Dagur. - 26.03.1999.

Þjóðmál Hjörleifur Guttormsson, alþingismaður, skrifar:

Nýr rammi um skipulag miðhálendis

Mörgum mun reynast erfitt að botna í stefnu og málflutningi Samfylkingarinnar um miðhálendið. Formaður Alþýðubandalagsins sem undirritar nefndarálitið studdi allt aðra stefnu í málinu í fyrravor og hefur hér eins og á fleiri sviðum gengið undir jarðarmen Alþýðuflokksins.

"Miðhálendið er með þessu orðið sjálfstæð svæðisskipulagseining og í nefndina sem móta skal svæðisskipulagið eru komnir fulltrúar frá landshlutum sem liggja utan seilingar við miðhálendi," segir Hjörleifur m.a. í grein sinni.

Á næstsíðasta degi Alþingis var lögfest breyting á skipulags- og byggingarlögum sem skiptir miklu fyrir framtíð skipulagsmála á miðhálendinu. Með breytingunni verður miðhálendið gert að fastri einingu að því er snertir svæðisskipulag innan svipaðrar markalínu og notuð var við skipulagsvinnu samvinnunefndar á árunum 1995-98. Sérstök "samvinnunefnd miðhálendis" skal framvegis annast gerð svæðisskipulagsins og gæta þess að heildstæðra sjónarmiða og samræmis sé gætt, einnig að því er varðar aðalskipulagstillögur einstakra sveitarfélaga á svæðinu. Höfuðborgarsvæðið og fleiri landshlutar sem liggja utan miðhálendishringsins fá aðild að skipulagsnefndinni þannig að fulltrúar í hana koma frá öllum kjördæmum landsins.

Með þessari lagasetningu er stigið mikilvægt skref til málamiðlunar milli þeirra sjónarmiða sem tókust á í "hálendisumræðunni" í fyrra. Jafnframt samþykkti Alþingi sérstaka þingsályktun um Vatnajökulsþjóðgarð þar sem umhverfisráðherra er falið að kanna möguleika á stofnun þessa stóra þjóðgarðs þegar á næsta ári. Fyrir þinginu lá tillaga undirritaðs um fjóra stóra þjóðgarða á miðhálendinu með jöklana þar sem kjarna og er með samþykkt þingsins um Vatnajökulsþjóðgarð stigið fyrsta skrefið í þá átt.

Fyrirvari vorið 1998

Eins og menn rekur minni til urðu miklar deilur á vorþingi 1998 um frumvarp til sveitarstjórnarlaga, þar sem lögfest var meðal annars að mörk sveitarfélaga skyldu framlengd inn til landsins. Átök voru milli stjórnar og stjórnarandstöðu um málið, en stjórnarandstaðan var ekki samstiga í málinu. Þingflokkur jafnaðarmanna lagðist alfarið gegn frumvarpinu en þingmenn Alþýðubandalags og óháðra leituðust við að tryggja heildstætt svæðisskipulag á miðhálendinu. Við afgreiðslu málsins úr félagsmálanefnd gerðu Kristín Ástgeirsdóttir og Ögmundur Jónasson fyrirvara við álit meirihluta nefndarinnar sem þau stóðu annars að. Laut fyrirvari þeirra meðal annars að því "að gera þurfi breytingu á skipulags- og byggingarlögum samhliða afgreiðslu þessa frumvarps eigi skipulag hálendis Íslands að vera með ásættanlegum hætti. Þær breytingar verði að fela í sér á afdráttarlausan hátt að miðhálendið verði skipulagt sem ein heild og að fleiri komi að þeirri vinnu og ákvarðanatöku en aðliggjandi sveitarfélög. Er þar átt við fulltrúa tilnefnda af ríkinu og Sambandi íslenskra sveitarfélaga fyrir hönd þjóðarinnar allrar."

Ríkisstjórnin lagði fram tillögu á Alþingi í fyrravor í þessa átt til að standa við gefin fyrirheit, en stuðningslið hennar hafnaði því síðan að taka eigið frumvarp á dagskrá. Varð það til þess að þingmenn Alþýðubandalags og óháðra snerust gegn sveitarstjórnafrumvarpinu á lokastigi.

Samvinnunefnd miðhálendis

Umhverfisráðherra lagði fram hliðstætt frumvarp um breytingu á skipulags- og byggingarlögum rétt fyrir jól í vetur. Við umræðu um það benti undirritaður á marga annmarka á tillögu ráðherrans og var sú gagnrýni staðfest við meðferð málsins í umhverfisnefnd. Breytti meirihluti nefndarinnar mörgum atriðum í tillögu ráðherrans og varð frumvarpið þannig breytt að lögum rétt fyrir þinglok. Ákvæðið um samvinnunefnd miðhálendisins er svohljóðandi í þessum nýju lögum:

"Eftir hverjar reglulegar sveitarstjórnarkosningar skipar ráðherra [þ.e. umhverfisráðherra] samvinnunefnd miðhálendis til fjögurra ára í senn sem gerir tillögu um svæðisskipulag miðhálendisins. Í nefndinni skulu eiga sæti 12 fulltrúar, einn tilnefndur úr hverju kjördæmi, einn af félagasamtökum um útivist, einn af félagsmálaráðherra og tveir án tilnefningar og skal annar þeirra vera formaður nefndarinnar og fara með oddaatkvæði og hinn koma úr kjördæmi sem liggur að miðhálendinu en úr sveitarfélagi sem liggur ekki að miðhálendinu. Fulltrúar kjördæma sem liggja að miðhálendinu skulu tilnefndir af sveitarfélögum kjördæmisins sem eiga land að miðhálendinu.

Fjórðungssamband Vestfjarða tilnefndir fulltrúa Vestfjarðakjördæmis, Reykjavíkurborg fulltrúa Reykjavíkurkjördæmis og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum tilnefna saman fulltrúa Reykjaneskjördæmis. Ráðherra er heimilt að skipa allt að fjóra áheyrnarfulltrúa með málfrelsi og tillögurétt í nefndina."

Forysta fyrir nefndinni verður samkvæmt þessu í höndum umhverfisráðherra, sem auk þess velur einn fulltrúa úr kjördæmi sem liggur að miðhálendinu Ég flutti breytingartillögu þess efnis að í nefndina skyldu félagasamtök um umhverfis- og náttúruvernd tilnefna einn fulltrúa hliðstætt samtökum um útivist, en sú tillaga var felld.

Opin málsmeðferð

Ítarlega er í lögunum kveðið á um kynningu svæðisskipulagstillögu fyrir og eftir afgreiðslu í samvinnunefndinni, sem mótar tillöguna. Öllum sem telja sig hafa hagsmuna að gæta gefst kostur á að gera athugasemdir innan sex vikna frá birtingu auglýsingar. Skipulagsstofnun fær tillögu samvinnunefndarinnar að lokum til afgreiðslu og gerir tillögu þar að lútandi til umhverfisráðherra. Sveitarstjórnir einstakra sveitarfélaga sem teljast til miðhálendis hafa ekki stöðvunarvald um svæðisskipulagtillöguna.
Þá er með með breytingu á 17. grein skipulagslaga bætt inn ákvæði að því er varðar kynningu á tillögum að aðalskipulagi utan viðkomandi sveitarfélags, svohljóðandi: "Sé um að ræða aðalskipulagstillögu sem nær til miðhálendisins skal hún að auki auglýst í Lögbirtingablaðinu og liggja frammi hjá Skipulagsstofnun." Á þetta atriði lagði meðal annars stjórn Ferðafélags Íslands ríka áherslu í umræðunni í fyrra.

Afstaða Samfylkingarinnar

Samfylkingin svonefnda hafði aðra afstöðu en meirihluti umhverfisnefndar í skipulagsmálinu. Þeirra tillaga var að leggja fyrirliggjandi vinnu að svæðisskipulagi miðhálendis til hliðar og þess í stað verði hafin vinna að samræmdu "umhverfis- og auðlindaskipulagi" á Íslandi sem nái til miðhálendisins. Yrði slíkt skipulag "á stjórnsýslustigi ríkis og unnið af stofnunum þess í samvinnu við einstök fagráðuneyti og væru sveitarfélög bundin af því." Í slíku skipulagi verði "útfærð stefna stjórnvalda sem tæki til stærstu þátta í nýtingu lands og samþættingar áætlana um landnotkun og landnýtingu. Þar yrði fjallað um samgöngur, fjarskipti, orkumannvirki, náttúruvernd, varðveislu sögulegra minja og landnotkun í þágu atvinnuvega og byggðar í meginatriðum. - Samfylkingin leggur til að Alþingi afgreiði umhverfis- og auðlindaskipulag á miðhálendinu með þingsályktun. Með því móti tekur Alþingi ábyrgð á heildarskipulagi miðhálendisins" segir í nefndarálitinu þar sem lagt var til að vísa frumvarpinu og framkomnum breytingartillögum frá. Samþykkt tillögu Samfylkingarinnar hefði sett skipulagsmál miðhálendisins á byrjunarreit. Engir utan Samfylkingarinnar studdu hins vegar tillöguna. Mörgum mun reynast erfitt að botna í stefnu og málflutningi Samfylkingarinnar um miðhálendið. Formaður Alþýðubandalagsins sem undirritar nefndarálitið studdi allt aðra stefnu í málinu í fyrravor og hefur hér eins og á fleiri sviðum gengið undir jarðarmen Alþýðuflokksins. Tillögur Samfylkingarinnar einkennast meira af nýtingar- en verndarstefnu þegar miðhálendið á í hlut og hugmyndin að fela ráðuneytum og stofnunum Stjórnarráðsins forræði skipulagsins segir sína sögu.

Mikilvægur ávinningur
Telja verður að lögfesting ofangreindra breytinga á skipulags- og byggingarlögum feli í sér verulegan ávinning frá þeirri stöðu sem málið varí eftir setningu sveitarstjórnarlaga í fyrravor. Miðhálendið er með þessu orðið sjálfstæð svæðisskipulagseining og í nefndina sem móta skal svæðisskipulagið eru komnir fulltrúar frá landshlutum sem liggja utan seilingar við miðhálendið. Þótt sveitarfélög sem liggja inn á miðhálendið haldi rétti sínum til að gera tillögur að aðalskipulagi, á með lagabreytingunni að vera tryggt að aðalskipulag sveitarfélaga stangist ekki á við svæðisskipulagið. Auk samvinnunefndarinnar sem á að gæta samræmis að þessu leyti hefur Skipulagsstofnun íhlutunarrétt áður en hún gerir tillögu til ráðherra um afgreiðslu. Þá kveða lögin á um að ríkissjóður beri kostnað við gerð svæðisskipulagsins.

Fyrirliggjandi tillaga að svæðisskipulagi miðhálendisins sem mótuð var á tímabilinu 1995-98 bíður nú staðfestingar umhverfisráðherra. Ný samvinnunefnd miðhálendis skal skipuð eftir reglulegar sveitarstjórnarkosningar, en fljótlega verður til samkvæmt bráðabirgðaákvæði ný nefnd sem getur farið að líta á skipulagið sem fyrir er.

Þótt umrædd lagabreyting sé til bóta sker hún ekki úr um framtíðarstefnu varðandi landnotkun á miðhálendinu. Um þau atriði verður áfram tekist á og þar þurfa allir sem sjá vilja víðtæka náttúruvernd sem niðurstöðu að halda vöku sinni. Samvinnunefnd miðhálendisins er hins vegar líklegri til þess en ríkisvaldið að ljá slíkum viðhorfum lið framvegis við gerð svæðisskipulags.