DV - 16.04.1999.
Hjörleifur Guttormsson:
Nýjasta undur Íslands
Gagnagrunnur í hægagangi
Liðið er á fjórðu öld frá því Gísli Oddsson biskup færði í letur rit sitt Undur Íslands, „lýsingu þeirra undraverðu hluta, sem fyrir koma í föðurlandi mínu, og vildi eg óska, að árangurinn yrði að sama skapi farsæll og happasæll, sem viljinn er einlægur, hugurinn hreinskilinn og áhuginn fyrir sannleikanum." Þessi inngangsorð Gísla biskups falla vel að þeim undrum sem upphófust með undirbúningi að gerð miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði og ekkert lát er á síðan. Þótt lagastoð hafi verir sett undir grunninn með samþykki Alþingis rétt fyrir síðustu jól gengur smíði þessarar undraskepnu afar hægt ef marka má nýleg svör heilbrigðisráðherra við fyrirspurnum mínum á Alþingi og tilkynningar landlæknisembættisins.
Færslur í gagnagrunninn áttu að geta hafist sem næst þjóðhátíðardegi Íslendinga um miðjan júní, en landlæknir upplýsir að líklegt sé að það dragist enn frekar. Svör heilbrigðisráðherra bera vott um að hægt miði í ráðuneytinu við flest það er varðar framkvæmd laganna, reglugerðir eru enn engar fyrir hendi, þverfagleg siðanefnd ekki verið skipuð, engar tölur eða áætlanir að hafa um kostnað, ekkert vitað um hvernig varðveita eigi og tryggja afrit af gagnagrunninum, sem lögum samkvæmt á að geyma í bankahólfi eða á annan tryggilegan hátt. Svo má lengi telja þau atriði sem engin svör fást við. Stingur þessi seinagangur og óvissa mjög í stúf við hröð og örugg handtök við samningu lagafrumvarps og afgreiðslu á þingi. Efast þó enginn um að viljinn sé einlægur hjá heilbrigðisráðherra að skila þessu ástfóstri sínu í höfn hið fyrsta.
Völundarsmíð landlæknis
Frá landlækni barst inn um bréfalúguna í síðustu viku bæklingur sem hefur að geyma spurningar og svör um miðlægan gagnagrunn. Leggur embættið sér sjálft í munn spurningarnar og reiðir fram svörin líkt og karlinn í þjóðsögunni Axarskaft handa syni mínum. Ekki er hins vegar allt á gullaldarmáli í sögu landlæknis.
Landlæknisembættinu er ætlað að leysa margar þrautir er varða gagnagrunninn, meðal annars að greina hafra frá sauðum, það er þá sem ekki vilja renna sjálfkrafa inn í grunninn og hina sem kjósa að fljóta þangað sofandi. Segir í bæklingnum að einungis landlæknisembættið muni hafa upplýsingar um hvaða einstaklingar vilja ekki að upplýsingar um þá fari í gagnagrunninn. „Persónuupplýsingar um þá einstaklinga verða dulkóðaðar hjá embættinu og upplýsingarnar stöðvast og eyðast sjálfkrafa áður en til þess komi að þær fari í gagnagrunninn." Hafði Ríkisútvarpið það eftir aðstoðarlandlækni 21. mars sl. að búið verði til nokkurs konar sigti hjá embættinu til að sía frá þau gögn sem ekki eiga að flæða inn í grunninn. Hefur hjúkrunarfræðingur verið ráðinn til að leggja hönd að þessari völundarsmíð. Þeir sem eru hikandi við að steypa sér í grunninn hljóta að vona að hjúkrunarfræðingurinn reynist bæði farsæll og happasæll við að smíða sigtið.
Áhuginn fyrir sannleikanum
Eitt af því sem mikið var rætt á Alþingi og manna á meðal á síðasta ári var sá meinti eiginleiki gagnagrunnsins að taka við upplýsingum en sitja síðan á þeim sem fastast. Nú upplýsir að vísu landlæknir að tæknilega sé mögulegt að fjarlægja upplýsingar um einstaklinga úr grunninum, en ekki hafi verið ákveðið hvort það sé heimilt. Þessi véfrétt embættisins hefur sett allt á annan endann, enda ráðherra margbúinn að sverja og sárt við leggja að það sem einu sinni fari í þennan viskubrunn verði ekki aftur tekið. Ekki er óeðlilegt að menn vilji vita hvað upp snýr í þessu efni og er svo um fleira sem snertir þetta nýjasta undur Íslands.
Gamalt heilræði segir okkur að skynsamlegt sé að hafa vaðið fyrir neðan sig. Við mönnum blasa ótal spurningar sem engin svör fást við um eðli og notkun miðlægs gagnagrunns á heilbrigðissviði. Er ekki hyggilegast að segja sig frá þátttöku í þessu fyrirbæri, að minnsta kosti fyrst um sinn, í stað þess að láta það gleypa sig með húð og hári?