Mbl. Fimmtudagur 4. mars 1999.

Forsendur vantar til að hefja hvalveiðar

Hvalveiðar

Það er reginmunur á því hvort menn eru að tala um að veiddar verði fáeinar hrefnur, segir Hjörleifur Guttormsson, eða hvort hér eigi að hefja stórhvalaveiðar.

Afstaða Íslands til hvalveiða

HVALVEIÐAR eru árvisst umræðuefni hérlendis. Þar er á ferðinni mikið alvörumál. Íslendingar mótmæltu ekki samþykkt Alþjóðahvalveiðiráðsins 1982 um tímabundið bann við hvalveiðum frá 1986 að telja. Ísland tók þátt í viðamiklum rannsóknum á hvalastofnum 1986-89. Þótt vísindanefnd Alþjóðahvalveiðiráðsins féllist á það 1990 að tilteknir hvalastofnar þyldu veiðar hefur ekki verið á slíkar veiðar fallist af meirihluta ríkja í ráðinu. Ísland sagði sig úr Alþjóðahvalveiðiráðinu 1992, en ekki hafa fleiri ríki fylgt því fordæmi. Ásamt Noregi beitti Ísland sér fyrir stofnun Norður-Atlantshafs-sjávarspendýraráðsins (NAMMCO) 1992, en aðilar að því eru auk þess Færeyjar og Grænland. Engar hvalveiðar hafa verið stundaðar af Íslands hálfu eftir að veiðum í rannsóknaskyni lauk 1989.

Nefndir á vegum sjávarútvegsráðuneytis

Vorið 1994 skilaði nefnd á vegum sjávarútvegsráðuneytis, skipuð fulltrúum þingflokka, áliti um stefnu Íslendinga í hvalamálum. Í álitinu var meðal annars talið að halda beri fast við það sjónarmið að allar auðlindir sjávar séu nýtanlegar, enda séu veiðar stundaðar á sjálfbæran hátt þannig að ekki sé farið fram úr langtímaafrakstri hvers stofns fyrir sig. Nefndin taldi eðlilegt að Íslendingar stefni að því að hefja á ný hvalveiðar í atvinnuskyni, þó þannig að farið sé að öllu með gát við endurupptöku veiða með tilliti til stöðu á alþjóðavettvangi, markaða fyrir hvalaafurðir og áhrifa hvalveiða á aðra útflutningsmarkaði. Nefndin taldi skynsamlegt að leyfa í fyrstu aðeins takmarkaðar veiðar á hrefnu og miða í upphafi við sölu afurðanna innanlands á meðan kannaðir væru möguleikar á sölu hvalaafurða erlendis. Í lok tillagna nefndarinnar sagði: "Nefndin hvetur til samstöðu þjóðarinnar um réttinn til nýtingar á sjávarauðlindum. Óhjákvæmilegt er að ríkisstjórn á hverjum tíma tali einum rómi út á við um slíka hagsmuni og ekki er ráðlegt að hefja hvalveiðar nema samræmd og einörð afstaða liggi fyrir hjá framkvæmdavaldinu."
Annar starfshópur þingmanna og embættismanna var settur niður á vegum sjávarútvegsráðuneytis í júlí 1996 og skilaði hann ráðuneytinu áliti 26. febrúar 1997. Komst þessi hópur um margt að svipaðri niðurstöðu og nefndin þremur árum áður. Meðal þess sem starfshópurinn ályktaði um var að kanna hvaða möguleika endurnýjuð aðild Íslands að Alþjóðahvalveiðiráðinu kunni að bjóða upp á." Starfshópurinn lagði einnig áherslu á kynningarstarf og samráð við aðila innanlands sem mikilla viðskiptahagsmuna eiga að gæta.

Umdeild tillaga á Alþingi

Oft þegar dregur að þinglokum á Alþingi hefjast umræður um hvort Íslendingar eigi ekki hið fyrsta að hefja hvalveiðar á ný. Tilefnið nú og í fyrra var tillaga flutt af ellefu þingmönnum úr Sjálfstæðis- og Framsóknarflokki auk eins þingmanns frá Samfylkingu. Þessi tillaga hljóðar svo: "Alþingi ályktar að hvalveiðar skuli leyfðar frá og með árinu 1999 á þeim tegundum og innan þeirra marka sem Hafrannsóknastofnunin hefur lagt til. Sjávarútvegsráðherra er falin framkvæmd veiðistjórnar á grundvelli gildandi laga."Í fyrra afgreiddi sjávarútvegsnefnd þingsins tillöguna ekki frá sér og nú stendur yfir vandræðalegt þóf innan nefndarinnar. Er ljóst af viðbrögðum ráðherra að ríkisstjórnin er engan veginn undir það búin að taka við slíkum boðskap frá Alþingi. Margt er við þennan tillöguflutning að athuga. Tillögur Hafrannsóknastofnunar sem vísað er til gera ráð fyrir að veiddar séu 250 hrefnur árlega og 100 langreyðar. Málið hefur hins vegar fleiri hliðar en hinar líffræðilegu. Hvalveiðar eru afar viðkvæmt mál í alþjóðlegu samhengi. Hvað ætla menn að gera með allt þetta hvalkjöt? Ekki liggur fyrir að unnt sé að selja teljandi magn af því til útlanda. Norðmenn sem stundað hafa hrefnuveiðar um nokkurra ára skeið leggja blátt bann við útflutningi hvalaafurða. Þá er það mat margra í ferðaþjónustu og meðal útflytjenda sjávarafurða að hvalveiðar að lítt undirbúnu máli séu mikið hættuspil. Ég hef oft varað við einföldun í túlkun útreikninga á fæðunámi hvala og áhrifum þess á veiðar þorsks og annarra nytjastofna hér við land. Niðurstöður Hafrannsóknastofnunar um þessi efni byggjast á takmörkuðum gögnum og túlkun á þeim er oft út í hött eins og m.a. mátti sjá í myndriti með greininni "Togast á um hvalinn" í Morgunblaðinu 28. febrúar sl. (bls.10-11).

Sýnum mikla varúð

Að mínu mati þurfa að liggja fyrir ítarleg gögn og rökstuðningur frá ríkisstjórn, áður en Alþingi fer að taka afstöðu til hugsanlegra hvalveiða. Afstöðu sína þarf þingið að byggja á traustum upplýsingum og áhættumati, meðal annars á áhrifum hvalveiða á samskipti okkar við helstu viðskiptaþjóðir og ímynd landsins og stöðu í umhverfismálum. Eftir að ríkisstjórnin hefur skorist úr leik í loftslagsmálunum með því að undirrita ekki Kýótó- bókunina, er Ísland þegar í afar slæmu ljósi á alþjóðavettvangi. Ályktun um hvalveiðar nú myndi bæta gráu ofan á svart. Grundvallaratriði í þessu máli er líka, hvort Ísland ætli sér að leita á ný inngöngu í Alþjóðahvalveiðiráðið, eins og starfshópur sjávarútvegsráðuneytisins lagði til fyrir tveimur árum að athugað yrði. Það er líka reginmunur á því hvort menn eru að tala um að veiddar verði fáeinar hrefnur eða hvort hér eigi að hefja stórhvalaveiðar. Hið síðartalda væri hreint glapræði við núverandi aðstæður. Ríkisstjórnin hefur ekki unnið heimavinnuna og Alþingi á ekki að gefa grænt ljós á hvalveiðar við þessar aðstæður.

Höfundur er alþingismaður.
Hjörleifur Guttormsson