DV - 23. apríl 1999.
Hjörleifur Guttormsson:
Breytt verðmætamat
Þáttur heimila og skóla
Vinstrihreyfingin - grænt framboð vill stuðla að hugarfarsbreytingu meðal þjóðarinnar og í alþjóðasamskiptum til að ná megi jafnvægi í samskiptum manns og náttúru. Breytt siðgæði og nýtt gildismat eru meðal forsendna sjálfbærrar þróunar. Maðurinn þarf að vinna með náttúrunni og virða lögmál hennar í öllum sínum athöfnum. U-listinn hvetur til þess til þess að í stað gengndarlauss neyslukapphlaups verði lyft gildum hófsemi og hollustu. Í þeim efnum reynir á hvern einstakling, en jafnframt á fjölskyldur og skóla.
Það ungur nemur gamall temur. Brýnt er að börnin átti sig á þeim takmörkunum sem halda þarf í heiðri til verndar umhverfinu og læra að gleðjast yfir litlu. Þetta er ekki einfalt í öllu því flæði auglýsinga sem berst inn á heimilin og þar sem markmiðið er oft að smjúga inn í barnssálina. Í þessu sambandi er samstarf heimila og skóla þýðingarmikið og líklegasta leiðin til árangurs. Samtök foreldra hafa hér einnig mikilvægt verk að vinna.
Siðræn gildi sem víðast
Til að plægja akurinn fyrir sjálfbærri þróun þarf að lyfta siðrænum gildum á sem flestum sviðum. Vaxandi umræða og skilningur er meðal almennings og forráðamanna fyrirtækja um þörfina á að setja viðmiðanir og siðareglur sem einskonar umferðareglur í samfélaginu. Eðlilegt er að opinberir aðila og fyrirtæki sýni um þetta gott fordæmi en viðskiptalífið er þó ekki síður mikilvægur markhópur. Umhverfisstefna sem ýmsar stofnanir og fyrirtæki hafa sett sér er skref í rétta átt og sem unnt er að tengja við víðara svið.
Þeir sem vinna við rannsóknir og þróun á sviði tækni og vísinda geta heldur ekki litið framhjá ábyrgð sinni. Erfðavísindin eru skýrt dæmi um þetta ekki síður en kjarnorkurannsóknir og þróun vígtóla. Frelsi til vísindarannsókna er vissulega göfugt markmið en með vaxandi ágengni markaðarins er oft erfitt að greina á milli hreinna vísinda og hagnýtingar.
Um það er nóg af nærtækum dæmum. Samspil upplýsingatækni og erfðavísinda eins og það birtist okkur í hugmyndinni um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði er nýlegur prófsteinn, þar sem sölumennskan er á næsta leiti.
Græn hagfræði
Röskur áratugur er síðan umræða hófst um græna þjóðhagsreikninga. Sá sem þetta skrifar fékk á vettvangi Norðurlandaráðs um 1990 samþykkta ályktun um athugun á gildi slíkra reikninga. Síðan hefur umræðan um græna hagfræði dýpkað og er smám saman að smjúga inn í virta háskóla og alþjóðastofnanir. Á vegum Grænu smiðjunnar flutti Geir Oddsson auðlindafræðingur nýlega afar fróðlegt yfirlitserindi um þetta svið og þær aðferðir sem þar eru að þróast. Innan Háskóla Íslands er nú undir forystu Geirs verið að koma á sérstakri námsbraut í umhverfisfræðum til meistaragráðu. Ein af brennandi spurningum á sviði grænnar hagfræði varðar eigið gildi náttúrunnar og mat á ósnortinni náttúru. Sú umræða er áleitin í tengslum við landnot á hálendi Íslands. Nýlega var í fréttum flaggað háum tölum um „kostnaðarlausan ávinning" af stóriðju. Í þeirri úttekt fór lítið fyrir grænu mati á fórnarkostnaði af stóriðjunni. Fátt er brýnna en að efla rannsóknir á sviði grænnar hagfræði til stuðnings við pólitíska stefnumótun. Vinstrihreyfingin - grænt framboð lítur á það sem eitt af verkefnum sínum að ýta undir þá umræðu til að náttúra Íslands og umhverfi verði metin að verðleikum.