Dagur- 14.04.1999.
Hjörleifur Guttormsson:
Vanhugsuð kjördæmabreyting
"Sú forsenda sem tillögumenn fljótlega gáfu sér og mestu virðist hafa ráðið um hugmyndina að stóru landbyggðarkjördæmunum og skiptingu Reykjavíkur í tvennt er að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi verði sem jafnastur. Ekki fæ ég séð að það skipti máli," segir Hjörleifur m.a. í grein sinni.
Með stjórnarskrárbreytingu sem samþykkt var með miklum meirihluta atkvæða á Alþingi 25. mars síðastliðinn og breyttri kjördæmaskipan sem fylgja mun í kjölfarið er verið að stíga afleitt og afdrifaríkt skref. Búin verða til þrjú risastór landsbyggðarkjördæmi þvert á hefðbundin samvinnuform fólks og byggðarlaga. Norðurland verður skorið í tvennt, Austurland svipt stöðu sem það hefur haft frá þjóðveldisöld og höfuðborgina á að búta sundur í tvö kjördæmi. Þessi breyting er til þess fallin að sundra en ekki sameina og mun veikja félagslega stöðu landsbyggðarinnar. Nær hefði verið að koma á fjórðungaskipan með lýðræðislegu heimavaldi og gera jafnframt landið að einu kjödæmi til Alþingis. Þannig hefði munur á vægi atkvæða sem nú tengist kjördæmum verið úr sögunni og verkefni þingmanna beinst fyrst og fremst að landsmálum. Með þessu móti hefði forysta flokkanna orðið ábyrg fyrir landshögum í heild ekki síður en aðrir þingmenn.
Óheillaspor stigið með stjórnarskrárbreytingu
Lögin um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins vegna nýrrar kjördæmaskipunar fela í sér að kjördæmi skuli fæst vera sex en flest sjö og að í hverju kjördæmi skuli minnst vera sex kjördæmissæti. Nú eru kjördæmin átta og kjördæmissæti fjögur í fámennustu kjördæmunum. Á bak við fáorðar breytingar á stjórnarskrá liggur tillaga formanna þingflokka frá síðasta hausti, annarra en Þingflokks óháðra, um stórtækar breytingar á kjördæmaskipan landsins. Stjórnarskrárbreytinguna þarf að afgreiða öðru sinni strax á fyrsta þingi eftir kosningar. Verður nýtt þing að líkindum kvatt saman til aukafundar þegar í maí-júní að vori. Væntanlega verður þá einnig breytt kosningalögum með afgreiðslu á sérstöku frumvarpi sem liggur nú fyrir í drögum. Eftir þessum kosningalögum yrði þá kosið í þar næstu alþingiskosningum, ekki síðar en árið 2003. Tillögurnar að nýjum kosningalögum með breyttri kjördæmaskipan eru afrakstur nefndar sem starfaði undir formennsku Friðriks Sophussonar, en með honum áttu sæti í nefndinni formenn eða aðrir fulltrúar fimm þingflokka. Stjórnarskrárbreytingin setur nýrri kjördæmaskipan verulegar skorður og er því afdrifarík.
Helmingur af landinu gerður að einu kjördæmi!
Drögin að breyttum kosningalögum gera ráð fyrir sex kjördæmum alls, þremur stórum kjördæmum sem taki yfir mestan hluta landsins og þremur landfræðilega litlum kjördæmum á höfuðborgarsvæðinu frá Hafnarfirði norður í Hvalfjarðarbotn. Reykjavík skiptist þá í tvö kjördæmi en umhverfis þau yrði svonefnt Suðvesturkjördæmi sem svarar til núverandi Reykjaneskjördæmis að frádregnum Suðurnesjum en þau féllu undir Suðurkjördæmi.
Samkvæmt þessum tillögum verður til svokallað Norðausturkjördæmi [hvers vegna er það ekki nefnt Austurkjördæmi?], sem nær yfir hátt í helming landsins að flatarmáli til, frá Siglufirði og Tröllaskaga suður um Bárðarbungu á Skeiðarársand. Hin landsbyggðarkjördæmin yrðu nokkru minni en þó risastór, hvert þeirra með 10 þingmönnum samkvæmt tillögunum, miðað við núverandi íbúafjölda. Norðurlandi er samkvæmt þessu skipt um þvert og lendir Akureyri við vesturmörk Norðausturkjördæmis.
Sú forsenda sem tillögumenn fljótlega gáfu sér og mestu virðist hafa ráðið um hugmyndina að stóru landbyggðarkjördæmunum og skiptingu Reykjavíkur í tvennt er að þingsætafjöldi í hverju kjördæmi verði sem jafnastur. Ekki fæ ég séð að það skipti máli, hef til dæmis aldrei fundið fyrir því að vera í hópi fimm eða sex þingmanna frá Austurlandi á sama tíma og þingmenn Reykjavíkur hafa verið 3-4 sinnum fleiri. Ótal margt mælir gegn þessari tillögu, meðal annars gengur hún þvert á þá samvinnu sveitarfélaga og verkskiptingu sem þróast hefur í ýmsum efnum á grundvelli núverandi kjördæma. Sætir furðu að um slíkt rugl skuli hafa tekist málamiðlun og samkomulag milli liðsodda flestra þingflokka.
Hvað annað átti að gera?
Miðað við að þörf væri talin á að raska núverandi kjördæmaskipan tel ég að skoða hefði átt landfræðilega skiptingu sem félli að hinni gömlu fjórðungaskipan. Þannig hefði Norðurland með Akureyri í miðju haldist sem eining, Austurland í aðalatriðum verið eins og nú er, nema bæta hefði mátt Vestur-Skaftafellsýslu við, horft á málið frá mínum sjónarhóli sem þingmanns. Höfuðborgarsvæðið hefði verið fimmta einingin, hugsanlega þó skipt í tvö kjördæmi, Reykjavík og nágrenni. Með þessu hefðu orðið til einingar sem hefðu getað myndað traustan grunn fyrir samstarf sveitarfélaga.
Æskilegast hefði ég talið að komið hefði verið á nýju lýðræðislegu stjórnsýslustigi fimm fylkja á þessum grunni fjórðunga og höfuðborgarsvæðis. Íbúar þeirra hefðu kosið til fylkisþinga sem fengið hefðu margvísleg verkefni og fjárráð, sem nú eru í höndum ríkisins. Með því hefði skapast grundvöllur til langtum meiri verkefnaflutnings til fylkjanna en skynsamlegt er að stefna að frá ríki til sveitarfélaga. Það er ekki farsælt að þenja sveitarfélög svo mikið út að samkennd og staðbundin þekking rofni innan þeirra.
Landið eitt kjördæmi til Alþingis?
Út frá þeirri forsendu að fylkjaskipan yrði komið á, hefði ég vel talið koma til álita að gera Ísland allt að einu kjördæmi til Alþingis. Benda má á ýmsa kosti því samfara þótt einnig fylgi gallar. Misvægi atkvæða eftir kjördæmum, sem að mínu viti skiptir ekki sköpum, væri úr sögunni og jag og misskilningur sem af því leiðir. tjórnmálaflokkarnir í heild og forystumenn þeirra fyndu líklega til meiri ábyrgðar en nú er um landsmálin í heild, þar á meðal um hag fólks á landsbyggðinni. Íbúar fylkjanna tækjust á með lýðræðislegum hætti um þróun innan sinna svæða og Alþingi væri laust undan því sem með réttu eða röngu er kennt við kjördæmapot. Fyrir almenning er við núverandi skipan oft harla óljóst, hvert verksvið þingmanna er eða ætti að vera, og jafnvel sýnist mér ýmsir þingmenn eiga í erfiðleikum að fóta sig á því svelli. Helsti ókosturinn gæti reynst aukið vald flokksforystu, en á móti kæmi að allir flokkar myndu trúlega leitast við að treysta sig í sessi með því að hafa fulltrúa úr öllum fylkjum á listum sínum í alþingiskosningum.
Mikill meirihluti þingmanna hefur þegar innsiglað stjórnarskrárbreytinguna í fyrri umferð. Strax á ráðgerðu aukaþingi eftir kosningarnar í vor tekur nýtt þing afstöðu til málsins öðru sinni. Ef vilji stæði til þess væri auðvitað hægt að breyta lögunum, en ekki er ég bjartsýnn á að sú verði niðurstaðan. Hætt er hins vegar við að almenningur og jafnvel þingmenn vakni upp við vondan draum strax næsta sumar, þegar búið verður að innsigla óskapnaðinn.