heimildum. Sem formaður í sérstakri snjóflóðanefnd á vegum Neskaupstaðar þurfti ég að setja mig nokkuð inn í fræðin og við kölluðum til erlenda sérfræðinga frá Noregi og Sviss. Ári eftir harmleikinn skiluðum við bæjarstjórn útfærðum tillögum um vöktun, stöðvun bygginga á hættusvæðum og um varnarvirki. Nefnd sem ég sat í um sama leyti á vegum Rannsóknaráðs ríkisins gerði tillögur um úttekt og viðbúnað við snjóflóðahættunni á landsvísu. Í rauninni lágu á árinu 1976 fyrir tillögur um aðgerðir sem fyrst 20 árum síðar komu til framkvæmda í teljandi mæli. Var þó á Alþingi oftsinnis rekið á eftir aðgerðum af hálfu framkvæmdavaldsins.

Tregðulögmál að verki

Það þurfti mannskæð slys í Súðavík og á Flateyri 1995 til að vekja kerfið af værum blundi. Tregðan við að horfast í augu við hættuna af snjóflóðum var ekki síst í þeim byggðarlögum sem áttu mest undir. Þar blandaðist saman takmörkuð þekking, blundandi ótti og fjárhagslegt getuleysi til að taka á vandanum. Hver ráðherrann á fætur öðrum leiddi málið hjá sér og tíminn leið uns váin minnti óþyrmilega á sig á ný. Til að svefngangan yrði stöðvuð og brugðist yrði við þeim mikla vanda sem mörg byggðarlög búa við þurfti opinskáa umræðu, lagafyrirmæli, þekkingu og fjármagn. Margt hefur reynst sársaukafullt í þessu uppgjöri en viðbrögðin við snjóflóðahrinu síðustu vikna bera vott um að Íslendingar séu að verða læsir á þennan þátt í náttúrufari landsins.

Ábyrgð og úthald

Á síðasta áratug hefur vaxið hér upp sveit sérfróðra manna um snjóflóðamálefni. Sumir hafa verið ráðnir til Veðurstofu Íslands og gegna þar ásamt veðurfræðingum lykilhlutverki í að spá fyrir um snjóflóðahættu og ákveða viðbrögð í samráði við heimamenn. Þar fyrir utan eru komnir til starfa margir sérfróðir menn á verkfræðistofum og víðar og glíma meðal annars við að hanna varnarvirki fyrir sveitarfélög. Athugunarmenn eru líka komnir til starfa í byggðarlögunum. Smám saman munu menn öðlast verðmæta reynslu á þessu sviði og miklu skiptir að miðlað sé reynslu innanlands og dregin að frekari þekking erlendis frá. Þá hefur skipulagsþátturinn ekki síður þýðingu því að algert óráð er að heimila nýbyggingar inni á hættusvæðum. Í því efni reynir á skipulagsyfirvöld á hverjum stað og vakandi auga Skipulagsstofnunar.
Eins og við aðra mannvirkjagerð kemur til mat á umhverfis-áhrifum við undirbúning og gerð varnarvirkja. Í því sambandi getur valið meðal annars staðið á milli þess að kaupa upp hús og fjarlægja þau eða verja viðkomandi svæði.
Frammi fyrir þessum spurningum og öðrum stórum standa menn víða um land. Hér skiptir miklu æðruleysi og úthald. Við erum á réttri leið í glímunni við snjóflóðin.