Mbl. Þriðjudagur 2. mars 1999.
Opið bréf til Austfirðinga
Virkjanir
Algjört óráð er að binda meiri orku en þegar er orðið í málmbræðslum, segir Hjörleifur Guttormsson, hvort sem er á Austurlandi eða annars staðar.
LENGI getur vont versnað. Inn um dyr lesenda Morgunblaðsins barst nú um helgina Kynningarblað Sambands íslenskra sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi með fyrirsögninni: "Eitt stærsta hagsmunamál Austurlands."
Með þessari útgáfu setur forysta austfirska sveitarstjórnarsambandsins sig í mjög slæma stöðu. Í stað þess að reynt sé að líta á afar umdeilt mál frá fleiri en einni hlið hefur stjórn sambandsins gefið út einhliða áróðursrit þar sem úir og grúir af staðleysum og blekkingum. Útgáfan er til þess eins fallin að skipta Austfirðingum enn frekar en orðið er í tvær andstæðar fylkingar. Þetta skref er þeim mun fáránlegra sem öllum má vera ljóst að litlar sem engar líkur eru á að Norsk Hydro eða aðrir erlendir fjárfestar leggi á næstu árum fram fé í byggingu álbræðslu á Reyðarfirði.
Skoðanakannanir benda til að mikill meirihluti landsmanna sé andvígur virkjun Jökulsár í Fljótsdal með miðlunarlóni á Eyjabökkum. Gegn þessum eindregnu viðhorfum eiga sveitarstjórnarmenn á Austurlandi ekki að snúast með því að bíta nú í skjaldarrendur og storka almenningsálitinu í landinu. Í stað þess ættu þeir að leggjast á sveif með þeim sem óska eftir að Fljótsdalsvirkjun lúti lögformlegu mati á umhverfisáhrifum, en tillaga þar að lútandi liggur nú öðru sinni fyrir Alþingi.
Barist fyrir úreltri hugmynd
Menn hljóta að spyrja hvort það sé hlutverk Sambands sveitarfélaga á Austurlandi að beita sér útgáfu þar sem einhliða er haldið fram kostum stóriðju og gefa henni það yfirbragð að framtíð Austurlands standi og falli með þessu máli. Skoðanakönnun sem sömu aðilar beittu sér fyrir síðastliðið sumar benti til að nær þriðjungur Austfirðinga væri andvígur fyrirhugaðri stóriðju og aðeins rúmur helmingur legði upp úr því að virkjað væri á Austurlandi. Útgáfa sveitarstjórnarsambandsins verður að teljast óeðlilegt tiltæki, meðal annars í ljósi verulegrar andstöðu við málið heima fyrir. Ritlingur SSA er heldur ekki einskorðaður við Austurland heldur felst í honum almenn gylling á stóriðju sem helsta úrræði í atvinnuþróun landsmanna. Væri ekki nær fyrir forystu sambandsins að eyða takmörkuðum fjármunum í að kynna og leita stuðnings við lífvænlegar hugmyndir í atvinnuþróun í stað þess að róa með þessum hætti fyrir mengandi risaálbræðslu, sem fellur hvorki að austfirskum né íslenskum aðstæðum. Vísasti vegurinn til hrörnunar mannlífs á Austurlandi er að beita sér fyrir slíkum úreltum hugmyndum og sárt til þess að vita að ráðamenn eyði kröftum sínum í þá iðju.
Gjörbreytt viðhorf
Undanfarin ár hafa skapast gjörbreytt viðhorf í orkumálum Íslendinga. Vegna almennrar kröfu um umhverfisvernd og hlífð við hálendi Íslands og helstu náttúruperlur í landinu er ljóst að aðeins brot af því vatnsafli sem talað hefur verið um að virkja verður í reynd til ráðstöfunar. Risaálbræðsla á Austurlandi með 500 þúsund tonna ársframleiðslu myndi taka til sín jafnmikið af raforku og nú er framleidd í landinu. Fram eru komnar metnaðarfullar og jákvæðar hugmyndir um vetnissamfélag á Íslandi, þar sem innlend mengunarlaus orka kæmi í stað jarðefnaeldsneytis. Í þessu skyni þyrfti að virkja og framleiða tvöfalt meiri orku en færi í umrædda risaálbræðslu. Það mun reynast ærið viðfangsefni að ná sátt um virkjanir sem til þarf í þessu skyni, svo og til að bregðast við vexti almenns markaðar. Algjört óráð er að binda meiri orku en þegar er orðið í málmbræðslum, hvort sem er á Austurlandi eða annars staðar. Hér þarf að skapa sátt um sjálfbæra orkustefnu sem lið í vistvænni atvinnuþróun á Íslandi. Slíku verkefni ættu forsvarsmenn Austfirðinga að leggja lið í stað þess að berja hausnum við stein.
Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson