DV - 30. mars 1999.

Hjörleifur Guttormsson:

Vatnajökulsþjóðgarður

Fyrsti jöklaþjóðgarðurinn

Fyrir hálfu öðru ári flutti ég tillögu á Alþingi um að stofnaðir verði fjórir stórir þjóðgarðar á miðhálendinu með jöklana sem kjarna. Nú rétt fyrir þinglok skilaði umhverfisnefnd áliti um tillöguna og sameinaðist um að leggja til að umhverfisráðherra yrði falið að kanna stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs með það í huga að tengja hana aldamótaárinu. Það var samhljómur í umræðum á Alþingi 10. mars síðastliðinn um þessa tillögu þótt ýmsir hefðu viljað ganga lengra. Með ályktun Alþingis um Vatnajökulsþjóðgarð hefur verið stigið fyrsta skrefið til móts við upprunalegar hugmyndir. Umhverfisnefnd vakti meðal annars athygli á að stofnun Vatafjökulsþjóðgarðs félli vel að fyrirliggjandi skipulagstillögu um miðhálendið.

Ýmis svæði sem liggja að Vatnajökli njóta þegar verndar að náttúruverndarlögum. Má þar nefna friðland á Lónsöræfum, Kringilsárrana og Eldborgarraðir svo og þjóðgarðinn í Skaftafelli sem nær inn á jökulinn. Víðar við jökulröndina eru svæði sem myndu sóma sér vel í þjóðgarði en um slíkt þarf að semja við hugsanlega rétthafa. Brýnt er að fólk á þeim svæðum sem liggja að miðhálendinu líti á stofnun þjóðgarða þar sem jákvæða aðgerð og eigi hlut í stjórnun þeirra með Náttúruvernd ríkisins.

Mjög góðar undirtektir

Mjög góðar undirtektir voru við upphaflegu þingsályktunartillöguna um þjóðgarða á miðhálendinu. Meðal þeirra sem sendu umsögn til umhverfisnefndar þingsins var Alþýðusamband Íslands sem tók undir tillöguna og taldi brýnt „að nú þegar verði brugðið við og tryggt að framtíðarnýting hálendisins verði ákveðin með skipulegum hætti og sjónarmiða náttúruverndar verði í ríkum mæli gætt við þær ákvarðanir."

Skipulagsstofnun fagnaði tillögunni og taldi hana falla vel að tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins og vera rökrétt framhald hennar. Félagsmálaráðuneytið taldi að tillagan um þjóðgarða samræmdist frumvarpi að sveitarstjórnarlögum, sem afgreitt var vorið 1998. Margir fleiri tóku jákvætt undir tillöguna.

Hugmyndin um Vatnajökulsþjóðgarð hefur þegar vakið athygli og umræðu erlendis. Á undirbúningsfundi vegna Alþjóðaárs fjalla 2002 sem haldinn var í Róm nýverið á vegum Sameinuðu þjóðanna var samþykkt Alþingis sérstaklega fagnað.

Rannsóknir. vatnsvernd og ferðaþjónusta

Stofnun þjóðgarða með helstu jökla landsins sem uppistöðu kemur verulega til móts við þá miklu gagnrýni sem var á skiptingu alls landsins milli sveitarfélaga. Með slíkri friðlýsingu er viðkomandi svæði sett undir náttúruverndarlöggjöf með það að markmiði að vernda landið og hafa það algengilegt almenningi samkvæmt nánara skipulagi. Jöklarnir eru afar þýðingarmiklir fyrir vatnakerfi landsins, bæði jökulfljót, lindár og grunnvatn á stórum svæðum. Vatnsvernd og verndun á hreinleika jöklanna eru samofnir þættir og hafa bæði heilbrigðislegt og hagrænt gildi.

Vatnajökull er einstakt svæði á heimsmælikvarða, meðal annars vegna eldvirkni og jarðhita. Óvíða er samspil jarðelds og íss jafn stórbrotið eins og nýlegri atburðir sanna. Þessar fágætu aðstæður gera Vatnajökul að ótæmandi viðfangsefni vísindamanna. Jökullinn og eldvirknin hafa sett mark sitt á kjör manna og aðstæður í Skaftafellssýslum allt frá landnámi. Því er einkar vel til fundið að komið verði upp jöklasafni á Höfn í Hornafirði sem getur orðið þýðingarmikið rannsóknasetur ekki síður en Kirkjubæjarstofa í vestursýslunni. Vatnajökulsþjóðgarður mun jafnframt verða lyftistöng fyrir ferðaþjónustu allt um kring, þar eð aðdráttarafl alls svæðisins mun vaxa með tilkomu þjóðgarðsins.