Dagur - 09.01.1999.

Upplausn í pólitík

Það eru fleiri flokkar en Alþýðubandalagið sem eru að syngja sitt síðasta um þessar mundir vegna innri átaka. Kvennalistinn er nánast úr sögunni og hefur dauðastríð hans staðið allt kjörtímabilið.

Hjörleifur Guttormsson alþingismaður skrifar:

Nýliðið ár var um margt sérstætt. Í stjórnmálum einkenndist það af upplausn á svonefndum vinstri væng stjórnmálanna. Alþýðubandalagið og Kvennalistinn hafa klofnað og eru að hverfa af sjónarsviðinu. Hluti liðsmanna þeirra rennur saman við krataflokk sem stofnaður verður í framhaldi af alþingiskosningum, en aðrir ganga til liðs við nýtt afl sem kallar sig Vinstrihreyfinguna - Grænt framboð. Ríkisstjórnin hefur að mestu haft frið fyrir stjórnarandstöðu, sem á haustþingi var einkum haldið uppi af þingflokki óháðra.
Stærsta mál Alþingis á árinu var frumvarp um miðlægan gagnagrunn á heilbrigðissviði og varð það að lögum fyrir jól. Þar lögðum við þingmenn óháðra fram tillögu um dreifða gagnagrunna og persónuvernd, sem var allt önnur nálgun en fólst í frumvarpi ríkisstjórnarinnar.
Á Austurlandi snerist umræða mikið um hugmynd um álbræðslu sem sumir binda vonir við að stöðvað geti fólksflutninga af svæðinu. Á þetta og fleira til umhugsunar verður drepið í þessari grein.

Alþýðubandalagið - in memoriam

Upphafið að endalokum Alþýðubandalagsins hófst fyrir rúmum áratug. Það tók á sig áþreifanlegar myndir í formannstíð Ólafs Ragnars Grímssonar, en markmið hans var að koma flokknum saman við Alþýðuflokkinn. Enn er mönnum í fersku minni yfirreið hans sem formanns með Jóni Hannibalssyni um landið á "rauðu ljósi". Sú ferð var farin í óþökk flestra sem á þeim tíma voru í forystu Alþýðubandalagsins. Viðeyjarstjórn Sjálfstæðisflokksins og Alþýðuflokksins 1991-95 setti strik í sameiningaráform Ólafs og fylgismanna í Alþýðubandalaginu, en eftir að kratar losnuðu mót vilja sínum úr faðmlögum við Sjálfstæðisflokkinn í kjölfar kosninganna 1995 fór tilhugalífið á ný á fulla ferð.

Margrét Frímannsdóttir var ekki síst borin fram til formennsku í Alþýðubandalaginu til að halda þessu verki áfram. Hún hefur verið heldur atkvæðalítil sem formaður en þó skilað því sem til var ætlast af þeim sem næst henni stóðu, það er að leggja Alþýðubandalagið niður sem sjálfstætt stjórnmálafl. Síðustu verk sem unnin verða á þeim bæ og einhverju máli skipta eru að ganga frá framboðslistum með krötum nú fyrir alþingiskosningarnar.

Alþýðubandalagið starfaði í 30 ár eða frá 1968 sem stjórnmálaflokkur og hafði á þessum tíma veruleg áhrif á þróun landsmála. Sú saga verður ekki rakin að þessu sinni. Nú fellur það í hlut Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs að halda á lofti ýmsum þeim málefnum sem Alþýðubandalagið og fleiri stóðu fyrir og bæta þar við nýjum þáttum og áherslum sem svara kalli tímans.

Kvennalistinn kveður líka

Það eru fleiri flokkar en Alþýðubandalagið sem eru að syngja sitt síðasta um þessar mundir vegna innri átaka. Kvennalistinn er nánast úr sögunni og hefur dauðastríð hans staðið allt kjörtímabilið. Á landsfundi Kvennalistans 1997 kom til uppgjörs þar sem flestar af reyndari baráttukonum listans sögðu sig úr honum eða hættu störfum. Þeirra á meðal var Kristín Ástgeirsdóttir sem í haust átti hlut að því að stofna Þingflokk óháðra. Þeir tveir þinmenn sem eftir sitja í nafni listans, Kristín Halldórsdóttir og Guðný Guðbjörnsdóttir, eiga ekki sameiginlega framtíðarsýn. Guðný hefur ásamt fámennum hópi átt hlut að mikilli þrautagöngu á vit samfylkingar með krötum, en Kristín Halldórsdóttir lýsti sig frá upphafi andvíga þeirri fyrirætlan. Það má því segja að allir helstu brautryðjendur Kvennalistans séu búnir að gefa hann upp á bátinn og örlög hans sem hreyfingar eru þar með ráðin.

Þær konur sem nú eru helst orðaðar við framboð með krötum eru með allt aðrar áherslur en Kvennalistinn hélt á lofti fyrir nokkrum árum, þar á meðal í afstöðu til Evrópusambandsins. Þórunn Sveinbjarnardóttir sem ætlar sér 4. sætið á lista krata á Reykjanesi var um skeið formaður Evrópuhreyfingarinnar, það er þeirra samtaka sem stuðla vilja að inngöngu Íslands í ESB. Anna Ólafsdóttir Björnsson, fyrrum þingmaður listans á Reykjanesi sem nú er formaður Samstöðu um óháð Ísland hefur hins vegar sýnt sig á vettvangi Vinstrihreyfngarinnar - Græns framboðs.

Kvennalistinn skilur eftir sig merk spor í íslenskum stjórnmálum eftir 15 ára sögu sem afl á Alþingi. Margt úr farangri hans er jákvætt og verðskuldar að því sé áfram haldið á lofti.

Vinstrihreyfingin - Grænt framboð

Þótt stjórnmálahreyfingar rísi og falli eins og hér hefur verið rakið er ekki þar með sagt að þau málefni sem þær stóðu fyrir séu úrelt eða heyri sögunni til. Þetta á meðal annars við um mörg þeirra málefna sem gáfu Alþýðubandalaginu og Kvennalistanum sérstöðu og sem ekki fá rúm í endurhönnuðum krataflokki. Það er af þeim sökum að nú er að verða til nýr stjórnmálaflokkur, Vinstrihreyfingin-Grænt framboð.

Af ávarpi undirbúningshóps í október og stjórnmálaályktun myndarlegrar landsráðstefnu í desemberbyrjun sést að þessi nýja hreyfing tekur upp mörg af þeim málum sem hæst bar hjá Alþýðubandalaginu og Kvennlistanum. Þetta á við um hin sígildu baráttumál vinstrimanna um jöfnuð og réttlæti fyrir þá sem minna mega sín. Þar að auki leggur þessi nýja hreyfing langtum ríkari áherslu á umhverfisvernd og sjálfbæra þróun á öllum sviðum en áður hefur sést hjá stjórnmálaflokki hérlendis. Það var meðal annars á sviði umhverfismálanna sem augljós snertiflötur var milli ýmissa talsmanna Alþýðubandalagsins og Kvennalistans, í skýrri andstöðu við stefnu Alþýðuflokksins eins og hún birtist meðal annars í afstöðu forystumanna hans til stóriðju. Það er því engin tilviljun að ýmsar af fyrrum forystukonum Kvennalistans kjósa að styðja þetta nýja afl.

Undirbúningsstjórn Vinstrihreyfingarinnar - Græns framboðs hvetur nú til stofnunar félagseininga í öllum kjördæmum landsins og boðar til formlegs stofnfundar flokksins fyrrihluta febrúarmánaðar. Það eru því horfur á að fram komi að minnsta kosti fjögur framboð til Alþingis í öllum kjördæmum landsins auk frjálslyndra" sem birtast mönnum í tveimur pörtum.

Framsókn og kratar stefna á ESB-aðild

Um nýliðin áramót blasir við mönnum nýr þáttur í samrunaferlinu í Evrópu. Efnahags- og myntbandalag ellefu ESB-ríkja er orðið staðreynd, en grunnur að því var lagður með Maastricht-sáttmálanum 1992. Með því er stigið stórt skref í átt að ríkisheild og viðleitnin til samstillingar utanríkis- og hermálastefnu ESB hnígur í sömu átt. Með sjálfstæðum gjaldmiðli og óháðum seðlabanka hefur kjarni Evrópusambandsins sett sig í spennitreyju sem dregur úr svigrúmi til aðlögunar aðildarríkja þess að breytilegum aðstæðum og baráttan við geigvænlegt atvinnuleysi getur orðið enn torsóttari en áður.

Hér á landi vinna ýmsir að því leynt og ljóst að ýta undir þá hugsun að Íslandi eigi að gerast aðili að Evrópusambandinu. Alþýðuflokkurinn var lengi vel einn um þessa hitu af stjórnmálaflokkunum en nú hefur forysta Framsóknarflokksins bæst í þann hóp. Áhugi Halldórs Ásgrímssonar á að kanna skilyrði til aðildar Íslands að ESB dylst engum. Nú undir árslokin lýsti hann þeirri skoðun í viðtali við Stöð 2 að það þurfi að fylgjast mjög vel með málinu, halda öllum möguleikum opnum og ekki síst að kanna enn betur en við höfum gert hugsanlega niðurstöðu á sjávarútvegssviðinu..." Það hefðu þótt tíðindi fyrir nokkrum árum að Framsóknarflokkurinn væri kominn fast á hæla Alþýðuflokksins í þessu máli.

Í Samfylkingunni svonefndu er staðan sú að þótt ESB-aðild sé þar ekki sett á oddinn þessa stundina er augljóst hvert stefnir. Þeir einstaklingar úr röðum AB-forystunnar sem opinberlega gæla við ESB-aðild, þeirra á meðal Bryndís Hlöðversdóttir og Ari Skúlason, sækja nú hvað fastast til metorða í flokki með Sighvati Björgvinssyni. Hér eru því að koma upp svipaðar aðstæður og þekktar eru víða í löndum Vestur-Evrópu, að kratar ásamt öðrum aðdáendum innri markaðar ESB sækja það fast að komast að borðinu í Brussel.

Breytt viðhorf til stóriðju og virkjana

Ef frá er talinn gagnagrunnur á heilbrigðissviði var um fátt meira rætt og deilt á nýliðnu ári en afstöðu til stóriðjuframkvæmda og virkjana í þeirra þágu. Á sama tíma hafa orðið straumhvörf í almenningsáliti í landinu, sem stjórnvöld neita þó enn að horfast í augu við. Sérstaklega á þetta við um afstöðu til verndunar miðhálendisins. Kröfurnar um endurmat á eldri virkjunaráformum eru svo sterkar og eindregnar að taka verður tillit til þeirra og móta hið fyrsta skýra stefnu um verndun hálendisins. Undirritaður fékk samþykkta þingsályktun á Alþingi 1989 um stefnumótun um verndun og nýtingu vatnsfalla og jarðhitasvæða, en því miður var henni ekki fylgt eftir af stjórnvalda hálfu. Fyrir Alþingi liggur nú tillaga Þingflokks óháðra um lögformlegt mat á umhverfisáhrifum Fljótsdalsvirkjunar og tillaga undirritaðs um fjóra stóra þjóðgarða á miðhálendinu sem taka myndi til fimmtungs af flatarmáli Íslands. Báðar þessar tillögur eru mikilvægt innlegg sem stuðlað gæti að sáttum og með samþykkt þeirra væri lagður grunnur að framtíðarstefnu um verndun hálendisins.

Hverfandi líkur á álbræðslu eystra

Litlar sem engar líkur eru á að viðræður við Norsk Hydro um álbræðslu á Reyðarfirði skili einhverju öðru en umtalinu. Sú umræða hefur ekki reynst holl fyrir fjórðunginn og minnir ónotalega á það sem gerðist í Eyjafirði fyrir nokkrum árum. Hugmyndin um að setja niður risaálbræðslu í fámenninu eystra var aldrei trúverðug. Reynsla frá Noregi og víðar er þar víti til varnaðar. Sennilegast er að áhugi Norsk Hydro beinist að því að afla fyrirtækinu upplýsinga um aðstæður hérlendis í von um ítök í íslensku vatnsafli til lengri tíma litið. Sem stendur á Norsk Hydro í miklum fjárhagserfiðleikum og álverð stendur nú mjög lágt á heimsmarkaði.

Óskynsamlegt er fyrir okkur Íslendinga að binda meiri orku í málmbræðslum en orðið er. Orkuforði er miklu takmarkaðri hérlendis en menn hafa talið sér trú um til skamms tíma, einkum litið til vatnsfallanna. Þessu veldur breytt gildismat og óskir sífellt fleiri um víðtæka náttúruvernd í óbyggðum. Kyótó-bókunin við samninginn um loftslagsbreytingar setur Íslendingum sem öðrum takmörk, sem okkur ber að virða. Við skulum ekki láta villa okkur sýn frekar en orðið er í þeim efnum. Verkefnið í orkumálum er að skapa sátt um forgangsröð virkjana sem skerði ekki verðmæt óbyggðasvæði og náttúru landsins. Sá tími er ekki langt undan að hagkvæmt reynist að nýta innlenda orku til framleiðslu á vistvænu eldsneyti og rafmagni sem leyst getur smám saman innflutta orku af hólmi. Eigi að vera unnt að fullnægja slíkum markmiðum er fram líða stundir þarf að nálgast spurninguna um verndun og nýtingu með allt öðrum hætti en hingað til.

Bæta verður aðstæður á landsbyggðinni

Viðfangsefnin í íslenskum þjóðmálum eru mörg og brýn, ekki síst að bæta lífsafkomu fólks á landsbyggðinni. Þar skiptir miklu að skapa aðstæður til fjölþættrar nýsköpunar í atvinnulífi og tryggja farsæla fiskveiðistjórn. Hlúa verður að þeirri undirstöðu sem fyrir er, jafna verð á vöru og þjónustu að húshitun meðtalinni. Bæta verður samgöngur, hlúa að fjölbreyttu námi og tryggja góða heilbrigðisþjónustu.

Við skulum vona að umræðan í aðdraganda alþingiskosninga og ákvarðanir í kjölfar þeirra skili okkur áleiðis til hagsbóta fyrir land og lýð og landsbyggðina sérstaklega. Ég sendi landsmönnum bestu óskir á nýbyrjuðu ári og þakka gefandi samskipti á liðinni tíð.